þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Dagur tvö


Við héldum upp á eins dags afmælið í dag. Sungum fyrir hann Tunglið, tunglið taktu mig sem hann var vanur að heyra í móðurkviði og ég er ekki frá því að hann hafi róast við að heyra það. Hann er voða duglegur að drekka og kúka og pissa. Svo baðar hann út höndunum við og við eins og hann sé að stjórna rómantísku hljómsveitarverki. Allir íslendingar spurja hvað hann er þungur og langur og allir Svíar spurja hvað hann eigi að heita.
Mamma hans lenti hins vegar í því í gær, ca. tveimur tímum eftir fæðingu að eitthvað skrítið gerðist inni í henni í kringum lífbeinið og hún á því mjög erfitt með að hreyfa sig. Sem betur fer verður hún á spítalanum í nokkra daga og fær ráðgjöf og lyf.
Setti inn fleiri myndir í myndaalbúmið.
notendanafn: hrafnis@yahoo.com
leyniorð: myndir

mánudagur, nóvember 28, 2005

Til sonar míns


Í dag, 28 nóvember kl. 11.33 að sænskum tíma fæddustu á sjúkrahúsinu í Huddinge í Stokkhólmi. Þú vóst 3,5 kg og varst 50 cm langur. Það fossuðu tárin úr Mömmu þinni og Pabbinn átti erfitt með að tala. Það tók þig dálítinn tíma að byrja að anda og því fylgdi ég þér ásamt ljósmóðurinni og nokkrum læknum í annað herbergi þar sem á þig var sett súrefnisgríma og eftir smástund breyttist húðliturinn úr bláu yfir í bleikt og allir voru ánægðir. Svo fékkstu að liggja á Mömmu þinni og ekki leið á löngu þar til þú fannst brjóstið og varst farinn að sjúga. Lena ljósmóðir var mjög hrifin af þér og fannst að þú ættir að heita Oscar og hún átti ekki orð yfir hvað móður þín var dugleg. Hún þurfti nefnilega að ganga í gegnum ansi mikið til að koma þér í heiminn.
Hún fékk verki í gærmorgun kl. 11 sem versnuðu jafnt og þétt og upp úr miðnætti voru þeir orðnir ansi slæmir. En hún var á því að þetta væri eitthvað annað en hríðir, t.d. brjósklos eða slitinn vöðvi og það skipti engu máli þótt Pabbi þinn reyndi að segja henni að þess lags verkir koma ekki á 6 mín. fresti. Hún skipaði mér líka að skilja eina töskuna eftir úti í bílnum þegar við fórum á spítalann ef ske kynni að við yrðum send aftur heim. Pabbi þinn sagði bara já, já, en tók hana samt með.
Þegar á spítalann var komið um hálf eitt um nóttina var hún bara með 1cm í útvíkkun og þrátt fyrir morfín, hlátursgas og nálastungur þurfti hún að kveljast í 6 klukkutíma og mér leist ekkert á blikuna. Um hálf sjö var hún komin með tæplega 4cm í útvíkkun og þá var hægt að gefa henni mænudeyfingu og þvílíkur munur. Þá hætti hún að finna til og gat sofið. Þremur tímum síðar var hún komin með 10 cm og var gefið "drop" til að hausinn færi neðar. Skömmu síðar fann hún að þú værir að koma út og byrjaði að kreista. Það tók einn og hálfan tíma og svo bara, blúps, varstu kominn.
Þar sem þetta tók sinn tíma og þú hafðir verið skorðaður í dágóðan tíma þá var höfuðið dálítið aflangt og nefið klesst. Og nú ertu 12 tíma gamall og ert svo fallegur, klár, þægur og tillitsamur sérstaklega þar sem þú komst nokkrum dögum fyrir tímann sem gerir það að verkum að við getum flutt heim fyrir jól. Ég og Mamma þín skiljum ekki hvernig er hægt að elska nokkuð svona mikið og við vorum bara að hitta þig í fyrsta skipti áðan. Og þú ættir að vita hvað það er talað mikið um þig á Íslandi. Nú sit ég heima hjá Skrámi á meðan þú og Mamma eruð á fæðingadeildinni. Ég kem aftur á morgun, og hinn, og hinn, og hinn en þá ætlum við að taka þig heim. Og eins og móðurbróðir þinn sagði þá er alveg stórmerkilegt að á meðan þú komst í heiminn þá hélt lífið bara áfram sinn vanagang. Bílar héldu áfram að keyra, blöð komu út og fólk fór bara í vinnuna eins og venjulega. En þetta var rosalega fallegur dagur og það kyngdi niður snjó.
Sjáumst á morgun.
Pabbi
P.s. Ég setti nokkrar myndir í myndaalbúmið hennar Hrafnhildar.
notendanafn: hrafnis@yahoo.com
leyniorð: myndir

