fimmtudagur, desember 29, 2005


Ég þori varla að segja neitt en sonurinn virðist vera dálítið betri. Hann tekur sín köst á kvöldin og er stundum óánægður fljótlega eftir gjöf en annars er hann bara hress og skoðar sig um voða mikið. Ég er farinn að láta hann sprikla berrassaðan á skiptiborðinu og þá hjalar hann við og við. Hann fór á heilsugæsluna í morgun og er nokkuð langur og grannur en fylgir alveg kúrfunni hvað varðar þyngd. Hjúkkan var bara mjög ánægð með hann að öllu leiti og fannst hann hafa góðan húðlit.

Ég er þegar búin að fá nokkrar athafnir til að spila og er reyndar hálf feiminn við að skila inn reikningum, mér finnst þetta svo mikið. En þetta er samkvæmt taxta og þar að auki er 50% stórhátíðarálag á jólanótt og gamlársdag þ.a. allt í einu er maður farinn að þéna vel á Íslandi. Það er ekki verra þegar maður ætlar að kaupa íbúð sem eru allar rándýrar og þarf nottlega að eignast bíl líka.
Maður er strax kominn í efnihyggjukapphlaupið.

Ég ætlaði að segja sögu af Tona hennar Jakobínu frænku en komst ekki lengra en: "Eiginmaður konunnar minnar..."

laugardagur, desember 24, 2005


Ísak Magnússon og fjölskylda óskar vinum og vandamönnum, sem og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og þakkar auðsýnda aðdáun á árinu sem er að líða.

föstudagur, desember 23, 2005


Loksins, loksins erum við komin heim. Þetta er búið að vera alveg heilmikið púsluspil varðandi þessa flutninga en þetta hafðist allt saman. Það komu nokkrir úr kórnum mínum til að hjálpa til við flutningana og tóku með sér syni og eiginmenn þannig að þetta skotgekk og flugferðin heim gekk barasta mjög vel og Ísak var hinn ljúfasti. Helga Möller var flugfreyja og var alltaf að koma að skoða hann og fólkið sem sat skáhalt á bakvið okkur var alltaf að halla undir flatt og dást að honum. Og svo hittust þeir allir þrír frændurnir um kvöldið og þá var nú glatt á hjalla.

Við erum ekki alveg búin að grípa það að við séum flutt heim. Okkur finnst eiginlega eins og við séum að fara aftur út eftir nokkrar vikur. Nú förum við að kíkja á íbúðir og koma okkur fyrir. Bráðum fer ég að vinna og reyna að koma mér aftur inn í tónlistarlífið hérna heima. En það er ágætt að vera kominn heim, sérstaklega að hitta vinina og fjölskylduna og ég held að þeim finnist ekkert leiðinlegt að vera búin að fá okkur.

Við skelltum okkur í búðir í gær og vorum oft alveg gáttuð á verðlaginu, tónlistinni í búðunum og hvað allir eru annað hvort rosalega "töff" í útliti og óeðlilega brúnir í framan eða lúðalegir.

föstudagur, desember 16, 2005

Þetta er nú ansi gott svar

fimmtudagur, desember 15, 2005

Klukk

Maður er barasta nýbúinn að kynnast fólki og svo er maður klukkaður.

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey

1. Stjórna þýsku sálumessunni eftir Brahms
2. Semja verk fyrir kór og hljómsveit
3. Ferðast til allra heimsálfanna (að undanskildu Suðurskautslandinu)
4. Lesa ævintýri fyrir börnin mín
5. Lesa ævintýri fyrir barnabörnin mín
6. Verða góður í að grilla
7. Eignast sumarhús í útlöndum

Sjö hlutir sem ég get gert.

1. Spilað á orgel, ýtt á takkana og stjórnað kór samtímis
2. Sungið allt frá öðrum bassa upp í alt
3. Keyrt í nokkra hringi í nýrri borg en átta mig samt á úr hvaða átt ég kom
4. Búið til barn
5. Munað hvað fólk gerði nokkur ár aftur í tímann, oft betur en það sjálft
6. Gert flott tónleikaprógröm
7. Lesið bókstaflega allt sem stendur á netinu um bandarísku ríkisstjórnina

Sjö hlutir sem ég get alls ekki gert.

1. Talað um leið og ég spila erfitt orgelverk
2. Farið að sofa fyrir miðnætti
3. Munað hvað magapína heitir á sænsku
4. Hætt að einblína á gallana í fari fólks
5. Átt bara eitt uppáhalds eitthvað
6. Munað hvort er hvað: leyti og leiti
7. Viðurkennt að fólk hafi vakið mig þó svo það hringi kl. 3 um nóttina

Sjö frægar/ir sem heilla

1. Duruflé
2. Noam Chomsky
3. Giuseppe di Stefano
4. Dame Judy Dench
5. Tim Burton
6. Cohen bræður
7. Al Pacino

Sjö atriði sem heilla mig við aðra

1. Einlægni
2. Húmor
3. Augun
4. Fjölbreytni
5. Hæfileikar
6. Skipulagni
7. Frásagnargáfa

Sjö setningar sem ég segi oft

1. Sko
2. Já (á innsoginu)
3. Hvað segir kallinn?
4. Elsku kellan mín
5. Legato
6. Þið megið anda hvar sem er, bara ekki akkúrat hérna
7. Nei, Skrámur. Niður!

Sjö hlutir sem ég sé núna

1. Son minn sofandi
2. Myndavélina
3. Nuddolíu
4. Taubleyju á öxlinni minni
5. 30 kassa með nafninu mínu á
6. Conan O'Brien
7. Jólaseríu

Sjö sem ég ætla að klukka (kannski þegar búið að klukka suma. Það má skrifa á kommentið ef maður á ekkert blogg)

1. Habbidi
2. Torfa frænda
3. Bjart
4. Völu
5. Bryndísi
6. Gunnar
7. Þóru

Ísak er orðinn svo fullorðinn að hann er farinn að fá póst. Annars er hann orðinn hás af öllu orginu. Við erum mjög hissa þvi við vissum ekki að smábörn gætu orðið hás. Það er allavega komin rútina hjá honum. Hann fær að drekka á tveggja tíma fresti og í ca. einn og hálfan tíma beita foreldrarnir öllum ráðum til að hann orgi ekki fram að næstu gjöf, það er kveikt á ryksugunni, stungið upp í hann litla putta, gengið um gólf og maginn nuddaður. Hann er með öll einkenni magapínu. En hann er allavega rólegur á nóttunni og sefur á milli okkar.

En eitthvað held ég að pabbi hans sé farinn að tapa sér. Hann átti að ná í magadropa fyrir hann úr ískápnum og mata hann með skeið en á síðustu stundu sá mamma hans að þetta var kattarlyf. Í gærkvöldi hringdi kona, kynnti sig og sagði að einhver hefði reynt að hringja í sig úr þessu númeri. Pabbi hans Ísaks sagði að hér væri einhver misskilningur á ferð því heimasíminn hefði ekkert verið notaður þann dag. Eftir þó nokkurt þref mundi hann allt í einu eftir því að bara korteri áður hafði hann reynt að hringja í sambýlismann konunnar sem á einmitt að taka við organistastarfinu hans. Einnig var hringt frá Eimskip sem spurði hvort foreldrarnir hefðu fengið pappíra frá þeim og pabbinn þvertók fyrir það sem olli áhyggjum hjá Eimskipskonunni. En sem betur fer var mamman nærri og minnti á að þau hefðu skoðað pappírana saman daginn áður.

Í gær leit út fyrir að allt væri í orden varðandi flutningana nema hvað gera ætti við bílinn. Við vorum búin að reyna að pranga honum inn á vini okkar, jafnvel þótt þeir ættu bíl fyrir, og ég var jafnvel farinn að sjá fyrir mér að við þyrftum að henda honum. En í gær setti ég auglýsingu á netið og gemsinn bókstaflega stoppaði ekki. Ég svaraði að minnsta kosti 25 manns áður en ég slökkti á honum. Í gærkvöldi kom svo einn Finni sem bara keypti hann á alveg sæmilegu verði. Og það besta við þetta allt saman er að amma hans býr í næstu blokk þ.a. við getum afhent bílinn morguninn sem við fljúgum heim og okkur verður meira að segja skutlað út á lestarstöð. Þá er bara að finna út hvað við gerum við barnabílstólinn sem við erum með í láni frá vinnufélaga í Nynäshamn.

