föstudagur, október 27, 2006

Junior stóð sig með stakri snilld í morgun hjá dagmömmu. Hann fór bara strax að leika sér og kippti sér ekkert upp við það þegar við fórum. Svo borðaði hann allt með bestu lyst. Kristjana var frekar hissa á því. Yfirleitt eru börnin varkár fyrsta skiptið við matarborðið. Á mánudaginn mætir hann kl. 8 og svo sæki ég hann kl. 11 og svo verður hann líklega alveg fram til kl. 14 á þriðjudaginn eftir allt gengur vel.

fimmtudagur, október 26, 2006

Haldiði ekki að junior sé farinn að segja "mamma". Þetta kom bara svona allt í einu.
Við mættum í aðlögun hjá dagmömmu í gær og það gekk bara svona líka vel. Við vorum bara í klukkutíma, hann var voða rólegur fyrst en undir lokin þótti honum mjög gaman. Hann fór ekki í dag því Hrafnhildur var lasinn en ég fer aftur með hann á morgun og skrepp jafnvel frá í smá stund.

þriðjudagur, október 24, 2006

Fyrir rúmri viku hugsaði ég að ég væri búinn að stjórna Carmina burana og ætti sennilega ekki eftir að gera það fyrr en eftir a.m.k. fimm ár. Kórinn flutti þetta náttúrlega í fyrra og svo aftur um daginn. En svo er allt í einu annað upp á teningnum núna. Það er verið að athuga með að taka það upp á disk á næstunni því það var það mikill áhugi fyrir þessari kammerútgáfu, margir að spurja um hana á tónleikunum og svo endaði Silja gagnrýni sína með að biðja um upptöku af þessu.
Svo er komið svar frá Litháen. Þeir vilja að kórinn syngi á opnunartónleikum listahátíðarinnar 1 júlí og flytji Carmina burana. Af einhverjum ástæðum vorum við búin að bíta það í okkur að þeir hefðu engan áhuga á þessu verki. En svo vilja þeir heyra eitthvað íslenskt. Vonandi verður hægt að flytja líka Guðbrandsmessuna. Spurning hvort það sé of mikið á einum og sömu tónleikunum?

föstudagur, október 20, 2006

Ég stel hér með plögginu af síðu Hildigunnar.

Langi fjölskylduna í sunnudagsbíltúr á laugardegi og skemmtilega upplyftingu í leiðinni mæli ég með heimsókn á Draugasetrið á Stokkseyri á morgun. Skemmtilegt safn, fín kaffistofa og svo er Hljómeyki með (að hluta til) draugalega tónleika klukkan 17.00. Flutt verða bráðflott og aðgengileg ný verk (meðal annars eitt lag úr Mýrinni, mjög flott, nýtur sín ekki sem skyldi þar, heyrist í bakgrunni gegn um útvarp). Og svo nokkrar helstu perlur íslenskrar kórtónlistar... ;-)

Aðgangseyrir 1.500, 500 fyrir námsfólk og eldriborgara/öryrkja, frítt fyrir börn.

mánudagur, október 16, 2006

Það kom þá gagnrýni um Carminu burana eftir allt saman. Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði í Tímarit Máls og menningar þann 5 október. Birti nokkur vel valin orð:

Sár harmur, ást og gredda

í flutningi Fílharmóníu á Carmina Burana

Ég vissi að kantatan Carmina Burana væri skemmtilegt verk, sumir þættir tónlistarinnar algerir gæsahúðarhvatar og efnið óvenjulegt: ástir og nautnir og fyllirí. En ég vissi alls ekki hvað það er rosalega skemmtilegt fyrr en í gærkvöldi þegar ég hlustaði á Söngsveitina Fílharmóníu flytja það í Langholtskirkju undir stjórn síns unga kórstjóra, Magnúsar Ragnarssonar.

Magnús þessi var einn félaginn í hinni dásamlegu hljómsveit Kósý sem heillaði kvenfólk á öllum aldri (og jafnvel karla líka) fyrir fáeinum árum. Hann er líka uppalningur Jóns Stefánssonar, er mér tjáð, svo hann veit allt um kórsöng og kórstjórn frá blautu barnsbeini. Hann fær líka mikið út úr félögunum í Fílharmóníu, að ekki sé minnst á drengjakórinn hennar Þórunnar Björnsdóttur sem söng með í nokkrum þáttum verksins. Magnús tekur meira að segja virkan þátt í textaflutningi á einum stað sem vakti mikla kátínu tónleikagesta.

