mánudagur, janúar 30, 2006

Sætust í heimi


Ísak er farinn að kúra sig í hálsi Hrafnhildar.... hafiði séð nokkuð eins sætt. Hann er með uppáhaldsstellingar hjá hverjum og einum. Ég þarf helst að vera með hann á öxlinni minni. Halldór er sá eini sem getur látið hann liggja á bakinu í fangi sér og Dísa lætur hann liggja á maganum á maganum sínum Við ætlum nú að reyna að lengja tímann á milli gjafa á nóttunni. Það hefur gengið ágætlega að degi til, stundum fer það upp í fjóra tíma, en hann drekkur alltaf á tveggja tíma fresti á nóttunni.

Kóræfingar ganga vel. Ég hef reyndar aldrei komist yfir allt það sem ég hef ætlað mér fyrir hverja æfingu en ég er viss um að þetta verða glæsilegir tónleikar. Það er góð stemning á æfingum og stjórnin var að tala um að mætingar hefðu verið extra góðar. Það er búið að bætast smátt og smátt af fólki og má segja að það sé orðið "uppselt" í allar raddir. Nú er bara að vona að það verði uppselt á tónleikana líka. Þeir verða sem sagt á Pálmasunnudag(10 apríl) og þriðjudeginum eftir það. Allir að mæta. Tvö mjög góð og ólík verk sem hafa að öllum líkindum aldrei verið flutt áður.

Kauptilboðsleikurinn

Þau höfnuðu tilboðinu okkar. Vildu fá meira fyrir íbúðina, taka lánið með sér og það sem versta var, ekki afhenda fyrr en eftir fjóra mánuði. Ég gerði annað tilboð í dag, nokkur hundruð þúsund hærra og afhending 1 apríl. En ég lét fasteignasalann vita að við teygjum okkur ekki lengra hvað varðar verð og tímasetningu.

sunnudagur, janúar 29, 2006


Ísak er búinn að vera afslappaður og rólegri fyrir það mesta. Hann skælbrosir ansi oft til okkar, sérstaklega þegar hann nær augnsambandi við mig á skiptiborðinu. Hrafnhildur er búin að vera á kúarafurðalausu mataræði og ég held að það sé að skila árangri.

Ég er alveg gáttaður á þessari umferðarmenningu. Það er alltaf einhver gaur sem keyrir á fullu um íbúðargötur, fólk dreifir sér yfir akreinarnar þ.a. það er ekki hægt að taka fram úr nema með því að sikksakka og svo er ég oft sá eini sem hleypi fólk inn í röðina, en þá treður sér alltaf næsti bíll á eftir inn í röðina. Ótrúleg frekja.

föstudagur, janúar 27, 2006

ÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍ!!!!!!!!!!!!!!!!

Ég fór í morgun á fasteignasölu og gerði tilboð í íbúð. Það stendur fram til klukkan 11 á mánudaginn. Við ætluðum að gera tilboð í gær í sérhæð við Langholtsveg en fréttum svo á miðvikudagskvöldið að hún hefði allt í einu selst. Hún hafði verið í sölu síðan í nóvember og ekkert tilboð komið.

Þessi er í Mosarima og var sett á sölu í fyrradag. Við erum reyndar ekkert hyperánægð með staðsetninguna, þetta er eins og að keyra upp í Mosó en íbúðin er voða hugguleg, á jarðhæð með sérgarði/palli og mjög stutt í leikskóla og skóla. Svo er þetta byggt '94 þannig að maður þarf líklega ekki að standa í miklum eða neinum viðgerðum sjálfur næstu árin.

laugardagur, janúar 21, 2006

Habbidu og fjölskylda er fyrir norðan þ.a. ég er einn í íbúðinni. Merkilegt nokk finnst mér alltaf erfiðara að sofna þegar ég er einn. Ég lá í tvo tíma í nótt án þess að sofna. Ég náði í geislaspilara og hlustaði á Graduale Nobile diskinn og þegar hann var búinn hlustaði ég á upptöku úr síðustu messunni minni í Svíþjóð. Bassinn í vokalensamblinu mínu hafði tekið hana upp og sendi mér geisladisk. Það var mjög gaman að hlusta á þetta og æðislegt að eiga þessa minningu. Þetta er sem sagt bara tónlistin en kveðjuræða prestsins og mín eru með þarna. Ég heyrði ýmislegt á upptökunni sem ég hafði ekki tekið eftir í messunni þar sem ég söng með sjálfur í sönghópnum. Maður á helst ekki að syngja með þegar maður er að stjórna. Maður heyrir ekki eins vel þá. Ég náði svo ekki að sofna fyrr en rúmlega 3 í nótt þegar ég setti The Real Group á geislann.