þriðjudagur, desember 13, 2005


Ísak er líkur Pabba sínum að því leyti að hann virðist ekki þurfa mikinn svefn. Hann er farinn að átta sig á því að þegar það er nótt þá er betra að vera ekkert allt of aktívur en að degi til sefur hann eiginlega ekki neitt og tekur nokkur orgurköst. Ég geng um með hann stundum og syng vögguvísur en þær eru hættar að virka eins vel. Hann er kannski farinn að pæla of mikið í þessum dauðadjúpu sprungum og andlitinu á glugganum sem bíður fyrir utan. Við höfum spilað lag úr tölvunni með Út í vorið sem þeir voru að taka upp og það virkar ágætlega en núna fékk ég miklar áhyggjur af því að hann diggi kántry eða öllu verra John Denver því ég söng fyrir hann Country Roads og hann varð alveg heillaður.

Ein kóræfing, einir tónleikar, ein messa og einn dagur í skólanum eftir og svo förum við heim. Var í prófi í gær sem ég hafði undirbúið um helgina og Hrafnhildur hélt ég væri endanlega búinn að ganga af göflunum. Þetta var próf í tónheyrn og ég sat við píanóið með heyrnartólin á mér og söng hálfum hljóðum tónbil eins og stækkaðar ferundir, litlar sexundir, stórar sjöundir o.s.frv. En svo þegar kom í prófið þá valdi kennarinn eitthvað allt annað en ég var búinn að æfa. Það skipti svo sem ekki svo miklu máli því maður þurfti hvort eð er að lesa þetta, þetta voru svo óvenjulegar melódíur að það var ekkert hægt að læra þær. Það var verra þegar kom að hinum liðnum. Ég hafði undirbúið generalbassaæfingar en hann prófaði mig í partitúrspili (þ.e. lesa mörg hljóðfæri í einu sem standa í mismunandi lyklum og sum þarf að tónflytja). Ég hugsaði með mér: týpískt ég að misskilja þetta. Þ.a. það var bara að lesa þetta beint af blaði og ég kom mér bara á óvart hvað þetta gekk vel. Svo fór ég að athuga í dagbókina og þar hafði ég skrifað mjög skýrt hvað átti að undirbúa fyrir prófið og svo þegar ég talaði við hina í bekknum þá var þetta alveg rétt hjá mér. Ég veit ekki hvort kennarinn var svona ruglaður eða hvort hann gerði þetta viljandi.

Nú er ég hlaðinn gjöfum frá vinnunni og þori varla að taka þær upp því þær eru oft vel búnar fyrir flutningana. Ég fór líka með Unglingakórnum á Jesus Christ Superstar og var það í fjórða skiptið sem ég sé þann söngleik og hef aldrei orðið sérstaklega hrifinn, eins og mér finnst tónlistin fín. Skást var það sennilega í Gautaborgaróperunni með heilli sinfóníuhljómsveit. Hérna hljómaði bandið vel og ég varð mjög hissa í lokin þegar það komu bara þrír fram til að hneigja sig. Það hefur verið góð nýting. Það var einhver frægur Svíi sem átti að syngja Júdas en hann forfallaðist en þessi staðgengill var algjört æði. Fínn söngvari, góður leikari og æðislegur dansari. Svo sá ég í hléinu að leikstjórinn lék Jesús sjálfur. Það finns mér nú hégómi í hæsta stigi.

laugardagur, desember 10, 2005


Við feðgarnir eigum "gæðastund" saman á meðan Hrafnhildur reynir að sofa. Kenny og Elenor komu í heimsókn áðan og Ísak sýndi á sér sínar bestu hliðar, var bara sallarólegur en svo undir lokin tók hann öskurkast þannig að þau fengu að sjá báðar hliðarnar á honum. Við og við liggur hann hjá mér glaðvakandi og skoðar umhverfið. Ég hef reynt að hrista hluti fyrir framan hann í skærum litum en hann hefur ekki svo mikinn áhuga á því. Hann tekur eitt til tvö öskurkast á dag þar sem hann öskrar þangað til hann fær að drekka, þar sofnar hann voða fljótt án þess að hafa drukkið nóg, svo fer hann að öskra aftur. Svona getur þetta gengið í hringi í nokkra klukkutíma. Að öðru leyti er hann ljúfur. Hann virðist ekki vera með hita eða með í maganum og við náum stundum að sofa heilar þrjár klukkustundir í einu.

Við fengum fréttir af Skrámi um daginn frá Einangrunarstöðinni á Reykjanesi. Hann var fyrsti kötturinn í hópnum til að ná sér eftir ferðalagið og eins og við var að búast er hann búinn að heilla starfsfólkið upp úr skónum. Þau sögðu að hann væri svo kelinn og forvitinn og hefur alltaf eitthvað fyrir stafni og hann fylgist til að mynda alltaf vel með þegar hundunum er gefið að borða.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Ég er farinn að telja niður fram að heimför. Ég er búinn að spila við síðustu jarðarförina, búinn að sitja síðasta starfsmannafundinn (Guði sé lof), á eftir að mæta tvisar í skólann o.s.frv. Svo eigum við bara tvær vikur eftir hér í Svíþjóð. Um daginn var ég farinn að velta vöngum yfir því hvort það væri sniðugt að flytja heim. Það er náttúrlega æðislegt fyrir Hrafnhildi og að fjölskyldur okkur fá að sjá Ísak en það eina músíklega séð sem kallaði á mig heim var Fílharmónían.

En nú er ég allt í einu mjög sáttur við að flytja. Ég hef engan áhuga á að halda áfram í þessu námi. Ég fæ bara ekki nóg út úr því og er bara ekki sáttur við að vera bestur í bekknum. Þetta er vandamál sem ég hef oft þurft að kljást við. Ég vil helst vera nálægt toppnum og rembist þá til að verða bestur en þegar og ef það gerist vil ég fara að gera eitthvað annað. Það verður alltaf að vera eitthvað sem ýtir mér áfram. Ég flutti fyrirlesturinn/ritgerðina í gær um Vesprið eftir Mozart sem ég ætla að stjórna í vor og það tókst mjög vel þó svo ég hafi ekki byrjað að vinna í þessu fyrr en kvöldið áður. Það var önnur stelpa sem fjallaði um sama verk og hún byrjaði. Hún fór að fjalla um textana sem eru flestir úr Davíðssálmunum og hún hafði prentað þá út á sænsku en fór samt að tala um að þeir fjölluðu um Jesús og Maríu mey?!Það er ekki það að ég krefjist þess að allir vita að Davíðssálmarnir eru í Gamla testamentinu og hvorki Jesús né Maríu voru fædd þegar það var skráð en þegar maður er að fjalla um verkið og með þýðinguna fyrir framan sig þá skil ég ekki hvernig hægt er að gera svona mistök.

Það er dálítil synd að flytja héðan þegar maður er kominn með ágætis sambönd en ég hefði ekki viljað halda áfram í þessari vinnu. En það sem mér hefur þótt bæði erfiðast og ánægjulegast er unglingakórinn. Í kvöld var síðasta æfingin og þær tvær sem eru duglegastar höfðu gert handa mér styttu af kórnum og sögðu að ég mætti aldrei gleyma þeim. Maður varð bara klökkur.

mánudagur, desember 05, 2005

Vikugamall


Það mætti halda að Ísak væri kominn á séns hjá öllum þessum stelpum á Íslandi. Hann var á orginu í nótt frá miðnætti til fjögur. Í morgun náði Habbidu að setja upp í hann snuðið og notaði gott ráð frá Írisi um að nota bangsafót til að styðja við hann og þar kom Lill-Kjell að góðum notum.
Ég er að fara í skólann í dag og verð fram á kvöld og fer aftur á morgun til að skila ritgerð sem ég er náttúrlega ekki byrjaður á enn.
Við erum búin að heyra sitt á hvað að hann sé svo líkur öðru okkar. Við eigum ekki svo auðvelt með að sjá það. Mér finnst hann reyndar hafa svip frá móðurfjölskyldunni minni þegar hann sefur og stundum þegar hann er með galopin augun er hann líkur fjölskyldu Hrafnhildar. Ég sé annars fyrir mér að Ísak verði málmblásturshljóðfæraleikari, sennilega horn, og róttækur vinstrisinni. Ég heyri okkur segja við hann: "Jæja Ísak minn. Er þetta ekki bara orðið gott hjá þér. Þarftu nokkuð að vera að kvelja ríkisstjórnina meira með þessum skrifum þínum. Þessi fjármálaráðherra er bara ágætur inn við beinið."