Næstur kom þó sá sem ennþá verr er komið fyrir: svanurinn sem stiknar á teini meðan hann syngur og er loks settur á fat og borinn á borð. Þá þagnar hann, greyið, því þá er hann væntanlega étinn. Einar Clausen tenór söng þennan vesaling svo ekki var auga þurrt í kirkjunni! Þá tók Bergþór við sem ábótinn í Nautnalandi sem vinnur aleiguna af þeim sem voga sér að spila við hann fjárhættuspil og hlýtur að launum hrikalegar bölbænir þeirra. Langa kvæðið um drykkjuskapinn sungu svo karlaraddir kórsins af mikilli innlifun.

Þriðji þáttur er um ástina og þar fengum við loks að hlýða á englarödd Hallveigar Rúnarsdóttur sópran sem söng unaðslega um stúlkuna í rauða kirtlinum - sjálf í rauðum síðum silkikjól svo manni fannst sviðið loga í kringum hana.

Og þegar áheyrendur höfðu í lokin verið hvattir til að gráta örlög hins auma með honum hlýddu þeir ekki heldur spruttu umsvifalaust upp úr sætum sínum, hrópandi og kallandi og klappandi saman lófum eins og vitlausir! Það mátti sjá að söngvurunum hálfbrá við þessi harkalegu viðbrögð úr sal, en þeir jöfnuðu sig fljótt og tóku af gleði og auðmýkt á móti linnulausum fagnaðarlátum. Salurinn kyrrðist ekki fyrr en hann fékk að heyra aftur lofsönginn "Nú er glatt á hjalla" en eftir það tíndist fólk hægt út úr kirkjunni, greinilega þvert um geð sér. Ég get varla beðið eftir að heyra verkið aftur og vildi óska þess að Fílharmónía gæfi þennan flutning út á diski.

sunnudagur, október 15, 2006

Ég er orðinn ógeðslega þreyttur á að heyra fólk tala um að ég sé alltaf að vinna. Það er alltaf verið að spurja Hrafnhildi að því hvort henni finnist ekki leiðinlegt að ég sé aldrei heima. Það er búið að vera mikið um að vera undanfarnar vikur en ég hef rétt slefað yfir 40 stundir á viku. Hrafnhildur er að vinna tvo morgna í viku og þá er ég með Ísak. Á að giska er hún með hann rúmlega 60 % af tímanum og ég þá tæplega 40 %. Svipað hlutfall gildir með heimilisstörfin. Ég veit í rauninni ekki um neinn maka sem er jafnmikið heima og ég.
Ég taldi saman tímana og þetta er niðurstaðan:
1. vikan í sept: 32 tímar
2. vikan: 35 tímar
3. vikan: 29 tímar + sólarhringsferð til Eiða
4. vikan: 38 tímar
1. vikan í okt: 42 tímar
2. vikan í okt: 43 tímar

laugardagur, október 14, 2006

Horfið líka á þetta til enda. Ég hló svo mikið að ég fór að hrína!
Ómægod hvað þetta er fyndið!

Flutti Eddu í dag með Sinfó. Það gekk bara alveg lygilega vel. Alveg mesta furða hvað maður hitti á margar réttar nótur. Það er reyndar einn kafli sem er bara ekki hægt að syngja af neinu viti. Held að hann hafi verið á sýrutrippi þegar hann samdi þetta. Var hann ekki á undan sínum tíma í öllu hvort eð er.

Ég tók alla Fílharmóníuna í raddpróf og það tókst bara ansi vel. Það var góð stemning fyrir þessu. Það voru náttúrlega allir nervusir þegar þau komu inn til mín og Margrétar en allir stóðu sig voða vel. Það voru yfir sextíu sem komu og 8 sem ekki stóðust prófið. Flestir tóku því nú bara nokkuð vel að fá ekki að vera áfram, áttu jafnvel von á því á meðan aðrir voru dálítið leiðir. En ég heyri greinilegan mun á kórnum. Þessar tvær æfingar í þessari viku hafa gengið mjög vel. Ég er að æfa eitt lag fyrir aðventutónleikana sem er mjög rytmískt og það gengur miklu betur en ég gerði ráð fyrir. Það eru sennilega allir enn á tánum eftir þessi raddpróf.

