sunnudagur, ágúst 21, 2005

Nú er búið að laga allt sem var að... nema netið. Síminn var sem sagt tengdur á fimmtudaginn en við komumst ekki á netið og þegar ég hringdi á föstudaginn var mér sagt að ég hafi aldrei pantað flutning á netinu. Ég þrætti á móti því ég hringdi í byrjun ágúst en þá kom í ljós að ég þurfti að láta vita hvenær síminn yrði tengdur. Þannig að nú þurfum við að bíða í allt að níu daga eftir netinu. Hrafnhildur er hálf feimin við að hanga í tölvunni í einkaerindum í vinnunni sinni því yfirmennirnir eru alltaf að vara við því að það sé fylgst með þeim og því hefur hún ekkert bloggað síðan við komum aftur út. Ég hika hins vegar ekkert við það að fullnægja mínum internetsþörfum. Um daginn kom ég í vinnuna og hékk lengi lengi á netinu en sá svo pappíra sem ég þurfti að fylla út og senda og akkúrat sem ég var að gera þetta kom sóknarpresturinn inn og sagði: "Það er alltaf sama dugnaðarlyktin inni hjá þér." Ég lét náttúrlega eins og ég hefði ekki gert neitt annað allan morguninn.
Í morgun var guðsþjónusta við höfnina fyrir alla fimm söfnuðina í bænum, þ.e. Sænsku þjóðkirkjuna, Hjálpræðisherinn, Hvítasunnusöfnuðinn og tvær fríkirkjur. Þetta hefur verið gert einn sunnudag á sumrin síðustu 10 ár en menn flaska alltaf á því að skipuleggja þetta almennilega en svo reddast þetta alltaf einhvern veginn. Ég var alla vega beðinn um að sjá um tónlistina og stjórna sameiginlegum kór og það gekk reyndar mjög vel.

Maginn á Hrafnhildi stækkar með hverjum degi og þegar ég sá hana í gær gáttaði ég mig á því hvernig hún héldi eiginlega jafnvægi því þetta leggst bara framan á hana. Að öðru leyti er hún algjörlega óbreytt útlitslega séð, þ.e. alltaf jafn sæt! Við eigum von á mjög fjörugu barni því það spriklar alveg svakalega mikið. Við förum til ljósmóðurinnar á þriðjudaginn og svo verða settar inn óléttumyndir um leið og netið verður tengt.

Allir að syngja afmælissönginn fyrir Indru í dag!

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Allt að smella saman

Húsvörðurinn kom um daginn og reddaði okkur geymslu, loksins. Það eru búnir að vera kassar út um allt því það vantar náttúrlega líka hyllur í skápana. Svo kom rafvirkinn og ætlar laga veggina þannig að það verði hægt að setja loftljós. Ég skil ekki enn hvernig hægt er að veggfóðra yfir rafmagnsúttak. Píparinn kom í morgun og gerði við blöndunartækið inni á baði þannig að það frussast ekki vatn út um allt þegar maður lætur renna í bað. Síminn verður loksins tengdur hjá okkur á fimmtudaginn eftir sex vikna bið og Ingibjörg ætlar að taka yfir saminginn okkar í byrjun september. Ég ætla sko aldeilis að láta þá finna fyrir því og krefjast bóta fyrir útlagðan kostnað og láta þá endurgreiða okkur internetáskriftina fyrir þann tíma sem við vorum símalaus. Ég hringdi í fyrrum bíleigandann sem ætlar að selja mér vetrardekk og sagði mér svo að setja strokleður í útvarpið og nú virkar það bara svona líka vel. Ég er mjög forvitinn að hitta þetta fólk. Ég skil ekki hvernig er hægt að fara svona með einn bíl. Ég tékkaði á olíunni í morgun og sá að það þurfti að bæta á en sem ég var að loka sá ég einhvern brúsa sem lá við hliðinni á vélinni og reyndist það vera olíubrúsi með töluvert af olíu í. MÁ ÞETTA? Er þetta ekkert hættulegt? Það virðist líka vera búið að laga Skrám því síðustu tvö skiptin sem hann hefur verið í pössun hefur hann fundið sig strax á nýja staðnum og þegar hann kemur aftur heim. Hann hefur verið hjá einni konu í kórnum hjá mér sem sér svo vel um hann og hann er orðinn hluti af fjölskyldunni hennar.

Við vorum annars að koma frá Gotlandi þar sem við vorum í alveg rosalega skemmtilegu brúðkaupi. Við þekktum ansi fáa og svo þurfti endilega að blanda fólki sem mest þannig að við hjónin fengum ekki að sitja saman. En við skemmtum okkur alveg konunglega og hlógum stundum svo mikið að það verkjaði í kjálkana. Ég get hiklaust mælt með Gotlandi því þar er mjög fallegt og Gotlendingar eru mjög skemmtilegir.

