föstudagur, desember 29, 2006

Hljómeykistónleikarnir gengu barasta mjög vel, merkilegt nokk. Eins og ég hafði miklar áhyggjur af þessu á síðustu æfingunni fyrir jól. Ég held það hafi skilað sér að maður var dálítið strangur þá og skipaði fólki að liggja yfir þessu yfir jólin. Fyrstu fjögur lögin voru frekar einföld miðað við hin en lítið æfð þannig að það myndaðist mikil spenna í upphafi tónleika og allir voru á tánum sem mér fannst mjög gott. Það hlustuðu allir svo vel innbyrðis. Svo var svo gaman hvað það myndaðist allt í einu góður hljómur í kórnum og það er alltaf jafn gaman þegar það gerist á tónleikum. Ég verð nú að segja mér það til hróss að á báðum kórtónleikum mínum í desember hefur fólk sérstaklega haft það á orði hvað lagavalið er gott og hvað það hafi myndast góð stemmning á tónleikunum.
Svo var nú gott að geta slappað af eftirá með kórfélögunum heima hjá Hildigunni og drukkið gott vín.

miðvikudagur, desember 27, 2006

ALLIR AÐ MÆTA!! (annars er mér að mæta!)

Spennandi jólatónleikar
Jólatónleikar Sönghópsins Hljómeykis verða fimmtudaginn 28. desember 2006, kl. 20:00 í Seltjarnarneskirkju.
Á tónleikum mun Sönghópurinn Hljómeyki flytja jólasálma frá 15. og 16. öld en einnig tónlist tengda jólunum eftir tónskáld 20. og 21. aldar. Þannig hefjast tónleikarnir á hinum velþekkta jólasálmi "Það aldin út er sprungið" en lýkur á nýlegri útsetningu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur á enska jólalaginu ,,Ding, dong, merrily on high". Flutt verða nokkur verk tengd Maríu guðsmóður meðal annars ,,Ave maris stella" eftir Trond Kverno. Auk þess verða fluttar á tónleikunum mótetturnar,,O magnum mysterium" og ,,Hodie christus natus est" eftir franska tónskáldið Francis Poulanc.
Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson, en hann tók við stjórn kórsins í haust og eru þetta fyrstu jólatónleikarnir þar sem hann stjórnar kórnum.

laugardagur, desember 23, 2006

Ísak Magnússon og fjölskylda óskar þér gleðilegra jóla

fimmtudagur, desember 14, 2006

Silja klikkar ekki

María góð, svo mild og rjóð


Söngsveitin Fílharmónía hélt sína aðventutónleika á sunnudagskvöldið og endurtók þá í gærkvöldi. Dagskráin var óvenjuleg og spennandi - sem er meira en segja má um aðventutónleika svona yfirleitt. Ekki er kórstjórinn, Magnús Ragnarsson, bara fundvís á óvænt lög, innlend og erlend, til að flytja á þessum árstíma heldur samdi hann sjálfur áhrifamikið kórverk sem kórinn frumflutti á tónleikunum.

Tónleikarnir voru helgaðir Maríu guðsmóður og höfðu yfirskriftina "Himnamóðirin bjarta". Enda voru sungin sex lög um hana, hvert öðru ólíkara. Eiginlega vissi maður ekki hvar maður var staddur í upphafslaginu, "Salve Regina" (Heill þér, drottning) eftir Lars Jansson við sálm frá 9. eða 10. öld. Ekki var undrunin yfir óvæntum taktinum í laginu yfirunnin þegar gæsahúðin tók við og hélt manni í greipum sér út verkið. Þá útskýrði Magnús kórstjóri að þetta væri upphaflega djasslag sem gamli sálmurinn hefði verið lagaður að og þessi útgáfa lagsins væri tileinkuð örbirgum mæðrum í Brasilíu. Þetta er rosalega sterkt verk og var vel valinn upphafspunktur tónleikanna, eftir það var öruggast að vera við öllu búinn.

Eftir á að hyggja finnst mér að í þessu fyrsta verki hafi einkenni Fílharmóníu komið glöggt í ljós. Kórinn syngur afar vel, jafnvægið er gott, textaframburður skýr. Hann syngur af krafti og hefur myndarlegan hljóm og fínan takt. Nú má samt enginn halda að það sé gospelkeimur af honum, síður en svo, kórinn syngur algerlega væmnislaust (og kom þó iðulega út á manni tárum) og krafturinn er ævinlega tempraður smekklegri mildi. Svo ber hann þess greinileg merki að kórstjórinn hefur ekki aðeins næma kímnigáfu heldur er hann fínn leikstjóri.

Eftir fallegan flutning á "Hátíð fer að höndum ein" var komið að frumflutningi á "Spádómi Jesaja" eftir kórstjórann. Magnús valdi að tónsetja þann kafla í spádómnum sem boðar fæðingu Jesúbarnsins og hefst á orðunum: "Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós." Textinn er máttugur og þó að margt sé í honum sem virðist eiga illa við ("menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt") þá var það ráð Magnúsar að taka það frekar út úr og leggja áherslu á það en fela það og ítrekaði með því að þessi texti kemur úr öðrum tíma, öðrum heimi, en segir þó frá því sem skiptir máli fyrir okkur hér og nú. Því miður hafði Jesaja gamli þó ekki rétt fyrir sér þegar hann sagði að friðurinn myndi engan enda taka ... Flutningur verksins var leikrænn og skemmtilegur og kórinn eins og einn maður undir vökulu augliti stjórnanda og höfundar. Það er tilhlökkunarefni að fá að heyra þetta verk aftur að ári.

Freistandi er að skrifa fullkomið efnisyfirlit tónleikanna með athugasemdum en óvíst er að nokkur nennti að lesa það. Hreinlega öll lögin höfðu sín áhrif, gæsahúð tók við að skælum sem aftur leystust upp í gæsahúð eða hlátur! Maríukvæði Atla Heimis sem er eins og það hafi verið til frá upphafi Íslandsbyggðar var gullfallega sungið, Maríukvæði Báru Grímsdóttur, "Eg vil lofa eina þá", er alger snilld, svo skemmtilegt að mann langar til að hoppa og dansa - allavega taka undir: "María væn, þín veitist bæn, virgo gloriosa!" Og okkar frægasta Maríubæn, "Ave María" Kaldalóns sem flokkast nú eiginlega til kraftaverka, hana söng Hulda Björk Garðarsdóttir sópran með kórnum af innileika.

Eftir hlé var farið í heimshornaflakk, sungið klassískt danskt jólalag, "Forunderligt at sige", norska verkið "Toner julenatt" sem leikur sér að "Heims um ból" á algerlega töfrandi hátt, finnsk "Ave María" sem kórinn flutti í þrennu lagi, konurnar allar úti í hliðargöngum en karlarnir í hnapp fremst á sviðinu, konurnar báðu og karlarnir sungu sama texta. Rosalega flott! Og eftir finnskan dapran hátíðleika komu Þrír piparkökukarlar frá Svíþjóð og lömuðu mann af hlátri! Meira að segja var farið til Úkraínu og makalaust að stór kór skuli geta sungið gersamlega í takt svona framandi texta. Það lag, "Shchedrik", notaði kórinn sem uppklappslag til að reyna að friða æstan múginn sem vildi ekki hætta að klappa. Það gerðist eftir lokalagið, franska jólasálminn "Nóttin helga", sem Hulda Björk söng yndislega með kórnum og við organleik Kára Þormar.

Tvisvar fengu tónleikagestir að syngja með kórnum sem ævinlega er vel þegið. "Fögur er foldin" er að vísu óttalega vandræðalegur texti, en einstaklega ánægjulegt var að fá að syngja "Kvæði af stallinum Kristí" eftir Einar í Heydölum með kórnum og Huldu Björk. Þetta voru dásamlegir tónleikar; ég er ekki frá því að ég sé beinlínis betri manneskja eftir þá.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Það gerist nú ekki á hverjum degi sem það er mynd af okkur hjónunum í blaðinu á sitt hvorum staðnum en þannig er það nú í Fréttablaðinu í dag. Það er viðtal við Hrafnhildi talmeinafræðing með mjög flottri mynd í miðblaðinu og svo er mjög tilgerðarleg mynd af mér að stjórna hjá leikhúsauglýsingunum. Greyið kórarnir mínir ef ég lít alltaf svona út þegar ég stjórna!

Hljómeykisæfingin í gær gekk mjög vel og ég er aðeins rólegri fyrir tónleikana. Það er nokkuð langt í þá en mjög fáar æfingar eftir. Ég náði að hreinsa til í Poulenc og ýmsu öðru og veit að það verður virkilega flott.

Svo eru seinni tónleikarnir hjá Fílharmóníunni í kvöld. Ég hlakka mikið til því það myndaðist svo góð stemning á sunnudaginn. Við erum búin að fá mikið hól.

sunnudagur, desember 10, 2006

Það myndaðist rosalega góð stemning á tónleikunum í kvöld. Og kórinn hefur aldrei sungið svona vel. Það var virkilega flottur og jafn hljómur í honum. Þetta gekk líka alveg snuðrulaust fyrir sig. Meira að segja allar tilfærslur á kórmeðlimum.
Þetta er í þriðja skiptið sem ég stjórna tónleikum með Fílharmóníunni og í öll þrjú skiptin hefur sópransólistinn verið veikur. Hulda Björk var með kvef og átti í erfiðleikum með neðra sviðið á æfingunni en fór létt með háu tónana. Svo var ekkert að heyra að hún væri veik á tónleikunum. Hún heillaði alla upp úr skónum. Ekki síst kórmeðlimi.
Nú er ég búinn að senda tölvupóst á kórinn og segja honum að slaka ekki á fyrir þriðjudaginn. Þetta er alveg stórhættulegt.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Skrambinn!
Æfingin fyrir aðventutónleikana gekk allt of vel. Hlutir sem hafa aldrei almennilega virkað smullu allt í einu saman í kvöld. Um að gera að fólk verði á tánum á sunnudaginn. Það verður töluverð hreyfing á kórnum og ég held að það myndi mjög góða stemningu.
Þetta verður þrusuflott!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Litli kútur er orðinn 79 cm og tæp 10 kg að þyngd. Sama sagan og áður... langur og mjór. Ég las einmitt um daginn að börn fá lengdina frá föður og þyngdina frá móður. Ég var alltaf höfðinu hærri en aðrir krakkar fram að fermingu. Það sem hann hefur fengið fleira frá mér er gott ónæmiskerfi, ég verð eiginlega aldrei veikur og hann hefur ekkert veikst eftir að hann byrjaði hjá dagmömmunni sem henni finnst mjög merkilegt. Hann vill heldur ekki blanda saman mat. Í morgun vildi hann t.a.m. ekki blanda saman kjötbollunum, kartöflunum og vildi enga sósu. Þegar ég var lítill dreymdi mig um disk með hólfum til að halda matnum aðgreindum og lengi vel borðaði ég hamborgarann bara í brauðinu og sama átti við pulsur.
Þegar líður að tónleikum Fílharmóníunnar fyllist innhólfið af tölvupósti. Ég ætlaði rétt að tékka á tölvupóstinum í hádeginu og var með 14 ný skilaboð og þurfti að svara þeim flestum. Svo voru önnur 14 í kvöld. Til að gera illt verra þá er bæði tölvan og hotmail frekar hæg á sér. Ég fór í BT til að kaupa vinnsluminni en þar sem tölvan er svo gömul (þriggja ára) þá var ekkert til fyrir mig. Ohhhh hvað ég sakna Makkans!

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Þá fer að koma að flottustu aðventutónleikum ársins (svo verður Hljómeyki með flottustu jólatónleikana 28. des). Það verður alveg fullt af flottum útsetningum, m.a. ein sem Trond Kverno gerði við Heims um ból og verður sungið á norsku, eitt úkraínskt jólalag, amerískt, sænskir piparkökukarlar, þó nokkur lög um Mariu mey auk hefðbundinna jólalaga og svo verður frumflutt verk eftir mig! Kórinn er í hörkustuði og búinn að standa sig mjög vel í að læra þó nokkur ný og erfið lög. Sum eru mjög rytmísk og ég var alveg hissa hvað þau voru fljót að ná þeim. Miðar kosta 2500 kr. en bara 2000 í gegnum mig og kórfélaga.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Elsku Ísak

Til hamingju með afmælið. Það er ótrúlegt að það sé liðið ár frá því þú fæddist. Á þessu ári hafa skipst á skin og skúrir en maður man eiginlega bara góðu stundirnar. Við erum nánast búin að gleyma andvökunóttunum þegar þér leið svona illa í maganum og vistin á fæðingadeildini er sveipuð dýrðarljóma þó svo þar hafi mikill sársauki átt sér stað.
Mér datt ekki í hug að hjartað í mér gæti stækkað svona mikið. Við elskum þig meira með hverjum deginum sem líður. Þú bræðir mann með bjarta brosinu þínu og maður stendur agndofa í hvert skipti sem þú tekur upp á einhverju nýju, eins og að ganga nokkur skref óstuddur. Það er svo gaman að leika við þig og ég reyni vísvitandi til að fá þig til að hlægja því það gerir manni svo gott að heyra smitandi hlátur þinn. Það er svo gaman að sjá þig dilla þér í takt við vissa tónlist og það gleður mig að sjá hvað þér finnst gaman að spila á hljóðfæri eins og blokkflautu, munnhörpu og sílafón.
Hér efst er mynd þar sem afi Halldór er að gefa þér fyrsta kökubitann þinn en ég læt líka fylgja með mynd af mér í fanginu á ömmu Mús þegar ég var á þínum aldri.
Eins og afi þinn Ragnar átti til að segja þá er ég algjör PM (Pabbi mont)