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Nú er eitthvað að gerast!

laugardagur, nóvember 26, 2005

Við byrjum öll símtöl með að segja: "Það er ekkert að gerast" til að vekja ekki falskar vonir. Í vinnunni horfa allir forvitnir á mig þegar ég svara í símann. Við sendum sms til Mömmu og tengdapabba um daginn og þau svöruðu bæði á innan við mínútu. Það er greinilega fylgst vel með. Við sáum fyrir okkur að Mamma væri búin að banna öllum að hafa kveikt á farsímanum sínum í kringum hana til að það færi ekkert á milli mála þegar hennar hringdi eða pípti.
En það er sem sagt ekkert að gerast. Við erum bara að setja upp jólaskraut, baka piparkökur og hlusta á jólalög. Á morgun kemur Habbidu með mér í messuna til að syngja þessi hefðbundnu aðventulög. Það verður bæði kirkjukórinn minn og kammerkór staðarins, voða gaman.

Ég á bara viku eftir í fullu starfi í vinnunni en svo held ég áfram með kórana og tek tvær messur auk jólatónleika. Ég ákvað bara að vera harður og segja nei við öllum beiðnum um að vinna umfram það, sem er eins gott því það er búið að spurja mig ansi oft undanfarna daga. Svo eru endalausar kveðjuathafnir. Um daginn var starfsfólkið með kveðjuhóf fyrir mig og Ingrid sem hefur unnið í móttökunni í 19 ár. Unglingakórinn ætlar á Jesus Christ Superstar eftir messuna 11 des. og kirkjukórinn verður með kveðjuhóf eftir jólatónleikana. Svo var mér sagt að ég yrði kvaddur af sóknarnefndinni á jólahlaðborðinu sem verður 14 des. en þá hafði ég ekki ætlað að koma í vinnuna og hafði ekkert heyrt um það fyrr en núna um daginn og sagðist ekki muna koma og þá var settur upp fýlusvipur. En ég stóð fastur á mínu. Ég á að vera í fríi í desember og vil verja tíma mínum með fjölskyldunni og finnst þetta satt að segja ein kveðjuathöfn of mikið. Ég stakk bara upp á að sóknarnefndin gæti mætt í messu í staðinn... til tilbreytingar.

