fimmtudagur, nóvember 20, 2008
Styrktartónleikar
Fram koma Flensborgarkórinn, Kór Flensborgarskólans, Hljómeyki, Söngsveitin Fílharmónía, Kór Öldutúnsskóla, Kvennakór Öldutúnsskóla og Karlakórinn Þrestir.
Miðaverð: 2000 kr.
Forsala miða í Súfistanum Hafnarfirði og Súfistanum Reykjavík (IÐU-húsinu)
Ef fólk kemst ekki á tónleikana er því velkomið að leggja inn á söfnunarreikninginn
Rn 1158-26-1084
Kt.271084-2509
miðvikudagur, nóvember 19, 2008
föstudagur, nóvember 14, 2008
JÓNSKVÖLD í Iðnó
Ótrúlegt en satt; flutt verða sjö lög eftir hann sem aldrei hafa heyrst opinberlega og að auki nokkur af hans ógleymanlegu lögum og útsetningum. Einnig gefst tónleikagestum færi á að taka undir í frábærum keðjusöngvum hans. Á efnisskrá eru útsetningar og kórlög eftir Jón Ásgeirsson,
m.a. verða frumflutt 3 lög hans við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur.
Heiðursgestir verða Jón Ásgeirsson og Vilborg Dagbjartsdóttir.
Aðgangseyrir kr. 1.500, stúdentar við Háskóla Íslands: kr. 500.-
Kaffihúsastemning við kertaljós og kórsöng!
Flytjendur:
Kvennakór við Háskóla Íslands, stjórnandi Margrét Bóasdóttir, Píanó Sólveig Anna Jónsdóttir.
Hljómeyki, stjórnandi Magnús Ragnarsson.
mánudagur, nóvember 03, 2008
Mikið er nú gott að þessi helgi sé liðin
Mesta stressið var í kringum orgeltónleikana. Þó svo ég hafi leikið á orgel á ýmsum tónleikum undanfarin misseri þá hef ég ekki haldið heila orgeltónleika frá því ég starfaði í Nynäshamn. Svo er það böl organistans að maður getur ekki æft sig hvenær sem er á það hljóðfæri sem maður ætlar að leika á. En tónleikarnir gengu vel. Ég varð dálítið kaldur í höndunum í fyrstu verkunum og gerði nokkur mistök sem ég var alls ekki vanur að gera. Það hefur verið stressið. En svo hitnaði ég í þriðja verkinu. Aðsóknin var þokkaleg miðað við orgeltónleika, ca. 20-30 manns og þeir virtust frekar ánægðir.
Á laugardagskvöldið var mjög huggulegt matarkvöld Fílunnar, í gærmorgun var guðsþjónusta á Hrafnistu og svo fluttum við Requiem eftir Fauré í messu í Langholtskirkju. Ég hef haft þessa hugmynd í kollinum frá því ég bjó í Gautaborg og upplifði svona messu í Örgryte nya kyrka. Þetta heppnaðist mjög vel, tók um 70 mínútur og féll í mjög góðan jarðveg frá þeim sem ég heyrði. Kórinn hljómaði líka alveg ótrúlega vel. Rosalega þéttur og flottur hljómur. Svo höfðum við 20 mínútur til að bruna upp í Fossvog og flytja verkið aftur þar en slepptum að vísu 2. og 3. kaflanum því við höfðum ekki færi á að æfa þetta með orgelinu þar, auk þess sem kórinn stóð niðri á gólfi en Steini hetja spilaði uppi á orgellofti.
Í kvöld byrjar Hljómeyki að æfa Dixit dominus og fleiri verk eftir Händel og Kór Áskirkju undirbýr útgáfutónleika jóladiskins sem kemur vonandi út fyrir aðventuna... ef Guð lofar!
þriðjudagur, október 28, 2008
Fleiri tónleikar
Á sunnudaginn kl. 14.00 flytur Kór Áskirkju Requiem eftir Gabriel Fauré í Langholtskirkju undir minni stjórn. Einsöngvarar eru Elma Atladóttir og Skúli Hakim Mechiat og Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel. Séra Sigurður Jónsson, sóknarprestur í Ásprestakalli prédikar og þjónar fyrir altari við messuna ásamt Margréti Svarsdóttur djákna Áskirkju.
Til stóð að flytja messuna í Áskirkju á hefðbundnum messutíma, en vegna undirbúnings að uppsetningu steinds kórglugga í kirkjunni sem nú stendur yfir, var ákveðið að leita húsaskjóls hjá grannsöfnuðinum í Langholtskirkju.
Að sjálfsögðu eru allir velkomnir til þessarrar messu Ássafnaðar í Langholtskirkju á sunnudaginn kemur.
fimmtudagur, október 23, 2008
BURT MEÐ ÞÁ!
Eftir viðtal Kastljóssins við Geir Haarde er ég á því að forsætisráðherra eigi líka að víkja. Ég hef sjaldan orðið vitni að þvílíkum aumingjaskap! Ég hef enga trú á þessum manni lengur!
