sunnudagur, júní 27, 2004

Hrafnhildur kemur mér sífellt á óvart þessa dagana. Hún er svo róleg út af íbúðaskiptunum. Ég var búinn að vera heima í klukkutíma á fimmtudaginn þegar hún sagði: Æ já. Alveg rétt. Anna J hringdi áðan og sagði að íbúðin í Stokkhólmi væri bara fín. Fínt umhverfi og svona. What ever!"
Svo er hún farin að horfa dáldið á íþróttir.
Svo viðurkenndi hún í gær að henni þætti gaman að einu djasslagi sem ég var að spila (Lullaby of Birdland með Sarah Vaughan). Hún sem er ekkert fyrir djass.
Og þegar ég kom heim um daginn var hún búin að gera við Makkann þannig að maður gat farið á internetið á honum. Hvað er að gerast?

Eins og margir vita hef ég alla tíð verið mikill Macintosh aðdáandi. Þetta eru frábærar tölvur. Ég lét undan þrýstingi í haust og samþykkti að keypt yrði PC. Það er reyndar ágætis tölva. Það er Compaq fartölva en núna er hún eitthvað að stríða okkur því það er ekki hægt að uppfæra neitt af windowsforritunum, og sum virka bara ekki neitt. Þetta er ábyggilega einhver vírus en við höfum þurft að berjast við vírusa við og við. Það var aldrei neitt vandamál með Makkann. Og svo var það yfirleitt þannig að maður gat gert sjálfur við vandamálin ef þau komu upp eins og Hrafnhildur um daginn. En það sem PC hefur fram yfir er að það eru til fleiri forrit hönnuð fyrir þær og margt á netinu passar bara í Windows.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Hvað er eiginlega að Bandaríkjamönnum. Er í lagi að varpa flugskeyti á íbúðarhús og drepa fullt af óbreyttum borgurum bara af því að það hafi leikið sterkur grunur um að vopnasali hafi verið í húsinu. Er sem sagt í lagi að fórna saklausum Írökum. Og jafnvel þó svo þeir hafi verið vissir í sinni sök er þá í lagi að taka vopnasala af lífi án dóms og laga.
Ég sá myndbandsupptöku um daginn sem tekin var úr herþyrlu. Þar var fylgst með þremur mönnum í eyðimörkinni í Írak um nótt þar sem þeir voru að kasta einhverju frá sér bak við hól. Þetta var næturupptaka og því ekki hægt að sjá hvað þeir voru að losa sig við eða fela en maður heyrði í talstöðinni skilaboð frá yfirboðara um að skjóta á þessa menn þar sem þetta væri líklega vopn sem þeir voru að fela. Svo sá maður þegar þeir skutu þá úr þyrlunni. Þeir skutu tvo, sá þriðji faldi sig undir vörubíl en þyrlan skaut þar til þeir voru vissir um að hann væri dauður.
Það var ekki að sjá að hermönnunum stafaði bein ógn af þessum mönnum.

Það er erfitt að koma sér aftur af stað þegar maður slappar af á annað borð. Maður gerir eiginlega ekkert af viti. Ég hjólaði reyndar niður í bæ til að registrera fyrir austurrískan organista sem spilaði á hádegistónleikum í Hagakirkjunni. Það gekk vel hjá honum, og mér reyndar líka. Það ætti reyndar að kenna og samræma það hvernig skrifað er inn í nóturnar fyrir registrantinn. Það er hver með sitt system sem tekur yfirleitt nokkrar mínútur að átta sig á. Tónleikarnir byrjuðu með klukknahringingu og þá fór hundur eins tónleikagestsins að ýlfra svona svakalega hátt en hann hafði verið bundinn við staur fyrir utan (hundurinn altso).

Eins og maður var duglegur fram til loka maí þá gerir maður eiginlega rosalega lítið af viti núna. Maður þarf eiginlega að trekkja sig aftur upp smátt og smátt. Og svo þegar það er hangið svona mikið þá borðar maður meira, alltaf að narta í eitthvað.