Eins og ég hef sagt áður eru oft teknar svo skrítnar ákvarðanir í vinnunni. Af einhverjum furðulegum ástæðum fæ ég ekki að vera með í atvinnuviðtölunum fyrir organistastöðuna. Þau fara þannig fram að fyrst hittir umsækjandinn fulltrúa úr sóknarráðinu ásamt sóknarprestinum og skrifstofustjóranum og klukkutíma síðar hittir hann alla aðra úr starfsliðinu. Fyrir það fyrsta þá skil ég ekki af hverju hann getur ekki hitt alla í einu og svo finnst mér skrítið að það eiga helst allir að hitta hann en ég er sá eini sem fæ ekki að vera með. Þetta er ekkert persónulegt. Þetta hefur verið svona lengi að sá sem gegnir starfinu fær ekki að vera með í atvinnuviðtalinu. En ég hef aldrei fengið að vita af hverju þetta er svona. Mér hefði verið sama ef það ættu bara nokkrir að vera með. Í fyrra þegar ég sótti um þá voru tónlistarmennirnir með á hinum tveimur stöðunum og það var bara eitt viðtal.
Það hafa fjórir komið í viðtal og eftir viðtölin tvö hef ég sýnt þeim skrifstofuna og hljóðfærin og sagt þeim frá starfinu og um leið reynt að pumpa þau dálítið þannig að þetta hefur dálítið virkað eins og þriðja viðtalið í röð. Svo hafa eiginlega allir í vinnunni spurt mig hvað mér finnst.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Nú er þetta allt að snella saman. Habbidu hringdi í Eimskip í gær og við þurfum ekki að panta flutningabílinn fyrr en viku fyrr.
Við fórum með Skrám til dýralæknis í síðasta skiptið í morgun og nú er bara að bíða eftir leyfinu frá Íslandi.
Og við fengum loksins flug fyrir hann heim. Það var alveg svakalegt mál. Ég sem sagt meilaði til Flugleiða heima sem sögðu mér að tala við Mikael í Gautaborg. Hann sagðist vera hættur þessu. Ég meilaði aftur heim og þá var mér sagt að tala við fyrirtæki í Stokkhólmi sem sagðist vera flutt nokkra kílómetra frá Arlanda en gaf mér númerið hjá Skytransport sem sagði mér svo að tala við fulltrúa sinn í Gautaborg sem heitir Mikael og er sá sami og ég talaði við í byrjun. Aftur meilaði ég og hef ekki enn fengið svar. Þá hringdi Habbidu í Flugleiðir í Stokkhólmi sem sagði henni að hringja til Köben. Ég gerði það og talaði við ráðvillta stúlku sem skildi ekkert af hverju í hringdi í hana en hún gaf mér númer í Stokkhólmi og sá gaf mér númerið hjá Skytransport sem sagði mér að tala við fulltrúa sinn í Gautaborg sem heitir einmitt Mikael sem sagði mér mjög ákveðið að hann væri alveg hættur að sjá um dýraflutninga fyrir Stokkhólmssvæðið. Í síðustu viku hringdi ég svo í SAS og þau redduðu þessu bara á nokkrum dögum og nú er ég búinn að fá að vita flugnúmerið og allt en bíð bara eftir að þau segi: Nú, er hann grár kötturinn. Þá getum við ekki séð um þetta en talaðu við náunga í Gautaborg sem heitir Mikael.

Svo er ég búinn að fá vinnu heima. Edda Borg hringdi í mig í morgun og bauð mér starf sem píanókennari í afleysingum fram á vor fyrir eina sem er í barnsburðarleyfi. Ég hafði sent inn umsókn í ágúst eftir að hafa séð auglýsingu í mogganum en þar sem ég hafði ekkert heyrt þá var ég búinn að afskrifa þetta.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Svíar eru undarlegir. Við hjónin erum löngu búin að segja upp störfum. Hrafnhildur hættir núna á föstudaginn og fer svo í frí og fæðingarorlof. Ég tek út frí og fæðingarorlof í desember og hætti svo formlega 1. janúar. En samt fáum við bæði launahækkun? Ekki nóg með það heldur er hún afturvirk frá apríl. Ég var að reyna þrýsta á um launahækkun í vor og beið með að tilkynna um ólettuna út af því og að ég ætlaði að hætta því annars fannst mér ég í vonlausri samningsstöðu. En svo fáum við samt launahækkun. Þetta er ekki eitthvað svona dæmi þar sem allir fá sömu prósentuna því í mínu tilviki hækka launin t.a.m. um ca. 10.000 íslenskar á mánuði. Ekki það að ég sé ósáttur við þetta en væri ég atvinnurekandi hefði ég bara látið þetta eiga sig.