laugardagur, desember 03, 2005


Nú sofa mæðginin vært eftir nokkuð órólega nótt. Sonurinn svaf bara í hæsta lagi í klukkutíma í einu og fór svo að orga þangað til hann fékk að drekka. Þegar hann sofnaði aftur gekk ég með hann um íbúina til að Hrafnhildur gæti fengið að sofa og söng fyrir hann og það virkaði mjög vel. Hann róaðist á meðan ég söng en fór svo að orga þegar ég hætti. Í eitt skipti fór ég með hann fram í sófa og söng í rúman klukkutíma og lét hann liggja á bringunni minni. Nóttin var sú ágæt ein var ansi vinsæl.
Hrafnhildur vill meina að hann sé með sömu svefnrútinu og í móðurkviði. Hann sefur ansi lengi frá hádegi en er svo á fullu á kvöldin og fram á nótt. Við ætlum að prufa að hafa enn minna ljós í nótt og horfa ekki í augun á honum og reyna að fá hann til að sofa í vagninum sem fyrst.
Mar getur alltaf á sig myndum bætt

föstudagur, desember 02, 2005


Til hamingju elsku litli frændi með skírnina og til hamingju með þetta fína nafn sem þú fékkst. Hann heitir nú Ragnar Steinn Ingólfsson. Ég hlakka svakalega mikið til að hitta þig um jólin. Við sjáum fyrir okkur að hann verði ljóðskáld og semji að minnsta kosti eitt mjög gott leikrit.

Mæðginin komu heim af spítalanum í gær og plumma sig bæði vel og Skrámur er kominn til Íslands og er í Einangrunarstöðinni á Reykjanesi. Sonurinn er farinn að þyngjast eftir að hafa lést um 400 gr. Hann var undir svo miklu álagi í fæðingunni og brenndi því svo mikilli orku og því nægði næringin úr brjóstunum ekki og hann fékk mjólkurblöndu. En þetta lítur allt vel út núna. Og Mamman er líka orðin miklu hressari og er farin að geta hreyft sig um án hjálpartækja.

Ég fór í vinnuna síðdegis á miðvikudaginn og það töluðu allir um hvað hann var stór og ég skildi ekki neitt. Þegar fimmti aðilinn sagði hvað hann hefði verið stór þá spurði ég bara hvað hann ætti við því hann er bara alls ekkert stór og fór að velta því fyrir mér hvort hann hefði virkað svona mikill á myndunum sem ég sendi í vinnuna. En þá var sagt: "En 5,3 kg er ansi mikið, er það ekki." Þá áttaði ég mig á því að þegar ég sendi tölvupóstinn í svefnleysi mínu á mánudagskvöldið þá hafði ég víxlað tölunum og skrifaði 5,3 kg í stað 3,5. Ég held að Hrafnhildur hefði ekki meikað það að fæða svo þungt barn. En við höfum greinilega búist við stærra barni því gallinn sem við keyptum til að fara með hann heim í af spítalanum var ansi stór og hann týndist eiginlega í honum eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Í sjálfri fæðingunni létum við nokkra diska rúlla í geislaspilaranum sem Hrafnhildur hafði valið og það vildi svo skemmtilega til að í lokaatrennunni voru Jólasöngvar Kórs Langholtskirkju í gangi á repeat þ.a. einhvern tímann hefur Afi Halldór sungið fyrir dótturson sinn þegar hann var á leiðinni út. Svo lét Afi Ragnar gera vart við sig um nóttina ásamt langömmu Elísabet þ.a. það eru að minnsta kosti tveir verndarenglar að gæta hans.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Dagur tvö


Við héldum upp á eins dags afmælið í dag. Sungum fyrir hann Tunglið, tunglið taktu mig sem hann var vanur að heyra í móðurkviði og ég er ekki frá því að hann hafi róast við að heyra það. Hann er voða duglegur að drekka og kúka og pissa. Svo baðar hann út höndunum við og við eins og hann sé að stjórna rómantísku hljómsveitarverki. Allir íslendingar spurja hvað hann er þungur og langur og allir Svíar spurja hvað hann eigi að heita.
Mamma hans lenti hins vegar í því í gær, ca. tveimur tímum eftir fæðingu að eitthvað skrítið gerðist inni í henni í kringum lífbeinið og hún á því mjög erfitt með að hreyfa sig. Sem betur fer verður hún á spítalanum í nokkra daga og fær ráðgjöf og lyf.
Setti inn fleiri myndir í myndaalbúmið.
notendanafn: hrafnis@yahoo.com
leyniorð: myndir

mánudagur, nóvember 28, 2005

Til sonar míns


Í dag, 28 nóvember kl. 11.33 að sænskum tíma fæddustu á sjúkrahúsinu í Huddinge í Stokkhólmi. Þú vóst 3,5 kg og varst 50 cm langur. Það fossuðu tárin úr Mömmu þinni og Pabbinn átti erfitt með að tala. Það tók þig dálítinn tíma að byrja að anda og því fylgdi ég þér ásamt ljósmóðurinni og nokkrum læknum í annað herbergi þar sem á þig var sett súrefnisgríma og eftir smástund breyttist húðliturinn úr bláu yfir í bleikt og allir voru ánægðir. Svo fékkstu að liggja á Mömmu þinni og ekki leið á löngu þar til þú fannst brjóstið og varst farinn að sjúga. Lena ljósmóðir var mjög hrifin af þér og fannst að þú ættir að heita Oscar og hún átti ekki orð yfir hvað móður þín var dugleg. Hún þurfti nefnilega að ganga í gegnum ansi mikið til að koma þér í heiminn.
Hún fékk verki í gærmorgun kl. 11 sem versnuðu jafnt og þétt og upp úr miðnætti voru þeir orðnir ansi slæmir. En hún var á því að þetta væri eitthvað annað en hríðir, t.d. brjósklos eða slitinn vöðvi og það skipti engu máli þótt Pabbi þinn reyndi að segja henni að þess lags verkir koma ekki á 6 mín. fresti. Hún skipaði mér líka að skilja eina töskuna eftir úti í bílnum þegar við fórum á spítalann ef ske kynni að við yrðum send aftur heim. Pabbi þinn sagði bara já, já, en tók hana samt með.
Þegar á spítalann var komið um hálf eitt um nóttina var hún bara með 1cm í útvíkkun og þrátt fyrir morfín, hlátursgas og nálastungur þurfti hún að kveljast í 6 klukkutíma og mér leist ekkert á blikuna. Um hálf sjö var hún komin með tæplega 4cm í útvíkkun og þá var hægt að gefa henni mænudeyfingu og þvílíkur munur. Þá hætti hún að finna til og gat sofið. Þremur tímum síðar var hún komin með 10 cm og var gefið "drop" til að hausinn færi neðar. Skömmu síðar fann hún að þú værir að koma út og byrjaði að kreista. Það tók einn og hálfan tíma og svo bara, blúps, varstu kominn.
Þar sem þetta tók sinn tíma og þú hafðir verið skorðaður í dágóðan tíma þá var höfuðið dálítið aflangt og nefið klesst. Og nú ertu 12 tíma gamall og ert svo fallegur, klár, þægur og tillitsamur sérstaklega þar sem þú komst nokkrum dögum fyrir tímann sem gerir það að verkum að við getum flutt heim fyrir jól. Ég og Mamma þín skiljum ekki hvernig er hægt að elska nokkuð svona mikið og við vorum bara að hitta þig í fyrsta skipti áðan. Og þú ættir að vita hvað það er talað mikið um þig á Íslandi. Nú sit ég heima hjá Skrámi á meðan þú og Mamma eruð á fæðingadeildinni. Ég kem aftur á morgun, og hinn, og hinn, og hinn en þá ætlum við að taka þig heim. Og eins og móðurbróðir þinn sagði þá er alveg stórmerkilegt að á meðan þú komst í heiminn þá hélt lífið bara áfram sinn vanagang. Bílar héldu áfram að keyra, blöð komu út og fólk fór bara í vinnuna eins og venjulega. En þetta var rosalega fallegur dagur og það kyngdi niður snjó.
Sjáumst á morgun.
Pabbi
P.s. Ég setti nokkrar myndir í myndaalbúmið hennar Hrafnhildar.
notendanafn: hrafnis@yahoo.com
leyniorð: myndir

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Nú er eitthvað að gerast!

laugardagur, nóvember 26, 2005

Við byrjum öll símtöl með að segja: "Það er ekkert að gerast" til að vekja ekki falskar vonir. Í vinnunni horfa allir forvitnir á mig þegar ég svara í símann. Við sendum sms til Mömmu og tengdapabba um daginn og þau svöruðu bæði á innan við mínútu. Það er greinilega fylgst vel með. Við sáum fyrir okkur að Mamma væri búin að banna öllum að hafa kveikt á farsímanum sínum í kringum hana til að það færi ekkert á milli mála þegar hennar hringdi eða pípti.
En það er sem sagt ekkert að gerast. Við erum bara að setja upp jólaskraut, baka piparkökur og hlusta á jólalög. Á morgun kemur Habbidu með mér í messuna til að syngja þessi hefðbundnu aðventulög. Það verður bæði kirkjukórinn minn og kammerkór staðarins, voða gaman.