Ég er þar að auki búinn að missa ALLA trú á Sjálfstæðisflokknum. Ég hef ekki kosið hann í áratug og mun ALDREI aftur eyða atkvæði mínu á þann flokk. Hann er búinn að klúðra málunum illilega hér í borginni og nú ber hann ábyrgð á gjaldþroti Íslands. Hann hefur haft forsætis- og fjármálaráðuneytið í 17 ár, hann lagði niður Þjóðhagsstofnun og hann afhenti útvöldum vinum bankana á silfurfati og það hefur nota bene aldrei verið rannsakað.
Mætum öll á Austurvöll á laugardaginn með kröfuspjöld!
Hryðjuverkamenn
Hér fjallar BBC um þetta.
laugardagur, október 18, 2008
Aðrir tónleikar vetrarins
Klezmertónleikarnir með Fílharmóníunni og Gröndal systkinunum ásamt hljómsveit gengu alveg stórkostlega vel. Það var rosa góð stemning og nánast full kirkja í bæði skiptin. Ég man varla eftir öðrum eins viðbrögðum eins og á miðvikudaginn.
Hlómeyki verður með mjög flotta tónleika næstkomandi laugardag kl. 12 í Hásölum í Hafnarfirði, þ.e. salurinn á milli Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskólans. Við ætlum að frumflytja fjögur verk
- Utan hringsins eftir Þóru Marteinsdóttur
- Bakkabræður eftir Hildigunni Rúnarsdóttur
- Smiðurinn og bakarinn eftir Ríkarð Örn Pálsson
- These few words eftir Önnu Þorvalds
Ég hvet alla til að mæta. Miðaverð 1000 kr.
mánudagur, október 06, 2008
Klezmertónleikar
Tónleikar með Söngsveitinni Fílharmóníu, Ragnheiði Gröndal og Hauki Gröndal
Sunnudaginn 12. október og miðvikudaginn 15. október nk. heldur Söngsveitin Fílharmónía tónleika þar sem kórinn flytur klezmertónlist, þjóðlagatónlist Gyðinga frá Austur-Evrópu, ásamt systkinunum Ragnheiði og Hauki Gröndal og þjóðlagasveit hans. Magnús Ragnarsson er stjórnandi tónleikanna. Þau systkin Haukur og Ragnheiður hafa átt mikinn þátt í að vekja athygli á þessari litríku og fjörugu tónlist hér á landi, þar sem saman blandast stef úr trúarlegri tónlist gyðinga við dans- og þjóðlagatónlist Evrópu og Miðausturlanda, ekki síst grískri og tyrkneskri alþyðutónlist.
Haukur Gröndal stofnaði íslensk-dönsku klezmer hljómsveitina Schpilkas, sem hefur gefið út tvær hljómplötur, en Ragnheiður söng með hljómsveitinni.
Ragnheiði Gröndal þarf ekki að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum. Hún hefur sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna og gefið út fjórar sólóplötur sem allar hafa náð miklum vinsældum og sungið með ýmsum hljómsveitum auk Schpilkas.
Tónleikarnir á sunnudeginum er klukkan 17 en klukkan 20 á miðvikudeginum, í Neskirkju (við Hagatorg). Miðar fást hjá kórfélögum, í versluninni 12 Tónum og við innganginn.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þessara tónlistar má heyra Hauk Gröndal hér í skemmtilegri klezmer sveiflu, hér má sjá smá videósýnishorn af annarri hljómsveit.
þriðjudagur, september 16, 2008
YEEEEEEEEEEEESSSSSSSSSSSSSSS!
laugardagur, september 13, 2008
fimmtudagur, september 04, 2008
Enn ein sagan af Ísak
Ísak: Ég fékk tvo límmiða í gær. Það er bara nokkuð gott.
Ég: Viltu pissa í klósettið núna og fá fleiri límmiða?
Ísak: Nei, nei. Þetta er orðið gott!
miðvikudagur, september 03, 2008
Fyrsta æfing var í kvöld og hljómurinn var mjög góður. Nú verður hamrað á góðum mætingum og kórmeðlimum gert grein fyrir því að ef þeir standa sig ekki þá er af nógu góðu fólki til að taka inn i kórinn.
föstudagur, ágúst 29, 2008
miðvikudagur, ágúst 20, 2008
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn plummar sig vel. Hann hefur hlotið nafnið Mahler og ber nafn með rentu enda malar hann um leið og maður nálgast hann. Honum og Ísak semur vel að því leyti að sonur minn má gera hvað sem er við hann og kötturinn mótmælir ekki. Ísak vill helst þramma um alla íbúðina haldandi á kettlingnum eins og sést á myndinni og við erum alveg gáttuð á því að sá síðarnefndi láti bjóða sér þetta. Ísak er svona fantagóður við "litla barnið sitt", heldur þéttingsfast utan um hálsinn á honum og strýkur þannig að feldurinn fer næstum af honum.