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Ég var að koma af Sinfóníutónleikum þar sem Hljómeykisstúlkurnar mínar sungu nokkra takta í lokin á Parsifal og gerðu það alveg æðislega fallega. Það var líka mjög gaman að upplifa þennan Wagnerþátt. Heyrði lokin á honum í morgun og varð mjög heillaður. Þetta byrjaði mjög þunglyndislega en varð svo mjög fallegt eftir því sem leið á.
Svo var mjög gaman á Fílharmóníuæfingu í gær. Ég er alltaf að prufa mig áfram með verkið mitt og gat í samvinnu við kórinn leyst ákveðið vandamál og er mjög sáttur við þá útkomu.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Ég er búinn að setja barnalæsingar á eldhússkápana því junior hefur verið mjög iðinn við að tína út úr þeim undanfarnar vikur. Læsingarnar hafa virkað mjög vel, einum of vel reyndar því við gleymum þeim alltaf. Maður ætlar að henda einhverju í ruslið og... æ já, það er barnalæsing. Og svo mínútu síðar vill maður aftur í ruslið og.... æ, já, það er barnalæsing.
Svo tók bíllinn upp á því að bila. Þegar það gerði svona mikið frost um daginn fór hann að hegða sér eitthvað undarlega og kom meira að segja reykur úr húddinu. Ég fór með hann á næsta verkstæði og sagði hvað gerst hefði og gæjinn spurði hvort það væri ekki örugglega nægur frostlögur á honum. Ég sagði: fröst....lö....gur? Hmmm. Það gæti kannski verið að það vanti bara alveg.
Vatnskassinn hefur nebblega lekið við og við en samt er ekkert að honum. Þetta er víst algengt vandamál með Opel. En ég hef verið voða duglegur að bæta á hann vatni í allt sumar. En nú er ég sem sagt búinn að komast að því til hvers frostlögur er. Það er til þess að vatnið frjósi ekki og eyðileggi ekki vatnskassann. Jæja. Það var ekkert SVO dýr viðgerð og við gátum notast við jeppann hans tengdapabba þann dag sem bílinn var í viðgerð en svo þegar búið var að setja nýjan vatnskassa í var samt eitthvað að. Headpackningin sennilega farin. Jibbí! Bílinn fór á næsta verkstæði og alltaf lét ég eins og þetta væri ekki mér að kenna: "Ég held bara að það hafi ekki verið sett á hann nægur frostlögur" eins og ég væri að kenna öðrum fjölskyldumeðlimum um. En bílinn á að vera tilbúinn í dag og við verðum ca. 160 þúsund kalli fátækari.
Mental note: Setja frostlögsblöndu í vatnskassann ef vantar!

föstudagur, nóvember 17, 2006

Það lítur út fyrir það að ég sé að fara að vinna fyrir Sinfó. Hljómeyki var beðið að syngja í styttri útgáfu af Carmen í júní. Það er ágætt að vera kominn með annan fótinn þar inn sem kórstjóri.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Hvernig er hægt að vera svona sætur? Í alvörunni!

mánudagur, nóvember 13, 2006

Kóræfingar ganga glimrandi vel. Ég valdi nokkuð strembin verk fyrir Fílharmóníuna en það hefur borgað sig. Eftir rúmlega mánuð er þetta mikið til komið og það eru tæpar fjórar vikur í tónleika. En það má alltaf fínpússa. Tónleikar 10. og 12. des. í Langholtskirkju.
Svo er svo gaman í Hljómeyki núna því það er svo vel mannað. Það eru um 6 í hverri rödd. Góður ballans. Tónleikar 28. des. í Seltjarnarneskirkju.
Gaman að vera með þessa tvo kóra sem eru svo ólíkir á skemmtilegan hátt.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Ég fékk mitt hefðbundna stress í morgun fyrir tónleikana okkar Ingibjargar. Ég er alltaf á því að enginn muni mæta. Ég var búinn að búa mig undir það að Mamma og Hrafnhildur myndu mæta og kannski einn í viðbót. En það mætti þó nokkrir fleiri þrátt fyrir eiginlega enga kynningu (mér að kenna). Þetta fór barasta vel í fólk og ég held við höfum bara spilað ágætlega. Ég datt reyndar út á tveimur stöðum í Mahler og impróviseraði eitthvað í staðinn og kom sjálfum mér á óvart hvað það var í Mahlerískum anda.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Ha? Heiti ég Ragnar Sigurðsson þegar ég stjórna Hljómeyki en Magnús Ragnarsson þegar ég stjórna Fílharmóníunni? Ég hef oft verið kallaður Ragnar en hvaðan kemur eiginlega Sigurðsson?

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Eitt hefur sonur minn erft frá mér. Hann er mjög matvandur. Ég var það sem krakki. Mér var oft hent öskrandi inn í herbergi því ég harðneitaði að borða eitthvað framandi. Hann herpir saman munninn og snýr sér í hina áttina. Hann er álíka þrjóskur og ég. Aðlögunininni er formlega lokið og hefur gengið alveg glimrandi vel. Kristjana hefur eiginlega aldrei upplifað annað eins.
Ég og Ingibjörg erum með tónleika á laugardaginn kl. 13.00 í Breiðholtskirkju í tilefni af allra heilagra messu. Þetta eru fyrstu tónleikar mínir í kirkjunni og ég vona svo innilega að sem flestir komi. Það kostar ekkert inn og tónleikarnir taka bara ca. 45 mín. Við ætlum að leika ýmis lög, m.a. eftir Jórunni Viðar, Atla Heimi, Telemann, mjög fallegt lag eftir Sandström og kannski eftir mig, þ.e. op. 1 sem ég samdi fyrir horn og orgel. Þurfum að sjá hvort það gangi að tónflytja það þannig að það passi fyrir básúnu. Svo flytjum við Söngva förusveins eftir Mahler. Við spiluðum það í fyrra í Svíþjóð og Hrafnhildur kom að hlusta og var svo ofboðslega hrifin af því. Það var á þeim tónleikum sem við buðum einum rónanum (sem var fastagestur í kirkjunni) að koma en hann sagðist vera upptekinn. Hann sá ekki fram á að vera edrú á þessum tíma, þ.e. kl. 12 á laugardegi.

Annars var ég að klára opus 2 í gærkvöldi. Ég byrjaði reyndar að semja það fyrir rúmu ári en strandaði á einum stað. Svo byrjaði ég aftur á föstudagskvöldið og komst á flug. Ég ætla að æfa þetta í kvöld með Fílunni en er alveg svakalega nervus við það, er svo hræddur um að þau fari bara að hlægja yfir hvað textinn passar asnalega við tónlistina. Þetta var nú ekki auðveldasti texti í heimi, ansi langur og óreglulegur.

föstudagur, október 27, 2006

Junior stóð sig með stakri snilld í morgun hjá dagmömmu. Hann fór bara strax að leika sér og kippti sér ekkert upp við það þegar við fórum. Svo borðaði hann allt með bestu lyst. Kristjana var frekar hissa á því. Yfirleitt eru börnin varkár fyrsta skiptið við matarborðið. Á mánudaginn mætir hann kl. 8 og svo sæki ég hann kl. 11 og svo verður hann líklega alveg fram til kl. 14 á þriðjudaginn eftir allt gengur vel.

fimmtudagur, október 26, 2006

Haldiði ekki að junior sé farinn að segja "mamma". Þetta kom bara svona allt í einu.
Við mættum í aðlögun hjá dagmömmu í gær og það gekk bara svona líka vel. Við vorum bara í klukkutíma, hann var voða rólegur fyrst en undir lokin þótti honum mjög gaman. Hann fór ekki í dag því Hrafnhildur var lasinn en ég fer aftur með hann á morgun og skrepp jafnvel frá í smá stund.

þriðjudagur, október 24, 2006

Fyrir rúmri viku hugsaði ég að ég væri búinn að stjórna Carmina burana og ætti sennilega ekki eftir að gera það fyrr en eftir a.m.k. fimm ár. Kórinn flutti þetta náttúrlega í fyrra og svo aftur um daginn. En svo er allt í einu annað upp á teningnum núna. Það er verið að athuga með að taka það upp á disk á næstunni því það var það mikill áhugi fyrir þessari kammerútgáfu, margir að spurja um hana á tónleikunum og svo endaði Silja gagnrýni sína með að biðja um upptöku af þessu.
Svo er komið svar frá Litháen. Þeir vilja að kórinn syngi á opnunartónleikum listahátíðarinnar 1 júlí og flytji Carmina burana. Af einhverjum ástæðum vorum við búin að bíta það í okkur að þeir hefðu engan áhuga á þessu verki. En svo vilja þeir heyra eitthvað íslenskt. Vonandi verður hægt að flytja líka Guðbrandsmessuna. Spurning hvort það sé of mikið á einum og sömu tónleikunum?

föstudagur, október 20, 2006

Ég stel hér með plögginu af síðu Hildigunnar.

Langi fjölskylduna í sunnudagsbíltúr á laugardegi og skemmtilega upplyftingu í leiðinni mæli ég með heimsókn á Draugasetrið á Stokkseyri á morgun. Skemmtilegt safn, fín kaffistofa og svo er Hljómeyki með (að hluta til) draugalega tónleika klukkan 17.00. Flutt verða bráðflott og aðgengileg ný verk (meðal annars eitt lag úr Mýrinni, mjög flott, nýtur sín ekki sem skyldi þar, heyrist í bakgrunni gegn um útvarp). Og svo nokkrar helstu perlur íslenskrar kórtónlistar... ;-)

Aðgangseyrir 1.500, 500 fyrir námsfólk og eldriborgara/öryrkja, frítt fyrir börn.

mánudagur, október 16, 2006

Það kom þá gagnrýni um Carminu burana eftir allt saman. Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði í Tímarit Máls og menningar þann 5 október. Birti nokkur vel valin orð:

Sár harmur, ást og gredda

í flutningi Fílharmóníu á Carmina Burana

Ég vissi að kantatan Carmina Burana væri skemmtilegt verk, sumir þættir tónlistarinnar algerir gæsahúðarhvatar og efnið óvenjulegt: ástir og nautnir og fyllirí. En ég vissi alls ekki hvað það er rosalega skemmtilegt fyrr en í gærkvöldi þegar ég hlustaði á Söngsveitina Fílharmóníu flytja það í Langholtskirkju undir stjórn síns unga kórstjóra, Magnúsar Ragnarssonar.

Magnús þessi var einn félaginn í hinni dásamlegu hljómsveit Kósý sem heillaði kvenfólk á öllum aldri (og jafnvel karla líka) fyrir fáeinum árum. Hann er líka uppalningur Jóns Stefánssonar, er mér tjáð, svo hann veit allt um kórsöng og kórstjórn frá blautu barnsbeini. Hann fær líka mikið út úr félögunum í Fílharmóníu, að ekki sé minnst á drengjakórinn hennar Þórunnar Björnsdóttur sem söng með í nokkrum þáttum verksins. Magnús tekur meira að segja virkan þátt í textaflutningi á einum stað sem vakti mikla kátínu tónleikagesta.

Næstur kom þó sá sem ennþá verr er komið fyrir: svanurinn sem stiknar á teini meðan hann syngur og er loks settur á fat og borinn á borð. Þá þagnar hann, greyið, því þá er hann væntanlega étinn. Einar Clausen tenór söng þennan vesaling svo ekki var auga þurrt í kirkjunni! Þá tók Bergþór við sem ábótinn í Nautnalandi sem vinnur aleiguna af þeim sem voga sér að spila við hann fjárhættuspil og hlýtur að launum hrikalegar bölbænir þeirra. Langa kvæðið um drykkjuskapinn sungu svo karlaraddir kórsins af mikilli innlifun.

Þriðji þáttur er um ástina og þar fengum við loks að hlýða á englarödd Hallveigar Rúnarsdóttur sópran sem söng unaðslega um stúlkuna í rauða kirtlinum - sjálf í rauðum síðum silkikjól svo manni fannst sviðið loga í kringum hana.

Og þegar áheyrendur höfðu í lokin verið hvattir til að gráta örlög hins auma með honum hlýddu þeir ekki heldur spruttu umsvifalaust upp úr sætum sínum, hrópandi og kallandi og klappandi saman lófum eins og vitlausir! Það mátti sjá að söngvurunum hálfbrá við þessi harkalegu viðbrögð úr sal, en þeir jöfnuðu sig fljótt og tóku af gleði og auðmýkt á móti linnulausum fagnaðarlátum. Salurinn kyrrðist ekki fyrr en hann fékk að heyra aftur lofsönginn "Nú er glatt á hjalla" en eftir það tíndist fólk hægt út úr kirkjunni, greinilega þvert um geð sér. Ég get varla beðið eftir að heyra verkið aftur og vildi óska þess að Fílharmónía gæfi þennan flutning út á diski.

sunnudagur, október 15, 2006

Ég er orðinn ógeðslega þreyttur á að heyra fólk tala um að ég sé alltaf að vinna. Það er alltaf verið að spurja Hrafnhildi að því hvort henni finnist ekki leiðinlegt að ég sé aldrei heima. Það er búið að vera mikið um að vera undanfarnar vikur en ég hef rétt slefað yfir 40 stundir á viku. Hrafnhildur er að vinna tvo morgna í viku og þá er ég með Ísak. Á að giska er hún með hann rúmlega 60 % af tímanum og ég þá tæplega 40 %. Svipað hlutfall gildir með heimilisstörfin. Ég veit í rauninni ekki um neinn maka sem er jafnmikið heima og ég.
Ég taldi saman tímana og þetta er niðurstaðan:
1. vikan í sept: 32 tímar
2. vikan: 35 tímar
3. vikan: 29 tímar + sólarhringsferð til Eiða
4. vikan: 38 tímar
1. vikan í okt: 42 tímar
2. vikan í okt: 43 tímar

laugardagur, október 14, 2006

Horfið líka á þetta til enda. Ég hló svo mikið að ég fór að hrína!
Ómægod hvað þetta er fyndið!

Flutti Eddu í dag með Sinfó. Það gekk bara alveg lygilega vel. Alveg mesta furða hvað maður hitti á margar réttar nótur. Það er reyndar einn kafli sem er bara ekki hægt að syngja af neinu viti. Held að hann hafi verið á sýrutrippi þegar hann samdi þetta. Var hann ekki á undan sínum tíma í öllu hvort eð er.