Ég á bara viku eftir í fullu starfi í vinnunni en svo held ég áfram með kórana og tek tvær messur auk jólatónleika. Ég ákvað bara að vera harður og segja nei við öllum beiðnum um að vinna umfram það, sem er eins gott því það er búið að spurja mig ansi oft undanfarna daga. Svo eru endalausar kveðjuathafnir. Um daginn var starfsfólkið með kveðjuhóf fyrir mig og Ingrid sem hefur unnið í móttökunni í 19 ár. Unglingakórinn ætlar á Jesus Christ Superstar eftir messuna 11 des. og kirkjukórinn verður með kveðjuhóf eftir jólatónleikana. Svo var mér sagt að ég yrði kvaddur af sóknarnefndinni á jólahlaðborðinu sem verður 14 des. en þá hafði ég ekki ætlað að koma í vinnuna og hafði ekkert heyrt um það fyrr en núna um daginn og sagðist ekki muna koma og þá var settur upp fýlusvipur. En ég stóð fastur á mínu. Ég á að vera í fríi í desember og vil verja tíma mínum með fjölskyldunni og finnst þetta satt að segja ein kveðjuathöfn of mikið. Ég stakk bara upp á að sóknarnefndin gæti mætt í messu í staðinn... til tilbreytingar.

Eins og ég hef sagt áður eru oft teknar svo skrítnar ákvarðanir í vinnunni. Af einhverjum furðulegum ástæðum fæ ég ekki að vera með í atvinnuviðtölunum fyrir organistastöðuna. Þau fara þannig fram að fyrst hittir umsækjandinn fulltrúa úr sóknarráðinu ásamt sóknarprestinum og skrifstofustjóranum og klukkutíma síðar hittir hann alla aðra úr starfsliðinu. Fyrir það fyrsta þá skil ég ekki af hverju hann getur ekki hitt alla í einu og svo finnst mér skrítið að það eiga helst allir að hitta hann en ég er sá eini sem fæ ekki að vera með. Þetta er ekkert persónulegt. Þetta hefur verið svona lengi að sá sem gegnir starfinu fær ekki að vera með í atvinnuviðtalinu. En ég hef aldrei fengið að vita af hverju þetta er svona. Mér hefði verið sama ef það ættu bara nokkrir að vera með. Í fyrra þegar ég sótti um þá voru tónlistarmennirnir með á hinum tveimur stöðunum og það var bara eitt viðtal.
Það hafa fjórir komið í viðtal og eftir viðtölin tvö hef ég sýnt þeim skrifstofuna og hljóðfærin og sagt þeim frá starfinu og um leið reynt að pumpa þau dálítið þannig að þetta hefur dálítið virkað eins og þriðja viðtalið í röð. Svo hafa eiginlega allir í vinnunni spurt mig hvað mér finnst.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Nú er þetta allt að snella saman. Habbidu hringdi í Eimskip í gær og við þurfum ekki að panta flutningabílinn fyrr en viku fyrr.
Við fórum með Skrám til dýralæknis í síðasta skiptið í morgun og nú er bara að bíða eftir leyfinu frá Íslandi.
Og við fengum loksins flug fyrir hann heim. Það var alveg svakalegt mál. Ég sem sagt meilaði til Flugleiða heima sem sögðu mér að tala við Mikael í Gautaborg. Hann sagðist vera hættur þessu. Ég meilaði aftur heim og þá var mér sagt að tala við fyrirtæki í Stokkhólmi sem sagðist vera flutt nokkra kílómetra frá Arlanda en gaf mér númerið hjá Skytransport sem sagði mér svo að tala við fulltrúa sinn í Gautaborg sem heitir Mikael og er sá sami og ég talaði við í byrjun. Aftur meilaði ég og hef ekki enn fengið svar. Þá hringdi Habbidu í Flugleiðir í Stokkhólmi sem sagði henni að hringja til Köben. Ég gerði það og talaði við ráðvillta stúlku sem skildi ekkert af hverju í hringdi í hana en hún gaf mér númer í Stokkhólmi og sá gaf mér númerið hjá Skytransport sem sagði mér að tala við fulltrúa sinn í Gautaborg sem heitir einmitt Mikael sem sagði mér mjög ákveðið að hann væri alveg hættur að sjá um dýraflutninga fyrir Stokkhólmssvæðið. Í síðustu viku hringdi ég svo í SAS og þau redduðu þessu bara á nokkrum dögum og nú er ég búinn að fá að vita flugnúmerið og allt en bíð bara eftir að þau segi: Nú, er hann grár kötturinn. Þá getum við ekki séð um þetta en talaðu við náunga í Gautaborg sem heitir Mikael.

Svo er ég búinn að fá vinnu heima. Edda Borg hringdi í mig í morgun og bauð mér starf sem píanókennari í afleysingum fram á vor fyrir eina sem er í barnsburðarleyfi. Ég hafði sent inn umsókn í ágúst eftir að hafa séð auglýsingu í mogganum en þar sem ég hafði ekkert heyrt þá var ég búinn að afskrifa þetta.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Svíar eru undarlegir. Við hjónin erum löngu búin að segja upp störfum. Hrafnhildur hættir núna á föstudaginn og fer svo í frí og fæðingarorlof. Ég tek út frí og fæðingarorlof í desember og hætti svo formlega 1. janúar. En samt fáum við bæði launahækkun? Ekki nóg með það heldur er hún afturvirk frá apríl. Ég var að reyna þrýsta á um launahækkun í vor og beið með að tilkynna um ólettuna út af því og að ég ætlaði að hætta því annars fannst mér ég í vonlausri samningsstöðu. En svo fáum við samt launahækkun. Þetta er ekki eitthvað svona dæmi þar sem allir fá sömu prósentuna því í mínu tilviki hækka launin t.a.m. um ca. 10.000 íslenskar á mánuði. Ekki það að ég sé ósáttur við þetta en væri ég atvinnurekandi hefði ég bara látið þetta eiga sig.

Robert Sund leysti af í Uppsala í gær og það var skemmtileg tilbreyting. Fyrir þá sem ekki vita er hann kórstjóri Orphei Drängar, eins besta karlakórs í heimi, hefur gert fullt af skemmtilegum útsetningum og tók upp nokkra diska með Garðari Cortés syngjandi dægurlög. Hann var alveg rosalega skemmtilegur og mjög inspírerandi að sjá hann vinna. Hann lagði mikla áherslu á að það væri gaman á kóræfingunum og svo spilaði hann svo skemmtilega á píanóið. Við gerðum nokkrar slagtækniæfingar og hann spilaði undir á meðan og ég gat ekki annað en brosað því þetta minnti mig á morgunleikfimina á Gufunni. Stefan Parkman, aðalkennarinn okkar, er líka mjög góður, en hann er mun alvarlegri. Við fengum að stjórna kórnum hans á æfingu um daginn, þ.e. Uppsala Akademiska Kammarkör, og fengum hvern sinn þátt úr Krýningarmessunni eftir Mozart og það var alveg æðislegt því kórinn sem við vinnum með á mánudögum er bara ekki nógu góður og maður nær sjaldan að fá þau til að músísera eitthvað því þau eru svo lengi að læra nóturnar.

Nú er ég formlega hættur í Mikaeli kammerkórnum en ef ég hef tíma til þá get ég hoppaði inn í jólatónleikana sem eru reyndar sama dag og jólatónleikarnir í kirkjunni minni þannig að ég veit ekki hvort ég hafi orku í það. Um daginn sungum við Requiem og fleiri verk eftir Faure með hljómsveit og ég held svei mér þá að það hafi bara aldrei verið betur flutt, þrátt fyrir að við fengum bara tvær æfingar auk generalprufu samdægurs. Núna á laugardaginn fluttum við svo Missa Criolla og Mångfaldhetsmässa með suðuramerísku bandi og það var líka alveg svaka stuð. Við tókum upp disk um daginn sem var að koma út og hann er mjög fínn. Sérstaklega bandið en kórinn hefur ekki nógu hlýjan hljóm, sérstaklega sópranarnir.

