sunnudagur, janúar 30, 2005

Nú er vika þangað til ég fer í inntökuprófið í Köben. Var að fá skilduverkefnið sem er annar þátturinn úr Linzer sinfoníunni eftir Mozart. Ég bjóst nú við einhverju erfiðara. En hann er reyndar í 6/8 sem ég í dálitlum erfiðleikum með. Veit ekki alveg afhverju. Svo tilkynntu þeir hvað af þeim verkum sem ég valdi til að stjórna þeir höfðu valið og þá reyndist það líka vera Mozart, sem sagt fyrsti þátturinn úr Jupitersinfóníunni. Þegar ég fyllti út umsóknina í lok nóvember og sá að ég átti að stinga upp á þremur mismunandi verkum til að stjórna þá stakk ég upp á Brahms og Stravinski en vantaði eitthvað eldra verk sem kannski gerði ekki eins miklar kröfur til hljómsveitarinnar og fann partitúr að Jupiter sinfoníunni upp í hillu sem ég hafði keypt þegar ég var í Cambridge fyrir nokkrum árum. Ég ákvað að skrifa það á umsóknina án þess að kunna það, ég hafði eiginlega aldrei hlustað á það. En síðan þá hef ég stúderað það og finnst hún bara mjög góð og skemmtileg.

Í gær fór ég með ungdomskórinn minn á gospeldag í útvarpshúsinu og það var æðislega gaman og allir skemmtu sér vel, aðallega vegna þess að þarna voru saman komnir rúmlega 1800 kórsöngvarar og sum lögin voru mjög góð. En sum fannst reyndar afskaplega leiðinleg. Það kom einn frægasti gospelsöngvari Bandaríkjanna sem hafði samið nánast öll lögin og þegar hann söng sóló var það þessi "Mariah Carey" stíll að syngja eins mikið af skrauttónum og hægt er og afbaka melódíuna. En að öðru leyti var þetta mjög skemmtilegt. Einhver ætti að taka upp á þessu á Íslandi.

Ég skrapp reyndar frá í nokkra tíma til að syngja með Pro Musica í St. Jacobskirkjunni sem liggur við Kungsträdgården. Það gekk voða vel og það mætti fullt af fólki og ég spilaði Litanies efter Alain á orgelið þarna sem er eitt það besta á Norðulöndunum. Það féll í góðan jarðveg. Ég hitti svo Anders Eby eftir á (þ.e. sá sem mun dæma kórstjórnarprófið hérna í Stokkhólmi) og hann var mjög hrifinn af spilamennskunni minni og heyrði mig syngja tenór í sólókvartett í einu verkinu og var að spá í að flytja mig upp í tenórinn í Mikaeli kórnum. Ég sem var búinn að venja mig við fyrsta bassa, voða þægilegt, þarf eiginlega aldrei að hita upp.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Dooooohhhh!!!
Ég fór með Ipod-inn minn í vinnuna í dag. Ætlaði að vera voða sniðugur og færa yfir allar færslurnar úr nýja bókunarkerfinu sem var verið að taka upp í vinnunni. En svo var eitthvað vesen að tengja tækið við tölvuna, aðallega af því að maður keyrir tvo platforma, annar er bara tölvan mín og hinn er sameiginlegur fyrir alla. En jæja, ég fann út úr því og gat sett inn rétt forrit en svo bara... úps... var allt horfið af ipodnum. Ég tók eftir því um daginn að ég var með tónlist sem tók 2,4 daga að hlusta á. Til að bæta gráu ofan á svart þá var ekki hægt að færa yfir dagatalið úr bókunarkerfinu. Nú sit og hleð öllu draslinu inn aftur. Ég er kominn upp í ca. 30 tíma.
Það er ýmislegt sem virkar ekki í vinnunni. Aðallega skipulagslega séð. Og alltaf þegar ég kem með tillögur að úrbótum fara menn að verja óbreytt ástand. Og svo þræti ég dáldið og á fæ ég þetta svar: Já, Magnus. Ég skil hvað þú ert að fara en ef þú færð þessi réttindi, þá fara kannski fleiri fram á þau og hvernig væri það nú, ha, ef allir fengju bara að bóka það sem þeim sýndist í þessu nýja bókunarkerfi, það yrði bara kaós.
Garg!

