þriðjudagur, október 28, 2008
Fleiri tónleikar
Á sunnudaginn kl. 14.00 flytur Kór Áskirkju Requiem eftir Gabriel Fauré í Langholtskirkju undir minni stjórn. Einsöngvarar eru Elma Atladóttir og Skúli Hakim Mechiat og Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel. Séra Sigurður Jónsson, sóknarprestur í Ásprestakalli prédikar og þjónar fyrir altari við messuna ásamt Margréti Svarsdóttur djákna Áskirkju.
Til stóð að flytja messuna í Áskirkju á hefðbundnum messutíma, en vegna undirbúnings að uppsetningu steinds kórglugga í kirkjunni sem nú stendur yfir, var ákveðið að leita húsaskjóls hjá grannsöfnuðinum í Langholtskirkju.
Að sjálfsögðu eru allir velkomnir til þessarrar messu Ássafnaðar í Langholtskirkju á sunnudaginn kemur.
fimmtudagur, október 23, 2008
BURT MEÐ ÞÁ!
Eftir viðtal Kastljóssins við Geir Haarde er ég á því að forsætisráðherra eigi líka að víkja. Ég hef sjaldan orðið vitni að þvílíkum aumingjaskap! Ég hef enga trú á þessum manni lengur!
Ég er þar að auki búinn að missa ALLA trú á Sjálfstæðisflokknum. Ég hef ekki kosið hann í áratug og mun ALDREI aftur eyða atkvæði mínu á þann flokk. Hann er búinn að klúðra málunum illilega hér í borginni og nú ber hann ábyrgð á gjaldþroti Íslands. Hann hefur haft forsætis- og fjármálaráðuneytið í 17 ár, hann lagði niður Þjóðhagsstofnun og hann afhenti útvöldum vinum bankana á silfurfati og það hefur nota bene aldrei verið rannsakað.
Mætum öll á Austurvöll á laugardaginn með kröfuspjöld!
Hryðjuverkamenn
Hér fjallar BBC um þetta.
laugardagur, október 18, 2008
Aðrir tónleikar vetrarins
Klezmertónleikarnir með Fílharmóníunni og Gröndal systkinunum ásamt hljómsveit gengu alveg stórkostlega vel. Það var rosa góð stemning og nánast full kirkja í bæði skiptin. Ég man varla eftir öðrum eins viðbrögðum eins og á miðvikudaginn.
Hlómeyki verður með mjög flotta tónleika næstkomandi laugardag kl. 12 í Hásölum í Hafnarfirði, þ.e. salurinn á milli Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskólans. Við ætlum að frumflytja fjögur verk
- Utan hringsins eftir Þóru Marteinsdóttur
- Bakkabræður eftir Hildigunni Rúnarsdóttur
- Smiðurinn og bakarinn eftir Ríkarð Örn Pálsson
- These few words eftir Önnu Þorvalds
Ég hvet alla til að mæta. Miðaverð 1000 kr.
mánudagur, október 06, 2008
Klezmertónleikar
Tónleikar með Söngsveitinni Fílharmóníu, Ragnheiði Gröndal og Hauki Gröndal
Sunnudaginn 12. október og miðvikudaginn 15. október nk. heldur Söngsveitin Fílharmónía tónleika þar sem kórinn flytur klezmertónlist, þjóðlagatónlist Gyðinga frá Austur-Evrópu, ásamt systkinunum Ragnheiði og Hauki Gröndal og þjóðlagasveit hans. Magnús Ragnarsson er stjórnandi tónleikanna. Þau systkin Haukur og Ragnheiður hafa átt mikinn þátt í að vekja athygli á þessari litríku og fjörugu tónlist hér á landi, þar sem saman blandast stef úr trúarlegri tónlist gyðinga við dans- og þjóðlagatónlist Evrópu og Miðausturlanda, ekki síst grískri og tyrkneskri alþyðutónlist.
Haukur Gröndal stofnaði íslensk-dönsku klezmer hljómsveitina Schpilkas, sem hefur gefið út tvær hljómplötur, en Ragnheiður söng með hljómsveitinni.
Ragnheiði Gröndal þarf ekki að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum. Hún hefur sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna og gefið út fjórar sólóplötur sem allar hafa náð miklum vinsældum og sungið með ýmsum hljómsveitum auk Schpilkas.
Tónleikarnir á sunnudeginum er klukkan 17 en klukkan 20 á miðvikudeginum, í Neskirkju (við Hagatorg). Miðar fást hjá kórfélögum, í versluninni 12 Tónum og við innganginn.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þessara tónlistar má heyra Hauk Gröndal hér í skemmtilegri klezmer sveiflu, hér má sjá smá videósýnishorn af annarri hljómsveit.