laugardagur, október 07, 2006

Við fórum að sjá Brottnámið í gærkvöldi. Það var ágætis skemmtun. Uppfærslan góð og söngvararnir fínir. Tónlistin fannst mér bara svona lala. Ég reyndi einu sinni að hlusta á þessa óperu og gafst upp og ákvað að það væri ábyggilega skemmtilegra að sjá hana. Svo sá ég hana í sjónvarpinu en ákvað að það væri sennilega skemmtilegra að sjá hana á sviði. En ég held það hafi vantað ansi mikinn kraft í þá sýningu sem við sáum í gærkvöldi. Ég veit að þetta stóð ansi tæpt fyrir frumsyningu og því hefur kannski verið mikill kraftur í sýningunum síðustu helgi. Svo var náttúrlega mjög leitt að önnur söngkonan var veik og söng ekkert. Það kom ekki að sök í fyrsta söngatriðinu hennar sem var dúett á móti Bjarna Thor og hún talaði bara sinn texta. En svo komu nokkur samsöngsatriði þar sem hún þagði bara og það var stundum mjög skrítið því textinn hennar birtist á textavélinni. Og svo vantaði greinilega inní tónlistina á nokkrum stöðum. Eftir á að hyggja voru nokkrir staðir í sýningunni með ansi langri þögn þar sem ekkert var að gerast og ég veit ekki hvort hún átti að vera að syngja um leið eða hvað var í gangi.
Svona lagað getur alltaf komið fyrir og ýmsum kann að þykja ég ansi harður en maður er að borga vel yfir fjögur þúsund krónur fyrir miðann, sem var samt á afslætti því við fórum ansi mörg úr Fílharmóníunni, og þá á maður erfiðara með að fyrirgefa svona hluti. Þetta hefur tæplega komið mjög skyndilega upp á. Var ekki hægt að fá einhverja úr kórnum til að syngja hlut hennar eftir nótum frá hliðarlínunni? Nóg er til af fínum sóprönum í kórnum.
En það sem gerði sýninguna þess virði að sjá var þessi stórkostlega sópransöngkona sem söng Konstönsu. Þvílíkt og annað eins!

fimmtudagur, október 05, 2006

Um leið og síðasta hljómnum var sleppt í Carmina í gærkvöldi brutust út þessi líka svakalegu fagnaðarlæti og eftir nokkrar sekúndur voru allir staðnir upp. Það voru mjög margir að bera þennan flutning saman við annan víða um heim og sá samanburður var mjög hagstæður okkur í vil. Kórinn stóð sig frábærlega, hljóðfæraleikararnir voru ekki alveg eins einbeittir og á sunnudaginn en voru samt frábærir (þetta var nefnilega nánast fullkomið þá) og einsöngvararnir voru í enn meira stuði í gær.
Það var gaman að heyra viðbrögð fólks við því þegar Einar Clausen skakklappaðist inn kirkjugólfið í forspili Svanasöngsins, berfættur með hvíta slaufu og hvítur í framan. Það voru margir sem héldu að þetta væri einhver þroskaheftur að villast inn í kirkjuna á miðjum tónleikum. Ég tók smá áhættu með að velja hann en er MJÖG ánægður með útkomuna. Hann átti líka hug og hjörtu allra í kórnum. Hann mun ábyggilega syngja þetta í komandi uppfærslum næstu árin.
Ég veit að flestar piccolo stelpurnar lesa þetta og get því komið því á framfæri að þið hafið staðið ykkur frábærlega. Ég hef eiginlega alltaf gleymt að segja það.

sunnudagur, október 01, 2006

Tónleikarnir tókust stórkostlega vel. Bravóhróp og læti frá fullri kirkju. Ég var alveg furðu rólegur og laus við stress enda treysti ég kórnum alveg fullkomlega. En það breyttist allt þegar leið yfir eina úr kórnum í miðri aríu hjá Hallveigu. Hún var alveg náföl og með galopin augun. Mjög óhugnanlegt. Svo stóð hún upp og allt virtist í lagi þar til í næsta kafla þegar hún féll fram fyrir sig, yfir einn kórdrenginn og á slagverkið. Þá sló ég af og allir fóru að huga að henni. Enda var alveg rosalega heitt í kirkjunni og loftlaust enda alveg blankalogn úti. Það var mjög skrítin stemning eftir þetta og við kláruðum verkið og tókum meira að segja aukalag og það létti töluvert stemninguna. Sá stúlkuna um leið og ég kom út og það var allt í fínu með hana. Vona að ekkert ami að kórdrengnum.