Í kirkjunni er ég búinn að halda tvenna tónleika. Ég spilaði fallega orgeltónlist á allra heilagra messu og það var mjög vel heppnað og mætti fullt af fólki. Í messunni daginn eftir söng Vokalensemblið mitt og stóð sig svaka vel og vakti mikla lukku. Það ásamt unglingakórnum veitir mér mesta gleði í starfinu því annars fæ ekki svo mikið úr því lisrænt séð og þetta skipulagsleysi og óreiða er alveg að gera út af við mig. Það eru margir farnir að velta því fyrir sér hvað nýji presturinn tórir lengi í þessu starfi því hún er betru vön frá fyrra starfinu sínu.
Á sunnudaginn voru svo kórtónleikar með öllum þremur kórunum mínum og mér þótti þeir ganga mjög vel. Ég fékk íslenskan kontrabassaleikara til að spila auk kollega míns sem er svo flinkur jazzpíanisti og þetta voru aðallega kóralmelódíur í ansi skemmtilegum útsetningum.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Greyið Skrámur. Ég þurfti að fara með hann til dýralæknis í morgun til að taka blóðsýni og fleira. Hann mátti ekkert borða í nótt því það þurfti að svæfa hann. Hann varð líka alveg brjálaður þegar læknirinn reyndi að sprauta hann og þurfti nokkrar tilraunir. Ég varð reyndar ansi áhyggjufullur á tímabili því hann svaf með opin augun og læknirinn vigtaði hann sagði að hann væri 5 kg og gaf honum svæfingu miðað við þá þyngd. En þetta er einhver gamall dýralæknir með stofuna í kjallaranum á húsinu sínu og vigtaði hann í einhveru járnbúri og dró þyngd þess frá heildarþyngdinni. Mér finnst 5 kg dálítið mikið og treysti ekki alveg þessum kalli og gat ekki beðið eftir að Skrámur vaknaði. Hann var líka ansi vankaður þegar heim var komið og gat ekki gengið án þess að detta á hliðina. Ég lét hann á teppi á gólfinu og skaust fram til að ná í matinn hans og þegar ég kom aftur til hans hafði hann skriðið nokkra sentimetra og horfði hjálparvana á mig. Þá leið mér eins og pabba.

mánudagur, október 31, 2005

Ég nýt þess að vera í fríi. Það varð eitthvað klúður í skipulagningunni þannig að ég er búinn að vinna fjórar helgar í röð en fékk að vera í fríi núna um helgina. Og þessa vikuna er haustfrí í flestum skólum og margir sem taka sér frí þ.a. það verður enginn unglingakór, engin kennsla í Uppsala né kóræfing hjá Mikaeli. Á laugardaginn fórum við hjónin í innkaupaferð aldrarinnar og keyptum ýmislegt handa Krulla, Skrám, í matinn og nokkrar jólagjafir. Við ákváðum að kaupa Babybjörn (burðarpoki fyrir smábörn) og mig langaði að prófa áður en við keyptum. Það var meira að segja dúkka í réttri stærð og þyngd en við sáum ekki alveg hvernig átti að gera þetta og því fór Hrafnhildur að sækja aðstoð en ég þrjóskaðist við og reyndi að átta mig á þessu sjálfur. Sem betur fer var ég ekki með alvöru barn því ég gat engan veginn fundið út úr þessu og var farinn að halda dúkkunni á hvolfi og um hælinn. Þegar starfsfólkið kom átti það ekkert auðveldara með þetta. Á endanum sáum við leiðbeiningar inni í pokanum og þá var þetta ekkert mál.
Á fimmtudaginn fórum við í síðasta foreldranámskeiðið og horfðum á norska fræðslumynd um brjóstagjöf frá 1984. Allir með sítt að aftan og strípur. Ein Jentan renndi sér á skíðum í þjóðbúningi, tók svo barnið sitt upp úr snjónum til að gefa því brjóst. Svo var líka sýndar svarthvítar myndir til að sýna fram á hvað menn voru vitlausir áður fyrr. Börnin voru tekin frá Mömmunum, gefnir pelar strax og álitin eign sjúkrahússins.

sunnudagur, október 23, 2005

Sjitt!
Það fundust nokkrar dauðar endur í Eskilstuna í gær og menn hafa áhyggjur af því að þetta sé fuglaflensa. Ég var einmitt í Eskilstuna í gær.
Ég held ég sé eitthvað slappari í dag.
Svo ætti ég að vera að æfa mig núna en ég nenni því ekki.
Eru það ekki einmitt einkenni fuglaflensunnar?

föstudagur, október 21, 2005

Best að ítreka það að við höfum enga hugmynd hvort við eigum von á strák eða stelpu. Frá því að það kom í ljós að Hrafnhildur var ólétt höfum við kallað afkvæmið Krulli bara til að geta kallað það eitthvað og af því að það eru líkur á því að það fái krullur.

Jóna Björk kom í gær færandi hendi með barnaföt, afmælisgjafir, íslenskt NAMMI og rúgbrauð, flatkökur og hangikjöt. MMMMMMMMMMMMMMMMMM
Þegar í mætti í foreldranámskeiðið í gær angaði ég af hangikjöti. Hrafnhildur hafði hins vegar lent í því leiðinlega atviki að einhverjir foreldrar æptu á hana og kölluðu hana öllum illum nöfnum því þau neita að horfast í augu við það að það geti verið eitthvað að barninu þeirra og taka ekki í mál að það sé sett í sérbekk.

Ég og nýji presturinn erum bæði orðin mjög pirruð á vinnustaðnum og hún er jafnvel farin að sjá eftir að hafa skipt um vinnu. Ég átti fund með yfirmanninum í morgun en hann byrjaði á að segja að konan hans er jafnvel alvarlega veik þannig að ég hlífði honum við ýmsu sem ég hafði að kvarta yfir. En hann virtist ekki vera sammála mér um að það sé mikið að hér heldur vildi meina að ég væri bara svo rosalega skipulagður og gerði of miklar kröfur til annarra. Vandamálið finnst mér vera að fólk er alveg rosalega gleymið og það er ekki hægt að treysta neinum hérna og á endanum er maður farinn að gera hlutina sjálfur. Bara á einni viku er ég búinn að heyra setninguna: "Æ, já. Ég var búin að gleyma því" 7 sinnum.

þriðjudagur, október 18, 2005

Ég er búinn að fá tvenns lags stimpil á mig í Uppsala. Annars vegar að ég mæti alltaf of seint og það er reyndar ekki að ástæðulausu því mér hefur bara einu sinni tekist að mæta á réttum tíma í tónfræðitímana sem eru klukkan hálf ellefu. Ég þarf sem sagt að taka strætó, lest og svo aðra lest til að komast á leiðarenda og fyrst missti ég af lestinni frá Stokkhólmi því ég hélt að hún færi á 20 mín. fresti en ég kom rétt rúmlega hálf tíu og rétt missti af lestinni og það fór engin önnur fyrr en kl. 10.10. Næsta mánudag tók ég strætó korteri fyrr en þá var lestin frá Södertälje 10 mín of sein og ég missti aftur af hinni lestinni og þurfti að bíða í 40 mín. og mætti því 40 mín. of seint í tímann. Næsta mánudag tók ég strætó ennþá fyrr en þá var alsherjarstopp í lestarkerfinu og ég mætti klukkutíma of seint í tímann ásamt þremur öðrum nemendum sem betur fer. Næsta mánudag tókst mér að mæta á réttum tíma og í síðustu viku var ég eitthvað slappur og fór ekkert til Uppsala. Í gær tók ég strætó hálf níu og þá var lestin korter of sein og ég þurfti aftur að bíða í 40 í Stokkhólmi. Og þegar ég mætti í tímann sagði kennarinn: "Nei, blessaður Magnús. Nú ertu BARA 42 mín. of seinn."

