mánudagur, apríl 24, 2006

Æfingar hófust aftur í kvöld. Byrjuðum að æfa Carmina burana og það gekk svo miklu betur en nokkur þorði að vona. Þetta sat bara ótrúlega vel. Svo mætti ég og Ingibjörg dálítið fyrr til að hlusta á nokkra sem vildu byrja í kórnum eða koma aftur. Ég gerði ráð fyrir fimm til sex en þau voru rúmlega tuttugu. Nú vantar nokkra kalla í viðbót og þá verður þetta fínt. Fyrir vikið get ég haft metnaðarfyllra acapella prógramm með íslensku lögunum.

föstudagur, apríl 21, 2006

Undanfarnir dagar eru búnir að vera æðislegir af mörgum ástæðum. Fyrir það fyrsta gengu tónleikarnir svo vel. Ég fékk mjög góða krítík og svo voru svo margir hljóðfæraleikarar sem komu sérstaklega til mín og lýstu yfir ánægju með samstarfið. Svo kom í ljós að tónleikarnir komu akkúrat út á núlli sem hefur ekki gerst í mörg ár nema í fyrra þegar það varð gróði á Carminu Burana enda voru mjög fáir hljóðfæraleikarar. Nú er maður á fullu að skipuleggja næsta ár og getur leyft sér að gera eitthvað metnaðarfullt fyrst þessir tónleikar gengu svona vel. Það kemur margt til greina.
Það var yndislegt fyrir Norðan og við náðum öll að slappa vel af. Ísak blómstar sem aldrei fyrr og maður nær mjög góðu sambandi við hann. Hann tók upp á því að velta sér yfir á magan og hefur ekki hætt því síðan. Svo samkjaftar hann ekki og gefur frá sér djúpraddaðri hljóð.
Ég var líka að heyra af mögulegri vinnu sem yrði alveg æðislegt ef af yrði en það er sem samt ekki ljóst hvort hún sé í boði og því þori ég ekki að segja neitt. Ég hitti líka Þóru Marteins sem hafði roðnað fyrir mína hönd um daginn þegar hún sat á fundi með einum presti sem lofsöng mig.
En það kemur ábyggilega einhver skellur á næstunni. Það væri alveg týpískt.

miðvikudagur, apríl 12, 2006


Ég var að kaupa tæki þannig að ég get hlustað á ipodinn í bílnum. Mjög sniðugt tæki sem framleitt er í Kína, en eitthvað voru leiðbeiningarnar skrítnar. Hér er smá sýnishorn:
"Open wave band, FM of auto radio, of you, is it search platform or manual to search set let auto radio of you receive frequency that you preset automatically to choose, in this way you can listen to iPod stereo music of high-fidelity taken the place of to you through ipod Auto Kit device."

WHAT?!?!

Sem betur fer var auðvelt að finna út úr þessu þrátt fyrir leiðbeiningarnar.

Hér til hliðar má sjá mynd af okkur feðgunum í ungbarnasundi. Við erum svo klárir sko!
Tónleikarnir í gær gengu mjög vel. Kórinn stóð sig mjög vel en það voru smá hnökrar hjá hljómsveit og einsöngvurum hér og þar. Sumir virtust samt ekkert hafa tekið eftir því. Ég var alveg hissa hvað það voru margir alveg sérstaklega hrifnir af Mozart. Nokkrir sem töluðu um að hafa verið með tárin í augunum allan tímann. Mér finnst þetta einmitt ekki þannig verk heldur mjög skemmtilegt og glaðlegt. En RÚV mætti sem betur fer líka í gærkvöldi og tók upp og maðurinn hennar Ingibjargar tók líka upp á vídéó og því verður hægt að nota hljóðupptökuna saman með því og gefa út á DVD fyrir þátttakendur. Svo mættu gagnrýnendur frá Mogganum og DV.
Í kvöld förum við svo að sjá Indru systur leika eitt af aðalhlutverkunum í Hugleik og svo förum við Norður á skírdag og komum aftur annan í páskum.
Styttist í afhendingu.