Það koma ennþá gullkorn frá þeim tveggja ára. Í morgun var hann að tala um Súpermann af einhverjum ástæðum og ég spurði hvað hann gerði. Ísak svaraði: "Býr til súpu!"
föstudagur, ágúst 01, 2008
Við erum nýkomin úr vikudvöl frá Köben. Það var alveg æðislegt! Við vorum líka alveg einstaklega heppin með veður. Ísak og Ragnar Steinn voru alsælir með að hafa hvorn annan. Við vorum spurð hvort þeir væru tvíburar. Við fórum í Bakken, Tivoli, dýragarðinn, á ströndina og Louisiana safnið og allt var þetta æðislegt. Ég fór líka á kóraráðstefnuna og fékk mikið út úr henni. Ég hlustaði á fyrirlestur hjá Mäntyjärvi, umræður um hvernig eigi að setja saman tónleikaprógram, keypti nokkrar nótur og heyrði í EMO kórnum frá Finnlandi, kór frá Ghana, stúlknakór frá Stokkhólmi, kór frá Kúbu sem var æðislega skemmtilegur og frumflutning á djassmessu fyrir kór og djasskvartett. Hún fer á listann hjá mér.
Nú eru Hrafnhildur og Ísak farin á Mývatn á Gúmmískó-hátíðina og ég verð einn í bænum um helgina. Ísak er búinn að vera með hvert gullkornið á fætur öðru. Það er merkilegt hvaða orð hann pikkar upp. Um daginn vildi hann meina að allt væri "harla gott". Svo þóttist hann sprauta mig í handlegginn og sagði við mig að nú fengi ég ekki kíghósta. Nú er dúkkan sem sefur í litla rúminu í herberginu hans búin að fá nafn en hún heitir Amalgan. Úti í Köben þurftum við að setja Ísak í skammarkrókinn þar sem hann lét öllum illum látum. Á meðan stóð Ragnar Steinn frammi og horfði undrandi á okkur eins og hann kannaðist ekkert við svona hegðun og spurði svo hvar Ísak væri. Við sögðum að hann væri í skammarkróknum og þá sagði Ragnar Steinn: "Að hugsa sinn gang?"
sunnudagur, júlí 06, 2008
Hljómeyki í Skálholti
Verkið, sem stundum gengur undir nafninu Vesper, er í 15 köflum, sungið á rússnesku og tekur um klukkutíma í flutningi.
Það er einstaklega hljómfagur en um leið afar krefjandi fyrir kór, sérstaklega bassaraddirnar, sem þurfa að syngja ansi djúpt, nokkrum sinnum niður á kontra B!
Náttsöngvarnir eru taldir eitt besta tónverk rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunnar og var í miklu uppáhaldi hjá tónskáldinu sjálfu sem bað um að einn þátturinn (Lofsöngur Símeons) yrði fluttur við jarðarför sína.
Hljómeyki flutti verkið fyrstur íslenskra kóra í Kristskirkju í desember síðastliðnum við mjög góðar undirtektir og komust færri að en vildu.
Á laugardeginum kl. 15.00 frumflytur kórinn Missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson. Auk þess flytur Sigurður Halldórsson og Ishum strengjakvartettinn hljóðfæratónlist eftir sama tónskáld.
Í maí 2008 tók Hljómeyki þátt í hinni virtu kórakeppni Florilège Vocal de Tours. Tuttugu og einn kór hvaðanæva að úr heiminum tók þátt og varð Hljómeyki hlutskarpast í flokki kammerkóra ásamt kammerkórnum Khreschatyk frá Úkraínu. Í umsögnum dómnefndar sagði meðal annars að Hljómeyki hefði fallegan hljóm og einkar hrífandi og hjartnæma túlkun. Magnús Ragnarsson var einnig álitinn einn af bestu kórstjórum keppninnar.
Aðgangur að Sumartónleikum í Skálholti er ókeypis.
föstudagur, júní 20, 2008
Ég er að fara í göngu í kringum Stafafell í Lóni, kem aftur seint á miðvikudaginn og daginn eftir ökum við fjölskyldan á Mývatn til að gista í eina nótt og förum svo í bústað á Egilsstöðum í eina viku. Komum heim til að vera við Hjónavígslu Söndru Sifjar vinkonu Hrafnhildar og svo fer ég í Skálholt á mánudaginn og verð fram á sunnudag. Verð heima í eina og hálfa viku en fer svo til Köben og verðum þar með Indru og Ingólfi í húsi sem þau fengu lánað. Adios!