Draumaíbúðin okkar á Langholtsvegi er of mikil áhætta fyrir okkur. Við fengum Halla bróður Ólu til að kíkja á hana með okkur að degi til og honum leist ekkert á húsið. Þetta er sem sagt forskalað timburhús (þ.e. timburhús klætt með steypu) sem er að hans mati vitlausasta hugmynd íslenskrar byggingarsögu. Við hittum líka gamla karlinn sem býr á efri hæðinni sem er smiður og hann sagði að húsið þarfnaðist stöðugrar viðgerðar, þyrfti til að mynda að mála á fjögurra ára fresti. Íbúðin var annars fullkomin að öðru leyti nema það vantaði geymslu. Þetta var sérhæð með með stórum og fallegum garði á mjög góðum stað. En ég nenni bara ekki að standa í viðgerðum á hverju sumri og þurfa alltaf að safna fyrir þeirri næstu.

Við Mamma fórum að sjá Eldhús eftir máli í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Mjög skemmtileg og góð sýning með skemmtilegri tónlist eftir Bjössa Thorarensen. Ég held það hafi verið ca. 80% konur í áhorfendahópnum.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Nei, ég er búinn að gefast upp á íslenskum húmor. Ég hef séð hluta af tveimur þáttum af Stelpunum og skil ekki hvað mörg atriðin eru ófyndin og tilgangslaus. Ég sá líka eitthvað úr Svínasúpunni hér um árið og það var alveg sama sagan þar. Ég held að Óskar Jónasson sé búinn að tapa neistanum. Svo fannst mér hálf sorglegt að sjá hann sem Skara skrípó að auglýsa nýtt tryggingafélag í fréttunum. Fyrir utan eitt og eitt atriði var Skaupið líka frekar slappt og þegar ég horfði á Spaugstofuna á laugardaginn var þá... jú, ætli ég hafi ekki brosað tvisvar. Ég ætti náttúrlega ekkert að vera að hanga yfir sjónvarpinu en Ísak krefst þess bara svo oft að maður haldi á honum og gangi um gólf og þá getur maður lítið gert annað. Kannski maður neyðist til að halda uppi samræðum við fólk.

Kóræfingar ganga ágætlega. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir aðeins hraðari yfirferð en þetta á eftir að verða fínt. Það tínist inn nýtt fólk við og við sem er mjög gott en ég hef aldrei hitt allan sópraninn í einu. Þær eiga að vera 16 og ég hef á þessum þremur æfingum aldrei séð fleiri en 10 samanlagt. Það þarf að taka þetta föstum tökum.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Ég var búinn að skrifa voða fínt blogg um daginn, m.a. um fyrstu kóræfinguna og svoleiðis en ég gat aldrei birt hana. Það kom alltaf upp einhver tæknileg villa. En það var önnur æfing í gærkvöldi og hún gekk barasta svona líka vel. Það mættu reyndar bara tveir tenórar af 6 þ.a. ég bað fólk að vera með allar klær úti í leit að þessum sjaldgæfu fyrirbærum. Ég er allavega búinn að klófesta einn, þ.e. Gunnar bróður. Svo ætla ég að prufa að hringja í a.m.k. tvo í viðbót.

Ég fór með Ísak í höfuðbeina og spjald... eitthvað dæmi í gær. Ef það hefðu ekki allir verið búnir að tala um hvað þetta væri gott fyrir krakkana þá hefði ég jafnvel gengið út úr miðjum tímanum. En ég er ekki frá því að honum líði betur nú þegar í dag en það var sagt að það tæki hann kannski tvo daga að losna við alla spennu. Fyrir þá sem ekki vita er þetta einhvers konar heilunarnudd, maður á að tala voða mikið við barnið og segja því að þessi erfiða fæðing gerist bara einu sinni. Og fyrst að naflastrengurinn var tvívafinn um hálsinn á honum þá hélt nuddarinn kyrkingartaki um hann til að minna hann á þá lífsreynslu og það á að losa um þá spennu.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Jóna, amma hennar Hrafnhildar, dó í svefni í nótt. Megi góður Guð geyma hana.
Ég þakka Guði fyrir að við fórum að heimsækja hana í gærkvöldi með Ísak og þá var hún hress að vanda og aldrei hefði okkur grunað að það væri komið að síðustu kveðjustundinni. Við sögðum henni einmitt frá íbúðinni sem við vorum að skoða í gærkvöldi sem er bara beint á móti henni, þ.e. heimili Jónsa og Ólu á Langholtsvegi. Og hún var einmitt að tala um það við Ólu í gærkvöldi hvað það yrði nú skemmtilegt að hafa okkur beint á móti og svo Jónu Björk bara aðeins neðar í götunni.
Ég segi bara eins og Mamma sagði að ég er svo þakklátur fyrir að hafa kynnst svona skemmtilegri konu.

föstudagur, janúar 06, 2006

Þá er maður byrjaður að kenna og það er bara alveg ágætt. Ég held ég sé með rúmlega 20 nemendur. Sumir eru búnir að spila í allt að fimm ár og spila jafnvel sónatínur og Bach. Svo eru aðrir sem eru nýbyrjaðir og í gær fékk ég meira að segja eina sem var að koma í sinn fyrsta píanótíma. Ég spurði hvort hún kynni einhver lög og hún kinkaði kolli og sagðist kunna þrjú. Fyrsta lagið spilaði hún stolt en það var tónstigi upp og niður eina fimmund. Svo spilaði hún Góða mömmu og Skessuleik (reyndist vera Allir krakkar). Í dag komu tveir átta ára krakkar og voru alveg rosalega dugleg og sæt. Sögðu eiginlega ekki neitt en spiluðu allt rétt. Það verður gaman að kenna þeim.