Hinn stimpillinn sem ég hef fengið á mig er að ég sé einhver snillingur. Þessi sami tónfræðikennari lét okkur hafa verkefni í generalbassa og á meðan allir áttu að gera verkefni nr. 5 fór hann sérstaklega fram til að ljósrita handa mér verkefni nr. 74 og sagði að þetta væri kannski allt of létt fyrir mig, sem það var nú reyndar ekki. Ég lærði generalbassa í eina önn í Gautaborg þegar við vorum í sembaltímum og ég sinnti því ekkert sérstaklega vel þar sem við höfðum þrettánhundruð önnur fög, þannig að ég er ekkert sérstaklega fær í að spila generalbassa. Svo sagðist einn nemandinn ætla að fá lánað strokleður frá mér þegar við áttum að skrifa út tóndæmi og sagði að það væri ábyggilega allt í lagi því "Magnús gerir örugglega aldrei mistök."
Mér gengur reyndar alveg ágætlega í þessu námi en að ég sé svona mikill snillingur er ég ekki alveg sammála. Og þeir sem þekkja mig best vita að mér er illa við að vera ofhælt. Þetta getur farið mjög í taugarnar á Hrafnhildi þegar hún er að reyna að hæla mér og mér finnst ég ekki eiga innistæðu fyrir því.
Það fer auðvitað líka í taugarnar á mér þegar ég er vanmetin. Það gerðist t.a.m. í Gautaborg þegar ég var í litúrgísku orgelspili. Ég hafði fengið mjög lága einkunn í því fagi í inntökuprófinu en ég lagði mig mikið fram til að ná hinum í bekknum en samt talaði kennarinn alltaf við mig eins og ég væri 6 ára: "Þetta var bara fínt hjá væni! Miklu betra en síðast." Þetta gat hún sagt margar vikur í röð þó svo ég hafi spilað jafn vel ef ekki betur en hinir í hópnum. Hún var bara búin að stimpla mig sem lélegan í þessu fagi. Í síðasta prófinu í fyrra vor var ég sá eini sem náði í bekknum mínum en þá var þessi kennari hættur þannig að ég náði ekki að núa henni því um nasir.

Í kvöld byrjum við í Mikaeli að æfa Requiem eftir Faure. Það verða tvær æfingar og svo konsert. Þetta er nú meira tempóið á þessum kór.

sunnudagur, október 16, 2005

Þetta er búin að vera ansi viðburðarrík vika, tónlistarlega séð. Händeltónleikarnir á þriðjudaginn tókust þrusuvel, það var alveg bravóhróp og læti og meira að segja gagnrýnandi sem var mjög jákvæður.
Á miðvikudaginn voru tónleikar í kirkjunni með fullt af krökkum og unglingum og heppnuðust mjög vel.
Ég og Ingibjörg héldum hádegistónleika í gær og fluttum meðal annars Söngva förusveins eftir Mahler. Við æfðum fyrst fyrir viku og ég hélt ég væri nokkuð vel undirbúinn en ég þurfti að liggja yfir þessu í vikunni því það er svo mikið af tempóbreytingum. En þetta tókst allt saman mjög vel. Þegar við æfðum í kirkjunni á föstudaginn sat einn róni og hlustaði á okkur. Þegar ég ætlaði að loka klukkan fjögur sagði hann okkur hvað við spiluðum vel. Við spurðum hvort hann vildi ekki koma á tónleikana. Hann sagðist muna vera upptekinn þá. Hann mundi ekki vera edrú.
Í kvöld var svo tónlistarguðsþjónusta með kórunum og brassbandi og allt voða gaman og heppnaðist voða vel. Söfnuðurinn söng fullum hálsi.
Í morgun lenti ég í því að missa aðra linsuna úr mér rétt áður en ég átti að byrja á forspilinu að fyrsta sálminum. Þegar svona gerist er best að setja hana strax í sig aftur áður en hún þornar. Ég gat það sem sagt ekki og varð að spila alla messuna þar sem það var alveg ferlega erfitt að fókusera. Ég náði að setja hana svo aftur í mig sem betur fer í hádeginu því klukkan tvö var finnsk messa og ég þurfti stundum að vera forsöngvari. Ég skildi náttúrlega ekki orð nema Jesuksen Kristuksen. En þetta gekk reyndar furðu vel.
En Mahler Magnússon. Hljómar það ekki bara ágætlega.

þriðjudagur, október 11, 2005

Maður á einmitt aldrei að segja aldrei! Netið virkar og síminn en við komumst að því um helgina að það var ekki hægt að hringja í okkur. Fyrst var alltaf á tali þó svo við notuðum eiginlega ekkert símann og svo komu skilaboð um að enginn notandi væri með þetta númer. Telia er ábyggilega að gera tilraun og sjá hvenær við förum yfirum. En nú er búið að laga þetta. Mér finnst ég endalaust vera í símanum að tala við stofnanir og fyrirtæki, eða réttara sagt, biða eftir að fá samband við einhvern starfsmann.

Við Gunnar erum sammála um það að frændinn okkar er æðislegur. Ég heyrði frá mömmunni í gærkvöldi og hún verður á spítalanum fram á miðvikudag. Ég fæ vonandi bráðum fleiri myndir af honum og þær verða líklega settar inn á myndasíðuna hjá Hrafnhildi.

Í kvöld ætlum við að flytja Dixit Dominus og fleiri verk eftir Händel og það verður eflaust mjög flott. Það er alveg hörku barokksveit með og flest þeirra spila standandi.

Unglingakórinn söng í messunni á sunnudaginn var. Þau mættu öll sem betur fer því nokkrar stelpur höfðu bitið í sig að þær vildu ekki syngja fyrir fermingakrakkana sem áttu að vera þarna. Þau sungu mjög vel. Þetta er bæði það erfiðasta við starfið og ánægjulegasta því maður verður svo áþreifanlega var við framfarir hjá þeim. Eins og alltaf þá eru þau með einhvern mótþróa áður en þau eiga að syngja og svo eftir á spurja þau rosa spennt hvenær þau fá að syngja næst.

laugardagur, október 08, 2005

Indra og Ingólfur voru að eignast strák.
Og ég sem var svo handviss um að þetta væri stelpa.
Ég og Skámur liggjum uppi í sófa og bíðum eftir skilaboðum frá Íslandi því Indra fór upp á fæðingadeild í morgun. Svo eru skilaboðin send áfram til Norður-Svíþjóðar og þaðan væntanlega aftur til Íslands.

föstudagur, október 07, 2005

Hrafnhildur fór að heimsækja Fridu yfir helgina og ég notaði tækifærið í kvöld og skellti mér í óperuna. Ég hef nefnilega skammarlega lítið nýtt mér hið mikla framboð af menningu hér í Stokkhólmi og ætla að reyna að bæta svolítið úr því það sem eftir er af dvöl minni hér í höfuðborginni. Ég hef t.d. aldrei farið á tónleika hjá Fílharmóníunni og bara einu sinni hjá Útvarpshljómsveitinni. Það stafar reyndar af því að tónleikarnir eru nánast alltaf á fimmtudagskvöldum og þá er ég með kóræfingu eða á miðvikudögum en þá byrja þeir klukkan sex og ég er með unglingakórinn fram til sex. En með því að vera á bíl aukast möguleikarnir og ég ætla að reyna að komast tvisvar í haust.

En í kvöld sá ég Eugene Onegin og eins og vanalega þá voru söngvararnir, sem og hljómsveitin mjög fín en uppsetningin ekkert sérstök. Hún var reyndar skárst af þeim sem ég hef séð en það verður alltaf glatað og jafnvel vandræðalegt þegar kórmeðlimir eða statistar reyna að vera fyndnir á sviðinu. Það er alltaf gengið svo langt til þess að tryggja að fólk fatti að þetta eigi að vera fyndið. Undir lokin kemur bassinn inn, syngur örfáa takta og svo eina aríu og hann fékk langmesta klappið og bravóhróp. Þetta var einhver ítali með rosalega flotta rödd.

Ég keyrði sem sagt Hrafnhildi á lestarstöðina upp úr hálfsex og keyrði til baka eftir óperuna rétt fyrir 11 og á þessum klukkutímum lækkaði bensínverðið úr rúmlega 12 kr./líter niður í rúmlega 10 kr. Hvað gerðist eiginlega í kvöld?

Í dag þurfti ég að leysa af við jarðarför úti á eyju sem liggur suður af Nynäshamn. Það var svo fallegt að keyra þangað því tréin skarta sínum fínustu haustlitum og svo er verðið svo gott (tæplega 20 stig). Ég sá fullt af húsum á leiðinni þar sem ég hugsaði að ég gæti alveg hugsað mér að búa í þeim. Ég er meira og meira til í að búa úti á landi en samt ekki of langt frá aksjóninu. Þegar veðrið er svona gott á haustin heitir það Brittsommar en hefur ekkert með Bretland að gera eins og ég hélt heldur er dagurinn í dag nafnadagur fyrir Birgittu.

fimmtudagur, október 06, 2005

Veeeeiiiiiiii nú virkar netið. Maður á aldrei að segja aldrei en ég býst ekki við að það verði meira vesen með þetta. Ég skrifaði sem sagt kvörtunarbréf fyrir tveimur vikum, ég fékk svar tæpri viku seinna þar sem þau báðu um farsímanúmerið mitt, þau hringdu samt ekki í mig fyrr en á þriðjudaginn var. Þá kom sem sagt í ljós að breiðbandið virkar ekki nema maður hafi venjulega símaáskrift og af hverju í ósköpunum sagði enginn mér það um daginn. Ég hélt það yrði einfaldara að hafa allt hjá sama fyrirtækinu en það virðist ekki vera. En þau komu til móts við okkur og ég er bara nokkuð sáttur. En ef það dirfist einher að ónáða mig frá símafyrirtæki í framtíðinni mun ég svo sannarlega láta hann heyra það.