þriðjudagur, júní 03, 2008
Kórakeppnin í Tours
Á föstudaginn tókum við hraðlest til Tours til að taka þátt í Florilège Vocal de Tours. Við tókum þátt í tveimur flokkum og þurftum því að syngja tvisvar á föstudeginum í undanúrslitum á sitt hvorum staðnum. Hljómburðurinn var frekar þurr og það var dálítið stress í hópnum þegar við sungum fyrst. Ekki bætti úr skák að lýsingin var svo sterk að enginn sá neitt út í sal og sumir áttu í vandræðum með að sjá mig. En þetta gekk vel og enn betur í seinna skiptið um kvöldið. Ég hafði sagt fyrir ferðina að ég yrði alveg sáttur við að komast ekki í verðlaunasæti en yrði mjög dapur ef við kæmumst ekki í úrslitin. Ég áttaði mig á því þarna á föstudeginum að það var ekkert svo sjálfsagt að komast áfram. Það voru margir mjög góðir kórar þarna sem og frábærir kórstjórar og standardinn á keppninni var mjög hár. Til marks um það voru þó nokkrir útsendarar frá öðrum keppnum að reyna að lokka okkur til þeirra.
Skrefin að leikhúsinu á föstudagskvöldið voru mér ansi þung. Ég var að fara að komast að því hvort við kæmumst í úrslitin eða ekki. Ég var meira taugaóstyrkur heldur en þegar við vorum að keppa. Sem betur fer komumst við áfram á báðum flokkum. Fljótlega fór mórallinn í kórnum að breytast úr hlédrægni og óöryggi yfir í sjálfsöruggi. Á laugardaginn sungum við tvisvar og okkur fannst það ganga æðislega vel. Það skapaðist svo sérstök og góð stemning. Væntingarnar í kórnum stigu með hverjum klukkutímanum eftir því sem leið á daginn og þegar kom að því að tilkynna hvaða kórar kæmust áfram í keppnina um besta kór keppninnar var spennan orðin mikil. Því miður vorum við ekki ein af þeim fjórum sem komust í þann flokk en ég hafði aldrei gert mér miklar vonir um það. Það leyndi sér samt ekki vonbrigðin hjá sumum kórfélögum.
Á sunnudaginn gat maður hlustað á þessa fjóra kóra keppa og séð hvað þeir voru allir á háum standard. Svo kom verðlaunaafhendingin. Hún var öll á frönsku og helmingurinn af kórstjórunum skildi ekki orð. Við þurftum allir að standa uppi á sviði og ég hallaði mér alltaf fram til þess hollenska til að biðja hann um að þýða fyrir mig. Áhorfendur skildu frekar lítið þar að auki, meira að segja Frakkarnir. En gleðifréttirnar voru þær að við urðum efst í flokki kammerkóra ásamt úkraínska kammerkórnum Khreschatyk. Það var dálítið merkilegt að í nokkrum flokkum voru ekki veitt fyrstu verðlaun og í flokki samkynja kóra (í þessu tilviki bara kvennakórar) voru engin verðlaun veitt.
Um kvöldið var svo móttaka í rosalega flottum sal í ráðhúsinu og þar gat ég gengið á milli dómnefndarmeðlima og fengið athugasemdir frá þeim. Sumir voru reyndar farnir heim en ég náði að tala við fimm. Allir töluðu þeir um hvað hljómurinn í kórnum væri fallegur og túlkunin fín og hrósuðu mér sem kórstjóra. Tveir þeirra tóku reyndar strax fram að ég hefði verið einn af bestu kórstjórum keppninnar. Ég var í mestu vandræðum með að svara því enda hef ég alltaf átt erfitt með að taka hrósi. Það sem var sett út á var sameiginlegt með fleiri kórum að hljómurinn hefði þurft að vera breytilegri eftir stílum, tímabilum og tungumáli. Einum fannst við of varkár á meðan aðrir sögðu að það hefði bara vantað herslumunin að við hefðum komist alla leið.
Seinna um kvöldið fórum við á veitingastað og við hlið okkar settist norski kórinn og við sungum Bogoroditse devó úr Náttsöngvum með þeim. Fyndið að íslenskur og norskur kór skuli syngja saman á rússneskur og það utanbókar. Svo tókum við saman Ubi caritas eftir Duruflé og ég tók undir með þeim þegar þeir sungu Så skimrande var aldrig havet og ræningjasönginn úr Ronju. Hinum megin í salnum var svissneski kórinn sem tók undir með okkur þegar við sungum To the mothers in Brazil og svo kom kórinn frá Lyon sem hafði fengið flest verðlaun og þar á meðal Grand prix verðlaunin og við gátum sungið með þeim La blanche neige eftir Poulenc og merkilegt nokk Kung liljekonvalje sem þeir kunnu af einhverjum ástæðum. Það voru tvær 22 ára selpur sem voru með okkur fyrir hönd keppninnar og þær báðu um að fá að syngja með okkur. Við tókum Amazing grace í röddum og írarnir og norðmennirnir tóku undir og önnur þeirra fór að gráta. Svo föðmuðum við þær við kveðjustund. Þetta var alveg rosalega skemmtileg ferð.