Ég tók alla Fílharmóníuna í raddpróf og það tókst bara ansi vel. Það var góð stemning fyrir þessu. Það voru náttúrlega allir nervusir þegar þau komu inn til mín og Margrétar en allir stóðu sig voða vel. Það voru yfir sextíu sem komu og 8 sem ekki stóðust prófið. Flestir tóku því nú bara nokkuð vel að fá ekki að vera áfram, áttu jafnvel von á því á meðan aðrir voru dálítið leiðir. En ég heyri greinilegan mun á kórnum. Þessar tvær æfingar í þessari viku hafa gengið mjög vel. Ég er að æfa eitt lag fyrir aðventutónleikana sem er mjög rytmískt og það gengur miklu betur en ég gerði ráð fyrir. Það eru sennilega allir enn á tánum eftir þessi raddpróf.

laugardagur, október 07, 2006

Við fórum að sjá Brottnámið í gærkvöldi. Það var ágætis skemmtun. Uppfærslan góð og söngvararnir fínir. Tónlistin fannst mér bara svona lala. Ég reyndi einu sinni að hlusta á þessa óperu og gafst upp og ákvað að það væri ábyggilega skemmtilegra að sjá hana. Svo sá ég hana í sjónvarpinu en ákvað að það væri sennilega skemmtilegra að sjá hana á sviði. En ég held það hafi vantað ansi mikinn kraft í þá sýningu sem við sáum í gærkvöldi. Ég veit að þetta stóð ansi tæpt fyrir frumsyningu og því hefur kannski verið mikill kraftur í sýningunum síðustu helgi. Svo var náttúrlega mjög leitt að önnur söngkonan var veik og söng ekkert. Það kom ekki að sök í fyrsta söngatriðinu hennar sem var dúett á móti Bjarna Thor og hún talaði bara sinn texta. En svo komu nokkur samsöngsatriði þar sem hún þagði bara og það var stundum mjög skrítið því textinn hennar birtist á textavélinni. Og svo vantaði greinilega inní tónlistina á nokkrum stöðum. Eftir á að hyggja voru nokkrir staðir í sýningunni með ansi langri þögn þar sem ekkert var að gerast og ég veit ekki hvort hún átti að vera að syngja um leið eða hvað var í gangi.
Svona lagað getur alltaf komið fyrir og ýmsum kann að þykja ég ansi harður en maður er að borga vel yfir fjögur þúsund krónur fyrir miðann, sem var samt á afslætti því við fórum ansi mörg úr Fílharmóníunni, og þá á maður erfiðara með að fyrirgefa svona hluti. Þetta hefur tæplega komið mjög skyndilega upp á. Var ekki hægt að fá einhverja úr kórnum til að syngja hlut hennar eftir nótum frá hliðarlínunni? Nóg er til af fínum sóprönum í kórnum.
En það sem gerði sýninguna þess virði að sjá var þessi stórkostlega sópransöngkona sem söng Konstönsu. Þvílíkt og annað eins!

fimmtudagur, október 05, 2006

Um leið og síðasta hljómnum var sleppt í Carmina í gærkvöldi brutust út þessi líka svakalegu fagnaðarlæti og eftir nokkrar sekúndur voru allir staðnir upp. Það voru mjög margir að bera þennan flutning saman við annan víða um heim og sá samanburður var mjög hagstæður okkur í vil. Kórinn stóð sig frábærlega, hljóðfæraleikararnir voru ekki alveg eins einbeittir og á sunnudaginn en voru samt frábærir (þetta var nefnilega nánast fullkomið þá) og einsöngvararnir voru í enn meira stuði í gær.
Það var gaman að heyra viðbrögð fólks við því þegar Einar Clausen skakklappaðist inn kirkjugólfið í forspili Svanasöngsins, berfættur með hvíta slaufu og hvítur í framan. Það voru margir sem héldu að þetta væri einhver þroskaheftur að villast inn í kirkjuna á miðjum tónleikum. Ég tók smá áhættu með að velja hann en er MJÖG ánægður með útkomuna. Hann átti líka hug og hjörtu allra í kórnum. Hann mun ábyggilega syngja þetta í komandi uppfærslum næstu árin.
Ég veit að flestar piccolo stelpurnar lesa þetta og get því komið því á framfæri að þið hafið staðið ykkur frábærlega. Ég hef eiginlega alltaf gleymt að segja það.

sunnudagur, október 01, 2006

Tónleikarnir tókust stórkostlega vel. Bravóhróp og læti frá fullri kirkju. Ég var alveg furðu rólegur og laus við stress enda treysti ég kórnum alveg fullkomlega. En það breyttist allt þegar leið yfir eina úr kórnum í miðri aríu hjá Hallveigu. Hún var alveg náföl og með galopin augun. Mjög óhugnanlegt. Svo stóð hún upp og allt virtist í lagi þar til í næsta kafla þegar hún féll fram fyrir sig, yfir einn kórdrenginn og á slagverkið. Þá sló ég af og allir fóru að huga að henni. Enda var alveg rosalega heitt í kirkjunni og loftlaust enda alveg blankalogn úti. Það var mjög skrítin stemning eftir þetta og við kláruðum verkið og tókum meira að segja aukalag og það létti töluvert stemninguna. Sá stúlkuna um leið og ég kom út og það var allt í fínu með hana. Vona að ekkert ami að kórdrengnum.

föstudagur, september 29, 2006

Ég lenti mjög skrítinni reynslu í kvöld. Við vorum að æfa Carminu með öllum og í ljós kom að það vantaði tvær blaðsíður hjá öllum sex slagverksleikurunum. Þeir mundu þetta svona nokkurn veginn þannig að við æfðum nótnalaust og ég benti Eggerti pákuleikara og Ólafi Hólm á bassatrommu hvenær þeir áttu að spila. Það gekk alveg fullkomlega upp. Hver segir svo að stjórnendur séu óþarfir?

miðvikudagur, september 27, 2006

Nú gekk vel á varaorkuforðann hjá mér í kvöld. Var að æfa Carmina burana í kirkjunni með öllum nema slagverki og drengjakór. Kórinn er í hörkustuði! Hljómar mjög vel. Það var bara einn staður sem var ekki tilbúinn en hann hreinsaðist upp í kvöld og verður eflaust flottasta og eftirminnilegasta atriðið. Og karlakórinn er barasta mjög flottur. Nú mega Fóstbræður fara að vara sig. Það lítur út að það komi ansi margir á sunnudaginn, fáir miðar eftir. En ég er búinn að redda mínu fólki og kominn með alla miða í hendurnar.

Hljómeykistónleikarnir gengu líka mjög vel, sérstaklega í gærkvöldi. Frumraun mín sem stjórnandi kórsins byrjaði vel eða hittó því þegar ég hneigði mig á sviðinu á Eiðum í upphafi tónleikanna hrundu allar nóturnar úr möppunni, af sviðinu og niður á gólf. Ég þurfti að príla niður af sviðinu og tína þær upp á meðan kórinn og áheyrendur biðu. En svo gekk þetta mjög vel fyrir utan örfáa staði. Leigutenórinn stóð sig mjög vel, var að lesa þetta allt beint af blaði fyrir utan fjögur verk. En tónleikarnir í gær gengu alveg hnökralaust fyrir sig og voru á köflum alveg æðislegir. Hljómurinn í kórnum var líka virkilega góður. Ég hafði mestar áhyggjur af því þegar ég tók við í haust því þá var intónasjónin ekki nógu góð. Svo er barasta fullt af spennandi verkefnum framundan, raunar í báðum kórunum mínum.

þriðjudagur, september 19, 2006Þá fer að líða að tónleikatörninni. Carmina burana eins og sjá má 1 og 4 október. Kórinn var bara í hörkustuði í gær. Þetta verður glæsilegt.

Hins vegar fer ég með Hljómeyki á Eiðar nú á laugardaginn að flytja prógram sem samanstendur fyrst og fremst af tónverkum eftir meðlimi kórsins. Tónleikarnir verða svo fluttir í Hásölum Hafnarfirði á þriðjudaginn klukkan 20.00. Mjög flott prógram. Ekki missa af því!

sunnudagur, september 17, 2006

Mér finnst náttúrlega algjört hneyksli að það sé búið að reka Hilmar úr Skálholti. Maðurinn er búinn að vera þvílík lyftistöng fyrir tónlistarlífið á Suðurlandi. Það hefði alveg eins verið hægt að reka Jónsa úr Langholtskirkju. Maður er búinn að heyra ýmislegt um hverjir eða hver standi á bakvið þetta og ef það reynist rétt þá missir viðkomandi ansi mörg stig hjá mér. Tímasetningin finnst mér þar að auki alveg fyrir neðan allar hellur. Það hefði átt að gera þetta að vori til til að gefa honum færi á að sækja um aðrar stöður. Hann hefði getað farið á Selfoss t.a.m. Ég þekki það af eigin raun að það losnar ekkert yfir veturinn. Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur í staðinn í Skálholti og hvað verður um Sumartónleikana.
Var að koma af fimm tíma æfingu með Hljómeyki. Það eru nefnilega tónleikar á laugardaginn á Eiðum. Eins og vanalega finnur maður ekki fyrir þreytu fyrr en maður sest niður eftir æfinguna. Þá er maður gjörsamlega búinn. En mér er farið að lítast ansi vel á þetta. Svo verða tónleikar í bænum þriðjudag eftir viku í Hásölum í Hafnarfirði. Ekki missa af því!

Ég hef vísvitandi ekkert bloggað um Drengjakórinn undanfarnar vikur. Ástæðan er sú að ég fann mjög fljótlega að þetta átti ekki við mig. Ég hef nokkrum sinnum unnið með krökkum áður og það hefur eftir á að hyggja gengið ágætlega, sérstaklega með unglingakórinn í Nynäshamn þegar á leið. En ég átti í erfiðleikum með að fá þessa drengi til að vinna almennilega. Ég sagði fljótlega við Jónsa að það þurfti einhvern í þetta sem hefur gott lag á krökkum frekar en einhvern færan kórstjóra. Hann var alltaf að hvetja mig áfram. Ég held að hann hafi séð að ég náði svo sem ágætu sambandi við strákana og þeim fannst flestum voða gaman. En ég bað hann um að svipast um eftir einhverjum öðrum. Við vorum ekki vongóðir um að finna nokkurn en viti menn. Það birtist eitt stykki breskur barítónsöngvari sem er nýfluttur til landsins og er í leit að vinnu. Hann er búinn að ráða sig í undirleik niðri í Söngskóla í afleysingum og var sjálfur í Drengjakór. Kappinn heitir Alexander Ashworth og er að sögn Jónasar tenórs einn besti barítónsöngvari á landinu um þessar mundir. Þeir voru að syngja saman í Glyndbourne í sumar. Hann á íslenskan strák og talar því ágæta íslensku. En annars eru það margir af drengjunum sem kunna ensku að þeim finnst voða gaman að þýða fyrir hann þegar hann vantar íslensku orðin. Hann mætti á æfinguna í gær og það gekk voða vel. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki viljað skrifa neitt um þetta er að ég vildi ekki fæla foreldra sem gætu lesið þetta frá því að senda drengi í kórinn. En það er kominn ágætur hópur, tæplega 20 strákar og ég hef fulla trú á að þetta eigi eftir að verða mjög góður kór þegar fram líða stundir.

þriðjudagur, september 05, 2006

Litli kútur tók upp á því í dag að pissa blóði. Það var brunað strax upp á heilsugæslu og svo á Barnaspítala. Hann var skoðaður í bak og fyrir og tekin þvagprufa. Svo þurftum við að bíða í tvo tíma. Hann var hinn hressasti allan tímann og skreið um öll gólf og elti alla aðra krakka. Svo kom í ljós að þetta var einhver erting í þvagrásinni og er alveg liðin hjá. Við eigum að fylgjast með honum næstu dagana en sennilega er þetta alveg búið og var aldrei hættulegt.
Phew!

mánudagur, september 04, 2006

Ég er alveg í skýjunum yfir upptökum þessa dagana. Ég hlustaði á Stabat mater í dag og heyri auðvitað allar misfellur en sumt var alveg gullfallegt, sérstaklega það sem Nanna María söng. Það var bara gjörsamlega tilbúið að fara í útgáfu.
Svo fékk ég að heyra það sem við tókum upp í Hljómeyki á föstudaginn og það var alveg æðislega flott, tandurhreint og hárnákvæmt.

Það eru komnir 14 í drengjakórinn en svo voru nokkrir sem komust ekki í inntökuprófið í dag og því verð ég með annað á föstudaginn klukkan 17 í Langholtskirkju. Svo er fyrsta æfingin á laugadaginn milli tíu og tólf. Ef þið vitið um einhvern efnilegan dreng sendið hann endilega til mín.
Best að spara sér símtalið og segja Hildigunni að Finnur sé kominn inn. Mætið bæði á laugardaginn kl. 10.00. Jónsi vill tala við ykkur foreldrana á meðan ég æfi með strákunum.

Æfingar á Carminu burana ganga þrusuvel. Vantar reyndar nokkra karla í viðbót. En þetta verða mjög góðir tónleikar. Takið frá dagsetningar fyrir tónleikana nú þegar, þetta verður sunnudaginn 1 október kl. 17.00 og miðvikudaginn 4 okt. kl. 20.00. Hallveig, Bergþór og Einar Clausen syngja, Gurrý og Kristinn Örn á píanó og slagverk úr Sinfó auk drengjanna hennar Tótu. Miðaverð 2500 kr. en 2000 í gegnum mig. Panta strax! Síðast varð fólk frá að hverfa.

sunnudagur, september 03, 2006

Undarleg upplifun í kvöld. Tókum upp seinna "lagið" fyrir Mýrina. Mugison sagði mér ca. hvaða tóna hann vildi hafa í hljómi sem kórinn átti að syngja og svo átti ég að impróvisera með kórinn. Hildigunnur kom með sagarhljóð og stelpurnar áttu að öskra við og við. Þær voru eitthvað feimnar við það fyrir upptökuna en þegar á hólminn var komið voru þær mjööög sannfærandi.

föstudagur, september 01, 2006

Við erum að horfa á Law & Order þátt sem er greinilega byggður á Knutby-morðinu í Svíþjóð þar sem prestur í sértrúarsöfnuði lét barnapíuna sem hann átti í ástarsambandi við drepa eiginkonuna sína. Hann sendi henni meðal annars sms og lét hana halda að Guð væri að segja henni fyrir verkum. Hefði ég ekki vitað um Knutby þá þætti mér söguþráðurinn frekar ólíkindalegur. Hann er þó ekki eins svæsinn og raunveruleikinn.
Upptökurnar gengu mjög vel. Þetta er nokkuð fallegt stykki. Svo verður myndin frumsýnd í október. Þetta á að vera í senu sem Guðmunda Elíasdóttir leikur í. Allir að leggja vel við hlustir þegar hún fer með dramatíska ræðu. Það er voða gaman að stjórna Hljómeyki. Þetta er svo menntað fólk og fylgir manni svo vel.
Svo fékk ég upptökur frá RÚV í kvöld frá tónleikum Fílunnar í vor. Ég á alltaf mjög erfitt með að hlusta á það sem ég hef gert, hvað þá að horfa en ég skellti þessu strax í geislaspilarann í bílnum og viti menn, þetta var barasta mjög fínt. Alla vega Mozart. Veit ekki hvenær ég legg í að hlusta á Haydn. Ég fékk DVD upptökuna í júní en hef ekki safnað í mig kjarki til að horfa á hana.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Á morgun er ég að fara að stjórna Hljómeyki í upptökum á tveimur lögum sem Mugison samdi fyrir "Mýrina". Hann sendi mér sms í gærkvöldi og spurði hvort hann mætti ekki hringja í mig í dag. Ég fór náttúrlega strax að hugsa hvað hann gæti viljað segja við mig. Hann vill ábyggilega skipta um stjórnanda. Hann er búinn að tala við einhvern í kórnum og finnst ég túlka þetta alveg vitlaust. Ábyggilega hundfúll yfir að ég sé búinn að gera smá breytingar á laginu.
Svo hringdi hann í dag og spurði hvernig ég hefði það, hvernig kórinn hefði það, hvort það væri ekki allir í stuði og ég beið eftir að hann kæmi sér að efninu. Svo spurði hann hvort við værum ekki í stuði fyrir morgundaginn. Þar með var símtalinu lokið.
Maður heldur oft að svona þekktir einstaklingar séu svo hrokafullir og sjálfumglaðir en ég hef aldrei talað við ljúfari mann í símann.