Við ætlum að fara út úr bænum á föstudaginn með vinafólki. Þá er midsommar. það verður ábyggilega gaman. Svo er ég að spila í messu á sunnudaginn í Betlehemkirkjunni, sem er trúboðasöfnuður. Ég kann alltaf betur og betur við þá kirkju. Fyrst fannst mér ekkert varið í hana. Hún lítur út eins og hver önnur skrifstofubygging að utan en að innan er hún voða notaleg, með fínum hljómburði og ágætis orgeli. Ég spilaði þarna í fyrrasumar og safnaðarþátttakan (er ekki örugglega þrjú t í þessu orði) er mjög góð. Þetta er enginn sértrúarsöfnuður, tilheyrir bara ekki sænsku þjóðkirkjunni.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Nei þetta er nú einum of mikil tilviljun. 2-2 fyrir Danmörk og Svíþjóð. Akkúrat það sum þurfti til að báðar þjóðir kæmust áfram. Og svo skoruðu Ítalir ekki fyrr en á síðustu mínútunni til að láta Svíana halda að þeir þyrftu ekki að jafna. Svíar spiluðu ekkert sérstaklega vel en gaman að þeir skuli vera komnir áfram.

Í nótt var svo mikið þrumuveður og ég gat ekki sofnað. Í stað þess að telja kindur fór ég að reikna út hvað þruman væri langt í burtu. Ef hljóðið berst 340 metra á sekúndu og ljósið kemur nánast um leið (300 þús km á sek.) þá ætti hljóðið að taka ca. 3 sekúndur að berast einn kílómetra, ekki satt? Þannig að þegar það eru 27 sekúndur á milli eldingarinnar og þrumunnar þá er þruman (27/3=) 9 km í burtu.

Þetta svínvirkaði og ég varð heldur betur syfjaður og alveg að sofna þegar ég mundi hvað Þóra Marteins hafði sagt mér um að sjónvarpið hennar hefði eyðilagst í þrumuveðri þegar hún var nýflutt til Gautaborgar. Þar sem við eigum ansi gott sjónvarp sem Pabbi átti (það er ennþá Pabbalykt af því og fjarstýringunni) þá fór ég inn í stofu og tók það og tölvuna úr sambandi. Við þetta glaðvaknaði ég og hrökk svo í kút (hvað svo sem það nú þýðir) þegar ein eldingin lýsti upp stofuna. Það varð skyndilega svo svakalega bjart og þetta er mjög óhugnanleg birta. Hrafnhildur steinsvaf aldrei þessu vant þannig að það var bara að snúa sér aftur að reikningskúnstinni.

Fyrir rúmri viku var staðan þessi: Við vorum örugg með íbúð, Hrafnhildur nokkuð örugg með vinnu (svo framarlega sem enginn sæki um með mikla reynslu, umsóknarfresturinn rennur út 30. júní) og ég vissi ekkert hvort ég fengi vinnu yfirhöfuð.
Nú hefur þetta gjörsamlega snúist við. Ég er öruggur með vinnu, Hrafnhildur bíður eftir 30. júní og íbúðarmálin mjög óljós.

Sennilega ættum við að geta fengið íbúð í Haninge sem liggur aðeins sunnar en hin íbúðin, þ.e. nær minni vinnu en fjær Hrafnhildar. Það munar samt ekki svo miklu því við tökum sömu lestina eftir sem áður og það munar bara 5 mínútum. Við sem sagt fórum á skrifstofu leigusalans í morgun sem var nýbúinn að fá bréf frá Stokkhólmi um að konan væri hætt við skiptin. Maðurinn þar hefur vorkennt okkur svona mikið þ.a. hann hringdi til kollega sinna í Stokkh. og mælti með okkur. Anna J, vinkona Habbidar ætlar að kíkja á íbúðina á fimmtudaginn. Ef allt gengur upp flytjum við 1. sept.

mánudagur, júní 21, 2004

AAAAAAAAAAAAAAA
RRRRRRRRRRRRRRR
GGGGGGGGGGGGGGG
!!!!!!!!!!!!!!!

