þriðjudagur, maí 31, 2005

Það er öldungis ágætt að vera í fríi á mánudögum og þriðjudögum og í dag greip ég tækifærið og skellti mer í bíó á miðjum degi. Fór að sjá "The Life Aquatic with Steve Zissou" eftir Wes Anderson og skemmti mér vel. Þetta er mjög fínlegur og dálítið súr húmor en ég get mælt með henni. Bill Murray er í uppáhaldi hjá mér og svo er William Dafoe fræbær sem þýskur liðsmaður.

Það voru fermingarmessur um helgina, alveg troðfull kirkja í bæði skiptin og ansi loftlaust. Ég stillti orgelið á föstudaginn en ég heyrði mun á milli messanna. Þarf að stilla það aftur í vikunni. Spilaði tokkötuna úr Gottnesku svítunni sem ég hef aldrei þorað að spila í messu því aðalstefið er svo macabert en hún féll í góðan jarðveg. Gat meira að segja spilað hana án aðstoðar því hún er 10 blaðsíður og það þarf að ýta á nokkra auka takka þegar mest gengur á en þetta hafðist allt saman. Sum fermingarbörnin voru voða vel til höfð en önnur voru bara í gallabuxum og strigaskóm. Svo voru þau ekki spurð heldur bara blessuð. Það var nú ekki þannig á mínum tíma. En þetta var þó betra en þegar ég spilaði í fimm fermingarmessum á einum degi, rúmlega 20 börn í hverri og troðfull timuburkirkja í hvert sinn á heitum sumardegi. Þegar ég spilaði postludium þá var fólk ekki að taka tillit til organistans og rakst í öxlina og talaði hástöfum. Það fór í taugarnar á mér.

Í þessari viku eru síðustu kóræfingarnar og svo eru tónleikar á sunnudaginn en við tekur litla vokalensemblið mitt sem byrjaði að æfa á sunnudaginn og svo verð ég með nokkra söngnemendur í sumar, þ.e. þegar ég er ekki í fríi. Mikaeli syngur Poulenc á föstudaginn, tekur upp tónlist eftir sænska tónskáldið Rosell sem lést í janúar helgina eftir það og svo syngjum við verkin á tónleikum auk annarra vorsöngva. Það er alveg svakalegt tempó á þessum kór. Bara í vetur höfum við æft og sungið sex ólík tónleikaprógröm og aldrei sungið sama verkið tvisvar. Og ekkert smá erfið verk.

laugardagur, maí 28, 2005

Á leið í gjaldþrot

Þetta eru nú meir fjárútlátin hjá okkur um þessar mundir. Við höfum á undanförnum vikum keypt flugmiða til Íslands, helgarferð til Tallin, flugmiða til Suður Frakklands í brúðkaup Markúsar og Dóró ásamt bílaleigubíl og hóteli og í gær pöntuðum við pláss í ferjuna til Gotlands fyrir annað brúðkaup í ágúst og það var alls ekki svo ódýrt. Svo eigum eftir að flytja og við ætlum að notast við flutningafyrirtæki, þurfum mögulega að borga tvöfalda leigu í júlí og ætlum að kaupa bíl.

Ég er að klára Angels & Demons eftir Dan Brown. Mér finnst hún ekki eins góð og Da Vinci, reyndar frekar langdregin. En hann er samt góður. Um daginn las ég Svartir englar sem Hjalti og Vala gáfu mér í afmælisgjöf og hún er mjög góð. Svona bók sem erfitt er að leggja frá sér. Mér finnst þessar íslensku spennisögur eiga það sameiginlegt að vera með áhugaverða karaktera, halda manni við efnið en lausnin er sjaldnast spennandi.

Í gær var fjölskyldudagur í vinnunni. Það kom alveg fullt af litlum krökkum, alveg niður í nokkura vikna gamlir. Þegar við vorum að borða pulsur eftir guðsþjónustuna sá ég einn krakkann sem var eitthvað rauður á nefinu, og svo annan og svo annan og mér datt í hug að það hafi verið dálítið kalt í kirkjunni. Svo kom eldabuskan til mín, máluð eins og köttur í framan og sagðist hafa verið að mála krakkana. Þá fattaði ég hvað þetta var. Mikið getur maður verið vitlaus stundum.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Enn af vinnustaðnum