Það var nú annað í kvöld. Ég sat til borðs með sjö karlkyns prestum sem voru ansi góðir með sig og voru alltaf að skjóta á mig fyrir að vera organisti.
Nýji raddþjálfarinn hjá Fílunni er barasta þrælfínn. Það er hún Margrét Sigurðardóttir. Mér sýnist fólk vera líka mjög ánægt með hana. Ég er allavega sáttur. Við tókum smá leiklistaræfingar í kvöld og það skilaði strax árangri í söngnum, enda er Carmina burana mjög leikrænt verk.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Fyrsta Hljómeykisæfingin var í kvöld. Það gerðist það sama og á fyrstu Fílharmóníuæfingunni, ég ætlaði að komast yfir miklu meira efni. Í kvöld stafaði það af því að við þurftum að æfa nýtt kórverk sem á að taka upp á föstudaginn. Þetta er fyrir kvikmyndina Mýrina. Svo var það að til að byrja með voru voða fáir og fólk var að tínast inn eitt og eitt í heilan klukkutíma. Svo fór dágóður tími í að ræða um tónleikadagsetningar.
Það verður aukaæfing á þriðjudaginn því það vantaði nokkra í kvöld og þá ætti ég að geta farið hraðar yfir sögu. Það á að rifja upp tónleikaprógram frá í vor til að fara með austur á Eiðar í lok september. En þetta leggst annars voða vel í mig.
Svo byrjar Fílharmónían á morgun og þá kemur nýr raddþjálfari í prufu. Vona að það gangi vel. Sá leggst voða vel í mig.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Glöggir blogglesendur hafa kannski þegar komist að því að ég er orðinn stjórnandi Hljómeykis. Þá er ég búinn að ráða mig á 5 mismunandi staði. Ég gat bara ekki hafnað þessu. Nú er hægt að taka fyrir ýmis verk sem mann er búið að dreyma um að stjórna, t.d. Poulenc, Rautavaara, Tormis, McMillan sem ekki er hægt að gera með hvaða kór sem er.
Ég er sem sagt í 75% stöðu organista í Breiðholtskirkju, 25% stöðu í Langholtskirkju sem stjórnandi drengjakórsins, ca. 25% sem píanókennari (er að reyna að minnka það eitthvað), stjórna Fílharmóníunni og Hljómeyki.
Þessi briljantlausn sem ég uppgötvaði um daginn var að láta Fílharmóníuna sjá um messusönginn í Breiðholti. Með því slæ ég þrjár flugur í einu höggi. Fíluna vantar pening í ferðasjóð, Breiðholtskirkju vantar kirkjukór þar sem forveri minn rak kórinn og tókst ekki að byggja upp nýjan kór að neinu ráði og ég losna við að hafa enn eina kóræfinguna. Þar sem Fílharmónían er frekar fjölmenn þarf hver og einn kórmeðlimur ekki að mæta oft yfir veturinn.

Símafyrirtæki eru umboðsmenn djöfulsins

Sjá færslu Hrafnhildar um þetta málefni.
Við fengum sundurliðun á símreikningnum. Sum símtalana áttu sér stað þegar við vorum ekki einu sinni í bænum og mörg númerin könnuðumst við ekkert við. Eitt var reyndar mjög skrítið. Það var hringt þrisvar í útfararstofuna á Akranesi. Það er nú eitthvað sem ég gæti hafa gert þar sem ég er organisti en ég er alveg viss um að hafa ekki gert það..... eða gerði ég það kannski? Eru símafyrirtæki Norðurlanda endanlega búin að gera út af við mig. Er ég orðin geðklofa. Býr einhver annar karakter í mér sem fær geðveikt kikk út úr því að hringja í þessi númer. Best að hringja í Bernótus skiptstjóra. Múhahaha.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ég var dálítið áhyggjufullur þegar ég fór að sofa í gær. Ekkert alvarlegt en ég stóð frammi fyrir ákveðnu vandamáli sem ég þurfti að finna lausn á og átti því erfitt með að sofna. En svo datt mér í hug lausn sem var svo briljant en um leið svo einföld og sjálfsögð að ég var hissa að mér hafði ekki dottið hana í hug fyrr. Ég var svo ánægður með þetta að ég átti ennþá erfiðara með að sofna.
Við ætlum að skreppa út úr bænum í bústað í dag og komum aftur á fimmtudaginn. Bara að breyta um landslag í smá stund áður en vetrartörnin byrjar.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Ég skrifaði undir samninginn í dag við Breiðholtskirkju í dag. Það var smá karp um frí um helgar yfir veturinn en mér tókst að lokum að fá það inn í samninginn. Þau vildu jafnvel fá inn í samninginn að það ætti að haga helgarfríinu þannig að Bjartur sé örugglega í fríi þannig að hann geti leyst af. Alltaf þegar einhver minntist á kjarasamning organista þá var sóknarpresturinn, sem einnig er prófast, fljótur að leiðrétta og kallaði það viðmiðunarplagg. Organistafélagið fór nefnilega í mál við sóknarnefndina fyrir að ráða ómenntaðan mann fram yfir nokkra menntaða organista fyrir tveimur árum en prófasturinn vildi meina að það væri enginn samningur í gildi.

Ég fór svo á tónleika með Kammersveitinni Ísafold í kvöld og var mjög ánægður. Þeir voru í Listasafni Íslands sem er bara hinn fínasti tónleikasalur. Þar var náttúrlega tónlistarelítan mætt.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Það var bara voða gaman á óperutónleikunum á Klambratúni í gær, skemmtileg stemmning og gaman að svona sé hægt að gera á Íslandi. Að vísu var hljóðið ekki upp á sitt besta og aríurnar komu misvel út. Svo er ég orðinn ansi þreyttur á því þegar óperusöngvarar ákveða að sprella eitthvað á sviðinu eins og Kristinn og Ólafur Kjartan gerðu í lokin. Það er alltaf boða barnalegur húmor og fer bara í taugarnar á mér. Við vorum þarna fjölskyldan ásamt móðurafa og ömmu Ísaks, Sollu og dætrum og svo komu Indra og fjölskylda og amma mús ásamt Hlö. Svo var rölt niður að Sæbraut og horft á flugeldasýninguna sem var flott. En það hefði verið betra að láta hana byrja ca. 20 mín. seinna og það er áhrifameira að standa beint undir flugeldunum. Ísak vissi ekkert hvað um var að vera. Hann er alltaf sofnaður klukkan átta í rúminu sínu en núna var hann í kerrunni og var bara alls ekkert til í að fara að sofa þegar svona mikið var um að vera.
Í dag hefst svo barnaafmælistörnin. Það verða þrjá sunnudaga í röð.
Á morgun á Indra afmæli og svo fer ég líka að semja við Breiðholtskirkju um organistastarfið sem ég er að fara að taka að mér þar. Ég er dálítið hjátrúarfullur og hef því ekkert viljað tala um þá umsókn. Ég var nokkuð vongóður um að fá starfið í Lindasókn, sérstaklega af því það var búið að hafa samband við mig áður en starfið var auglýst, en svo fékk ég það bara ekki. Ég græti það reyndar ekkert sérstaklega en varð móðgaður að þeir skyldu ráða ómenntaðan mann fram yfir mig sem er með mastersgráðu í faginu.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Þá er námskeiðið búið. Ég held þeir mæti allir í inntökuprófið. Við enduðum í keilu. Fengum sérstaka barnabraut þannig að kúlan gat ekki lent í rennunni. Ég átti erfitt með að leyna hlátri mínum þegar þeir tóku kúluna og hentu henni með þvílíkum tilþrifum og svaka dynki og svo silaðist hún á 3 km hraða og tók heila eilífð að ná keilunum. Samt náðu þeir stundum að fella allt að 9 keilur.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Við Harpa heyrðum greinilegan mun á söngnum hjá strákunum í morgun. Þeir eru líka farnir að kunna þó nokkur lög. Ég er líka búinn að finna nokkur ráð til að fá einbeitingu aftur eftir að við erum búnir að leika okkur. Einn vaknar ennþá klukkan þrjú á nóttunni af spenningi. Honum fannst líka alveg glatað að þurfa að vera í skólanum í næstu viku því þá gæti hann ekki verið á kóræfingu.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006Þetta er mjög óhugnanlegt. Sérstaklega með tilliti til þess að við bræðurnir vorum í þessum íshelli á nákvæmlega sama tíma fyrir viku.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Bévítans vesen. Búinn að fá alveg fullt af ruslkommentum. Bættist við hverja einustu færslu alveg aftur í aprílfærslurnar. Mikil handavinna að eyða öllu þessu. Varð því miður að taka upp öryggisventil þar sem þeir sem kommenta þurfa að staðfesta hvaða orð þeir sjá.
Drengjunum finnst allavega mjög gaman á námskeiðinu. Einn vaknaði klukkan þrjú í nótt og spurði hvort það væri ekki kominn tími til að fara á námskeiðið. Endum svo vikuna með því að fara í keilu. Svo verður inntökupróf fyrsta mánudaginn í september og fyrsta æfingin laugardaginn eftir það.

Annars ætlaði ég að æfa mig á orgelið í dag en það er ekki hægt að hanga inni í svona veðri, sérstaklega þegar maður á svona fínan pall.

mánudagur, ágúst 14, 2006


Það var nú alveg meiriháttar að ganga Laugaveginn. Við vorum alltaf að stoppa til að "úúaaa" og "vááaa" yfir litunum í náttúrinni. Við tókum þetta á fjórum dögum og gátum tekið nokkra útúrdúra til að skoða íshelli og Markarfljótsgljúfur. Við kynntumst líka nokkrum útlendingum, sérstaklega síðasta kvöldið, það myndaðist mjög skemmtileg stemmning í skálanum. Ég var líka mjög ánægður hvernig við pökkuðum. Við tókum akkúrat nógu mikið af fötum og mat en eftirá að hyggja var þessi heila viskýflaska úr gleri ekkert mjög skynsamleg. Enda gáfum við með okkur síðasta kvöldið. Næsta ár verður það svo Hornstrandir með mömmu og kannski maður fari einhverjar styttri göngur eins og Fimmvörðuháls.

Námskeiðið fyrir drengina hófst í morgun og stendur fram á föstudag. Ég hafði mestar áhyggjur af því að finna upp á leikjum fyrir þá því það er nú ekki hægt að láta þá syngja í þrjá tíma. Ég hafði engar áhyggjur af lagavali. En þegar á reyndi var þetta akkúrat öfugt. Það var ekkert mál að finna afþreyingu en erfiðara að finna lög sem pössuðu. Við þurftum reyndar að æfa inni í kirkju því það var verið að vinna í andyri safnaðarheimilsins sem þýddi að það var ekki hægt að komast í æfingasalinn og of mikill hávaði til að vera í safnaðarsalnum. En þeir voru voða áhugasamir þegar ég sýndi þeim hvernig píanóið fúnkerar og á morgun vildu þeir kynnast orgelinu.

Svo var hringt í mig áðan og mér boðin organistastaða. Reyndar á Eskifirði en hún var voða spennandi því þetta var líka menningarfulltrúi staðarins og ágætis samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Svo voru launin góð. En þá væri alveg eins hægt að búa áfram í Svíjóð eins og að vera á Austfjörðum.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Í dag erum við hjónin búin að vera gift í tvö ár. Við höfum búið saman í fimm ár, verið par í átta ár og þekkst í tíu ár. En fyrst núna segir hún mér að hún vilji að klósettrúllan snúi fram þegar hún hangir á veggnum.
Við ætlum út að borða í kvöld en svo er ég að fara að ganga Laugaveginn með Gunnari á morgun fram á föstudag. Vona svo innilega að það verði gott veður.
Í næstu viku verð ég með söngnámskeið í Langholtskirkju fyrir hádegi frá mánudegi til föstudags fyrir drengi frá sjö ára aldri. Þetta er undirbúningur fyrir Drengjakórinn. Það verður kórsöngur, raddþjálfun og svo leikir. Látið endilega vita ef þið vitið um einhvern strák sem væri efnilegur.

mánudagur, júlí 31, 2006

Það hefur lítið verið um skemmtanir á þessum bæ eftir að Ísak fæddist. En ég fór á "aðalfund" Voces Masculorum á laugardaginn og það var virkilega gaman. Það var heilmikið sungið og spilað. Við vorum fjórir organistar þarna og þegar kom að því að syngja Brennið þið vitar þá þjösnuðust við allir fjórir á píanóinu með þeim afleiðingum að ein svört nóta brotnaði af. Svo voru sagðir tvíræðir brandarar sem uppskáru mikinn karlahlátur.
Í gær fórum fjölskyldan á Selfoss í sund því þar er þessi fínasta laug og svo settumst við á kaffihús þar sem ein beygla kostaði rúmlega 900 kr. Við létum okkur nú samt hafa það að borða þarna enda tilvalið að sitja úti í um tuttugu stiga hita.
Ég var svo að pæla í að hlusta á Sigurrós í gærkvöldi en var bara ansi þreyttur (kom frekar seint heim eftir "aðalfundinn" og var að spila í messu um morguninn). Hefði ég búið niðri í bæ þá hefði verið tilvalið að labba á Klambratúnið og upplifa stemninguna. Mér nægir reyndar að heyra eitt lag með þeim því mér finnst þeir eiginlega alltaf vera að flytja sama lagið.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Ef allt gengur eftir þá mun ég stjórna þessari hljómsveit einhvern timann á næstunni.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Það er mjög merkilegt að bera saman fjölmiðla í Evrópu annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar hvað varðar umfjöllun um átökin í Líbanon. Þeir evrópsku fjalla um yfirgang Ísraela og árás þeirra á friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. Í Bandaríkjunum er erfitt að finna umfjöllun um þá árás en aðallega talað um að það hefði ekki tekist að afvopna Hizbollah. Enda virðist meirihluti Bandaríkjamanna standa með Ísraelum.