Tónlistarhópurinn Katla hélt tónleika í kirkjunni á fimmtudaginn var sem heppnuðust þrusuvel og fólk var mjög ánægt. Það er nú heldur ekki leiðinlegt að æfa með þessum stelpum (Ingibjörgu og Svövu) og þegar ég keyrði heim eftir eina æfinguna þá hlustaði ég á stand-up með Seinfeld en var gjörsamlega úthleginn og með harðsperrur í magavöðvunum.

Halldór og Dísa fóru heim þar síðustu helgi og það var mjög gaman að hafa þau. Það var reyndar synd hvað við þurftum að vinna mikið og vorum ekki búin að koma okkur almennilega fyrir í íbúðinni auk þess sem við þurftum að eyða töluverðum tíma í símanum til að nöldra yfir hlutum sem ekki voru komnir í lag.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Sumartónleikaröðin

Í gærkvöldi kom Harmonikkuleikari til að spila á sumartónleikaröðinni í kirkjunni og hann var svaka flottur. Ég hef aldrei séð neinn spila á svona takkaharmonikku. Ég var að reyna að sjá hvernig þetta virkaði allt saman. Ég sá þó að hann notaði hökuna til að breyta um raddval í miðjum lögum. Hann spilaði t.a.m. einn konsert úr Árstíðunum eftir Vivaldi, Toccata og fúga í d-moll eftir Bach, ABCD tilbrigðin eftir Mozart og rússneska sónötu. Það mætti fullt af fólki, meðal annars keyrðu nokkrir harmonikkuunnendur mörg hundruð kílómetra bara til að hlusta á hann. Tónleikaröðin hefur verið vel sótt að undanförnu, mun betur en í fyrra og allir eru ánægðir, sérstaklega ég sem skipulagði sko allt saman!

Við erum ekki enn komin með heimasíma og þar af leiðandi ekki internet. Ég er orðinn foxillur út í símafyrirtækið og ennþá reiðari þegar ég frétti að við erum bundin hjá því fram til mars 2007 og getum því ekki skipt um fyrirtæki nema borga þeim mánaðargjaldið það sem eftir lifir samningstímans!!! Ég skil ekki hvernig í ósköpunum stendur á því og er búinn að krefjast þess að þeir sýni mér annað hvort undirskrift mína eða hljóðupptöku þar sem ég samþykki 24 mánaða samningstíma. Ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki getað flutt símann er að það hefur ekki verið neitt símanúmer í nýju íbúðinni í langan tíma. Ég hef hringt í þá sjö sinnum til að skilja eftir alls konar upplýsingar, meðal annars hvaða símanúmer nágrannar mínir hafa en það hefur samt ekkert gerst og nú erum liðnar sex símalausar vikur. Það sem gerir ill verra er að ég hef þurft að hringja úr gemsanum, bíða í minnst 20 mínútur og lendi svo alltaf á nýju fólki sem þarf alltaf lengri tíma til að lesa upplýsingarnar um okkar af tölvuskjánum.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Skiptilykill á sænsku

Ég og tengdapabbi höfum verið voða duglegir að hengja upp myndir, gardínustangir og svoleiðis, tengdum meira að segja þvottvélina en gátum ekki tengt vatnið því ég átti ekki nógu stóran skiptilykil. Þannig að ég fór í dag í leiðangur úr vinnunni. Og þó svo ég hafi búið nokkur ár í Svíþjóð og tala bara ágætis sænsku að mér finnst þá hef ég hingað til ekki þurft að vita hvað skiptilykill heitir á sænsku. En ég vogaði mér í búðina:
"Mig vantar verkfæri sem er nokkurn veginn svona í laginu, notað til að skrúfa, eða ekki beint að skrúfa en svona til að herða eða losa.... ef ég segi "växelnyckel", hringir það einhverjum bjöllum? Ekki það nei. Þetta er alla vega svona færanlegt og maður notar þetta á svona sexhyrningslaga kringlótt stykki sem gæti jafnvel heitið "ro"... (nú kom mjög skrítinn svipur á afgreiðslumanninn) og þegar maður notar verkfærið þá hreyfir maður það svona... nei, ekki hamar..."
Ég gafst upp og þræddi alla búðina (á meðan starfmaðurinn sagði kollegum sínum frá mér) og fann sjálfur að lokum og sá að það heitir einfaldlega "skiftnyckel".