mánudagur, júlí 05, 2004

Við erum búin að finna pössun fyrir Skrám. Ein gömul kona sem býr í blokkinni vill endilega passa hann. Hún er mikill dýravinur og ætlar að taka hann með sér í sumarhúsið sitt sem liggur við Vänern (stóra vatnið hér í Svíþjóð). Honum á eftir að líða svooo vel.

Nú er ég að hlusta á mjög góðan þátt hennar Indru á Rás 1 um Charles Ives. Hann verður endurtekinn á fimmtudagskvöld fyrir þá sem misstu af og svo held ég að þetta sé sería sem verður á hverjum mánudegi kl. 16.15 og fjallar um tónskáld í Bandaríkjunum (eða BNA eins og farið er að skrifa).

Nú erum við farin að hegða okkur eins og túristar hér í Gautaborg. Um dagin fórum við í "Pödduna" sem er bátur fyrir túrista. Í dag fórum við í bátasafnið sem eru nokkur skip og bátar sem maður fær að skoða. Það var mjög gaman að "skríða" um í kafbátinum en svo vorum við með mjög leiðinlegan leiðsögumann sem var mjög þvoglumæltur, sagði frekar lítið, talaði lágt og beið ekki eftir að allir voru komnir til að hlusta á hann. Svo ætluðum við í "Varalitinn" sem er háhýsi hér í borg til að fá okkur kaffihressingu og njóta útsýnisins en það var nýbúið að loka kaffihúsinu. Þá tókum við eftir nýju hverfi við höfnina sem sennilega hefur verið hannað og byggt fyrir 10 til 15 árum og átti að vera voða nýtískulegt og smart en er eitthvað hálf mis. Við vissum alla vega ekkert af þessu. Þarna voru svo nokkrir bátar með veitingastöðum sem voru ekkert spes nema einn kínverskur sem var mjög flottur að utan alla vega.

Kem bráðum heim.

laugardagur, júlí 03, 2004

Ég var á tónleikum með karlakórnum Chanticleer frá San Fransisco og þvílíkt og annað eins. Þetta er einhverjir bestu tónleikar sem ég hef upplifað. Þeir eru 12 og syngja blandað (eins og Kings Singers nema hvað að þeir eru fleiri) og þeir sungu svo vel, tandurhreint og músíkalskt. Þá sárasjaldan að eitthvað var mögulega falskt þá heyrði maður það undir eins því allt annað var svo vel intónerað. Svo var svo gaman að þeir sungu án stjórnanda og fylgdust mjög vel hver með öðrum, skiptust á að gefa tóninn og að kynna prógrammið sem var ekki af verri endanum, allt frá endurreisnartónlist, hárómantík, nútímastykki og barbershop. Þeir tóku meðal annars Duke Ellington lag sem Komedian harmonist sungu og gerðu það mun betur en orginalið.
Hafi einhver möguleika á að heyra í þeim nokkurs staðar mæli ég eindregið með þeim. Þeir eru frábærir á tónleikum. Það eina sem ég hef út á þá að setja var að á stundum var þetta einum of fullkomið, aðallega hvernig þeir kóreógraferuðu uppstillingarnar. Meiri upplýsingar um kórinn á heimasíðu þeirra www.chanticleer.org

Ég var að ljúka við að semja brúðarmarsinn fyrir Hrafnhildi og er bara nokkuð ánægður með það stykki. Þegar ég var búinn að fá hugmyndina að verkinu þá var bara að púsla því saman. Það er eins og það hafi verið tilbúið og bara verið mitt að nálgast það. Ég ætlaði að hafa það í H-dúr (fyrir Hrafnhildi) en þegar ég raulaði það þá lenti ég alltaf í B-dúr. Svo þegar ég var búinn þá sá ég að ég hafði samið það í gamalli kirkjutóntegund (B-mixólýdísk) án þess að það hafið verið meiningin.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Nú er Hrafnhildur formlega búin að fá vinnuna. Það var hringt í hana í gær og um leið fóru fram einhverjar fyndnustu samningaviðræður:
Hann: Hvað vildurðu fá í laun?
Hún: Svona mikið.
Hann: Já, það er ekkert mál. Ég var til í að láta þig fá aðeins meira.
Hún: Viltu þá ekki bara láta mig hafa ennþá meira en það?
Hann: Jú, jú. Eigum við ekki bara að segja það.

Þannig að nú verður Habbidu með 50 sænskum krónum meira en ég á mánuði.
Við vorum reyndar að hugsa um að drýgja tekjurnar enn meira með því að bjóða upp á tölvuviðgerðaþjónustu. Hún gat gert við Makkann um daginn þannig að maður kemst á netið og mér tókst að laga fartölvuna. Við vorum búin að reyna oft og báðum Eyjó að kíkja á þetta þegar hann var í mat hér um kvöldið en hann átti ekki til nógu mikið af fúkyrðum til að lýsa vanþóknun sinni á Microsoft. Hann sagði að við ættum bara að losa okkur við þetta Windows "drasl" og skipta yfir í Linux. Ég er sammála honum að mörgu leyti. Þetta virkar vel fyrstu mánuðina eftir að maður kaupir tölvuna en svo verður þetta alltaf flóknara þyngra í vöfum. Mér tókst sem sagt að gera við tölvuna með því að fylgja einum af mjög mörgum leiðbeiningum á netinu. Lengi lifi Macintosh sem var miklu auðveldara að gera við (þá sjaldan eitthvað bjátaði á)!

Fórum að sjá The Ladykillers (nýjustu mynd Cohen bræðra) í gær og fannst hún alveg ágæt. Hún byrjaði frekar rólega en átti góðan lokasprett. Við sáum líka Intolarable cruelty (eða hvernig sem maður stafar það nú) um daginn en hún var ekki nógu góð. Þeir eru eitthvað búnir að tapa fluginu. Í fyrra sá ég The man that wasn't there og hún var vel gerð, fín saga en heillaði mig ekki eins og fyrri myndirnar gerðu. Það eru myndir sem maður nýtur að horfa á aftur og aftur.

Við komum heim á fimmtudaginn (8. júlí) um kvöldið og förum aftur föstudaginn 20. ágúst. Hægt er að bóka viðtalstíma á þriðjudögum milli kl. 8.15 og 8.37.