mánudagur, apríl 10, 2006

Hafi einhver velkst í vafa hvort hann ætti að koma á tónleikana annað kvöld þá er hægt að hlusta á tónlistargagnrýnina í Víðsjá. Valdimar Pálsson var svona svahakalega hrifinn, sagði að fólk mætti ekki missa af þessu og að kórinn hefði aldrei verið betri. Alltaf gaman að fá flotta krítík.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Tónleikarnir gengu ÆÐISLEGA vel. Maður var í sæluvímu allan tímann. Það stóðu sig líka allir með stakri prýði. Kórinn hafði aldrei sungið svona vel og hljómsveitin fylgdi mér extra vel. Það var líka svakalega góð stemmning í kirkjunni, uppselt og standing ovation. Gaman gaman. Hlakka til að gera þetta aftur á þriðjudaginn.

laugardagur, apríl 08, 2006

Generallinn gekk ágætlega. Mozart tók lengri tíma en ég bjóst við og því var dálítið stress í gangi í lok æfingarinnar þannig að við myndum ná öllu í Haydn. Við slepptum að vísu einum kaflanum en hann gekk svo vel á þriðjudaginn þannig að það var allt í lagi. En þetta á eftir að vera þrælfínt á morgun.

Í Lesbókinni í dag birtist önnur grein eftir mig sem ég skrifaði fyrir 10 árum. Ég vissi ekki að það stæði til að birta hana og hefði fyrir það fyrsta viljað líta yfir hana. En það sem fór mest fyrir brjóstið á mér er að hún er eignuð öðrum. Það var víst einhver leiður misskilningur.

föstudagur, apríl 07, 2006

Alltaf skulu þessi blaðaviðtöl brenglast. Ég sagði að Stabat Mater væri eitt af fyrstu stóru kórverkum Haydns en blaðakonan skrifar hljómsveitarverk. Sömuleiðis sagði ég að verkið hefði verið þekktasta tónsmíð hans á meðan hann lifði en hún skrifar stærsta.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Við fórum á Sinfó í kvöld. Mér fannst þeir alveg mega sleppa öðru hvoru verkinu fyrir hlé. Kannski frekar Eybler þó svo það sé gaman að heyra nýja tónlist eftir óþekkt tónskáld. Kórinn söng mjög vel en stundum saknaði maður þroskaðri hljóms. En kóleratúrinn var alveg tandurhreinn og nákvæmur. Svo var alveg meirihátta að fylgjast með Þorgerði sem sat nálægt okkur og hún var mjög aktív þegar kórinn söng.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Ég fór í viðtal til Ásu Briem fyrir Hlaupanótuna í gær, þriðjudag. Það var flutt í dag og tók nánast allan þáttinn. Ég hélt þetta yrði bara 10 mínútna innskot en þetta var svakalega flott. Ég gat meira að segja hlustað á sjálfan mig tala þegar ég hlustaði á þetta á ruv.is. Ég var nefnilega að kenna til hálf fimm og þegar ég settist upp í bíl heyrði ég eitthvað skrítið lag sem ég fór þó fljótlega að kannast við. Í ljós kom að þetta var síðasta lagið sem við gerðum í Kósý. Júlíus Kemp, sem hafði gefið út plötuna okkar, bað okkur um að taka upp okkar eigin útgáfu af Always look on the bright side of life. fyrir kvikmynd sína Blossi. Við vorum í rauninni hættir sem hljómsveit og vissum að við ætluðum aldrei koma saman aftur og því var þetta eitthvað þvílíkt einkaflipp. Mér fannst þetta ógeðslega fyndið þegar ég hlustaði á þetta í kvöld en Hrafnhildur hristi bara hausinn.
Áhugasamir geta farið inn á www.ruv.is og hlustað á Hlaupanótuna á Rás 1 5 april. Lagið kemur fyrir í ca. miðjum þætti.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Haydn gekk líka mjög vel. Fínt að komast í Langholtskirkju. Ég var ekki fyrr búinn að venja strengina á að spila létt og meira galant í Mozart en ég bið þá að spila eins þykkt og bundið og hægt er í Haydn.