Annað kvöld (miðvikudag) í Háteigkirkju kl. 20.00, ætlum við að syngja aftur prógrammið sem við vorum með úti. Hér neðar á síðunni má sjá umfjöllun RÖP úr Mogganum um tónleikana sem við fluttum 1. maí. Allir að koma!
Fimmtudaginn 10. júlí flytjum við svo Náttsöngva Rakhmanínovs í Skálholtskirkju og frumflytjum missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson laugardaginn 12. júlí.
þriðjudagur, maí 13, 2008
Annars naut ég tónleikanna í botn og það var líka svo gaman hvað myndaðist mikil stemmning í troðfullri Hallgrímskirkju. Nú er vonandi að það mæti jafn margir Móttetukórsmeðlimir í Skálholt fimmtudagskvöldið 10. júlí þegar Hljómeyki flytur verkið í annað sinn. Það væri líka óskandi að Hörður og hinir kollegar mínir væru jafn duglegir að mæta á tónleika hjá mér eins og ég mæti hjá þeim!
laugardagur, maí 03, 2008
Strax komin gagnrýni í Mogganum
Enn í fremstu röð
Kórtónleikar****-
Íslenzk og erlend kórverk. Sönghópurinn Hljómeyki. Stjórnandi: Magnús Ragnarsson. Fimmtudaginn 1. maí kl. 20.
Ýtt var úr vör með Vorkvæði um Ísland frá 1994 (Jón Nordal / Jón Óskar), og tóku við Kung Liljekonvalje Wikanders, Ecco mormorar Monteverdis og La blanche neige eftir Poulenc. Öll prýðilega sungin, og þó að flúrað lagferli síðendurreisnarmadrígalsins væri frekar lint, stafaði sleipan neonþokka af Parísarlaginu er minnti í stíl á neðarskráðan Villette.
Síðan var frumflutt Oft fellur sjór yfir hlunna eftir kórfélagann Hildigunni Rúnarsdóttur við íslenzka þjóðvísu með fylgiraddarsellóleik Önnu Tryggvadóttur. Frekar stutt verk [4'] en andrúmsríkt, hjúpað lágvært dúndimmum mollblæ og náttúruljóðrænni undiröldu. Hið umfangsmikla [10'] og kröfuharða nútímaverk Skotans James Macmillans, Child's Prayer, var víða skemmtilega frumlegt og bryddaði upp á margs konar áferð, m.a. frá tveim dáfögrum spezzati sópraneinsöngvurum ofan af kirkjusvölum, og myndaði jafnframt fyrsta hápunkt dagskrár í gríðarlega vel heppnuðum flutningi. Átti það einnig við Salve Regina, seiðandi latneskuleitan Maríuhelgisöng Lars Janssons (radds. Gunnars Erikssons) við snemmmiðalda sálmtexta, er endurfluttur var í tónleikalok.
Maríukvæði Atla Heimis við texta Kiljans túlkaði Hljómeyki af frábæru látleysi, og metsölukórverk Báru Grímsdóttur, Ég vil lofa eina þá er öðrum fremur hefur kennt landanum að meta fimmskiptan takt, rann sömuleiðis óaðfinnanlega niður. Eftir aflþrungið hómófónískt Ave Maria Bruckners kom sannkölluð norræn nútímaperla Tronds Kverno Ave Maris Stella í álíka fjölbreyttri áferð og Child's Prayer og borin uppi af hnitmiðaðri og nánast lýtalausri túlkun. Djasskrómað hljómferli einkenndi síðan nærri poppkennt ákall Pierres Villettes til helgrar meyjar, Hymne a la Vierge, áður en tveir ægifagrir þættir úr Náttsöngvum Rakhmaninoffs Op. 37 settu tónleikunum tignarlegan grísk-orþódoxan lokapunkt.
Aldarþriðjungsgamalt Hljómeykið er líklega elzti enn starfandi kammerkór landsins og sá fyrsti sem nálgaðist atvinnumennskustaðal. En þó að samkeppnin væri kannski takmörkuð fram að lokum síðustu aldar, hefur framboðið síðan margfaldazt. Er því ánægjulegt að sjá að kórinn hefur náð að mæta því með það áþreifanlegum gæðum að hann telst enn óhikað í fremstu röð. Og þó aðeins sé tilgreint eitt af mörgu, þá var vissulega bragð að jafnóvenjulegu raddhlutfali og 11 konum á móti 12 körlum – miðað við þá karlaeklu sem enn stendur flestum blönduðum kórum landsins fyrir þrifum.
Ríkarður Ö. Pálsson
föstudagur, maí 02, 2008
mánudagur, apríl 28, 2008
Hljómeyki verður með magnaða tónleika á fimmtudaginn kemur sem er bæði verkalýðsdagurinn og uppstigningardagur. Við byrjum á að syngja um vorið og náttúruna, förum svo aðeins í dramatískari sálma og endum á nokkrum kórverkum tileinkuð Maríu mey. Við frumflytjum meðal annars verk eftir Hildigunni Rúnars, samið alveg sérstaklega fyrir kórinn.
