mánudagur, júlí 10, 2006

Ok. Það eru komnir tveir mánuðir síðan ég bloggaði síðast.
Ástæðan fyrir bloggleysinu til að byrja með var skortur á netsamandi en það varði reyndar ekki nema í nokkrar vikur. Það virðist ríkja almenn bloggdeyfð um þessar mundir.
Ísak er orðinn mjög langur miðað við aldur. Hann er til að mynda aðeins nokkrum sentimetrum styttri en Jökull sem er rúmum fimm mánuðum eldri. Ég komst að því um daginn að ég var undir eftirliti hjá lækni þegar ég var lítill af því ég var svo langur. Hefði ég verið aðeins lengri þá hefði ég fengið hormóna til að halda aftur af vextinum.
Hann situr einn og óstuddur í 90 gráðu vinkli og er mjög duglegur að hafa ofan af fyrir sér. Nú bíðum við bara eftir að hann fari að skríða. Hann er farinn að gefa frá sér hin merkilegustu hljóð en er annars mjög kátur og glaður. Eftir verulegt átak þá tókst okkur að fá hann til að sofna klukkan átta og alveg fram til sex um morguninn. Það er algjör lúxus. Um tíma leit út fyrir að allt það starf hefði verið unnið fyrir gíg en með því að harka af sér og vera ekki að hlaupa inn til hans þegar hann grætur í rúminu sínu þá hefur okkur tekist að halda þessu.
Hann tók upp á því um daginn að klappa saman lófunum og strax í kjölfarið báðum við hann að sýna okkur hvað hann er stór en ég held að það sé fyrir neðan hans virðingu. Við erum bæði búin að fara að heimsækja Ragnar Stein og fjölskyldu þegar þau voru í bústað austur í Lóni og svo buðum við Friðrik Val og fjölskyldu í Voga í Mývatnssveit og fórum saman í Jarðböðin (sjá mynd). Það var í þriðja skiptið sem Ísak fór á Mývatn og líkaði honum vistin vel.

Engin ummæli: