laugardagur, júlí 30, 2005

Skotinn

Ég keypti bíl í gær. Ford escort, station, 96 model, keyrður rúmlega 160þús km. Ég þurfti að fara mjög langt með lest, tunnelbanann og strætó því það eru svo margar bílasölur lokaðar núna vegna sumarleyfa. Þetta er nú ekkert flottur bíll en hann virkar ég treysti því að hann klikki ekki á miðri leið á milli Södertälje og Nynäshamn. Framstuðarinn er brotinn og límdur saman með gráu teipi, það er ryð á afturhurðinni og það vantar takka í útvarpið þannig að það virkar ekki. En fyrir vikið fékk hann nokkuð ódýran og því getum við safnað pening fyrir íbúðarkaupum. Ég sé nú alveg samt fyrir mér að bílasalarnir hafi skálað í kampavíni í gærkvöldi yfir að hafa loksins getað selt þennan bíl. Við erum vön að nefna bílana okkar, sá fyrsti hét Denni Daihatsu, næsti Lína Lancer og þessi Skotinn því bílnúmerið byrjað á bókstöfunum DJE.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Móttökunefndin

Ég skutlaði móttökunefndinni út á flugvöll í morgun á stóra, ameríska jeppanum. Halldór og Dísa fóru sem sagt út til Stokkhólms í morgun af því það var ekki hægt að kaupa miða fyrir vildarpunkta í vélinni sem við förum með í kvöld. Ég vona að þau finni íbúðina. Hrafnhildur er búin að vera að drepast í bakinu og fór til sjúkraþjálfara í gær sem sagði að þetta væri einkenni grindargliðnunar. Við vonum auðvitað öll að þetta verði ekki alvarlegt eða langvarandi. Hún gat eiginlega ekkert sofið hér um nóttina.

Ég vonast til þess að við getum keypt okkur bíl á morgun. Ég er búinn að vera að skoða á netinu og hef fundið nokkra en hann þarf helst að vera skoðaður fram á næsta ár og helst búið að borga skattinn af honum. Svo þætti mér leiðinlegt ef hann bilar mitt á leiðinni þegar Hrafnhildur er að því komin að fæða í desember. Við erum annars að velta því fyrir okkur hvenær við eigum að flytja heim. Krulli á að koma 3. des. en gæti farið fram yfir og kæmi þá í síðasta lagi 17. des. Við höfum talað um að koma heim 22. en ef hann fæðist svona seint þá er hann bara 5 daga gamall og Hrafnhildur kannski ekki búin að jafna sig. Þ.a. við erum jafnvel að hugsa um að panta bara fljótlega miða heim milli jóla og nýárs. Taka jólin bara rólega þarna úti. Við höfum oft hugsað til þess að Halldór og Dísa fóru með Hrafnhildi til Uppsala bara þriggja vikna og við ættum ekki að vera væla mikið en svo kom í ljós um daginn að það var meira mál en þau hafa sagt hingað til.

Ég var að skoða bækling frá Kirkjutónlistarmótinu í Gautaborg 1996 sem Halldór fór á og sá þar nánast allt fólkið sem ég vann hvað nánast með og áttaði mig á því að ég var ansi heppinn með kennara. En það var alveg tímabært að flytja því ég var búinn að fá eiginlega allt út úr þeim sem hægt var.

bæðevei: Við tölum bæði um Krulla og segjum alltaf "þegar hann fæðist" en við vitum sem sagt ekkert hvort kynið þetta er þ.a. barnið verður kallað Krulli þangað til það fæðist og talað um hann í karlkyni. Við höfum hingað til verið nokkuð sannspá um kyn ófæddra barna vina okkar og til að byrja með hafði ég tilfinningu fyrir því að við ættum von á Strák en nú er ég á báðum áttum.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Ísland sýnir sínar bestu hliðar

Maður er ekkert að blogga voða mikið þegar við erum heima. Það er búið að vera svo fínt veður fyrir utan fyrstu dagana og stíft prógram við að hitta alla og gera ýmislegt. Suma náum við ekki að hitta almennilega en við erum nú að flytja heim um áramótin. Umræðurnar í heimsóknunum hafa að tveimur þriðju hlutum snúist um barn og barneignir og afgangurinn um fasteignir. Við ætlum sem sagt að bíða og sjá með íbúðarkaup, vita hvort verð fari ekki að lækka en við fylgjumst vel með.

Ég fékk hringingu í morgun og þar sem mér var tilkynnt að ég er orðinn stjórnandi Fílharmóníunnar frá og með áramótum. Ég fór á tvo fundi og þar var létt á hjalla. Það var reyndar sama tilfinning fyrir þetta atvinnuviðtal eins og síðasta sumar þar sem ég gerði mér litlar vonir um að fá starfið. En þau vilja endilega fá mig og ætla að bíða eftir mér í allt haust. Undanfarnar nætur hef ég átt erfitt með að sofna því maður fær svo margar hugmyndir fyrir þetta starf. Svo hef ég verið að spurjast fyrir hvort menn vita um einhverja organistastöðu sem er að losna og það virðist ekki vera neitt þannig að ég geri ráð fyrir að frílansa fram á næsta haust og vonandi verður þá eitthvað auglýst. Eitthvað almennilegt vona ég.

föstudagur, júlí 22, 2005

Myndir

Þá eru sónarmyndirnar loksins komnar. Maður fer bara á síðuna hennar Hrafnhildar, velur hlekkinn fyrir myndir, notendanafnið er hrafnis@yahoo.com og leyniorðið myndir

sunnudagur, júlí 17, 2005

Vei rigning!

Við erum komin heim. Það er ýmist í ökkla eða eyra. Við vorum að stikna úr hita í Svíþjóð og núna að hneykslast á þessari veðráttu hér heima.
Það er þvílíkt prógram á hverjum degi, um að gera að vera skipulagður þannig að maður missi ekki af neinum. Ég er búinn að æfa Pabbastellinguna með Jökli nokkrum sinnum og fylgst með þegar skipt var um bleyju.
Í gær var ég við hjónavígslu Láru Bryndísar og Ágústs, söng í kórnum sko. Gat ekki annað því hún var fyrsta til að melda sig í kórinn hjá okkur í fyrra og var svo mjög leið þegar í ljós kom að hún var búin að tvíbóka sig. Þetta var náttúrlega glæsilegt í alla staði.
Við fengum sömu svör frá Tryggingastofnun eins og áður um að við eigum engan rétt til fæðingarorlofs á Íslandi ef barnið fæðist úti og þó svo við kærum og áfrýjum og allt það þá eigum við í hæsta lægi rétt á lágmarksstyrk. Þetta er mikið púsluspil.
Í dag erum við komin 20 vikur á leið, sem sagt hálfnuð. Indra er ca. 8 vikum á undan og komin með ansi myndarlega bumbu. Svo ætlum við að reyna að hitta allar bumbulínur áður en við förum út. Um að gera að nýta tímann vel þannig að það verði engin slagsmál síðustu dagana.

p.s. Það er hægt að skrifa komment á þessa síðu. Stundum held ég að enginn lesi hana en svo heyri ég frá hinum og þessum sem virðast lesa í hverri viku. Margir vinir mínir senda mér alltaf tölvupóst með kommentum en það er alveg eins hægt að skrifa hér. Over and out!

föstudagur, júlí 08, 2005

Tónleikarnir í gær voru mjög notalegir og fínir. Mörg verkin tókust best á tónleikunum, sérstaklega verkið mitt. Hann átti í dálitlum erfiðleikum með suma háu tónana á æfingunum en svo spilaði hann voða vel í gærkvöldi. Það virðist koma heilmikið af fólki sem er bara hérna yfir sumarið. Það eru alla vega ansi mörg ný andlit.
Ég fékk lánaðan minibússinn hér úr vinnunni yfir nóttina því það er enginn strætó eftir kl. átta og það er svo rosalega mikið mál að fara með lestinni og skipta og svoleiðis. Það tekur mig ca. 40 mín. að keyra og ég naut útsýnisins á leiðinni bæði í gærkvöldi og svo aftur í morgun. Mjög fallegir akrar en vegirnir eru ansi hlykkjóttir og það verður spurning hversu gaman það verður að keyra þetta mörgum sinnum í vetur.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Krulla

Við fórum til ljósmóðurinnar í morgun sem hlustaði á barnið og fékk hjartslátt sem var um 150 og samkvæmt sumum þá þýðir að það að þetta sé stelpa. Þetta er alla vega mjög líflegur krakki því hann var allur á iði í dag og sparkaði þvílíkt þannig að það verkaði í eyrun.