Robert Sund leysti af í Uppsala í gær og það var skemmtileg tilbreyting. Fyrir þá sem ekki vita er hann kórstjóri Orphei Drängar, eins besta karlakórs í heimi, hefur gert fullt af skemmtilegum útsetningum og tók upp nokkra diska með Garðari Cortés syngjandi dægurlög. Hann var alveg rosalega skemmtilegur og mjög inspírerandi að sjá hann vinna. Hann lagði mikla áherslu á að það væri gaman á kóræfingunum og svo spilaði hann svo skemmtilega á píanóið. Við gerðum nokkrar slagtækniæfingar og hann spilaði undir á meðan og ég gat ekki annað en brosað því þetta minnti mig á morgunleikfimina á Gufunni. Stefan Parkman, aðalkennarinn okkar, er líka mjög góður, en hann er mun alvarlegri. Við fengum að stjórna kórnum hans á æfingu um daginn, þ.e. Uppsala Akademiska Kammarkör, og fengum hvern sinn þátt úr Krýningarmessunni eftir Mozart og það var alveg æðislegt því kórinn sem við vinnum með á mánudögum er bara ekki nógu góður og maður nær sjaldan að fá þau til að músísera eitthvað því þau eru svo lengi að læra nóturnar.

Nú er ég formlega hættur í Mikaeli kammerkórnum en ef ég hef tíma til þá get ég hoppaði inn í jólatónleikana sem eru reyndar sama dag og jólatónleikarnir í kirkjunni minni þannig að ég veit ekki hvort ég hafi orku í það. Um daginn sungum við Requiem og fleiri verk eftir Faure með hljómsveit og ég held svei mér þá að það hafi bara aldrei verið betur flutt, þrátt fyrir að við fengum bara tvær æfingar auk generalprufu samdægurs. Núna á laugardaginn fluttum við svo Missa Criolla og Mångfaldhetsmässa með suðuramerísku bandi og það var líka alveg svaka stuð. Við tókum upp disk um daginn sem var að koma út og hann er mjög fínn. Sérstaklega bandið en kórinn hefur ekki nógu hlýjan hljóm, sérstaklega sópranarnir.

Í kirkjunni er ég búinn að halda tvenna tónleika. Ég spilaði fallega orgeltónlist á allra heilagra messu og það var mjög vel heppnað og mætti fullt af fólki. Í messunni daginn eftir söng Vokalensemblið mitt og stóð sig svaka vel og vakti mikla lukku. Það ásamt unglingakórnum veitir mér mesta gleði í starfinu því annars fæ ekki svo mikið úr því lisrænt séð og þetta skipulagsleysi og óreiða er alveg að gera út af við mig. Það eru margir farnir að velta því fyrir sér hvað nýji presturinn tórir lengi í þessu starfi því hún er betru vön frá fyrra starfinu sínu.
Á sunnudaginn voru svo kórtónleikar með öllum þremur kórunum mínum og mér þótti þeir ganga mjög vel. Ég fékk íslenskan kontrabassaleikara til að spila auk kollega míns sem er svo flinkur jazzpíanisti og þetta voru aðallega kóralmelódíur í ansi skemmtilegum útsetningum.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Greyið Skrámur. Ég þurfti að fara með hann til dýralæknis í morgun til að taka blóðsýni og fleira. Hann mátti ekkert borða í nótt því það þurfti að svæfa hann. Hann varð líka alveg brjálaður þegar læknirinn reyndi að sprauta hann og þurfti nokkrar tilraunir. Ég varð reyndar ansi áhyggjufullur á tímabili því hann svaf með opin augun og læknirinn vigtaði hann sagði að hann væri 5 kg og gaf honum svæfingu miðað við þá þyngd. En þetta er einhver gamall dýralæknir með stofuna í kjallaranum á húsinu sínu og vigtaði hann í einhveru járnbúri og dró þyngd þess frá heildarþyngdinni. Mér finnst 5 kg dálítið mikið og treysti ekki alveg þessum kalli og gat ekki beðið eftir að Skrámur vaknaði. Hann var líka ansi vankaður þegar heim var komið og gat ekki gengið án þess að detta á hliðina. Ég lét hann á teppi á gólfinu og skaust fram til að ná í matinn hans og þegar ég kom aftur til hans hafði hann skriðið nokkra sentimetra og horfði hjálparvana á mig. Þá leið mér eins og pabba.