Ég var tekinn fyrir of hraðann akstur í gær, keyrði 75 þar sem hámarkshraðinn var 50. Fékk sekt upp á heilar 16 000 íslenskar krónur en hefði ég verið yfir 80 þá hefði ég misst skírteinið. Það voru ansi margir stoppaðir á þessum veg þannig að ég skammast mín ekkert og löggan sem talaði við mig var rosalega viðkunnanleg. Hrafnhildur reif óvart niður baksýnisspegilinn um daginn og ég hafði ekki náð að líma hann aftur upp og var mjög nervus um að löggan mundi taka eftir því en hún gerði það sem betur fer ekki. En ég hefði kannski átt að segja eins og Baldur bekkjarbróðir minn úr MR þegar hann var tekinn fyrir of hraðan akstur: "En, ég hef alltaf keyrt svona!"

sunnudagur, október 02, 2005

Við fórum að sjá Kalla og sælgætisgerðina í gær og það er algjör snilld. Ég elska Tim Burton og ævintýraheiminn hans. Það var svo mikið af skemmtilegum smáatriðum og yndislegur húmor. Það kom reyndar oft fyrir að við vorum þau einu sem hlógu.

laugardagur, október 01, 2005

Við sögðum upp íbúðinni núna í vikunni og strax í gærkvöldi komu mæðgur að skoða hana. Þær voru yfir sig hrifnar. Ákváðu eiginlega strax að taka hana um leið og þær sáu eldhúsið. Dóttirin var 28 ára og ekkert á því að flytja að heiman. Þær voru bara hjá okkur í korter sögðu okkur samt söguna af því þegar eiginmaðurinn dó þegar konan var í gallsteinauppskurði.

Svo eru þrír þegar búnir að hafa samband út af organistastöðunni minni og ég hef gengið úr skugga um það í byrjun samtalsins að þeir séu örugglega að hugsa um að sækja um. Þar á meðal er einn sem hefur haft stöðu í stórri kirkju í miðbæ Gautaborgar og er alveg fantagóður organisti og impróvisatör. Og annar sem er konsertorganisti frá Póllandi.

Ég er búinn að heyra ansi oft frá fólki: Hvernig geturðu gert okkur þetta, að fara frá okkur. Að vissu leyti þykir mér vænt um þetta en þetta fer líka í taugarnar á mér því ég tók það mjög skírt fram þegar ég sótti um að ég yrði bara hér í eitt ár. Nú verð ég meira að segja aðeins lengur en þetta átti ekki að koma á óvart og ég kann ekki við að fólk kenni mér um.

Krulli sparkar alveg svakalega mikið og við höfðum áhyggjur af því að þetta yrði fótboltamaður og við myndum ekki ná neinu sambandi við hann. En Hrafnhildur kom með ágætis tilgátu um daginn: Þetta er náttúrlega organisti að gera pedalæfingar!
HA!

föstudagur, september 30, 2005

Ég fékk lánaðan steinbor frá kirkjugarðinum til að geta sett upp króka í loftið hjá okkur fyrir loftljós. Ég boraði og boraði þegar ég kom heim á miðvikudagskvöldið en það gekk alveg bölvanlega og ég var alveg að drepast í höndunum, mjólkursýrurnar alveg að drepa mig. Eftir ca. tuttugu mínútur þegar ég var að bora á þriðja staðnum kom ein kona með smábarn og bað okkur að hætta þessu því þau bjuggu beint fyrir ofan okkur og voru með nokkur börn. Klukkan var þá bara hálf níu og ég held að maður megi hafa svona hávaða fram til klukkan tíu. Það er reyndar ógeðslega leiðinlegur hávaða frá svona steinbor. Ég var farinn að nota eyrnatappa. Ég ákvað alla vega að halda áfram í morgun og þá komu heldur engar kvartanir en ég tók líka eftir einum takka með ör á og prufaði að ýta honum inn og viti menn.... það gekk svona líka miklu betur. Ég hafði sem sagt verið að bora í vitlausa átt um daginn. Ég er reyndar alveg hissa hvað ég gat borað langt þá.

fimmtudagur, september 29, 2005

Við fengum þennan líka fína barnavagn í morgun frá vinnufélaga Hrafnhildar. Ég sótti hann á skrifstofuna hennar og keyrði með hann út í bíl. Voða stoltur. En það voru ansi margir sem gengu á móti mér og horfðu ofan í vagninn og urðu frekar hissa að sjá ekkert barn í honum. Svo fæ ég lánaðan barnabílstól frá samstarfskonu minni því barnabarn hennar er orðið 8 mánaða og vaxið upp úr honum. Það bíður nefnilega eftir okkur einn stóll á Íslandi og því væri asnalegt að kaupa annan hérna úti í Svíþjóð bara fyrir nokkrar vikur.

miðvikudagur, september 28, 2005

Ég vann á föstudaginn og kom aftur að vinna í dag og hef því ekki komist á netið síðan þá og þegar ég skoða fréttirnar frá Íslandi get ég ekki sagt neitt annað en: Ja hérna! Þetta er nú meiri sápuóperan. Nú hljóta höfundar Skaupsins að hoppa hæð sína.

Hrafnhildur átti afmæli á mánudaginn og við fórum út að borða á sunnudagskvöldið í bæ sem heitir Trosa (Nærbuxa í íslenskri þýðingu) og það var mjög huggulegt nema hvað við fundum ekki staðinn sem Hrafnhildur vildi fara á en við völdum annan huggulegan en maturinn var bara ekkert sérstakur. Við erum dálítið óheppin að þessu leyti því þegar við héldum upp á brúðkaupsafmælið um daginn fórum við til Uppsala og urðum líka fyrir vonbrigðum með matinn þar. Báðir veitingastaðirnir liggja reyndar við á þannig að það gæti kannski verið ástæðan. En afmælisbarnið spurði hvort það væri til óáfengt vín en það reyndist ekki vera þannig að ég keypti rautt og hvítt áfengislaust á mánudaginn sem við gætum drukkið með matnum heima um kvöldið. Rauða vínið var alveg ferlega vont! Alveg ótrúlega óspennandi og var því hellt niður eftir bara einn sopa. Hvíta reyndist vera freyðivín og það kitlar Hrafnhildi í tunguna þannig að þetta var allt saman ferlega misheppnað. En kjúklingurinn var góður og svo steikti ég pönnukökur og þær bregðast aldrei.

Upptökurnar um helgina gengu mjög vel og við náðum að taka upp bæði verkin og vorum búin korter yfir fimm á sunnudaginn en áttum að vera búin kl. fimm. Það sem mér þótti skrítið var að við mættum klukkan þrjú á laugardaginn en byrjuðum ekki að taka upp fyrr en hálf átta því að tæknimaðurinn var upptekinn á tónleikum. Annars voru allir þarna, meira að segja upptökustjórinn. Var virkilega ekki hægt að redda öðrum tæknimanni? En þetta var voða gaman og ég er spenntur að heyra diskinn. Eftir tvær vikur verður það Dixit Dominus eftir Händel með barrokkhljómsveit og eftir æfinguna í gær er ljóst að þetta verða þrusutónleikar.

Fyrir þá sem misstu af því um daginn þá erum við búin að fá nýtt símanúmer: 0046 8550 18299

föstudagur, september 23, 2005

Þetta er ekki einleikið

Nú virkar síminn......... en ekki netið....!!!!!!???????
Netið er sem sagt ennþá á gamla símanúmerinu og það tekur allt að 10 virka daga að tengja það á nýja númerið. Þ.e. tvær vikur í viðbót. Maður hefði haldið að það væri einfaldara og öruggara að hafa bæði símann og internetið hjá sama fyrirtækinu, þ.e. Telia, en nei....
Ég hringdi áðan og talaði við sex mismunandi manneskjur og þurfti alltaf að útskýra allt frá byrjun og þegar átti að senda mig til sjöunda starfsmanninn þá slitnaði samtalið og ég settist niður og skrifaði kvörtunarbréf. Ég er orðinn ansi fær í því. Ég sé alveg fyrir mér að ég verð gamall kall með fullt af köttum sem rífst í símann og skrifa skammarbréf hingað og þangað.