Það er alltaf starfsmannafundir á fimmtudagsmorgnum og þeir eru ansi óeffektívir því fólk þarf að tala svo mikið, heyra ekki hvað er sagt og hverfur svo eitt af öðru. Undir lok fundarins í morgun vorum við bara sex eftir og töluðum um hvernig hægt væri að bæta úr þessu því það voru ansi margir pirraðir á þessu. Það var talað um að skiptast á að stýra fundinum og ég bauðst til að gera það næstu viku og það var vel tekið í það. Skömmu síðar hitti ég sóknarprestinn og þegar honum var sagt að ég myndi stýra næsta fundi áttaði ég mig á því að þetta var rangt. Hann var ekki með þegar við töluðum um þetta og tók þessu sem persónulegri árás á sig, sem það var ekki. Þetta var ekki bein krítík á hann en það er hann sem á að stjórna fundunum. Þetta er dálítið leiðinlegt því ég hef sett út á ansi margt undanfarið og barði í borðið í síðustu viku og sagðist ekki vilja halda áfram þarna ef ekkert gerðist. Eftir það hefur ýmislegt gerst sem betur fer. Við drógum þessa ákvörðun sem sagt til baka.

Gaman að því að það var hringt frá Unglingakórnum í Trångsund (sem er hin kirkjan þar sem mér var boðið starf)og þau ætla að koma í næstu viku til okkar í Nynäshamn og vera með á tónleikum. Það væri gaman að koma á samstarfi á milli þessara tveggja unglingakóra.

sunnudagur, maí 22, 2005

Krulli Krullason er á leiðinni

Það ætti að vera óhætt að segja frá því núna en við eigum von á barni. Komin þrjá mánuði á leið. Það er búið að vera ansi erfitt að þegja yfir því undanfarið. Sérstaklega þegar maður er búinn að heyra um hina og þessa sem eru óléttir og langar svo að segja (eða æpa öllu heldur): Við líka!!
En þetta hefur gengið bara nokkuð vel. Svona frekar lítil ógleði miðað við það sem gengur og gerist en mikil þreyta sem er mjög vanalegt. Við fórum til ljósmóður fyrir nokkrum vikum og skömmu síðar í læknisskoðun en svo gerist ekkert fyrr en í byrjun júlí sem okkur finnst frekar óþægilegt. Maður vill fá staðfestingu á því að hún sé ennþá ólétt og allt eðlilegt. Það sést auðvitað ekkert á Hrafnhildi eins og er en við fundum smá kúlu um daginn. Það var eins og hún hefði gleypt egg í heilu lagi.
Ég er búinn að lesa nokkrar bækur og bæklinga og reyni að leggja mitt af mörkum því maður er með samviskubit að þurfa ekki að leggja á sig þetta líkamlega erfiði. Ég hef t.d. vaknað rétt fyrir sex á hverjum morgni til að gefa henni að borða. Það minnkar ógleðina sko. Annars er þetta dálítið óraunverulegt eins og er. Það er mjög skrýtið hvað Hrafnhildur er næm á alla lykt og finnur hana langt á undan öllum öðrum. Hún æpti í morgun: "Oj hvað það er mikil kúkafýla af Skrámi." Það var sama hvað ég þefaði, ég fann ekki neitt.
En jæja. Þetta er orðið opinbert og nú megið þið sem þegar vissuð segja öðrum. Merkilegt að báðar mömmur okkar eignist tvö fyrstu barnabörnin á sama ári. Að ógleymdum Afa Halldóri.

mánudagur, maí 16, 2005

Allt er þegar þrennt er

Þegar ég vaknaði í morgun hugsaði ég með mér: "Átti ég kannski að undirbúa eitthvað fyrir inntökuprófið í Uppsölum í kvöld?" Mig rámaði í að hafa séð einhvers staðar talað um einhver verk sem átti að stjórna og spila. Þá var bara að leita. Var það á heimasíðunni, tölvupósti eða á einhverjum pappírum. Ég fann það loks á umsóknareyðublöðunum og viti menn, þar stóðu tvö verk sem átti að undirbúa. Þegar ég las þetta á sínum tíma hélt ég ábyggilega að ég myndi fá þetta sent og svo var maður veikur og svoleiðis og var ekkert að pæla í þessu.
Ég fann verkið sem átti að spila í nótnabunkanum en hitt hafði ég aldrei heyrt um. Leitaði að því á netinu og fann það undir öðru heiti en forlagið átti það ekki á lager en sem betur fer var það til í tónlistarbúð inni í Stokkhólmi. Ég keypti það og stúderaði í lestinni. Þetta reyndist vera Adam átti syni sjö en allt önnur melódía en sú íslenska (eða danska) og svo var þetta mikil pólófónía og ólíkar taktegundir. Ég komst sem sagt aldrei í neitt hljóðfæri fram að prófinu og varð að reiða mig á tónheyrnarkunnáttuna en það gekk samt mjög vel. Ég stjórnaði sem sagt bara píanista og hann gleymdi meira að segja einni endurtekningunni og en sagði hann hefði áttað sig strax á því út frá hreyfingunum mínum og fannst það mjög gott.