Tónleikarnir eru kl. 20.00 í Seltjarnarneskirkju og miðaverð er 1500 kr.
Þessir tónleikar eru liður í undirbúningi fyrir kórakeppnina í Tours í Frakklandi í lok maí.
laugardagur, apríl 26, 2008
Pólland
Þessi langþráða ferð Fílharmóníunnar til útlanda heppnaðist mjög vel. Wroclaw og Kraká eru mjög fallegar borgir. Hópurinn fékk sitt hvort hótelið rétt hjá aðaltorginu í Wroclaw og því gat fólk labbað um allt að vild. Æfingarnar gengu líka alveg ótrúlega vel. Í fyrsta lagi þá kunni kórinn verkið rosalega vel og söng það alltaf betur og betur. Í öðru lagi var hljómburðurinn í tónleikasalnum virkilega góður... eins og salurinn var ljótur! Í þriðja lagi var hljómsveitin mjög góð! Ég tók eftir því að hljóðfæraleikarar í eldri kantinum töluðu eiginlega bara pólsku, kannski einhverja þýsku, en eiginlega enga ensku. Yngra liðið var nokkuð sleipt í ensku. En ég þakkaði Guði fyrir þessi ítölsku tónlistarorð sem allir skilja. Aðalvandamálið var að fá alla til að byrja á ákveðnum takti í miðjum kafla. Ég kallaði taktnúmerið á ensku, þýsku, bað um að það yrði þýtt á pólsku og sýndi stundum tölu með puttunum en ég þurfti samt að byrja tvisvar, þrisvar á sama staðnum þar til allir voru búnir að fatta hvar við vorum.
Flestir hljóðfæraleikarnir voru mjög almennilegir en sumir, sérstaklega í eldri kantinum, voru nokkuð brúnaþungir framan af. Svo tóku þeir mig alltaf betur í sátt og voru farnir að klappa fyrir mér í lok æfinga og á tónleikunum. Mér var boðið að koma aftur og ég væri svo sannarlega til í það. Tónleikarnir heppnuðust líka ekkert smá vel. Hulda Björk og Ágúst Ólafs sungu með okkur og voru alveg frábær. Kórinn hafði aldrei sungið verkið betur og hljómsveitin fylgdi mér fullkomlega. Það hafa verið nokkur hundruð manns í salnum og við vorum kölluð fjórum sinnum inn og staðið upp fyrir okkur. Að lokum dró ég konsertmeistarann með mér út af sviðinu.
Nú hef ég fengið að stjórna þessu stórbrotna verki og náð að uppfylla drauminn sbr. þessa bloggfærslu fyrir rúmum tveimur árum. Nú er Fílann komin í rúmlega fjögurrra mánaða frí og í vikunni lauk upptökum hjá Kór Áskirkju þannig að það hægist allverulega á hjá mér sem er mjög kærkomið. Meira er hægt að lesa um Póllandsförina á moggablogginu
miðvikudagur, apríl 09, 2008
Í vestrænum menningarlöndum er frumflutningur stórverka eins og Mattheusarpassíu og Messu í h-moll Bachs letraður stórum stöfum í tónlistarsögu viðkomandi þjóða en það kom í hlut Pólýfónkórsins að frumflytja þau andans stórvirki hér á landi, segir í tilkynningunni.
Pólýfónfélagið réðst í útgáfu h-moll-messu Bachs síðastliðið haust og vakti útgáfan nokkra athygli hér á landi og hefur hlotið einstaklega lofleg ummæli erlendra sérfræðinga. Enginn íslenskur fjölmiðill, að undanskildu Morgunblaðinu, fékkst þó til að vekja athygli á útkomu h-moll-messunnar, sem þó var í sjálfu sér listviðburður á heimsmælikvarða, segir í fréttatilkynningu.
Framlag Pólýfónkórsins til íslenskra tónmennta verður ekki endurtekið en til eru í hljóðritasafni Ríkisútvarpsins mörg af fegurstu tónverkum heimsins í flutningi kórsins. Hvort hægt verður að halda útgáfu á því besta úr því safni áfram er enn óráðið. Öll starfsemi Pólýfónkórsins í 50 ár hefur verið unnin endurgjaldslaust en frekari útgáfa tónverka er óframkvæmanleg án utanaðkomandi styrkja. Alþingi veitti smástyrk á árinu 2007 með loforði um framhald á þessu ári. Síðar var málinu vísað til menntamálaráðuneytisins, sem sendi algjöra synjun. „Þetta brýna menningarmál hefur verið borið undir utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið en engin svör hafa borist,“ segir í fréttatilkynningu.
sunnudagur, janúar 27, 2008
föstudagur, janúar 25, 2008
Svo er Mogginn er alveg í essinu sínu í leiðara sínum í dag.