Þessi fundur í dag gekk bara mjög vel. Nú erum við í góðum málum!
Ég sé að Þóra Marteins er hætt að blogga. Ég skil hana vel. Maður var vanur því að geta skrifað hvað sem er þegar maður bjó í Svíþjóð en nú þarf maður virkilega að passa sig. Það tók mig dálítinn tíma að finna nýjan stíl.

Ég er að fara að hitta hljómsveitarstjóra frá Litháen á eftir sem vildi endilega hitta mig út af Fílharmóníunni. Það er voða spennandi allt saman. Bað formann kórsins að koma með. Ég veit eiginlega ekkert hvað hann hefur í huga. Litháarnir voru voða spenntir að vinna með kórnum en langaði ekkert sérstaklega að flytja Carmina burana enda hefur það verið flutt svo oft þarna úti. Þeir eru spenntari fyrir íslenskri tónlist. Sem er náttúrlega alveg frábært en þá þarf að hugsa þessa utanlandsferð kórsins alveg upp á nýtt, ef þetta er staðan. Ef ég var ekki búinn að taka það fram hér á blogginu þá er búið að hætta við að fara til Búlgaríu því þeir vildu að kórinn sæi um fjáröflun fyrir komu þeirra til Íslands. Auk þess þurfti kórinn að borga undir sig út. Það var ekki góður díll. Bara leiðinlegt hvað þetta kom í ljós seint.

Ísak er alveg við það að fara að skríða. Hann er farinn að snúa sér sitjandi og hefur stundum mjakað sér um ca. metra á nokkuð löngum tíma og þegar hann liggur á maganum sér maður hvað hann reynir að komast eitthvað en hann fer bara afturábak. Hann fór nú bara ansi langt þannig í morgun. Svo erum við að reyna að fá hann til að segja Mamma sem hann gerði reyndar í gær en þá var móðir hans hvergi nálægt og ég hafði ekki beðið hann um að segja þetta. Ég veit ekki hvor að þetta var tilviljun eða hvort hann er svona stoltur að hann vilji ekki láta það virka eins og hann sé að herma eftir manni og bíði því með að segja svona hluti þar til daginn eftir. Sama er uppi á teningnum þegar við spurjum hvað hann er stór. Maður sér á svipnum að hann er heilmikið að pæla hvað hann eigi að gera en svo gerist yfirleitt ekki neitt. En hann byrjar daginn oft á því að sýna okkur hvað hann er stór, alveg í óspurðum fréttum og svo klappar hann með okkur eftir á. Mamma hans flýtir sér oft að spurja hann þegar hún sér að hendurnar eru á leiðinni upp og þá verða allir glaðir og klappa og klappa.

mánudagur, júlí 17, 2006

Ég var að koma frá Akureyri, söng tónleika með Schola cantorum sem gengu svona bara glimrandi vel. Einn tenórinn forfallaðist fyrir rúmri viku og því fyrirvarinn ekki mikill. Það er ágætt að syngja í kór við og við, hef ekki sungið síðan í nóvember. Fengum svona líka yndislegt veður í dag. Er ekki einmitt alltaf svo gott veður á Akureyri?

föstudagur, júlí 14, 2006

Ég talaði við formann sóknarnefndar Lindasóknar og lét hann heyra það. Hann stóð fastur á því að þetta væri góð ráðning og sýndi mér ferilskrána. Hún er vissulega fín fyrir tónlistarmann en er ekkert sérstök þegar horft er á kirkjutónlistarhliðina, þar hef ég tvímælalaust vinninginn.

Ísak er svo kátur þessa dagana og er alltaf að hlæja og brosa og svo heyrist ansi mikið í honum, það eru bara heilu tónleikarnir stundum. Þetta er skemmtilegur tími. Hann á það þó að væla þegar mamma hans fer í burtu.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Nú er ég fúll. Ég sótti um organistastöðuna í Lindasókn. Sendi inn þessa líka fína umsókn með bestu meðmælum. Svo fór ég í viðtal fyrir viku og það gekk bara mjög vel. Þar var ég sérstaklega spurður að því hvort ég liti á þetta sem framtíðarstarf og ég sagðist gera það. Þetta væri spennandi staða því það á að byrja að byggja kirkjuna á næsta ári og það er mjög spennandi að fá að byggja upp safnaðar- og tónlistarstarfið. Sömuleiðis var ég spurður hvort ég gerði mér grein fyrir aðstæðunum fram að byggingu kirkjunnar, þ.e. að guðsþjónusturnar eru haldnar í mötuneyti Lindaskóla og þarf að bera rafmagnspíanó fram og til baka. Þetta vissi ég því ég hafði spilað þarna í janúar og gerði mér fulla grein fyrir aðstæðum en sagði að til lengri tíma litið væri þetta mjög áhugaverð staða enda verður þetta að öllum líkindum einn stærsti söfnuður landsins þegar fram líða stundir.

Svo fæ ég að vita í fyrradag að það sé búið að ráða Keith Reed í stöðuna. Ástæðan fyrir því að ég er fúll er sú að hann er ekki menntaður sem kirkjutónlistarmaður. Hann er rétt byrjaður í námi Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Ég hef ekkert á móti honum persónulega og ég væri ekki fúll hefðu þeir ráðið einhvern sem hefði klárað einhverja kirkjutónlistarmenntun. En með þessari ákvörðun er sóknarnefndin að gefa skít í allt kirkjutónlistarnám. Maður veltir því fyrir sér afhverju maður var að læra þetta í sex ár ef það er hægt að ráða bara hvern sem er. Þetta er mjög erfitt nám, fáir leggja í að stunda það og margir hætta við eftir nokkur ár.
Ég reyndi að ná í prestinn í dag en hann er kominn í frí og svarar ekki í símann fyrr en eftir 6. ágúst... mjög hentugt. Ég ætla að tala við sóknarnefndarformanninn á morgun og láta hann vita hvað ég er ósáttur við þetta. Ég var búinn að segja þremur organistum frá þessu sem allir voru steinhissa, sérstaklega af því að organistafélagið gerði heilmikið mál úr því þegar Keith var ráðinn í Breiðholtskirkju fyrir tveimur árum þrátt fyrir að útskrifaðir organistar hefðu sótt um. Það mál á að fara fyrir félagsdóm. Svo þegar ég ætlaði að segja þeim fjórða frá þessu vissi hann þegar af þessu og sagði að þetta væri altalað um allan bæ og væri þvílíkt hneyksli.

mánudagur, júlí 10, 2006

Ok. Það eru komnir tveir mánuðir síðan ég bloggaði síðast.
Ástæðan fyrir bloggleysinu til að byrja með var skortur á netsamandi en það varði reyndar ekki nema í nokkrar vikur. Það virðist ríkja almenn bloggdeyfð um þessar mundir.
Ísak er orðinn mjög langur miðað við aldur. Hann er til að mynda aðeins nokkrum sentimetrum styttri en Jökull sem er rúmum fimm mánuðum eldri. Ég komst að því um daginn að ég var undir eftirliti hjá lækni þegar ég var lítill af því ég var svo langur. Hefði ég verið aðeins lengri þá hefði ég fengið hormóna til að halda aftur af vextinum.
Hann situr einn og óstuddur í 90 gráðu vinkli og er mjög duglegur að hafa ofan af fyrir sér. Nú bíðum við bara eftir að hann fari að skríða. Hann er farinn að gefa frá sér hin merkilegustu hljóð en er annars mjög kátur og glaður. Eftir verulegt átak þá tókst okkur að fá hann til að sofna klukkan átta og alveg fram til sex um morguninn. Það er algjör lúxus. Um tíma leit út fyrir að allt það starf hefði verið unnið fyrir gíg en með því að harka af sér og vera ekki að hlaupa inn til hans þegar hann grætur í rúminu sínu þá hefur okkur tekist að halda þessu.
Hann tók upp á því um daginn að klappa saman lófunum og strax í kjölfarið báðum við hann að sýna okkur hvað hann er stór en ég held að það sé fyrir neðan hans virðingu. Við erum bæði búin að fara að heimsækja Ragnar Stein og fjölskyldu þegar þau voru í bústað austur í Lóni og svo buðum við Friðrik Val og fjölskyldu í Voga í Mývatnssveit og fórum saman í Jarðböðin (sjá mynd). Það var í þriðja skiptið sem Ísak fór á Mývatn og líkaði honum vistin vel.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Þá eru prófin búin og þau gengu bara vel. Ég var með þrjá nemendur af fimm sem fóru í grunnpróf hér í skólanum.
Núna á sunnudagskvöldið kl. 20.00 verður fundur um drengjakórinn í Langholtskirkju fyrir þá sem hafa áhuga.
Þá erum við loks sameinuð á ný fjölskyldan.
Skrámur kom til okkar í gærkvöldi og kann bara ágætlega við sig. Ísak er mjög hrifinn af honum og fylgist náið með og hlær þegar hann klifrar upp hillurnar. Skrámur er hins vegar ekkert áhugasamur um Ísak. Hann fór aðeins út á pall og var með varann á sér allann tímann. Við erum búin að setja á hann ól og ætlum að leyfa honum að fara inn og út að vild eftir rúma viku.

Nú eru þrír nemendur mínir að fara í grunnpróf. Það er sem sagt búið að leggja niður stigsprófin og í stað 8 stigsprófa þá fara tónlistarnemendur bara í þrjú áfangapróf. Sú fyrsta er búin og hún stóð sig rosalega vel. Ég var mjög stoltur.

mánudagur, maí 08, 2006

Nú erum við sjálf flutt inn. Sváfum í fyrsta skipti þarna í nótt. Það var bara góð tilfinning. Ísak hélt reyndar fyrir okkur vöku með alveg ágætis öskurkasti. Hann hefur tekið eitt slíkt undanfarna viku en það færist alltaf fram um korter með hverri nótt. Ég hef sofið hans megin og stungið upp í hann snuðinu og gert það fram til klukkan hálf fjögur en þá fær hann að drekka og svo aftur um klukkan sjö. Við höfum passað okkur á því að taka hann ekki upp eða horfa í augun á honum og það hjálpaði til að byrja með en nú verða þessi öskurköst alltaf lengri.
Við erum búin að fá alveg fullt af aðstoð og stundum veltir maður því fyrir sér hvernig þetta hefði gengið ef hennar hefði ekki notið við. En svo mundum við að við erum búin að flytja þrisvar áður og sáum um það svo gott sem ein. Við fengum hjálp við sjálfan flutninginn en við komum okkur sjálf fyrir. Munurinn núna er að við erum með Ísak og það þarf oftast einhver að sinna honum. Stundum getur hann reyndar legið á gólfinu lengi og dundað sér og svo sefur hann auðvitað í vagninum.
Það ríkir einhver símabölvun yfir okkur því við fáum ekki síma- og nettengingu fyrr en eftir tvær vikur... vonandi!

þriðjudagur, maí 02, 2006

Við fengum lyklana afhenta á föstudagskvöldið og erum búin að vera að mála síðan þá. Ég gleymdi því næstum að ég ætti afmæli. Ég er búinn að vera að mála þrjá daga í röð. Við tókum bara alla veggi og loftið. Það var kominn tími á það. Við hjónin fórum út að borða og svo í leikhúsið á afmælisdaginn. Fórum að sjá Belgíska Kongó. Það var mjög skemmtilegt. Við vorum reyndar mjög hissa þegar það var bara allt í einu búið og við ekki fengið svör við ansi mörgum spurningum. En við vorum ekkert smá þreytt eftir alla málningavinnuna. Svo ætlum við að flytja dótið inn í kvöld og flytjum svo sjálf seinna í vikunni, kannski á föstudaginn eða eitthvað svoleiðis. Það á eftir að veggfóðra einn vegg og við getum ekki ákveðið munstrið fyrr en við vitum hvernig við ætlum að raða í íbúðina. Svo er spurning hvort við skellum eldhúsinnréttingunni í plashúðun eða kaupum bara nýja eftir nokkra mánuði. Það væri fínt að auka við skápaplássið og hafa þá alveg upp í loft þannig að maður þurfi ekki alltaf að vera að þrífa ofan af þeim.

mánudagur, apríl 24, 2006

Æfingar hófust aftur í kvöld. Byrjuðum að æfa Carmina burana og það gekk svo miklu betur en nokkur þorði að vona. Þetta sat bara ótrúlega vel. Svo mætti ég og Ingibjörg dálítið fyrr til að hlusta á nokkra sem vildu byrja í kórnum eða koma aftur. Ég gerði ráð fyrir fimm til sex en þau voru rúmlega tuttugu. Nú vantar nokkra kalla í viðbót og þá verður þetta fínt. Fyrir vikið get ég haft metnaðarfyllra acapella prógramm með íslensku lögunum.

föstudagur, apríl 21, 2006

Undanfarnir dagar eru búnir að vera æðislegir af mörgum ástæðum. Fyrir það fyrsta gengu tónleikarnir svo vel. Ég fékk mjög góða krítík og svo voru svo margir hljóðfæraleikarar sem komu sérstaklega til mín og lýstu yfir ánægju með samstarfið. Svo kom í ljós að tónleikarnir komu akkúrat út á núlli sem hefur ekki gerst í mörg ár nema í fyrra þegar það varð gróði á Carminu Burana enda voru mjög fáir hljóðfæraleikarar. Nú er maður á fullu að skipuleggja næsta ár og getur leyft sér að gera eitthvað metnaðarfullt fyrst þessir tónleikar gengu svona vel. Það kemur margt til greina.
Það var yndislegt fyrir Norðan og við náðum öll að slappa vel af. Ísak blómstar sem aldrei fyrr og maður nær mjög góðu sambandi við hann. Hann tók upp á því að velta sér yfir á magan og hefur ekki hætt því síðan. Svo samkjaftar hann ekki og gefur frá sér djúpraddaðri hljóð.
Ég var líka að heyra af mögulegri vinnu sem yrði alveg æðislegt ef af yrði en það er sem samt ekki ljóst hvort hún sé í boði og því þori ég ekki að segja neitt. Ég hitti líka Þóru Marteins sem hafði roðnað fyrir mína hönd um daginn þegar hún sat á fundi með einum presti sem lofsöng mig.
En það kemur ábyggilega einhver skellur á næstunni. Það væri alveg týpískt.

miðvikudagur, apríl 12, 2006


Ég var að kaupa tæki þannig að ég get hlustað á ipodinn í bílnum. Mjög sniðugt tæki sem framleitt er í Kína, en eitthvað voru leiðbeiningarnar skrítnar. Hér er smá sýnishorn:
"Open wave band, FM of auto radio, of you, is it search platform or manual to search set let auto radio of you receive frequency that you preset automatically to choose, in this way you can listen to iPod stereo music of high-fidelity taken the place of to you through ipod Auto Kit device."

