mánudagur, ágúst 14, 2006


Það var nú alveg meiriháttar að ganga Laugaveginn. Við vorum alltaf að stoppa til að "úúaaa" og "vááaa" yfir litunum í náttúrinni. Við tókum þetta á fjórum dögum og gátum tekið nokkra útúrdúra til að skoða íshelli og Markarfljótsgljúfur. Við kynntumst líka nokkrum útlendingum, sérstaklega síðasta kvöldið, það myndaðist mjög skemmtileg stemmning í skálanum. Ég var líka mjög ánægður hvernig við pökkuðum. Við tókum akkúrat nógu mikið af fötum og mat en eftirá að hyggja var þessi heila viskýflaska úr gleri ekkert mjög skynsamleg. Enda gáfum við með okkur síðasta kvöldið. Næsta ár verður það svo Hornstrandir með mömmu og kannski maður fari einhverjar styttri göngur eins og Fimmvörðuháls.

Námskeiðið fyrir drengina hófst í morgun og stendur fram á föstudag. Ég hafði mestar áhyggjur af því að finna upp á leikjum fyrir þá því það er nú ekki hægt að láta þá syngja í þrjá tíma. Ég hafði engar áhyggjur af lagavali. En þegar á reyndi var þetta akkúrat öfugt. Það var ekkert mál að finna afþreyingu en erfiðara að finna lög sem pössuðu. Við þurftum reyndar að æfa inni í kirkju því það var verið að vinna í andyri safnaðarheimilsins sem þýddi að það var ekki hægt að komast í æfingasalinn og of mikill hávaði til að vera í safnaðarsalnum. En þeir voru voða áhugasamir þegar ég sýndi þeim hvernig píanóið fúnkerar og á morgun vildu þeir kynnast orgelinu.

Svo var hringt í mig áðan og mér boðin organistastaða. Reyndar á Eskifirði en hún var voða spennandi því þetta var líka menningarfulltrúi staðarins og ágætis samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Svo voru launin góð. En þá væri alveg eins hægt að búa áfram í Svíjóð eins og að vera á Austfjörðum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jamm, stórkostlegt að fara út á land í tæra náttúruna, verð líka að taka það fram að þetta er stórglæsileg mynd af litla bróður

Nafnlaus sagði...

En gaman!

En thid duglegir ad taka laugaveginn a 4 dogum!

Flott hja ykkur :)

Maggi sagði...

Af einhverjum ástæðum gerðu allir skálaverðirnir ráð fyrir að við ætluðum að ganga þetta á tveimur dögum. Við vildum meina að það væri af því að við litum svona hraustir út. Kannski var það bara af því við vorum íslendingar í yngri kantinum.