Hún er hætt við að flytja til Gautaborgar! Það eru bara tvær vikur þangað til við ætluðum að flytja og núna er hún hætt við allt saman. Byrja aftur á byrjunarreit. OHHHHHH ég hefði ekki átt að segja að þetta væri búið að reddast allt saman. Hún sagði að stelpurnar hennar vildu ekki flytja frá Stokkhólmi. Við erum búin að tala um þetta síðan í lok mars, þ.e. í þrjá mánuði. Af hverju gat hún ekki ákveðið sig fyrr. Ég var að tala við hana síðast á laugardaginn og þá sagði hún ekki neitt.
Nú erum við að pæla í að leita að íbúð í Södertälje, þar sem Hrafnhildur mun vinna. Það eru nokkrar íbúðir lausar þar. Þá mundi ég sennilega þurfa að fá mér bíl og keyra á milli. Það eru ca. 50 km til Nynäshamn. Svo tekur ca. 40 mín að fara með lestinni til miðbæjar Stokkhólms og hún fer á korters fresti.
Ég ætla að taka áhættuna og segja: Þetta reddast ábyggilega.

sunnudagur, júní 20, 2004

Skrámur bara sefur og sefur.
Hrafnhildur púslar og púslar
Ég er alltaf á netinu.
Svona líða dagarnir.
Við og við pökkum við einhverju niður.
Það eina sem eftir er að redda varðandi þessi íbúðaskipti er dagsetningin fyrir skiptin.
Ég sagði að þetta myndi reddast (sjá bloggfærslu 18 mars).

Á morgun ætla ég að hitta Lars Hernqvist (sá sem hefur verið praktík leiðbeinandinn minn). Hann ætlar að bjóða mér í hádegismat. Það er búið að vera fínt að vera hjá honum. Hann var ansi tregur að taka að sér nýjan praktikant enda hefur hann alveg ótrúlega mikið að gera. En svo þegar hann átti að hitta mig og Karin var hann allt í einu óður í að fá mig. Hann hafði víst hitt Jan Yngwe (kórstjórnarkennarann minn) á göngum skólans sem lofaði mig í hástert.
Það hefur ekki verið verra að vera þarna fyrir mig. Maður hefur haft þetta fína orgel nánast út af fyrir sig, fengið að fylgjast með mjög fjölbreyttu safnaðarstarfi og fengið góð ráð frá Lars. Það hefur líka verið ánægjulegt að ég hef oft getað hjálpað honum við mörg tækifæri, ýmist sem kórsöngvari, organisti eða stjórnandi. Þau voru líka imponeruð í atvinnuviðtölunum að maður hafi unnið svona mikið með Lars og fengið fín meðmæli frá honum, en hann er "þekkt nafn" í Svíþjóð.

Ég sagði honum um daginn að ég væri að fara í atvinnuviðtölin tvö og lýsti hvað mig langaði mikið í Trångsundstöðuna en hann hvatti mig til að taka Nynäshamn. Þegar ég talaði við hann nú á föstudaginn og sagði honum hvað gerst hafi lét hann mig vita að fyrir nokkru hefði þeir hringt frá Nynäshamn og spurt um mig og hann mælt eindregið með mér. Eftir á að hyggja finnst mér eins og þau hafi verið búin að ákveða að ráða mig áður en viðtalið byrjaði.

Það væri reyndar ekki í fyrsta skiptið. Ég man þegar ég fór í atvinnuviðtal á Hótel Sögu sagðist Karin móttökustjóri hafa ákveðið að ráða mig þegar hún hringdi í mig og fékk símsvarann þar sem ég söng einhverja vitleysu. Enda var þetta ekkert viðtal. Hún spurði mig eiginlega ekki að neinu heldur lýsti fyrir mér starfinu. Hinn móttökustjórinn, Friðrika, var ný í starfinu og einum of metnaðarfull enda var maður alveg grillaður í því viðtali.