mánudagur, apríl 03, 2006

Við æfðum Mozart í kvöld með hljómsveit og öllum, að vísu ekki pákum og trompetum sem spila bara í tveimur þáttum og alveg fáránlega einfalt þannig að þeir mæta bara á generalinn á laugardaginn. Kórinn var bara í þrusu stuði og mjög vel undirbúinn. Svo voru þau svo stillt og þolinmóð. Enginn kjaftavaðall. Eins var hljómsveitin mjög góð og fylgdi mér í einu og öllu. Svo voru þau svo almennileg. Ég var búinn að gera mér í hugarlund að þau yrðu með einhvern: "Hvað þykist þú vita"... móral. En voru virkilega næs.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Ég er búinn að æfa með Jónasi og hann á eftir að syngja þetta rosalega vel. Hann er nebblega líka að syngja með Sinfó á fimmtudaginn og svo Jónsa á föstudaginn langa. Svo æfði ég með Nönnu Maríu í dag og fékk nokkrum sinnum gæsahúð. Það er eins og Haydn hafi skrifað þessar aríur með hana í huga. Svo æfi ég með Huldu Björk og Davíð á morgun. Hún var eitthvað kvefuð um helgina og sparaði röddina á kóræfingunni í gær en tók eina kadensu eftir á með Jónasi og fór alla leið upp á háa d og hafði ekkert fyrir því. Ég vona að Davíð kunni sitt vel. Hann er með tvær mjög flottar aríur. Sif konsertmeistara líst mér líka mjög vel á. Hún er mjög metnaðarfull og búin að skrifa inn öll bogastrokin í allar nóturnar og vill hitta mig og Daða Kolbeins til að ákveða fraseringar áður en við æfum saman. Benni vann með henni um daginn hjá Sinfó og var hæstánægður.

Við hjónin skelltum okkur í óperuna á föstudaginn. Halldór fékk boðsmiða frá Glitni en komst ekki og því fórum við. Það var mjög vel veitt af víni og veitingum, bæði fyrir sýningu og í hléinu. Það stóðu sig allir vel en ja hérna hvað mér leiddist. Eftir 10 minutur var ég farinn að líta á klukkuna og bíða eftir hléi þannig að við gætum farið heim. Ég þoli orðið sem sagt ekki óperettur. Ég gékk líka út af seldu Brúðinni eftir Smetana í Stokkhólmi. Tónlistin er svo óáhugaverð, söguþráðurinn algjört prump, brandararnir svo ófyndnir og svo er alveg ferlega skrítið þegar söngvararnir tala á íslensku en syngja svo: "Dann gehen wir nach Selfoss, nach Selfoss, nach Selfoss."

laugardagur, apríl 01, 2006

Ég held ég sé búinn að missa traust kórsins. Ég lét þau breyta texta á erfiðum stað á æfingunni í morgun. Þetta voru stikknótur sem þau hafa átt að syngja það en ég lét þau breyta textanum í úr "plagis me fac" í "itsrif lirpa" og sagðist hafa séð þetta í annarri útgáfu og veifaði bók sem Nanna María kom með. Fólk fór að skrifa á fullu í nóturnar og hváði og bað mig um að stafa þetta. Svo þegar ég var alveg að fara að láta þau syngja þá fattaði einn tenórinn hvað "itsrif lirpa" þýddi, sérstaklega þegar hann las það afturábak. Mér var blótað í sand og ösku og svo gátu þau ómögulega sungið þetta rétt þegar kom að staðnum heldur sprungu úr hlátri. Annars var þetta holl og góð æfing því við æfðum í Borgarskóla og þau voru alveg hræðilega fölsk. Ég vona að þetta hafi verið nógu mikill skellur í andlitið þannig að þau séu á tánum á hljómsveitaræfingunum.

Þetta verður ansi stíf vika því auk hljómsvetaræfinganna þarf ég að æfa með öllum einsöngvurunum, hitta konsertmeistarann, fara í útvarps- og blaðaviðtöl og kaupa mér eða leigja kjólföt. Ég skrifaði grein í prógrammið sem ég sendi á Moggann og bað þá um að birta í Lesbókinni næsta laugardag en svo birtist hún bara í dag, heilsíða meira að segja með fínni mynd. Að vísu er Benni að stjórna kórnum á þeirra mynd en það er ekkert svo áberandi. Það er ekki til nein mynd af mér og kórnum saman eins og er. Það þarf að bæta úr því. Ég hafði hringt í Moggann fyrr í vikunni og spurt hvort ég mætti ekki senda þeim grein en fékk einhver dræm viðbrögð og var því tilbúinn að fara væla í þeim í næstu viku. Þess vegna kom þetta skemmtilega á óvart.