WHAT?!?!

Sem betur fer var auðvelt að finna út úr þessu þrátt fyrir leiðbeiningarnar.

Hér til hliðar má sjá mynd af okkur feðgunum í ungbarnasundi. Við erum svo klárir sko!
Tónleikarnir í gær gengu mjög vel. Kórinn stóð sig mjög vel en það voru smá hnökrar hjá hljómsveit og einsöngvurum hér og þar. Sumir virtust samt ekkert hafa tekið eftir því. Ég var alveg hissa hvað það voru margir alveg sérstaklega hrifnir af Mozart. Nokkrir sem töluðu um að hafa verið með tárin í augunum allan tímann. Mér finnst þetta einmitt ekki þannig verk heldur mjög skemmtilegt og glaðlegt. En RÚV mætti sem betur fer líka í gærkvöldi og tók upp og maðurinn hennar Ingibjargar tók líka upp á vídéó og því verður hægt að nota hljóðupptökuna saman með því og gefa út á DVD fyrir þátttakendur. Svo mættu gagnrýnendur frá Mogganum og DV.
Í kvöld förum við svo að sjá Indru systur leika eitt af aðalhlutverkunum í Hugleik og svo förum við Norður á skírdag og komum aftur annan í páskum.
Styttist í afhendingu.

mánudagur, apríl 10, 2006

Hafi einhver velkst í vafa hvort hann ætti að koma á tónleikana annað kvöld þá er hægt að hlusta á tónlistargagnrýnina í Víðsjá. Valdimar Pálsson var svona svahakalega hrifinn, sagði að fólk mætti ekki missa af þessu og að kórinn hefði aldrei verið betri. Alltaf gaman að fá flotta krítík.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Tónleikarnir gengu ÆÐISLEGA vel. Maður var í sæluvímu allan tímann. Það stóðu sig líka allir með stakri prýði. Kórinn hafði aldrei sungið svona vel og hljómsveitin fylgdi mér extra vel. Það var líka svakalega góð stemmning í kirkjunni, uppselt og standing ovation. Gaman gaman. Hlakka til að gera þetta aftur á þriðjudaginn.

laugardagur, apríl 08, 2006

Generallinn gekk ágætlega. Mozart tók lengri tíma en ég bjóst við og því var dálítið stress í gangi í lok æfingarinnar þannig að við myndum ná öllu í Haydn. Við slepptum að vísu einum kaflanum en hann gekk svo vel á þriðjudaginn þannig að það var allt í lagi. En þetta á eftir að vera þrælfínt á morgun.

Í Lesbókinni í dag birtist önnur grein eftir mig sem ég skrifaði fyrir 10 árum. Ég vissi ekki að það stæði til að birta hana og hefði fyrir það fyrsta viljað líta yfir hana. En það sem fór mest fyrir brjóstið á mér er að hún er eignuð öðrum. Það var víst einhver leiður misskilningur.

föstudagur, apríl 07, 2006

Alltaf skulu þessi blaðaviðtöl brenglast. Ég sagði að Stabat Mater væri eitt af fyrstu stóru kórverkum Haydns en blaðakonan skrifar hljómsveitarverk. Sömuleiðis sagði ég að verkið hefði verið þekktasta tónsmíð hans á meðan hann lifði en hún skrifar stærsta.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Við fórum á Sinfó í kvöld. Mér fannst þeir alveg mega sleppa öðru hvoru verkinu fyrir hlé. Kannski frekar Eybler þó svo það sé gaman að heyra nýja tónlist eftir óþekkt tónskáld. Kórinn söng mjög vel en stundum saknaði maður þroskaðri hljóms. En kóleratúrinn var alveg tandurhreinn og nákvæmur. Svo var alveg meirihátta að fylgjast með Þorgerði sem sat nálægt okkur og hún var mjög aktív þegar kórinn söng.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Ég fór í viðtal til Ásu Briem fyrir Hlaupanótuna í gær, þriðjudag. Það var flutt í dag og tók nánast allan þáttinn. Ég hélt þetta yrði bara 10 mínútna innskot en þetta var svakalega flott. Ég gat meira að segja hlustað á sjálfan mig tala þegar ég hlustaði á þetta á ruv.is. Ég var nefnilega að kenna til hálf fimm og þegar ég settist upp í bíl heyrði ég eitthvað skrítið lag sem ég fór þó fljótlega að kannast við. Í ljós kom að þetta var síðasta lagið sem við gerðum í Kósý. Júlíus Kemp, sem hafði gefið út plötuna okkar, bað okkur um að taka upp okkar eigin útgáfu af Always look on the bright side of life. fyrir kvikmynd sína Blossi. Við vorum í rauninni hættir sem hljómsveit og vissum að við ætluðum aldrei koma saman aftur og því var þetta eitthvað þvílíkt einkaflipp. Mér fannst þetta ógeðslega fyndið þegar ég hlustaði á þetta í kvöld en Hrafnhildur hristi bara hausinn.
Áhugasamir geta farið inn á www.ruv.is og hlustað á Hlaupanótuna á Rás 1 5 april. Lagið kemur fyrir í ca. miðjum þætti.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Haydn gekk líka mjög vel. Fínt að komast í Langholtskirkju. Ég var ekki fyrr búinn að venja strengina á að spila létt og meira galant í Mozart en ég bið þá að spila eins þykkt og bundið og hægt er í Haydn.

mánudagur, apríl 03, 2006

Við æfðum Mozart í kvöld með hljómsveit og öllum, að vísu ekki pákum og trompetum sem spila bara í tveimur þáttum og alveg fáránlega einfalt þannig að þeir mæta bara á generalinn á laugardaginn. Kórinn var bara í þrusu stuði og mjög vel undirbúinn. Svo voru þau svo stillt og þolinmóð. Enginn kjaftavaðall. Eins var hljómsveitin mjög góð og fylgdi mér í einu og öllu. Svo voru þau svo almennileg. Ég var búinn að gera mér í hugarlund að þau yrðu með einhvern: "Hvað þykist þú vita"... móral. En voru virkilega næs.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Ég er búinn að æfa með Jónasi og hann á eftir að syngja þetta rosalega vel. Hann er nebblega líka að syngja með Sinfó á fimmtudaginn og svo Jónsa á föstudaginn langa. Svo æfði ég með Nönnu Maríu í dag og fékk nokkrum sinnum gæsahúð. Það er eins og Haydn hafi skrifað þessar aríur með hana í huga. Svo æfi ég með Huldu Björk og Davíð á morgun. Hún var eitthvað kvefuð um helgina og sparaði röddina á kóræfingunni í gær en tók eina kadensu eftir á með Jónasi og fór alla leið upp á háa d og hafði ekkert fyrir því. Ég vona að Davíð kunni sitt vel. Hann er með tvær mjög flottar aríur. Sif konsertmeistara líst mér líka mjög vel á. Hún er mjög metnaðarfull og búin að skrifa inn öll bogastrokin í allar nóturnar og vill hitta mig og Daða Kolbeins til að ákveða fraseringar áður en við æfum saman. Benni vann með henni um daginn hjá Sinfó og var hæstánægður.

Við hjónin skelltum okkur í óperuna á föstudaginn. Halldór fékk boðsmiða frá Glitni en komst ekki og því fórum við. Það var mjög vel veitt af víni og veitingum, bæði fyrir sýningu og í hléinu. Það stóðu sig allir vel en ja hérna hvað mér leiddist. Eftir 10 minutur var ég farinn að líta á klukkuna og bíða eftir hléi þannig að við gætum farið heim. Ég þoli orðið sem sagt ekki óperettur. Ég gékk líka út af seldu Brúðinni eftir Smetana í Stokkhólmi. Tónlistin er svo óáhugaverð, söguþráðurinn algjört prump, brandararnir svo ófyndnir og svo er alveg ferlega skrítið þegar söngvararnir tala á íslensku en syngja svo: "Dann gehen wir nach Selfoss, nach Selfoss, nach Selfoss."

laugardagur, apríl 01, 2006

Ég held ég sé búinn að missa traust kórsins. Ég lét þau breyta texta á erfiðum stað á æfingunni í morgun. Þetta voru stikknótur sem þau hafa átt að syngja það en ég lét þau breyta textanum í úr "plagis me fac" í "itsrif lirpa" og sagðist hafa séð þetta í annarri útgáfu og veifaði bók sem Nanna María kom með. Fólk fór að skrifa á fullu í nóturnar og hváði og bað mig um að stafa þetta. Svo þegar ég var alveg að fara að láta þau syngja þá fattaði einn tenórinn hvað "itsrif lirpa" þýddi, sérstaklega þegar hann las það afturábak. Mér var blótað í sand og ösku og svo gátu þau ómögulega sungið þetta rétt þegar kom að staðnum heldur sprungu úr hlátri. Annars var þetta holl og góð æfing því við æfðum í Borgarskóla og þau voru alveg hræðilega fölsk. Ég vona að þetta hafi verið nógu mikill skellur í andlitið þannig að þau séu á tánum á hljómsveitaræfingunum.

Þetta verður ansi stíf vika því auk hljómsvetaræfinganna þarf ég að æfa með öllum einsöngvurunum, hitta konsertmeistarann, fara í útvarps- og blaðaviðtöl og kaupa mér eða leigja kjólföt. Ég skrifaði grein í prógrammið sem ég sendi á Moggann og bað þá um að birta í Lesbókinni næsta laugardag en svo birtist hún bara í dag, heilsíða meira að segja með fínni mynd. Að vísu er Benni að stjórna kórnum á þeirra mynd en það er ekkert svo áberandi. Það er ekki til nein mynd af mér og kórnum saman eins og er. Það þarf að bæta úr því. Ég hafði hringt í Moggann fyrr í vikunni og spurt hvort ég mætti ekki senda þeim grein en fékk einhver dræm viðbrögð og var því tilbúinn að fara væla í þeim í næstu viku. Þess vegna kom þetta skemmtilega á óvart.

sunnudagur, mars 26, 2006

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að upplifa frumflutning á messu í sínu rétta formi. Manni líður eins og maður sé uppi á 18. öld. Ég fór sem sagt að hlusta á Vídalínsmessuna eftir Hildigunni í morgun og það tókst líka svona vel hjá öllum. Latneski hlutinn sem var fyrir kór og sópran var mjög fín en ég var ekki eins hrifinn af íslensku innskotunum, kannski af því að maður hlustar öðruvísi á textann og ég hef sjálfur reynslu af því að það er erfitt að láta hann hljóma eðlilega. En fyrsti hlutinn, kyrie, var mjög grípandi og skemmtilegur. Svo var alveg einstaklega fyndið að heyra prestinn vera alltaf að tala um Hallv..... Hildigunni Rúnarsdóttur. En það fór fyrir brjóstið á mér að ekki skuli hafa verið nein trúarjátning í messunni. Það hefði vel verið hægt að lesa hana. Það kemur mér á óvart að tveir prestar og einn djákni hafi ekki gert neitt í þessu.