Mér sýnist Habbidu alveg vera að fara klára púslið. Ég er nefnilega alltaf svo lengi að blogga. Og svo heyrir hún alltaf þegar ég er að því vegna þess að ég gef alltaf frá mér viss hljóð, t.d. smelli tungunni í góminn, það heyrist "hmmm" og svo lít ég upp í loftið og fleira. Þá kemur glott frá minni tilvonandi...

laugardagur, júní 19, 2004

Ohhhhh það er rigning. Og það á að vera rigning eins langt fram í tímann eins og menn þora að spá. Það var nefnilega svo gott veður hérna um daginn. Það kom með Indru og lauk þegar hún fór aftur. Geturðu ekki bara komið aftur kæra systir?

Við erum byrjuð að pakka niður. Það gengur ágætlega. Það eina sem á eftir að ganga upp varðandi þessi íbúðaskipti er dagsetningin. Formleg skipti verða 1. júlí en Daniella er að hugsa um að flytja þann þriðja. Þá er bara spurning hvort við megum senda hvort öðru lykil eða hvort við þurfum að skila inn öllum lyklum til leigusalans. Það fyrirtæki vill að við komum og skrifum undir og hlýðum á upplýsingafyrirlestur... bla, bla, bla. Við verðum að mæta sjálf. Ég bara nenni ekki að skjótast enn einu sinni fram og til baka til Stokkhólms bara út af þessu. Vonandi þurfum við ekki að gera þetta fyrr en við erum flutt inn.

Hérna er mynd af kirkjunni sem ég er að fara að vinna í. Hún stendur svo fallega í bænum og er víst kennileyti fyrir Nynäshamn.

Nú er heilinn á mér að sjóða yfir vegna þess að maður fær svo mikið af hugmyndum fyrir starfið.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Gleðilega þjóðhátíð elsku Íslendingar.

Suma daga finnst manni maður ekki geta neitt; skilur ekki af hverju maður er að standa í þessu tónlistarstandi. Er ekki bara best að fara að vinna á MacDonalds. Og aðra daga finnst manni eins og maður sé ósigrandi. Þessa dagana á síðari kosturinn við. Ég hringdi í Nynäshamn og spurði meira um starfið til að fá á hreint hvernig vinnuvikan gæti litið út. Það var sóknarnefndarfundur kvöldið áður þar sem formlega var samþykkt að bjóða mér vinnuna. Ég lét vita að hinir hefðu líka boðið mér vinnuna og þá smurði hún ofan á launin að fyrra bragði. Það var ágætt því ég kunni ekki við að fara fram á það fyrst ég hafði sett fram launakröfu sem var samþykkt. Ég pældi aðeins í þessu, las mér til um staðinn og hringdi svo eftir hádegi til að segja já. Svo hringdi ég í hinn staðinn (Trångsund) og afþakkaði starfið en lét vita að það var erfitt að velja. Sóknarpresturinn þar er rosalega almennileg og ábyggilega gaman að vinna með henni en hún verður reyndar bara að leysa af fram að áramótum.

Nú er heilinn á mér á fullu við að skipuleggja starfsárið, hvenær væri gott að hafa tónleika og hvað ætti að gera með kórnum. Jafnvel að setja af stað ungmennakór. En samt verður maður að hafa tíma til að æfa sig.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Það ku víst vera ágætt að sulla hvítlaukssósu á sig áður en maður fer í atvinnuviðtal.

