laugardagur, mars 11, 2006


Ísak er allt í einu farinn að vilja að vera á maganum. Við höfum látið hann liggja þannig á hverjum degi frá fæðingu en allt í einu finnst honum gaman að því. Um daginn velti hann sér af maganum yfir á bakið og í morgun lá hann á gólfinu og var búinn að velta sér á hliðina. Við fórum á foreldramorgun til Jóhönnu í Áskirkju og þar var kona frá bókasafninu með kynningu. Hún vildi meina að maður ætti að lesa fyrir börnin sem allra fyrst. Ég hélt að Ísak væri of ungur fyrir það en prófaði að lesa fyrir hann Smábarnabíbluna sem mamma gaf honum í skírnargjöf og hann fylgdist vel með. Sömuleiðis fékk ég samviskubit af því að hafa ekki gert æfingar með honum eins og ég hafði lesið að maður ætti að gera í bók um barnauppeldi sem ég las í haust. Þannig að ég lét hann á gólfið, fletti upp á staðnum í bókinni en mér til mikillar undrunar þá hafði ég gert þetta allt með honum. Þarna stóð til að mynda að maður eigi að ýta fótunum upp að bringu og það hef ég gert lengi, lengi enda finnst honum það svo gaman. Það á að láta vafið handklæði undir bringuna þegar þau liggja á maganum þ.a. þau neyðist til að lyfta hausnum en hann hefur eiginlega haldið haus nánast frá fæðingu því hann var svo órólegur og alltaf að leyta að brjóstinu. Það á að toga í hendurnar þegar þau liggja og lyfta þeim þannig upp til að styrkja hausinn og það höfum við líka gert. Ég veit ekki hvort að þetta greiptist svona inn í undirmeðvitundina þegar ég las þetta í haust eða hvort við fengum einhverja vitrun í kringum fæðinguna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var náttúrulega ekki spurning um það að þið séuð góðir foreldrar. Enda með eindæmum fallegur og góður strákur sem þið hafið fært okkur.