Svo fór ég líka að hlusta á Schola cantorum með fyrstu tónleikana sína eftir að hann gerðist atvinnukór. Mótetturnar sem þau fluttu voru líka mjög fagmannlega sungnar, alveg tandurhreinar og vel mótaðar en það var meiri amatörbragur yfir smákonsertunum sem hver og einn kórmeðlimur fékk að spreyta sig á, ýmist sem sóló, dúett eða tríó. Sumir sungu mjög vel, alveg sérstaklega Jóhanna Halldórsdóttir alt, á meðan aðrir voru frekar óöruggir og svo voru reyndar nokkrir mjög kvefaðir.

föstudagur, mars 24, 2006

Svei mér þá. Hún gæti kannski bara unnið þetta. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið samið fyrst á ensku.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Ég skellti mér á Sinfóníutónleika. Ég hef ekki komist síðan ég fór út, þ.e. vorið 2001. Ég hef alltaf komið heim um jólin og sumarið og þá hafa ekki verið neinir tónleikar. Það voru sem sagt tvær Shostakovits sinfóníur í boði og píanókonsert eftir hann líka. Allt voða flott og skemmtilegt nema hvað að nokkrum bekkjum fyrir aftan okkur Mömmu voru nokkrir skólakrakkar, sennilega heill 10. bekkur sem mætti bara með kókglös og snakk og voru frekar óróleg og hentu meira að segja einhverju pappírsdrasli í hausinn á mér. Við fluttum okkur fram á fimmta bekk eftir hlé og það var miklu betra. Hljómaði líka betur. Svo fannst mér reyndar aukalag píanistans furðu ómerkilegt, sem sagt Mazurka eftir Chopin, sem var frekar óáugaverður eftir allan þennan Shostakovits.
En það var mikill munur að fara á tónleika hérna miðað við úti. Maður þekkti annan hvern mann í kvöld en úti, alveg sérstaklega í Stokkhólmi, var maður yfirleitt alveg aleinn og ráfaði um eins og illa gerður hlutur í hléinu.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Það er búið að gera þetta líka fína plakat fyrir tónleikana. Nú er um að gera að fara að verða sér úti um miða. Það er hægt að fá þá ódýrari í gegnum kórfélaga og mig náttúrlega. Þetta er farið að hljóma mjög vel. Ég gat rennt Mozart nánast öllum í gegn í gærkvöldi og unnið heilmikið með smáatriði og hljóminn. Haydn er svo miklu auðveldari fyrir kórinn en afar viðkvæmur. Mér finnst eiginlega skemmtilegast hvað kórfélagar eru hrifnir af verkunum. Enginn þekkti þau áður. Svo eru í gangi viðræður við RÚV um að taka upp tónleikana. Þeir hafa sýnt mikinn áhuga. Vonandi sé ég ykkur sem flest á pálmasunnudag eða þriðjudagskvöldið 11 april.

laugardagur, mars 11, 2006


Ísak er allt í einu farinn að vilja að vera á maganum. Við höfum látið hann liggja þannig á hverjum degi frá fæðingu en allt í einu finnst honum gaman að því. Um daginn velti hann sér af maganum yfir á bakið og í morgun lá hann á gólfinu og var búinn að velta sér á hliðina. Við fórum á foreldramorgun til Jóhönnu í Áskirkju og þar var kona frá bókasafninu með kynningu. Hún vildi meina að maður ætti að lesa fyrir börnin sem allra fyrst. Ég hélt að Ísak væri of ungur fyrir það en prófaði að lesa fyrir hann Smábarnabíbluna sem mamma gaf honum í skírnargjöf og hann fylgdist vel með. Sömuleiðis fékk ég samviskubit af því að hafa ekki gert æfingar með honum eins og ég hafði lesið að maður ætti að gera í bók um barnauppeldi sem ég las í haust. Þannig að ég lét hann á gólfið, fletti upp á staðnum í bókinni en mér til mikillar undrunar þá hafði ég gert þetta allt með honum. Þarna stóð til að mynda að maður eigi að ýta fótunum upp að bringu og það hef ég gert lengi, lengi enda finnst honum það svo gaman. Það á að láta vafið handklæði undir bringuna þegar þau liggja á maganum þ.a. þau neyðist til að lyfta hausnum en hann hefur eiginlega haldið haus nánast frá fæðingu því hann var svo órólegur og alltaf að leyta að brjóstinu. Það á að toga í hendurnar þegar þau liggja og lyfta þeim þannig upp til að styrkja hausinn og það höfum við líka gert. Ég veit ekki hvort að þetta greiptist svona inn í undirmeðvitundina þegar ég las þetta í haust eða hvort við fengum einhverja vitrun í kringum fæðinguna.

sunnudagur, mars 05, 2006

Kórinn var með árshátið í gær og það var bara mjög gaman. Það er langt síðan við Hrafnhildur höfum fengið að sitja saman í svona veislu. Í Svíþjóð var alltaf séð til þess að pör fengju ekki að sitja saman. En við lentum á mjög skemmtilegu borði, maturinn var mjög góður og skemmtileg skemmtiatriði, þar á meðal saminn söngtexti um mig með tilvitnunum í kommentin mín á æfingum og meira að segja fjallað um Skrám.
Það er nú af sem áður var að maður skemmti sér langt fram eftir nóttu. Við kunnum ekki við annað en að koma okkur heim skömmu eftir miðnætti. Afinn og amman pössuðu Ísak og það gekk mjög vel, þurfti ekkert að hafa fyrir honum. Hins vegar er hann aftur dottinn inn í tveggja tíma rútínuna á nóttunni. Hann þarf að fara í átak aftur. Hin amma hans er svo í óvissuferð með Eimskip og í þetta skiptið lentu þau í Montreal.
Við ætlum svo að skoða íbúðina okkar í Mosarima í dag. Ég hef áhyggjur af því að ég sjái hana fyrir mér í dýrðarljóma og verði svo fyrir vonbrigðum í dag því við höfum bara séð hana einu sinni.

föstudagur, mars 03, 2006

Skrámur ekki búinn að vera lengi á landinu og þá er hann bara kominn í blöðin. Hann nýtur athyglinnar.

sunnudagur, febrúar 26, 2006


Ég held að Ísak viti hvað hann getur verið sætur. Oft þegar maður horfir á hann fer hann að skælbrosa, lyftir öxlum og horfir feiminn í burtu, eins og hann hafi verið þjálfaður fyrir ameríska bíómynd.

laugardagur, febrúar 25, 2006

Nemendur mínir voru að spila á tónleikum í dag, 17 af 22. Stóðu sig öll mjög vel enda hafði ég valið tónleikalag fyrir nokkrum vikum og þau voru flest öll búin að ná því utanbókar í síðustu viku. Ég ætla ekki að velja lag svona snemma hjá þeim yngstu fyrir næstu tónleika. Einn átta ára hvíslaði að mér þegar ég var að stilla píanóstólinn: "Ég er kvíðinn." Hann vildi endilega hafa nóturnar fyrir framan sig þótt hann kynni lagið utan að. En svo spilaði hann voða vel. Á fyrstu tónleikunum í haust mætti hann en þorði ekki að spila þ.a. ég var feginn að hann dreif í þessu núna.

Við erum að fara í útskrift til Hjalta mágs míns, sagnfræðings. Hann er reyndar í masternámi núna og átti að útskrifast með BA gráðuna í haust en fékk þá að vita að hann vantaði einn kúrs upp á sem var kenndur þegar hann var úti í Noregi. Það var búið að segja við hann að hann þyrfti ekki að taka hann og fékk undanþágu en kerfið myndi ekki ná að afgreiða þetta fyrir útskrift og því varð hann að bíða þangað til núna. En í gær fór hann spyrjast fyrir niðri í Háskóla og kom þá í ljós að hann útskrifaðist eftir allt í haust en það gleymdist bara að láta hann vita. Hann mætti því ekki í sjálfa athöfnina í dag enda ekkert skírteini til að taka á móti.

Svo er Jóna hans Gunnars á spítala í rannsóknum. Hún er búin að vera mjög andstutt síðustu vikurnar. Við vonum bara að þetta fari allt á besta veg.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Ísak er allt í einu farinn að teygja sig eftir hlutum og svo tók hann upp á því í gær að hlæja upphátt. Við höfðum heyrt eitt og eitt skrík í síðustu viku sem var óljóst hvort væri hlátur eða ekki en það fór ekkert á milli mála í gær. Í morgun vorum við tveir á teppinu frammi í stofu að leika okkur. Mig langaði að hlusta á H-moll messuna eftir Bach (einnig til að leyfa honum að kynnast almennilegri tónlist) og hann varð alveg heillaður,gapti og starði út í loftið og fór svo að berjast við svefninn og sofnaði eftir bara nokkrar mínútur. Þá var hann eiginlega bara nývaknaður eftir langan nætursvefn.

Það er dálítið skrítið að blogga þegar maður er fluttur heim til Íslands. Í Svíþjóð gat maður eiginlega skrifað hvað sem er þar sem ég vissi að enginn Svíi las eða gat skilið síðuna. En nú þarf ég allt í einu að passa mig á því hvað ég skrifa. Það lesa þetta líka fleiri en ég gerði ráð fyrir. Það er náttúrlega bara hið besta mál og ég hvet fólk til að vera ekki ófeimið við að "kommenta". Mér finnst eins og það séu færri sem gera það eftir að ég skipti um kommentakerfi.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006


Við skrifuðum undir kaupsamninginn í gær. Íbúðin er dyrnar til hægri undirstiganum á myndinni. Seljendurnir eru búnir að finna annað hús og ætla skrifa undir kaupsamninginn í næstu viku. Þau fá afhent 1.apríl þannig að það er sjéns að við fáum að flytja inn eitthvað fyrr en 1.maí. En þau ætla bæði að dytta að ýmsu í Mosarima sem og í nýju íbúðinni og svo er maðurinn voða mikið á ferðalagi í útlöndum í mars og apríl. Það var bæði gaman en jafnframt ógnvekjandi að vera með þrjár komma fjórar milljónir á debetkortinu í rúman sólarhring. Ég var voða mikið að reyna að vera eðlilegur þegar ég gekk um með veskið í vasanum, ekki eins og ég væri hræddur um að því væri stolið.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Níu ára guttinn sem hafði samið tvö lög (hvort um sig fjórir taktar) fyrir tímann á föstudaginn kom í tíma til mín í dag og sagði: Sko, Magnús. Ég gat ekki samið neitt lag fyrir tímann í dag. Ég var búinn að nota allar hugmyndir mínar í hin tvö lögin.

sunnudagur, febrúar 19, 2006


Þetta var alveg æðislegur dagur. Skírnin var svo yndisleg og einlæg, alveg eins og ég hafði gert ráð fyrir. Ísak lét smá í sér heyra en heillaðist svo að orðum prestsins og sofnaði undir söng afa síns.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Kaupsamingurinn verður undirritaður á miðvikudaginn. Þetta er búið að taka voða tíma allt saman og það verður gott að vera búinn að þessu. Ég er ábyggilega ekki heilbrigður því mér hefur þótt ágætlega gaman að því að standa í þessu lánaveseni. Mér féllust hendur þegar ég byrjaði því það var úr svo mörgum möguleikum að velja en ég held að þessi samsetning sem við enduðum á sé sú hagstæðasta.

Nú er lífið okkar fjölskyldunnar að komast í aðeins fastara form. Ísak vaknar yfirleitt bara tvisvar á nóttu til að drekka. Við skiptum nóttunum á milli okkar því það þarf ansi oft að stinga snuðinu upp í hann. Maður stendur oft í því á korters fresti þangað til það dugar ekki lengur og hann verður að drekka.

Hann dáir ömmur sínar og skælbrosir ef þær koma nálægt honum. En hann virðist bera mikla virðingu fyrir afa sínum því hann virðir hann mjög alvarlega fyrir sig jafnvel þótt afinn hoppar og skoppar fyrir framan hann. Það var rétt sem margir hafa sagt við okkur að við erum að fara gleyma hvað þessar fyrstu vikur voru rosalega erfiðar. Það fór í taugarnar á mér (eins og mjög mörgum öðrum foreldrum) þegar fólk sér okkur með nýfætt barn og spyr: "Er þetta ekki yndislegt?" Ég átti það til að svara (sérstaklega þegar ég var nær ósofinn): "Bæði og."

Ég hef verið að fylgjast með ýmsum íslenskum kórstjórum og verð stundum alveg gáttaður á því hvað kórinn syngur vel miðað við hvað kórstjórinn stjórnar skringilega. Ég held að kennarar mínir í Svíþjóð hefðu ýmislegt að segja við marga af þekktustu kórstjórunum.
Ísak verður skírður á morgun. Athöfnin verður heima hjá mömmu á Sólvallagötu og það verður bara nánasta fjölskylda. Samt verðum við ca. 18 manns. Hefðum við boðið foreldrasystkinum líka þá hefði þetta strax orðið 50 manns. En sonur minn verður í skírnarkjól sem var saumaður úr brúðarslöri mömmu og við systkinin vorum öll skírð í. Svo verður notuð skírnarskál sem nánast allir í föðurfjölskyldu minni voru skírðir upp úr (þ.á.m. við systkinin). Svo verður hann með nælu sem var næld í Ernu ömmu Hrafnhildar þegar hún gekk út úr kirkjunni eftir hjónavígsluna sína. Ég og Indra ætlum að spila Litfríð og ljóshærð eftir Emil Thoroddsen (Gunnar Emil heitir í höfuðið á honum) og sunginn verður sálmurinn Guð leiði þig eftir Jórunni Viðar og bæði lögin voru flutt við jarðarför ömmu Elísarbetar. Halldór ætlar að syngja lagið Unu sem við spiluðum oft fyrir Ísak þegar við vorum úti í Svíþjóð. Halldór sendi mér upptöku af því með Út í vorið kvöldið sem hann fæddist. Svo verður séra Jón Helgi prestur og hann jarðsöng bæði pabba og ömmu Jónu. Þannig að þetta verður allt morandi í hefðum.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Ég held ég myndi ekki vilja vera tónlistarkennari til frambúðar. Mér finnst þetta ágætt eins og er, sérstaklega af því að ég veit ég mun bara gera þetta fram á vor. Stundum dugir ekki tíminn fyrir nemandann og stundum er ég í vandræðum með að halda sumum í fullar 30 mínútur, sérstaklega sjö og átta ára krökkunum. Maður má helst ekki hleypa þeim fyrr úr tímanum því þá gætu foreldrarnir kvartað og heimtað afslátt (það hefur víst gerst). En það er voða gaman þegar maður nær vel til þeirra.
Ég er með eina gelgju sem finnst allt ómögulegt og fannst "geht hallærislegt" að þurfa að spila utanbókar á tónleikunum og skildi ómögulega afhverju þess þurfti. Svo er hún að æfa Tyrkneska marsinn eftir Mozart og var búin að læra hann utanbókar að eigin frumkvæði og þá gat ég stoltur bent henni að hún hafði fundið sjálf hjá sér þörf til þess læra þetta utanað. Ég hef líka sagt sumum nemendum að semja lag og nota niðurlagshljóma sem þau kunna sem undirspil. Það kemur angistarsvipur hjá nánast öllum þegar ég minnist á þetta fyrst en svo hefur gengið mjög vel. Einn 9 ára gutti tók sig til og samdi tvö lög á nokkrum dögum (yfirleitt eru þetta bara nokkrir taktar) en hann hafði skrifað þau niður á blað og fékk pabba sinn til að hanna fyrir sig nótnablað. Hann sat líka límdur einn morguninn við tónsmíðarnar og mamma hans ætlaði aldrei að geta slitið hann frá píanóinu til að fara í skólann. Vinur hans var að æfa lag sem heitir Boogie og páfagaukurinn hans fílaði það svo vel að hann fór alltaf að dansa með á ákveðnum stað í laginu.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Það sem ég var dálítið óöruggur með þegar ég byrjaði með Fílharmóníuna var það að vinna með píanista. Ég hef sjaldan gert það. En svo kom þetta bara af sjálfu sér. Hún Gurrý er náttúrlega alveg hörkufínn píanisti og les nótur eins og ég veit ekki hvað. Nú er hún í Bandaríkjunum í tvær vikur og þá fannst mér allt í einu skrítið að vera ekki með píanista á æfingu. En æfingin gekk mjög vel nema hvað að kórinn átti það til að falla þegar ég lét hann syngja undirleikslaust.
Fór svo að sjá Öskubusku í óperunni í gær og var bara ánægður með það. Skemmtileg uppfærsla. Fór stundum yfir strikið í að fiska eftir hlátri, sérstaklega Beggi, og það fór í taugarnar á mér og stundum voru menn ekki alveg samtaka, sérstaklega Garðar Thór sem virtist vilja hafa hraðara tempó en Kurt.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ég fór á tónleika hjá Jónasi í Salnum í gær og þeir voru æðislega flottir. Mjög metnaðarfullt og flott prógram (ekki oft sem maður getur sagt það um tenóra) sem hann söng mjög vel, allt utanbókar, meira að segja þó nokkur lög á rússnesku. Hann er orðinn barasta virkilega góður, með mjög flotta tækni og hefur ekkert fyrir háu tónunum en nú var hann með svo flotta túlkun líka og öruggari sviðframkomu. Ég fór bak við til að þakka honum fyrir og talaði við Jónas Ingimundar líka og reyndi að þakka honum fyrir píanóleikinn en hann gerði eins og vanalega og svaraði alltaf hvað strákurinn væri með fína rödd. Svo sátum við heima hjá Hjálmari um kvöldið og skiptumst á slúðri fram til tvö í nótt. Svo er það óperan í kvöld.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Ég er orðinn þrítugur en samt er skólastjórinn að koma inn til manns með skilaboðin: Magnús á að hringja í mömmu sína.
Maður vex víst aldrei upp. Gunnar bróðir var einu sinni úti í körfubolta þegar hann var 18 ára. Þegar spurt var eftir honum í símann heyrði ég Mömmu segja að hann væri "úti að leika sér".

