þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Takið nú fram dagatalið og merkið inn mikilvægar tónleikadagsetningar fyrir haustið.

Helgina 6 og 7 október kl. 17.00 flytur Fílharmónían klezmer tónlist í Seltjarnarneskirkju ásamt Hauki Gröndal og nýstofnuðu bandi hans og Ragnheiði systur hans.

Laugardaginn 3 nóvember syngur Hljómeyki Vakna þú sál mín eftir Jón Þórarinsson á tónleikum í Dómkirkjunni í tilefni af níræðis afmæli tónskáldsins. Kór Langholtskirkju og Dómkórinn flytja einnig kórverk eftir Jón og Marteinn leikur á orgelið.

Sunnudaginn 11 nóvember kl. 18 í Seltjarnarneskirkju flytur Hljómeyki hið frábæra Vesper eftir Rachmaninoff

Sunnudaginn 9 og miðvikudaginn 12 desember stendur Fílharmónían fyrir aðventutónleikum kl. 20 í Langholtskirkju. Þeir verða með svipuðu sniði og í fyrra enda heppnuðust þeir alveg einstaklega vel. Nanna María Cortes syngur með sinni silkimjúku rödd og Steingrímur orgelsnillingur spilar með.

Föstudaginn 28 desember verður Hljómeyki með jólatónleika í Seltjarnarneskirkju kl. 20.
Það verður pottþétt flott tónlist í mjög góðum flutningi.

Fimmtudaginn 13 mars kl. 19.30 flytur Fílharmónían Þýsku sálumessuna eftir Brahms ásamt Sinfóníunni.

Svo koma dagsetningar fyrir kór Áskirkju bráðum.

laugardagur, ágúst 18, 2007

ÚBS!

Ég fann eftirfarandi á bloggsíðu Ólafs Kjartans:

"Ég gerði mér það að leik að “gúgla” sjálfan mig til þess að athuga hvort eitthvað væri að finna um tónleikana. Það eina sem ég fann af viti var af bloggsíðu kórstjóra Hljómeykis, en þar segir um óperutónleika sem haldnir voru á Klambratúni í fyrra:
Það var bara voða gaman á óperutónleikunum á Klambratúni í gær, skemmtileg stemmning og gaman að svona sé hægt að gera á Íslandi. Að vísu var hljóðið ekki upp á sitt besta og aríurnar komu misvel út. Svo er ég orðinn ansi þreyttur á því þegar óperusöngvarar ákveða að sprella eitthvað á sviðinu eins og Kristinn og Ólafur Kjartan gerðu í lokin. Það er alltaf boða barnalegur húmor og fer bara í taugarnar á mér.”
Ef ég bara myndi hvað í ósköpunum við Kristinn gerðum af okkur þarna um árið. Verð að spyrja karlinn betur út í þetta :-)"

Pirraður!

Ég er eitthvað illa fyrir kallaður í dag og læt ýmis smáatriði fara í taugarnar á mér. Ég held það sé vegna þess að ég hef voða lítið getað hreyft mig í vikunni verandi fastur heima með Hr. Hlaupabólu og svo svaf ég svo illa í nótt þar sem hann var alltaf að vakna greyið kúturinn. Ég fór með Fílharmóníuna í dag til að koma fram á Söngveislu Söngskólans og það heppnaðist mjög vel því það var mikið af fólki og veðrið var svo gott og góð stemmning og þetta gekk allt svo vel fyrir sig. Svo var ég beðinn um að hoppa inn í Kammerkór Langholtskirkju sem ég og gerði og söng með þeim nokkur lög, þar af tvö sem ég kunni tæplega. Þegar þetta var svo búið hafði enginn vit á að þakka mér fyrir þetta nema Sibbí. Þetta fór alveg ferlega fyrir brjóstið á mér, sérstaklega af því að þetta var ekki í fyrsta skiptið sem þetta kemur fyrir.
Svo bentu nokkrir Fílufélagar á að hvergi var minnst á í fréttatilkynningum að Fílharmónían myndi koma fram. Í einni voru meira að segja allir kórarnir taldir upp og stjórnendur þeirra nema ég og Fílan. Í dag fór þetta alveg ferlega í taugarnar á mér enda kom ég þessari athugasemd á framfæri við skipuleggjendur. Ég er reyndar á þvi núna að þetta sé slys og að það hafi óvart klippst aftan af tilkynningunnni.
Svo þegar ég kom heim var Hrafnhildur svo pirruð á Ísak sem hafði verið alveg sérstaklega önugur og sérvitur. Hann fór t.a.m. alveg að hágráta því hún hafði ekki sett rúsínurnar í rétta skál. Við ákváðum að í stað þess að við værum öll heima í kvöld að pirrast hvort á öðru þá myndi hún fara niður í bæ með fjölskyldunni og ég gæti fengið útrás á blogginu.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Maður heldur alltaf að það sé eiginlega enginn sem lesi þessi blogg nema þeir sem kommenta og nánasta fjölskylda. Ég var hins vegar að skrá mig á síðu sem heitir Google analytics þar sem hægt er að fylgjast með því hversu margir skoða bloggsíðuna og hægt að fá alveg ótrúlega margar upplýsingar um heimsóknirnar, af hvaða síðu fólk kemur, tengingarhraðann, vafrann, frá hvaða landi, hversu lengi dvalið er á síðunni, í hvaða tilvikum kom síðan mín upp þegar slegið var upp leitarorði og hvaða orð það var, t.d. Voces masculorum, h-moll messan, dýralæknir í Stokkhólmi og forskalað! Þetta eru væntanlega orð sem ég hef notað í þessu bloggi einhvern tímann. Ég veit að þetta er alveg ótrúlega nördalegt en mér finnst dálítið áhugavert að skoða þetta og kom verulega á óvart hversu margir skoða þetta röfl mitt.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Ó nei!

Ísak er kominn með hlaupabólu. Jökull frændi hans var með alveg svakalegar bólur hér um daginn sem eru að hverfa núna. Ég held það sé alveg mánuður síðan hann fékk þetta og við héldum að Ísak hefði sloppið. Vonandi verður þetta bara vægt tilfelli. Það er samt ágætt að ljúka þessu af og þetta er bara ágætis tími fyrir þetta á meðan hann er svona lítill og við getum verið heima með honum en ekki bundin of mikið í vinnu.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Yes!

Ísak er búinn að fá pláss hjá dagmömmu! Við vorum farin að örvænta. Kristjana sem hann var hjá í vetur ákvað að skipta um starf og hætti 1.júní. Það var mikil eftirsjá af henni en þá var Ísak samt búinn að fá inni á leikskólanum hér við hliðina. Svo vantar starfsfólk þannig að við vitum ekki hvenær hann fær að byrja. Við erum búin að vera í svo góðu sumarfríi að það hefur ekki verið neitt mál að hafa hann heima og þetta reddast alveg út mánuðinn en svo fór maður að heyra fréttir af því að krakkar kæmust jafnvel ekki inn fyrr en um jólin. Það fannst okkur nú ekki mjög ánægjulega fréttir. En það ætlar ein að taka hann að sér frá og með mánudeginum þar til hann kemst inn og við getum farið að sinna okkar vinnu að degi til.