fimmtudagur, desember 30, 2004

Ég átti að vera í fríi á gamlárskvöld en þarf nú skyndilega að spila. En mér finnst það allt í lagi því þetta er minningarathöfn vegna hamfaranna í Asíu. Svo er búið að lýsa yfir þjóðarsorg á nýársdag og sem betur fer var ég búinn að æfa kvartett til að syngja akkúrat þennan dag og tónlistin passa ágætlega.
Það er svo erfitt að átta sig á þessum hamförum. Maður skilur ekki að vatn geti verið svona stórhættulegt. Og þessar tölur yfir látna eru svo svakalegar að maður á erfitt með að trúa þeim. Ég held að þessi fyrstu áramót okkar í Svíþjóð verði frekar róleg.

Við hjónin erum sem sagt komin til baka til Svíþjóðar eftir stutt stopp yfir jólin á Íslandi. Það var alveg frábært. Ég vona að fólk hafi skilning á því að maður gat ekki hitt alla sem maður vildi.
Gleðilegt nýtt ár!

sunnudagur, desember 19, 2004

Svei mér þá. Tónleikarnir í gærkvöldi gengu barasta mjög vel og það mætti fullt af fólki. Þar með steinþögnuðu allar gagnrýnisraddir um að tónleikarnir væru of seint og sumir voru að pæla í að hafa fleiri viðburði svona seint. En ég er allavega útfaðmaður eftir þetta. Ég hafði reyndar áhyggjur af því að æfingin á fimmtudaginn gekk einum of vel en sem betur fer var æfingin rétt fyrir tónleikana með hljóðfæraleikurunum alveg hræðileg, kórinn féll nokkrum sinnum á viðkvæmum stöðum og organistinn var með svo ómöguleg tempó og registreraði frekar asnalega. En svo náðum við að laga það vandamál á síðustu stundu og kórinn hélt sínu striki. Skemmtilegast var eiginlega að það byrjaði að snjóa á meðan við sungum, en það hefur verið alveg snjólaust hér í nokkrar vikur þannig að það var mjög jólalegt þegar maður kom út úr kirkjunni.

Tónleikarnir í Adolf Fredriks kirkjunni gengu líka mjög vel og voru vel sóttir en voru full langir. Það voru alveg rosalega mörg verk og kórstjórinn var hálf stressaður á milli laga til að þetta yrði ekki of langt. Það fór líka sem mig grunti að lagið hennar Báru sló í gegn þótt kórinn hafi verið í þvílíku basli með allan þennan íslenska texta. Ég þarf að fara að athuga hvort hún hafi ekki látið þýða þetta á annað tungumál. Þetta er eiginlega of hár þröskuldur fyrir marga kóra. Ég unnið með kórverk á öllum norðulandatungumálunum, ensku, frönsku, eistnesku, ítölsku og mörgum slavneskum tungumálum en aldrei lent í eins miklum vandræðum eins og með íslensku. Ég átta mig ekki á því hvað það er sem fólki finnst svona erfitt.

Við hjónin fórum áðan í jólagjafaleiðangur og því miður entist ég bara í hálftíma áður en ég varð ógeðslega þreyttur. En við komum heim með nokkra poka og nú liggur Habbidu sofandi í sófanum og Skrámur búinn að klessa sér upp við hana. Þau eru ótrúlega sæt saman.
Kem heim á miðvikudaginn og verð í eina viku.

föstudagur, desember 17, 2004

Haldiði að það hafi ekki verið keyrt á eiginkonuna mína í morgun!
Hún var sem sagt að hjóla til að ná lestinni og þá tók bíll af stað í regninu til að beygja á gatnamótum og keyrði á framhjólið hennar. Hún datt sem betur fer ekki og við höldum að það hafi ekkert komið fyrir nema að hjólið beyglaðist. Sem betur fer vinnur hún á spítala þannig að það var hægt að tékka á henni strax. Eins gott að jólasveinninn færi henni eitthvað gott í bleika inniskóinn hennar sem liggur í gluggakistunni.

Á morgun eru kórtónleikar. Annars vegar með Mikaeli kammerkórnum kl. 16. Þar á meðal annars að syngja "Eg vil lofa eina þá" eftir Báru Grímsdóttur sem ég benti kórstjóranum á og allir elska. Hins vegar er ég að stjórna kórnum mínum kl. 22. Ég er mjög ánægður með kórinn og þau hljóma vel í kirkjunni (sem er með mjúkan og fínan hljómburð). Þau eru mjög vel undirbúin og rosalega einbeitt. Nú er bara að vona að það komi fólk á tónleikana. Allir reka upp stór augu þegar þeir heyra að tónleikarnir eigi að vera svona seint. Ég hef bent á að ég hef oft gert þetta í Gautaborg og Reykjavík. Ég held meira að segja um daginn hafi Óperukórinn flutt sálumessu Mozarts kl. eitt um nóttina.

laugardagur, desember 04, 2004

Vá hvað Kristján Jóhannsson er mikill hálfviti. Ég horfði á þennan Kastljósþátt eftir að Anna Dögg (sem er í heimsókn hjá okkur núna um helgina) benti okkur á hann og hefði ég verið á staðnum hefði ég glaður vilja kíla hann í magann þegar hann var hvað dónalegastur.
Þegar ég var í Kósý vorum við oft beðnir um að koma fram til styrktar einhverju sem við og gerðum. Stundum urðum við að segja nei og það var alltaf erfitt en ALDREI datt okkur í hug að fá borgað fyrir það. Við hefðum haft of mikið samviskubit hefðum við grætt á þessu. Ég skil alveg að þeir sem gefa vinnuna sína vilja kannski ekki þurfa að borga of mikið með þessu. Svo fer það alveg svakalega í taugarnar á okkur listamönnum þegar það er ætlast til að við gefum vinnuna okkar en það á að borga öllum öðrum. Það er mjög algengt viðhorf. En þessar upphæðir sem maður er að heyra eru gjörsamlega út í hött. Bæði finnst mér siðlaust af fólkinu að setja fram þessar kröfur og að tónleikahaldararnir gangist við þeim. Einna verst finnst mér þessi húsaleiga kirkjunnar. Þetta yrði ennþá meira hneiksli hér í Svíþjóð ef kirkjan ætlaði að græða á líknarmálefni. Maður verður mikið var við það þegar maður kemur heim til Íslands hvað kapítalisminn er alsráðandi. Sérstaklega tek ég eftir muninn á kirkjunum þar sem margar íslenskar kirkjur eru bara í pjúra viðskiptum, sérstaklega hvað varðar útleigu á húsnæði.