"Í gær kallaði Samfylkingin fólk á áheyrendapalla Ráðhússins vegna kjörs nýs borgarstjóra á vegum nýs meirihluta í borgarstjórninni. Þeir áheyrendur, sem Samfylkingin kallaði til höfðu uppi hróp og köll og púuðu á nýjan borgarstjóra og aðra."
"Samfylkingin þolir bersýnilega ekki að missa völdin í borgarstjórn og bregst við með afar ógeðfelldum áróðri gegn Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra."
Þessi frétt um lyklaskiptin er líka alveg kostuleg.
"ÓLAFUR F. Magnússon tók við lyklavöldum borgarstjóra í ráðhúsinu af fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, eftir átakafund í borgarstjórn í gær. Þrátt fyrir að hitnað hafi í kolunum í borgarstjórn kom nýjum og fráfarandi borgarstjóra vel saman við lyklaskiptin og hrósaði Ólafur forvera sínum í hástert fyrir frammistöðu sína í embættinu. Sagðist Ólafur vonast til þess að hann og Dagur ynnu aftur saman í framtíðinni, þó svo að málum hafi lyktað svona að þessu sinni. Óskaði Dagur honum velfarnaðar í starfi."
Þessi lyklaskipti voru einstaklega kuldaleg. Dagur sagði ekkert nema gjörðu svo vel en Ólafur reyndi að sleikja hann upp. Þá sagði Dagur "gangi þér vel" og klappaði honum á olnbogann. Sjá hér.
Ég skrifaði svo langt svar á kommentakerfi Óttars að ég ákvað að birta það líka hér.
Kæri vinur.
Sem borgarbúi hef ég afskaplega lítil áhrif á stjórn borgarinnar. Ég get kosið á fjögurra ára fresti og á óljósan hátt raðast 15 fulltrúar í borgarstjórn. Átta þeirra geta myndað meirihluta en einn þeirra getur sltið samstarfinu og starfað með hinum sjö. Þetta hefur nú gerst í tvígang á kjörtímabilinu. Best finnst manni að sama stjórn sitji í fjögur ár en maður ætlast til þess að ef einhver einn ætlar að hlaupast undan merkjum þá hafi hann ríka ástæðu til og láti reyna á samstarfið til þrautar. Þegar Björn Ingi gerði þetta í haust var það mjög vafasamt. Þegar Ólafur F. gerði þetta í byrjun vikunnar var það fyrirvara- og ástæðulaust. Hann hafði ekki lagt sig fram við að láta samstarfið virka heldur setti allt í uppnám af því að það hentaði honum persónulega. Hann sveik og laug að samstarfsfólki sínu og setti stjórnkerfi borgarinnar í uppnám þegar það var varla búið að jafna sig eftir síðustu meirihlutaskipti. Nú er þessi maður orðinn borgarstjóri! Hann á ekki skilið að fá þetta embætti og það er alveg greinilegt á framkomu hans þessa viku að hann veldur því ekki!
Eftir síðustu kosningar var talað um að nú væri komið nýtt og ferskt fólk í borgarstjórn en mér finnst að allir borgarfulltrúarnir 15 ættu að skammast sín! Þeir hafa brugðist trausti borgarbúa og misnotað vald sitt. Björn Ingi hefndi sín á Sjálfstæðisflokknum í haust með aðstoð Don Alfredo og Sjálfstæðismenn hefndu sín á hinum með því að lokka og jafnvel blekkja veikasta hlekkinn með því að veifa borgarstjórastólnum fyrir framan hann og gera þetta embætti að skiptimynt. Þetta eru eins og leikskólakrakkar og eru búnir að draga pólitíkina niður í svaðið! Nú verða allir stjórnmálamenn svo paranoid því það er ekki hægt að treysta neinum. Ef þeir ætla að haga sér eins og leikskólakrakkar þá kemur almenningur fram við þá í samræmi við það. Ef þeir ætla að sýna lýðræðinu þvílíka vanvirðingu þá eru orð þeirra einskis virði þegar þeir saka aðra um ólýðræðislega framkomu.
Hvað getur maður gert þegar manni blöskrar svona. Það er hægt að ræða við aðra, skrifa um þetta á netinu og skrifa nafn sitt á mótmælalista sem er samt það ófullkominn að hver sem er getur skrifað hvern sem er á listann (meira að segja Jesús) en maður veit að þetta hefur lítil sem engin áhrif því stjórnmálamenn treysta á að flestir gleymi þessu í næstu kosningum og þessir tveir verðandi borgarstjórar hafa ekki manndóm í sér að taka við mótmælalistunum. En maður getur reynt að láta í ljós óánægju sína beint fyrir framan þá sem eru ábyrgir fyrir þessum ógjörningi. Ég hafði hug á að mæta á borgarstjórnarfundinn en komst ekki þar sem ég var að vinna. Sama á við marga sem ég þekki, þ.á.m. fólk sem hafði alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en gat ekki hugsað sér að gera það aftur. En ég þekkti líka nokkra sem komust og það er mjög ómaklegt að afskrifa þetta fólk sem menntaskólakrakka og meðlimi í ungliðahreyfingum fráfarandi meirihluta. Það kraumar mikil reiði hjá ansi mörgum Reykvíkingum enda eru þrír af hverjum fjórum á móti nýja meirihlutanum samkvæmt nýjustu skoðanakönnun.
