fimmtudagur, nóvember 22, 2007


Ég verð eiginlega að biðjast afsökunar á þessu bloggi. Þetta er eiginlega ekki orðið neitt nema plögg fyrir eigin tónleika. Þessi vetur er nebblega ansi hektískur. Ég er endalaust að reyna hreinsa upp hin og þessi verkefni og er alveg sífellt að. Þetta er barasta of mikið ef maður ætlar að reyna að verja tíma með fjölskyldunni líka. Ég hef reyndar verið með Ísak á morgnana og fer oft ekki með hann til dagmömmunar fyrr en um tíuleytið... eða jafnvel seinna. Við erum soddan svefnburkur.

Anyhow, hér kemur enn eitt plöggið.
Aðventutónleikar Fílharmóníunnar verða 9. og 12 des í Langholtskirkju. Þeir verða með svipuðu sniði og í fyrra enda heppnuðust þeir tónleikar alveg einstaklega vel og það myndaðist alveg frábær stemmning. Ég er enn að hitta fólk sem talar um þessa tónleika og ætlar pottþétt að mæta núna í ár. Miðar fást t.a.m. hjá mér eða Hrafnhildi með 20% afslætti!
Ég er að semja annað stykki sem ég klára vonandi fyrir næstu æfingu. Ég valdi nú ekki auðveldasta textann til að semja við, nefnilega Lofsöng Maríu sem er svo óreglulegur, alveg eins og Spádómur Jesaja sem ég samdi við í fyrra. En það er ansi gaman að taka það aftur og meta það með smá fjarlægð.

Þann 16. des verður svo aðventukvöld í Áskirkju þar sem Kór kirkjunnar flytur Maríumúsík eftir Anders Örwahll í "fyrsta skipti á Íslandi". Þetta er mjög skemmtilegt og grípandi verk og við erum þegar búin að ákveða að flytja það aftur á næsta ári og þá í "fyrsta skipti á Íslandi" með upprunalegum hljóðfærum, þ.e. sænskum flautum, sellói, kontrabassa og slagverki frá 1974. Og svo árið eftir ætlum við að flytja það "í fyrsta skipti á Íslandi" með upprunalegum hljóðfæraleikurum. Geri aðrir betur!

Svo er nottlega aðalmenningarviðburður ársins þegar Hljómeyki flytur "Vesper" eftir Rachmaninoff í Kristkirkju föstudaginn 28. des kl. 20.00. EKKI MISSA AF ÞVÍ! Alveg frábært verk og flutningurinn verður ekki amalegur!