mánudagur, október 16, 2006

Það kom þá gagnrýni um Carminu burana eftir allt saman. Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði í Tímarit Máls og menningar þann 5 október. Birti nokkur vel valin orð:

Sár harmur, ást og gredda

í flutningi Fílharmóníu á Carmina Burana

Ég vissi að kantatan Carmina Burana væri skemmtilegt verk, sumir þættir tónlistarinnar algerir gæsahúðarhvatar og efnið óvenjulegt: ástir og nautnir og fyllirí. En ég vissi alls ekki hvað það er rosalega skemmtilegt fyrr en í gærkvöldi þegar ég hlustaði á Söngsveitina Fílharmóníu flytja það í Langholtskirkju undir stjórn síns unga kórstjóra, Magnúsar Ragnarssonar.

Magnús þessi var einn félaginn í hinni dásamlegu hljómsveit Kósý sem heillaði kvenfólk á öllum aldri (og jafnvel karla líka) fyrir fáeinum árum. Hann er líka uppalningur Jóns Stefánssonar, er mér tjáð, svo hann veit allt um kórsöng og kórstjórn frá blautu barnsbeini. Hann fær líka mikið út úr félögunum í Fílharmóníu, að ekki sé minnst á drengjakórinn hennar Þórunnar Björnsdóttur sem söng með í nokkrum þáttum verksins. Magnús tekur meira að segja virkan þátt í textaflutningi á einum stað sem vakti mikla kátínu tónleikagesta.

Næstur kom þó sá sem ennþá verr er komið fyrir: svanurinn sem stiknar á teini meðan hann syngur og er loks settur á fat og borinn á borð. Þá þagnar hann, greyið, því þá er hann væntanlega étinn. Einar Clausen tenór söng þennan vesaling svo ekki var auga þurrt í kirkjunni! Þá tók Bergþór við sem ábótinn í Nautnalandi sem vinnur aleiguna af þeim sem voga sér að spila við hann fjárhættuspil og hlýtur að launum hrikalegar bölbænir þeirra. Langa kvæðið um drykkjuskapinn sungu svo karlaraddir kórsins af mikilli innlifun.

Þriðji þáttur er um ástina og þar fengum við loks að hlýða á englarödd Hallveigar Rúnarsdóttur sópran sem söng unaðslega um stúlkuna í rauða kirtlinum - sjálf í rauðum síðum silkikjól svo manni fannst sviðið loga í kringum hana.

Og þegar áheyrendur höfðu í lokin verið hvattir til að gráta örlög hins auma með honum hlýddu þeir ekki heldur spruttu umsvifalaust upp úr sætum sínum, hrópandi og kallandi og klappandi saman lófum eins og vitlausir! Það mátti sjá að söngvurunum hálfbrá við þessi harkalegu viðbrögð úr sal, en þeir jöfnuðu sig fljótt og tóku af gleði og auðmýkt á móti linnulausum fagnaðarlátum. Salurinn kyrrðist ekki fyrr en hann fékk að heyra aftur lofsönginn "Nú er glatt á hjalla" en eftir það tíndist fólk hægt út úr kirkjunni, greinilega þvert um geð sér. Ég get varla beðið eftir að heyra verkið aftur og vildi óska þess að Fílharmónía gæfi þennan flutning út á diski.

5 ummæli:

Hildigunnur sagði...

glæsilegt, til hamingju :-)

Unknown sagði...

Vei :)

Nafnlaus sagði...

vá geðveikt! Silja er nú svo mikil dúlla að það hálfa væri nóg :D

Nafnlaus sagði...

of kors. Þetta var bara æðislegt.

Nafnlaus sagði...

Gvöð þetta er heldur betur glæsilegt. Þetta er btw frænka mín sem fer svona fögrum orðum um þig Maggi minn þannig að....

Til lukku
Anna Dögg