föstudagur, janúar 21, 2005

Tengdapabbi minn (já hann er orðinn það núna) kom hérna í vikunni. Það var bara stutt stopp. Hann var hjá okkur í eina nótt og var svo á ráðstefnu daginn eftir og fór svo heim. En svo kemur hann aftur í næstu viku og verður álíka stutt en þá missi ég því miður af honum þar sem ég þarf að vera á æfingu í vinnunni. Það var voða notalagt að hafa hann og hann kom auðvitað færandi hendi með lakkrís, kleinur, hangikjöt, rúgbrauð, flatkökur og áramótaskaupið sem var nebblega ekki sett á netið. Við horfðum á það í kvöld og fannst bara voða gaman.

Á eftir fylgdi kveðja frá útvarpsstjóra sem er orðið voðalega veglegt og flott hjá honum Markús Erni. Það var líka gaman að heyra þessi alíslensku lög þótt þau geti verið alveg ferlega hallærisleg. Og á einum stað sprungum við reyndar úr hlátri yfir einhverjum kór og einsöngvara. Bjartur og Jóhanna báru alveg af með flottum flutningi á flotti lagi. Það var líka gaman að sjá hvernig organistinn lauk við lagið með viðeigandi bjartískum höfuðhnykk.

Ég sem ætlaði að vera svo duglegur að æfa mig fyrir inntökuprófin er allt í einu að drukkna í verkefnum. Núna um helgina verð ég að taka upp jólalög frá morgni fram á kvöld og um næstu helgi ætla ég að taka þátt í einhverjum gospeldegi í útvarpshúsinu en hlaupa frá um miðjan dag til að syngja og spila með Pro Musica sem kemur í heimsókn. Og í miðri viku ætla ca. 15 mismunandi hópar að koma fram í kirkjunni í dagskrá út af alþjóðlegum degi gegn misbeitingu valds (eða eitthvað þannig) og ég þarf að reyna að skipuleggja þetta allt saman.

sunnudagur, janúar 16, 2005

Ááá...iiii!
Þegar ég var að taka lestina í morgun þá rann ég í hálkubletti og lenti á milli lestarinnar og brautarpallsins. Þetta var í eitt af fáum skiptum þar sem ég þakkaði Guði fyrir að vera ekki grannur. Hefði ég verið eins og Hrafnhildur þá hefði ég lent undir lestinni. Þetta var sem sagt klukkan níu í morgun, ekki margir á ferli og flestir annað hvort sofandi eða niðursokknir í bók eða með heyrnartól þannig að ég veit ekki hvort nokkur hafi tekið eftir þessu. Sem betur fer kom ekkert fyrir mig en ég er dálítið aumur í rófubeininu þannig að það er frekar óþægilegt að standa upp og svo er ég með verk í hægri upphandlegg þannig að ég ætti sennilega ekki að æfa mig í að stjórna næstu daga.
Nú eru dagsetningarnar fyrir inntökuprófin komin á hreint. Ég fer sem sagt til Köben aðra vikuna í febrúar og prófið í Stokkhólmi verður í dimbulvikunni. Þetta eru aðrar dagsetningar en ég bjóst við og því þurfti ég að hliðra ýmsu til í vinnunni en það gekk bara vel. Núna eru allir að spurja mig hvað gerist ef ég kemst inn og segjast svo eftir á vona að ég komist ekki inn. Ég er miklu betur undirbúinn núna miðað við í fyrra en samt er ég svartsýnni núna. Ég heyrði að þeir sem eru í náminu núna hafa starfað sem konsertmeistarar í mörg ár. Það er orðin svo mikil samkeppni að komast inn að maður þarf að vera ansi góður stjórnandi fyrir til að gæta lært hvernig á að vera stjórnandi. Huh! Maður er til að mynda prófaður í partitúrspili, formfræði og hljóðfærafræði og ég veit ekki til þess að maður hafi getað lært þetta í Tónlistarháskólanum í Gautaborg. En ég er búinn að vera VOÐA duglegur að undanförnu. Það er bara spurning hvort það dugi til.