Ég átti að spila í tveimur guðsþjónustum nú um helgina en allt í einu datt önnur upp fyrir því að presturinn hringdi í annan organista því hann var ekki búinn að heyra í mér. Ég hefði svo sem alveg getað hringt í hann en ég gerði ekkert ráð fyrir að fá sálmana fyrr en rétt fyrir athöfn. Það var þannig þegar ég spilaði þarna fyrir nokkrum árum og hafa fleiri organistar talað um að hann gerði þetta alltaf svona. Þetta átti líka allt að vera einraddað og svo hefði hann alveg getað hringt í mig sjálfur. Hann reyndi tvisvar í dag þegar ég var að kenna og með slökkt á símanum, meiri var þolinmæðin ekki og þá talaði hann við annan. Svo hringdi hann í starfandi organista sem er í fríi úti á landi og hann náði í mig og var voða sorrí yfir þessu. Ég skrapp svo yfir í kirkjuna og talaði við prestinn sem var búinn að draga heilmikið í land og var bara hinn hressasti.
Mér finnst reyndar fínt að fá sálmana með smá fyrirvara þannig að maður geti gert skemmtileg forspil eða varíerað erindin. Ég spilaði í Áskirkju á gamlárskvöld og reyndi svoleiðis að ná í prestinn þar í marga daga því þar vissi ég að ætti að vera góður kór en allt kom fyrir ekki og ég fékk bara sálmana þegar ég mætti skömmu fyrir athöfn.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Við ætluðum að ná í búslóðina í gær og vorum búin að smala saman öllum bræðrum okkar og föður. Ég og Gunnar fórum á undan til að borga reikninginn og tollafgreiða. Þegar við vorum búnir að standa í því í hálftíma þá fyrst fékk ég að vita að það tæki a.m.k. einn dag að tollafgreiða. Það hafði mér ekki dottið í hug. Þegar við fluttum út til Gautaborgar þá fengum við þetta bara sent heim að dyrum og þurftum ekkert að hafa samband við tollinn og sama þegar við sendum dót út eftir brúðkaupið. Nú verður erfiðara að smala saman mannskapnum því Daði byrjaði í skólanum í dag og Gunnar í vinnunni. Svo hringdi Edda Borg í mig í gær og bauð mér að koma og hitta hana. Þegar ég spurði hana hvenær kennsla hefst þá byrjar hún í dag. Ég veit ekki afhverju mér fannst hún eiga að byrja á mánudaginn. Það gæti verið af því að kóræfingarnar byrja þá.
Við fórum að skoða eina íbúð í gær og erum mjög skotin í henni. Þetta er sérhæð í Laugarneshverfinu með rosalega flottri innréttingu og skemmtileg að innan. Svo er smá garðskiki sem er algjörlega óræktaður sem væri hægt að dunda sér í. Tengdapabba finnst alveg ómögulegt að við kaupum það fyrsta sem við skoðum en okkur leist ansi vel á þetta og höfðum góða tilfinngingu þegar við komum þarna inn. Við ætlum auðvitað að skoða þetta betur og leita ráða út um allt og skoðum kannski einhverjar í viðbót en þetta myndi henta okkur ansi vel. Við skoðuðum reyndar eina íbúð kvöldið áður í Grafarvoginum en innviðirnir voru bara svo þreytulegir þar.

mánudagur, janúar 02, 2006

Við vorum að sækja Skrám í dag frá einangrunarstöðinni og fórum með hann til Jónu Bjarkar þar sem hann verður þar til við flytjum inn í eigin íbúð. Hann er strax farinn að taka nýju vistarverurnar í sátt og búinn að kela þvílíkt við okkur. Hún Kristín Jó sem sá um hann sagðist muna sakna hans mikið, hann væri algjört æði. Hann hefur líka tekið Ísak í sátt, er sem sagt ekki afbrýðissamur og virðist ekki hafa mikinn áhuga á honum sem betur fer.
Ísak brosti svo í morgun til okkar þegar hann lá spriklandi á skiptiborðinu. Hann hefur reyndar oft brosað áður en þetta var í fyrsta skipti þar sem þetta fór ekkert á milli mála.
Í kvöld ætlum við að skoða eina íbúð og aðra á morgun og svo sækjum við búslóðina og ég byrja að vinna á mánudaginn. Þá hefur maður betur á tilfinningunni að maður sé fluttur heim.