Í gær vaknaði ég klukkan fimm til að keyra til Stokkhólms. Ég átti að vera mættur í atvinnuviðtal klukkan 11 í Nynäshamn sem liggur ca. 60 km suður af Stokkholmi. Á leiðinni stoppaði ég til að fá mér pulsu í frönsku brauði og tókst þá að sulla hvítlaukssósu á bolinn minn. Ég var ekki með neinn aukabol og var bara í sumarjakka sem hefði verið asnalegt að hafa aðhnepptann í viðtalinu. Þar að auki hafði Skrámur gubbað á buxurnar sem ég hafði ætlað í og öll önnur almennileg föt voru enn blaut eftir þvottinn því að þurrkarinn var bilaður. Ég hélt ég myndi ná að kaupa annann bol fyrir viðtalið en síðustu 40 km var sveitavegur með fullt af traktorum á ferli þannig að ég kom 5 mín. í ellefu. En ég hugsaði að það skipti ekki svo miklu máli að vera hálf druslulega til fara í þessu viðtali.

Ég gerði ekki ráð fyrir að vera ráðinn. Þetta er nefnilega eina organistastaðan sem hefur verið auglýst á Stokkhólmssvæðinu um þessar mundir (allt hitt voru kantorsstöður), ég hafði heyrt að það hefði a.m.k. einn diplom-organisti (n.k. konsertorganisti) sótt um og svo vildu þau fá einhvern til frambúðar en ég sæki bara um í eitt ár. Ég var nokkrum sinnum búinn að afskrifa þessa stöðu en viðtalið gekk vel. Það var glatt á hjalla og greinilegt að þau lögðu mikla áherslu á að fá góðan kórstjóra. Svo hitti ég allt hitt starfsfólkið og þar var ennþá meira hlegið. Svo skoðaði ég kirkjuna og jarðarfararkapelluna og svo vildi þau endilega sýna mér bæinn og bjóða mér í hádegismat.

Bærinn er mjög fallegur (alla vega á svona sumardegi), það búa þarna tólf þúsund manns og mikið af túristum á sumrin þar sem það koma svo mikið af skipum þangað. Staðan er spennandi þar sem maður hefur ansi frjálsar hendur með að byggja upp tónlistarlífið, en þó er ýmislegt í gangi þarna fyrir. En alla vega. Í hádegismatnum var mér boðið starfið. Ég bjóst alls ekki við því að þau myndu ákveða sig svona fljótt. Ég bað um vikufrest til að pæla í þessu, aðallega til að vita hvort hinn staðurinn (Trångsund) mundi bjóða mér starfið þar.

Hitt viðtalið í Trångsund var kl. 16.15 en ég náði heldur ekki að kaupa mér bol fyrir það þar sem ég var svona lengi á hinum staðnum. Þannig að ég mætti í hvítlaukssósubolnum, blautur eftir rigningu, í buxum sem hanga asnalega á mér og í sandölum (því spariskórnir hefðu verið stílbrot!). Í þessu viðtali var líka glatt á hjalla (núna voru það fjórar konur sem var kannski auðvelt að sjarmera) og allt gekk vel. Svo settist ég upp í bílinn og byrjaði að keyra til baka og eftir ca. 5 mín. hringdi sóknarpresturinn og bauð mér starfið.

Úllen dúllen doff....

Trångsund er kantorsstaða (þ.e. ekki krafist háskólamenntunar) og liggur ansi nálægt nýju íbúðinni okkar (það er endanlega búið að samþykkja allt skiptiferlið). Öll aðstaðan er fín og mikið um að vera tónlistarlega séð. Það er töluverð viðvera í hverri viku og svo eru þrír barnakórar.
Til Nynäshamn þarf maður að taka lest í 45 mín. (sem þykir ekkert tiltökumál hér í Svíþjóð), er með einn blandaðan kór og svo einn kór með nokkrum gömlum konum (meðalaldurinn er 85 ár). Svo eru nokkrar jarðarfarir innifaldar (í fyrra voru þær 106 yfir árið) en að öðru leiti er þetta nokkuð frjálst. Maður má taka þátt í barnastarfinu, halda tónleika og spila á sjúkrahúsinu en er ekkert bundinn við það.