Sjálfstæðisflokkurinn skaut sig svo illilega í fótinn með þessum gjörningi á mánudaginn. Þeir hefðu betur sleppt því og farið í næstu kosningar með nýjan oddvita og þá búnir að hreinsa sig af þessu Rei máli. Villi sýndi það í haust að hann er ekki góður borgarstjóri! Annað hvort er hann svona spilltur (ásamt Binga) að hann færir útvöldum aðilum Orkuveituna á silfurfati eða þá er hann ekki með á nótunum og man virkilega ekki neitt. Hvort tveggja er slæmt. Hann getur beðið afsökunar á þessu og viðurkennt mistök en hann er ekki hæfur sem borgarstjóri. Þessi meirilhlutamyndun er ekki gott dæmi um hæfni þessa manns. Hún er byggð á afskaplega hæpnum grunni enda þarf ekki mikið til að hún falli og þá er allt komið í uppnám enn einu sinni, þökk sé Villa og Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst miður þegar Sjálfstæðismenn geta ekki svarað gagnrýni um eigin misgjörðir á málefnalegan hátt heldur segja: "Sko... hinir eru ekkert betri... þeir gerðu þetta líka!"
Kæri æskuvinur. Ekki stunda þennan leik við mig!
Maggi
p.s. Sjálfstæðismenn eru búnir að búa til nýjan leiðtoga, Dag B. Eggertsson. Hann þótti ekkert spes fyrir síðustu kosningar, stóð sig ágætlega sem borgarstjóri en þegar hann missti það embætti komu alveg ofboðslega margir fram og lýstu yfir hvað hann hefði staðið sig frábærlega. Svo hefur hann svarað mjög vel fyrir sig og komið rosalega sterkur út úr þessu öllu saman. Sjálfstæðisflokkurinn á sennilega eftir að sjá eftir því í marga áratugi.þriðjudagur, janúar 22, 2008
Mér skilst að það hafi rétt náðst að forða einkavæðingu leikskólanna í haust en ég heyrði ekki betur í gær en að það væri sett aftur á dagskrá.
þriðjudagur, janúar 15, 2008
Plögg
Leikfélagið Hugleikur frumsýnir Útsýni eftir Júlíu Hannam í Möguleikhúsinu laugardaginn 19. janúar kl. 20. Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk sem er fyrsta leikrit höfundar í fullri lengd, en Júlía hefur skrifað sjö einþáttunga sem settir hafa verið á svið hjá Hugleik. Þeirra á meðal er Í öruggum heimi sem valin var besta sýningin á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu vorið 2006 af dómnefnd sem skipuð var Þorvaldi Þorsteinssyni og Þorsteini Bachmann.
Útsýni fjallar um samskipti tveggja hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.
Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.
Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll samin af félagsmönnum. Umfjöllunarefni leikritanna eru alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnararfinum, í sögu þjóðarinnar og gullaldarbókmenntunum, en viðfangsefni samtímans hafa á umliðnum misserum fengið aukið vægi. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins.
Hugleikur hlaut sérstaka viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember árið 2006 fyrir stuðning við íslenska tungu. Það sama ár gerði Reykjavíkurborg þriggja ára samstarfssamning við leikfélagið.
Útsýni er klukkustundarlöng sýning og leikin án hlés. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig bjóðum við hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sýningaplan og miðapantanir eru inni á www.hugleikur.is
miðvikudagur, janúar 09, 2008
fimmtudagur, janúar 03, 2008
Þetta er ekki einleikið
Hressir frændur í áramótapartýinu
Ísak og Ragnar Steinn skemmtu sér konunglega í áramótapartýinu hjá Konna frænda. Ísak biður mig oft um að segja sér sögu frá því. Hann varð reyndar mjög hræddur við flugeldana og vildi bara vera inni hjá Indru.
YYYEEESSSS!!!!!
Hann fær að byrja á leikskóla KFUM á mánudaginn. Sem betur fer get ég verið heima í þessari viku og svo verið með honum í aðlögun í næstu viku. Leikskólinn er nálægt Áskirkju þannig að ég mæti bara snemma í vinnuna aldrei þessu vant. Ég var meira að segja að hugsa um að gerast svo snobbaður og fá mér líkamsræktarkort í Laugar. Mér finnst ómögulegt að keyra hann niðureftir og fara svo aftur upp í Orkuverið í Egilshöll þar sem ég hef haft kort í tæp tvö ár. Ég á aldrei eftir að nenna því. Ég get þá skiptst á að fara í ræktina og synda. Okkur líst mjög vel á þennan leikskóla, mun betur en þann sem er hérna við hliðina á okkur og Ísak er enn á biðlista á.