Við erum sem sagt flutt til Fornhöjdsvägen 40, 15258 Södertälje. Það gerðist á þriðjudaginn. Við fengum fyrirtæki til að sjá um það fyrir okkur og það var ekkert smá dýrt. En það var samt voða fagmannlega gert og ekkert brotnaði eða varð einu sinni skítugt. Hins vegar kom í ljós að það átti eftir að gera ýmislegt við íbúðina, t.d. að skipta um ískáp(hann kom í morgun, svaka flottur), þrífa almennilega, vantaði skúffur og hyllur í skápana og svoleiðis. Það verður vonandi gert þegar við erum heima á Íslandi. Rafvirkjinn kom í morgun og varð mjög hissa að sjá að það voru engar innstungur fyrir loftljós í ganginum. Svo erum við bara með 3 sjónvarpsstöðvar (ekki það að maður nái að horfa mikið á imbann næstu daga).

Í kvöld eru tónleikar með vokalensemblinu mínu og mér líst bara vel á þá. Æfingin í gær gekk mjög vel (kannski einum of vel) og ég er ánægður með prógrammið. Ég ætla meðal annars að flytja brúðarmarsinn sem ég samdi fyrir Hrafnhildi en í þetta skiptið fyrir trompet og orgel. Þurfti sem sagt að tónflytja og breyta aðeins til að það hljómaði betur í þeirri tóntegund. Trompetistinn, sem syngur líka bassa, er svo hrifinn af stykkinu að hann vill fá að flytja það þegar hann fer í tónleikaferð til Póllands í haust.

Það verður spennandi að heyra frá Fílharmoníunni því ég sendi inn umsókn eftir að þau höfðu samband við mig um daginn. Það er spurning hvort þeim lítist nógu vel á mig til að þau geti beðið eftir mér fram yfir jólin. En það væri gaman að fara beint í það starf heima í stað þess að þurfa að byggja upp eigin kór. Ég mun nú sennilega hvort eð er gera það. Hafa lítinn kammerkór.
Ég hef að undanförnu tekið eftir því að tónlistargagnrýnendur Moggans hafa sagt eitthvað á þá leið að "... kórinn söng þetta lag vel þrátt fyrir að kórstórinn hafi ekki stjórnað miklu..." Ég held að þetta sé dálítið algengt viðhorf á Íslandi að fólki finnist að stjórnandinn eigi að stjórna hverju einasta smáatriði. Ég er þessu hjartanlega ósammála. Ég held að góður kór syngi aldrei eins vel og þegar stjórnandinn hættir skyndilega að stjórna í miðju lagi. Þetta er eins og með leikstjóra; þeir bestu veita leikurunum mikið frelsi og segja bara eitthvað við og við eða jafnvel ekki neitt.

mánudagur, júlí 04, 2005

Últrahljóð

Við fórum í sónar í dag (sem heitir Ultraljud á sænsku) og þið hefðuð átt að sjá hvernig augun hennar Hrafnhildar tindruðu. Það var æðislegt að sjá litla krílið sparka og sjúga hendina sína. Allt virðist vera eðlilegt og þetta eru EKKI tvíburar!
Annars átti ég oft í erfiðleikum með að lesa eitt eða neitt út úr því sem maður sá á skjánum. Ég þóttist sjá hausinn, með augu, nef og varir en svo sagði hjúkkan: hérna er maginn, og hjartað og annar fóturinn..... óóóókey.....
En svo var maður farinn að átta sig betur á þessu, sérstaklega þegar maður þekkti hryggjarsúluna og gat þá áttað sig á hvað sneri upp og niður.

Við vorum annars að koma frá Frakklandi, brún og sæt. Hápunkturinn var nátturlega hjónavígsla yndislegasta pars í heimi á alveg frábærum stað. Athöfnin var svo falleg í miðaldakirkju í litlu sveitaþorpi og svo var veislan í garðinum í sumarhúsi fjölskyldu Dóro og vel veitt af öllu. Það sem við Íslendingarnir skildum ekki var hvernig stóð á því að þar sem hún gat verið á svona frábærum stað, af hverju valdi hún að flytja til Selfoss af öllum stöðum. Það var líka gaman að hitta gamla liðið og skemmta sér fram undir morgun.

Síðan fórum við á Rívieruna og slöppuðum af þar. Við vorum hissa á því hvað allt er dýrt þarna og að enginn er tilbúinn að tala neitt annað en frönsku. Eftir nokkra daga fórum við aðeins frá ströndinni til að borða og þá var ekkert mál að fá matseðil á ensku og fólk almennilegra. Á einum staðnum við ströndina borðaði Hrafnhildur versta og bragðlausasta pasta sem sögur fara af. Ég hélt stundum að ég fattaði hvað stóð á frönsku en svo fékk ég rækjurétt þegar ég hélt ég hafði pantað samloku.