Ég er sem sagt að hugsa um að taka Nynäshamn stöðuna aðallega því að ég sé fram á að geta haft meiri tíma til að æfa mig og undirbúa fyrir hljómsveitarstjórnar námið. Báðir staðirnir samþykktu þau laun sem ég krafðist (DAMN!... ég hefði átt að fara fram á meira) og þau vita alveg að ég verð sennilega bara í eitt ár. Ég sagðist ætla að svara þeim í síðasta lagi á föstudaginn.

Í dag fóru síðustu gestirnir. Það er sem sagt búið að vera gestir hér síðan 30. maí og voða gaman. Skrámur var reyndar ekkert allt of hrifinn til að byrja með. Hann setti meira að segja upp kryppu og úfið skott þegar Vala var að stríða honum um daginn. En hann er voða hrifinn af Halldóri og stekkur upp í fangið á honum við hvert tækifæri.

Svo var Hrafnhildur gæsuð á sunnudaginn. Það er búið að vera að skipuleggja það undanfarnar vikur. Vinkonur hennar hafa verið að hringja í mig og senda mér leynileg bréf og svo var spurningaleikur þar sem Habbidu átti að giska á hverju ég hefði svarað og mér þótti ekki nema sanngjarnt að gefa henni vísbendingar dagana fyrir, t.d. hvert væri uppáhalds tónskáldið mitt (sem ég vissi eiginlega ekki sjálfur þegar ég var spurður). Þetta gekk víst svaka vel og allir skemmtu sér vel í góðu veðri.

laugardagur, júní 12, 2004

Nú er heldur betur langt síðan ég bloggaði síðast. Það er búið að gerast svo mikið. Þann 30. maí komu Indra og Mamma og daginn eftir voru útskriftartónleikarnir. Þeir gengu svaka vel. Það kom hópur úr háskólakórnum sem ég stjórnaði í fyrra og þau virkuðu eins og klapplið og höfðu til að mynda frumkvæðið að því að standa upp í lokin. Það var voða gaman. Fyrr um daginn fór ég með stelpunum í Blómagarðinn í æðislegu veðri og slappaði bara af. Það var mjög sniðugt og varð til þess að maður var einbeittur og vel undirbúinn. Það var líka mjög gaman að geta boðið upp á pönnukökur með sykri, flatkökur með hangikjöti og spínatsallat. Það féll í góðan jarðveg.

Daginn eftir fórum í Liseberg í fínu veðri og það var ekki amalegt að fara með Mömmu daginn áður en hún varð sextug. Hún er alveg tækjaóð og hefur ekkert fyrir því að fara í Rússibanana. Við erum öll svona í fjölskyldunni nema Pabbi sálugi. Um kvöldið var eldað lambalæri sem var æðislegt.

Á miðvikudaginn héldum við upp á sextugs afmæli Mömmu og svo fór hún til Köben að hitta sinn heittelskaða og þau fóru svo daginn eftir til Bornholm og fóru fyrst heim í dag. Ég og Indra fórum á Vatnlitasafnið í Tjörn. Við byrjuðum reyndar á Því að borða fisk á matsölustaðnum. Ég spurði hana um Ingólf og hvað fyrri konan hans gerði og Indra sagði að hún væri líka myndlistarmaður og viti menn. Fyrsta verkið sem við sáum á safninu var einmitt eftir hana. Þvílík tilviljun. Kvöldið áður hafði Indra verið að skoða vídeóspólurnar hjá okkur í leit að Friendsþætti og sá þá spólu sem merkt var: Fiðluleikur Indru. Hún var viss um að ég hefði tekið hana að heiman en merkilegt nokk þá var þetta spóla frá ömmu Hrafnhildar. Þetta voru líka myndir sem voru alveg týpískar fyrir Indru: Manhattan (Woody Allen), A Room With a View og svo þessi Litrófsþáttur sem fjallaði um stúdentaleikhúsið fyrir ca. 10 árum þar sem Indra lék á fiðluna. Alveg ótrúlegt að akkúrat þetta skuli hafa verið tekið upp, mörgum árum áður en ég og Hrafnhildur byrjuðum saman.
Seinna um daginn komu Hjalti og Vala og svo Halldór, Dísa og Daði og við borðuðum grillmat hjá Þórdísi frænku Hrafnhildar sem býr rétt fyrir utan Gautaborg. Þar var nú glatt á hjalla.