Það borgar sig greinilega að vera dálítið kærulaus. Ég undirbjó mig mjög mikið fyrir hin prófin en komst ekki inn í Köben og var komin hálfa leið inn í Stokkhólm áður en ég hætti við og svo flaug ég inn í Uppsali eiginlega án þess að reyna. Þetta er eins og í fyrra þegar ég fór í þrjú atvinnuviðtöl. Ég lagði mig allan fram við það fyrsta, mætti vel klæddur, úthvíldur og reyndi að virka voða fagmannlegur en fékk ekki starfið (ég held reyndar að þeir hafi viljað konu sem hefur mikla reynslu af barnakórum og vön að takast á við félagsleg vandamál). Í hinum tveimur mætti ég frekar druslulega til fara, þreyttur eftir að hafa rifið mig upp kl. 5 um morguninn og keyrt í rúmlega 5 tíma og var mjög óformlegur í viðtölunum (sérstaklega því fyrr því ég var viss um að fá ekki starfið) en var boðnar báðar stöðurnar.

Það var mjög fallegt í Uppsala í dag. Það er allt svo snyritlegt, allir á hjólum og nánast engin bílaumferð í miðbænum. Skólahúsnæðið er líka frekar aðlaðandi og virðist vera góð aðstaða. Þetta er greinilega háskólabær því í mörgum búðum er tekið fram hversu mikinn stúdentaafslátt er gefinn.

sunnudagur, maí 08, 2005

Annar af tveimur orgelnemendum mínum spilaði í messunni í morgun og vakti mikla lukku. Hann komst líka inn í tónlistarmenntaskóla í Stokkhólmi næsta haust sem tekur inn 25 nemendur á ári, þar af bara 2 píanista.

Ég er að setja saman sönghóp með útvöldum söngvurum til að syngja á tónleikum í sumar en það gengur bölvanlega að finna æfingatíma þar sem allir geta. Ég er búinn að hringja og sms-a alveg ótrúlega oft. Held ég sé búinn að finna tíma en á eftir að fá staðfestingu frá einum. Svo á ég reyndar eftir að finna tónlist en það verður væntanlega auðveldara.

Við vorum að pína Skrám til að fara út en það var þvílík barátta. Hann er svo mikið músarhjarta. Á kvöldin er hann alveg æstur í að fara út, þ.e. þegar það er enginn umgangur en svona að degi til og þegar það er að okkar frumkvæði þá kemur það ekki til greina.

fimmtudagur, maí 05, 2005

KLAPPAÐI MEÐ EISTUNUM

Ég skrifaði þetta líka fína blogg á mánudagskvöldið um afmælisferð okkar hjónanna til Tallinn en sá svo daginn eftir að ekkert hafði sparast. Ég bendi á bloggfærslu Hrafnhildar. Ég get bara bætt við að við fórum á tónleika með baltneskri kammersveit sem spilaði Sibelius, Mozart og Mendelssohn undir stjórn Ashkenasy. Við klöppuðum og stöppuðum ákaft með Eistunum. Ég get alla vega sagt að innan borgarmúranna er Tallinn mjög fallegur miðaldabær en fyrir utan blasa við kommúnistablokkir, slitnar götur og hrörlegir sporvagnar.

Fór að vinna aftur á þriðjudaginn og er orðinn svo gott sem fullfrískur en má ekki fara í líkamsrækt í a.m.k. tvær vikur í viðbót. Það var rætt um prestana sem sóttu um. Af fimm sem sóttu um koma þrjár konur til greina. Mér finnst ein alveg tilvalin. Hún er akkúrat það sem söfnuðurinn þarf á að halda en meirihlutinn er ekki á þeirri skoðun. Þau eru hrædd um að hún sé of áköf og tali of mikið. Mér finnst stundum teknar lélegar ákvarðanir á þessum vinnustað og þetta er ein af þeim.