Ég er að hugsa um að kýla á þetta með drengjakórinn. Þeim virðist vera alveg full alvara með þessu. Ég er jafnvel að spá í að skreppa til Gautaborgar og kannski Uppsala í nokkra daga í vor og sjá hvernig þeir gera þetta í dómkirkjunum þar.

Ég varð vitni að stórtíðindum í sjónvarpssögunni. Oprah kom í þáttinn til Letterman. Hann er búinn að tala um þetta í nokkur ár og gert heilmikið úr þessu alltaf en hún hefur ekki viljað tala við hann af einhverjum ástæðum. En svo mætti hún og það var meira að segja leikið á pákur þegar hún gekk inn. Við fylgdumst alltaf með David úti í Svíþjóð, hann er langskemmtilegastur af þessum þremur spjallþáttagæjum. Svo er svo leiðinlegt að hann sé ekki sýndur hérna heima en við náum að sjá hann nú á norska sjónvarpinu. Tengdaforeldrarnir voru að fá sér evrópska pakkann hjá Skjánum.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Kóræfingar ganga alltaf betur og betur og kórinn var í hörkustuði á mánudagskvöldið, enda var vel mætt í allar raddir og hljómurinn lofar góðu. Nú er búið að ganga frá öllum einsöngvurum. Það verða sem sagt Hulda Björk, Nanna María, Jónas og Davíð Ólafs. Svo ætlum við að fara að ganga í að redda hljóðfæraleikurum um helgina.

Einn af mínum veikleikum er að ég er afskaplega óduglegur við að koma mér á framfæri. Það gerist oft að ég fæ hlutina upp í hendurnar á mér og þegar ég reyni að gera eitthvað í málunum mistekst það oftast. Ég hefði til að mynda átt að vera búinn að hringja í alla organista og umsjónarmenn jarðarfarahópa og minnt á mig en þetta hefur bara gerst af sjálfu sér. Ég hef haft mátulega mikið að gera í messuspili og jarðarfararsöng. Þetta vindur svona upp á sig. Ég sótti vissulega um þetta kennarastarf en var búinn að gefa það upp á bátinn þegar allt í einu var hringt í mig og boðin vinna. Ég hafði ekki hugmynd um að Fílharmónían vantaði kórstjóra og hefði ekki sótt um nema af því að fulltrúar hennar komu að máli við mig og bentu mér á að sækja um. Og núna á föstudaginn ætla ég að hitta Jónana í Langholti því þeir vilja að ég komi á fót og stjórni drengjakór þar. Ég veit að þeir eru búnir að pæla í þessu lengi og Jónsi minntist á þetta við mig fyrir rúmu ári en ég vissi ekki hversu mikil alvara lá að baki því þá. Þetta er eitthvað sem getur verið rosalega gaman og ánægjulegt ef vel tekst til en ég veit líka að þetta getur verið alveg rosalega mikil vinna og orkuþjófur. Ég ætla að athuga málið.
Það hefur ekki gefist neinn tími til að blogga undanfarið. En við erum sem sagt búin að finna íbúð við Mosarima sem er á fyrstu hæð með smá verönd, ljós og skemmtileg. Tilboðsleikurinn tók tæpa viku og við enduðum nær okkar hugmyndum um verð og nær dagsetningunni þeirra, þ.e. við fáum hana ekki fyrr en fyrsta maí... súkk! En þetta verður fljótt að líða. Verst finnst mér að hafa allt dótið í kössum niðri í skúr. Annað lánið gekk í gegn í dag og hitt verður sennilega komið eftir viku. Ég geri ráð fyrir að kaupsamningurinn verði eftir eina og hálfa viku, ekki það að það liggi eitthvað á.

mánudagur, janúar 30, 2006

Sætust í heimi


Ísak er farinn að kúra sig í hálsi Hrafnhildar.... hafiði séð nokkuð eins sætt. Hann er með uppáhaldsstellingar hjá hverjum og einum. Ég þarf helst að vera með hann á öxlinni minni. Halldór er sá eini sem getur látið hann liggja á bakinu í fangi sér og Dísa lætur hann liggja á maganum á maganum sínum Við ætlum nú að reyna að lengja tímann á milli gjafa á nóttunni. Það hefur gengið ágætlega að degi til, stundum fer það upp í fjóra tíma, en hann drekkur alltaf á tveggja tíma fresti á nóttunni.

Kóræfingar ganga vel. Ég hef reyndar aldrei komist yfir allt það sem ég hef ætlað mér fyrir hverja æfingu en ég er viss um að þetta verða glæsilegir tónleikar. Það er góð stemning á æfingum og stjórnin var að tala um að mætingar hefðu verið extra góðar. Það er búið að bætast smátt og smátt af fólki og má segja að það sé orðið "uppselt" í allar raddir. Nú er bara að vona að það verði uppselt á tónleikana líka. Þeir verða sem sagt á Pálmasunnudag(10 apríl) og þriðjudeginum eftir það. Allir að mæta. Tvö mjög góð og ólík verk sem hafa að öllum líkindum aldrei verið flutt áður.

Kauptilboðsleikurinn

Þau höfnuðu tilboðinu okkar. Vildu fá meira fyrir íbúðina, taka lánið með sér og það sem versta var, ekki afhenda fyrr en eftir fjóra mánuði. Ég gerði annað tilboð í dag, nokkur hundruð þúsund hærra og afhending 1 apríl. En ég lét fasteignasalann vita að við teygjum okkur ekki lengra hvað varðar verð og tímasetningu.

sunnudagur, janúar 29, 2006


Ísak er búinn að vera afslappaður og rólegri fyrir það mesta. Hann skælbrosir ansi oft til okkar, sérstaklega þegar hann nær augnsambandi við mig á skiptiborðinu. Hrafnhildur er búin að vera á kúarafurðalausu mataræði og ég held að það sé að skila árangri.

Ég er alveg gáttaður á þessari umferðarmenningu. Það er alltaf einhver gaur sem keyrir á fullu um íbúðargötur, fólk dreifir sér yfir akreinarnar þ.a. það er ekki hægt að taka fram úr nema með því að sikksakka og svo er ég oft sá eini sem hleypi fólk inn í röðina, en þá treður sér alltaf næsti bíll á eftir inn í röðina. Ótrúleg frekja.

föstudagur, janúar 27, 2006

ÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍ!!!!!!!!!!!!!!!!

Ég fór í morgun á fasteignasölu og gerði tilboð í íbúð. Það stendur fram til klukkan 11 á mánudaginn. Við ætluðum að gera tilboð í gær í sérhæð við Langholtsveg en fréttum svo á miðvikudagskvöldið að hún hefði allt í einu selst. Hún hafði verið í sölu síðan í nóvember og ekkert tilboð komið.

Þessi er í Mosarima og var sett á sölu í fyrradag. Við erum reyndar ekkert hyperánægð með staðsetninguna, þetta er eins og að keyra upp í Mosó en íbúðin er voða hugguleg, á jarðhæð með sérgarði/palli og mjög stutt í leikskóla og skóla. Svo er þetta byggt '94 þannig að maður þarf líklega ekki að standa í miklum eða neinum viðgerðum sjálfur næstu árin.

laugardagur, janúar 21, 2006

Habbidu og fjölskylda er fyrir norðan þ.a. ég er einn í íbúðinni. Merkilegt nokk finnst mér alltaf erfiðara að sofna þegar ég er einn. Ég lá í tvo tíma í nótt án þess að sofna. Ég náði í geislaspilara og hlustaði á Graduale Nobile diskinn og þegar hann var búinn hlustaði ég á upptöku úr síðustu messunni minni í Svíþjóð. Bassinn í vokalensamblinu mínu hafði tekið hana upp og sendi mér geisladisk. Það var mjög gaman að hlusta á þetta og æðislegt að eiga þessa minningu. Þetta er sem sagt bara tónlistin en kveðjuræða prestsins og mín eru með þarna. Ég heyrði ýmislegt á upptökunni sem ég hafði ekki tekið eftir í messunni þar sem ég söng með sjálfur í sönghópnum. Maður á helst ekki að syngja með þegar maður er að stjórna. Maður heyrir ekki eins vel þá. Ég náði svo ekki að sofna fyrr en rúmlega 3 í nótt þegar ég setti The Real Group á geislann.

Draumaíbúðin okkar á Langholtsvegi er of mikil áhætta fyrir okkur. Við fengum Halla bróður Ólu til að kíkja á hana með okkur að degi til og honum leist ekkert á húsið. Þetta er sem sagt forskalað timburhús (þ.e. timburhús klætt með steypu) sem er að hans mati vitlausasta hugmynd íslenskrar byggingarsögu. Við hittum líka gamla karlinn sem býr á efri hæðinni sem er smiður og hann sagði að húsið þarfnaðist stöðugrar viðgerðar, þyrfti til að mynda að mála á fjögurra ára fresti. Íbúðin var annars fullkomin að öðru leyti nema það vantaði geymslu. Þetta var sérhæð með með stórum og fallegum garði á mjög góðum stað. En ég nenni bara ekki að standa í viðgerðum á hverju sumri og þurfa alltaf að safna fyrir þeirri næstu.

Við Mamma fórum að sjá Eldhús eftir máli í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Mjög skemmtileg og góð sýning með skemmtilegri tónlist eftir Bjössa Thorarensen. Ég held það hafi verið ca. 80% konur í áhorfendahópnum.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Nei, ég er búinn að gefast upp á íslenskum húmor. Ég hef séð hluta af tveimur þáttum af Stelpunum og skil ekki hvað mörg atriðin eru ófyndin og tilgangslaus. Ég sá líka eitthvað úr Svínasúpunni hér um árið og það var alveg sama sagan þar. Ég held að Óskar Jónasson sé búinn að tapa neistanum. Svo fannst mér hálf sorglegt að sjá hann sem Skara skrípó að auglýsa nýtt tryggingafélag í fréttunum. Fyrir utan eitt og eitt atriði var Skaupið líka frekar slappt og þegar ég horfði á Spaugstofuna á laugardaginn var þá... jú, ætli ég hafi ekki brosað tvisvar. Ég ætti náttúrlega ekkert að vera að hanga yfir sjónvarpinu en Ísak krefst þess bara svo oft að maður haldi á honum og gangi um gólf og þá getur maður lítið gert annað. Kannski maður neyðist til að halda uppi samræðum við fólk.

Kóræfingar ganga ágætlega. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir aðeins hraðari yfirferð en þetta á eftir að verða fínt. Það tínist inn nýtt fólk við og við sem er mjög gott en ég hef aldrei hitt allan sópraninn í einu. Þær eiga að vera 16 og ég hef á þessum þremur æfingum aldrei séð fleiri en 10 samanlagt. Það þarf að taka þetta föstum tökum.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Ég var búinn að skrifa voða fínt blogg um daginn, m.a. um fyrstu kóræfinguna og svoleiðis en ég gat aldrei birt hana. Það kom alltaf upp einhver tæknileg villa. En það var önnur æfing í gærkvöldi og hún gekk barasta svona líka vel. Það mættu reyndar bara tveir tenórar af 6 þ.a. ég bað fólk að vera með allar klær úti í leit að þessum sjaldgæfu fyrirbærum. Ég er allavega búinn að klófesta einn, þ.e. Gunnar bróður. Svo ætla ég að prufa að hringja í a.m.k. tvo í viðbót.

Ég fór með Ísak í höfuðbeina og spjald... eitthvað dæmi í gær. Ef það hefðu ekki allir verið búnir að tala um hvað þetta væri gott fyrir krakkana þá hefði ég jafnvel gengið út úr miðjum tímanum. En ég er ekki frá því að honum líði betur nú þegar í dag en það var sagt að það tæki hann kannski tvo daga að losna við alla spennu. Fyrir þá sem ekki vita er þetta einhvers konar heilunarnudd, maður á að tala voða mikið við barnið og segja því að þessi erfiða fæðing gerist bara einu sinni. Og fyrst að naflastrengurinn var tvívafinn um hálsinn á honum þá hélt nuddarinn kyrkingartaki um hann til að minna hann á þá lífsreynslu og það á að losa um þá spennu.