Á fimmtudaginn var komið að Hrafnhildi að útskrifast. Það var nú almennileg athöfn enda hafði bekkurinn skilað inn lista með kröfum hvernig þetta ætti allt saman að vera. Það var mikið gert grín að þessum lista í útskriftarveislunni daginn eftir. Svo var farið út að borða og kíkt í búðir einu sinni sem oftar (mér hefur tekist að koma mér upp göngulagi þannig að ég þreytist ekki eins fljótt á búðarápinu).

Á föstudaginn fór Indra heim aftur og ég held að hún hafi ratað í rétta flugvél (wink wink)og ég í síðasta tímann í skólanum. Það var hljómsveitarstjórnin en vegna misskilnings kom ég klukkutíma of seint og kennarinn var dáldið pirraður og setti út á öll möguleg smáatriði hjá mér.
Svo fórum við öll í Liseberg en nú var ekki eins gott veður en samt voða gaman. Eftir þrjú tæki þá hlupum við Habbidu upp nokkrar brekkur til Önnu og Johans til að skipta um föt. Svo hlupum við fjögur upp fleiri brekkur til Kristinu og kærasta hennar til að fá okkur fordrykk fyrir útskriftarpartýið. Svo rauk Anna allt í einu upp og sagði að við værum of sein og þá hlupum við niður allar brekkurnar og í veisluna. Þegar við settumst svo niður til borðs kom þessi svakalega þreyta fram. Öll þessi hlaup og allur æsingurinn í Liseberg tók sinn toll. Eftir borðhaldið gat maður drukkið og dansað þreytuna frá sér. Það var voða gaman.

Á laugardaginn hélt í minikonsert fyrir þá sem misstu af útskriftartónleikunum, við fórum í Pödduna (túristabátur hér í Gautaborg) og við strákarnir horfðum á æfingaleik Englands og Íslands á enskum pöbb hér í bæ. Við laumuðum okkur út þegar staðan var orðin 6-1.
Á sunnudaginn fór fólk í sitthvora áttina. Hjalti og Vala til baka til Oslo, Halldór og Dísa til Köben á ráðstefnu og við hin fórum til Stokkhólms á mánudaginn. Við gátum lítið annað gert en að keyra, fara i atvinnuviðtöl, skoða í búðir og keyra aftur. Við skoðuðum reyndar íbúðina og leist vel á. Viðtölin gengu vel. Hrafnhildur er nánast garanteruð með þessa vinnu svo framarlega sem enginn annar sæki um sem er með margra ára reynslu. Ég reyndi að slá á létta strengi í mínu viðtali en það féll ekkert í allt of góðan jarðveg. Þau voru að vanda sig svo mikið í hlutverki sínu og komu með ansi margar "lærðar" spurningar. Ég fer aftur á þriðjudaginn og þá í tvö viðtöl. Mér líst ansi vel á eitt starfið og vona að viðtalið gangi vel. Ég er búinn að tala við sóknarprestinn þar tvisvar í síma og hitta hana einu sinni og hún er mjög notaleg og skemmtileg. Svo liggur kirkjan frekar nálægt íbúðinni okkar og aðstæðurnar eru fínar. Ég er búinn að vera á nálum í hvert skipti sem síminn hringir af ótta við að þeir bjóði mér starfið eftir síðasta viðtalið.