Svo er skrifstofukonan í vinnunni hjá mér búin að segja upp störfum því hún fékk annað 50% starf sem er ekki eins langt frá heimilinu hennar. Ég samgleðst henni og verð að viðurkenna að þetta er líka miklu betra fyrir okkur hin því hún sinnir sínu starfi alls ekki nógu vel og mörg okkar höfum tekið að okkur ýmis verkefni sem hún á að sinna. Hún mun hins vegar ekki hætta fyrr en í byrjun desember þannig að ég mun ekki njóta góðs af nýjum starfskrafti.

Nú um helgina verða þriðju upptökurnar í ár með Mikaeli. Það á að taka upp Misa Criola og aðra mjög skemmtilega Mångfaldighets mässa eftir suður amerískan Svía sem heitir Pontivik. Hann var með okkur á þriðjudaginn með hörku band, bæði svíar og spænskumælandi músikantar, sem er voða flínkir en það var dálitið skondið að sjá þá vinna saman með kórstjóranum sem er mjög nákvæmur og þeir lesa engar nótur og eiga erfitt með að skilja þegar hann reynir að slá þá inn. Kórstjórinn var óvenju óöruggur með sig og fór að kvæsa á okkur í kórnum og verða óvenju smámunasamur. Málið með svona tónlist er að hún þarf að vera mátulega kærulaus. Svo fór hann að spurja bandið hversu marga takta millispilið ætti að vera og þeir svöruðu að það ætti að vera impróvisasjón. "Nákvæmlega hversu margir tóna spilar panflautan þar?" spurði hann þá. Bandið ranghvolfdi augunum.

þriðjudagur, september 20, 2005

Ég og sóknarpresturinn settum saman auglýsingu fyrir stöðuna mína á föstudaginn sem við sendum inn á föstudaginn. Hún á ekki að birtast í organistablaðinu fyrr en eftir 3 vikur en ég sagði að það væri mikilvægt að hún birtist á heimasíðunni líka og viti menn, það hringdi einn organistinn í mig í dag og spurði um stöðuna og ég samkjaftaði ekki í korter og mælti eindregið með henni. En svo eftir að við höfðum talað sama heillengi þá kom í ljós að hann var ekkert að sækjast eftir stöðunni heldur var þetta bara einhver orgelprófessor sem vildi vita afhverju ég væri að hætta. Hann hafði áhyggjur af kirkjunni þar sem þetta er þriðja árið í röð sem staðan er auglýst. Gat hann ekki sagt það í byrjun samtalsins?

mánudagur, september 19, 2005

Nú er skólinn byrjaður í alvöru. Við erum 7 í bekknum, þar af 3 útlendingar. Nei annars. Einn Svíinn dró sig reyndar úr í dag þannig að helmingurinn er útlendingar, þ.e. fyrir utan mig er ein lettnesk sem var orgelkennari við tónlistaháskólann í Riga, einn þýskur sellisti, og eins og alltaf næ ég góðu sambandi við þjóðverjana. Svo er Kalle sem er með mér í kórnum og hann er ágætur en svo eru tvær konur aðeins eldri en ég, önnur er kantor og hin veit ég ekki hvað er en hún er ekkert sérstaklega klár. Mér sýnist ég kunna ansi mikið miðað við hin sem er voða gaman og gott fyrir egóið en ég verð að passa mig að ég fari ekki að slaka á. Það sem við höfum lært hingað til er mest upprifjun og prófessorinn virðist hafa áhyggjur af að þetta sé ekki nógu krefjandi fyrir mig. En við stjórnuðum nemendakórnum í dag og hann gat bent mér á ýmislegt sem mátti betur fara.

Þjóðverjinn er líka í stjórnendanámi í Örebro. Mér var sent bréf um þetta nám í vor en ákvað að sækja ekki um þar sem ég nennti ekki að flytja þangað og fannst of mikið mál að fara með lestinni nokkrum sinnum í viku. En hann sagði að þó svo þetta sé 100% nám þá er maður bara þarna einn til tvo daga í viku og fær oft að stjórna alvöru hljómsveitum. Þannig að núna sé ég mjög eftir að hafa ekki sótt um þetta nám. Þá hefðum við reyndar ekki flutt heim fyrr en næsta sumar.

Í dag vorum við í kúrs um gregorssöng, þetta er í þriðja skiptið sem ég fer í gegnum svona kúrs og held maður sé ágætlega að sér í þessum efnum núna þó svo ég geri ekki ráð fyrir að ég eigi eftir að fást mikið við gregorssöng í framtíðinni. Það er orðið þannig að mér finnst betra glósa á sænsku en á íslensku og í raun er ég feginn að við skulum ætla að flytja heim því mér finnst ég vera að tapa smá íslenskunni.

sunnudagur, september 18, 2005

Andinn kom allt í einu yfir mig á föstudagskvöldið og ég fór að semja kórverk og hætti ekki fyrr en klukkan hálf tvö um nóttina. Þetta er reyndar verk sem ég ætlaði að semja fyrir tveimur árum en þá strandaði ég á einum kafla sem ég vissi ekki hvernig ég gæti gert. En við erum að æfa Dixit Dominus eftir Handel í Mikaeli kammerkórnum og þegar við sungum einn kaflann á þriðjudaginn var þá sá ég hvernig ég gæti gert þetta. Þannig að ég byrjaði bara að semja eftir kvöldmat á föstudaginn og þorði ekki að hætta fyrst maður var í stuði. Erfiðast finnt mér eiginlega að koma textanum að. Þetta er sem sagt biblíutexti sem er ansi óreglulegur. Svo er hægt að pæla í einum takti lengi lengi og þá getur maður misst heildarsýnina. Ég er sem sagt búinn að gera beinagrindina og á bara eftir að fínpússa sem ég vonast til að hafa tíma til seinna í vikunni.

Í gær fórum við í IKEA að kaupa nokkra lampa og kíkja á barnadót- og húsgögn en við ákváðum að reyna að kaupa það frekar notað á netinu. Svo komu nokkrar konur frá Nynäshamn í mat og Skrámur naut sín þvílíkt og prófaði að kúra hjá þeim öllum.

miðvikudagur, september 14, 2005

Nöldur!

Ef þið heyrið fréttir um mann sem gekk berserksgang í Svíþjóð og hrópaði níðyrði um símafyrirtæki þá gæti það verið ég. Þetta bévítans hálfvita fyrirtæki sem við höfum verið með símaáskriftina hjá hefur ekkert komið til móts við okkur þó svo við höfum verið 6 vikur án síma og þurfum þrátt fyrir það að borga mánaðaráskrift fyrir þessar vikur. Þau vildu ekki sleppa okkur undan bindningstímanum sem rennur ekki út fyrr en eftir eitt og hálft ár þrátt fyrir að þeir viðurkenna að það var frekar erfitt að heyra símasölumanninn taka fram að það væri 24 mán. bindningstíma (eða hvað heitir það aftur á íslensku) þegar við hlustuðum á upptökuna þegar ég átti að hafa samþykkt þetta. Ingibjörg er svo elskuleg því hún ætlar að taka yfir áskriftina en samt þurfum við að borga ca. 200 sænskar fyrir að flytja það yfir til hennar (why???) og við þurfum að borga mánaðaráskriftina fram í október því þeir voru búnir að senda reikninginn út og vildu ekki afturkalla hann. Við sendum pappírana inn fyrir tveimur vikum og þeir gera ekkert í því fyrr en núna á föstudaginn og þá hefur Ingibjörg verið símalaus í eina og hálfa viku því hún sagði upp gömlu áskriftinni 4. sept. Og þó svo við höfum talað við þá fjórum sinnum þá voru þeir ekki búnir að átta sig á því að hún bjó á öðrum stað og sögðu að fyrst þyrfti að panta flutning og svo gæti maður flutt yfir samninginn.
Netið virkaði náttúrlega ekki þegar við vorum símalaus og komst ekki í gang fyrr en tæpum tveimur vikum eftir að síminn var tengdur. Það virkaði vel í nokkra daga en svo fóru hin og þessi windows prógröm að haga sér skringilega (komumst t.a.m. ekki á msn) og það var ekki í fyrsta skipti sem það gerist hjá okkur (ohhh hvað ég sakna Makkans). Eftir að hafa leitað í nokkra klukkutíma fann ég loksins grein á netinu hvernig átti að laga þetta prógram. Svo hætti netið að virka á miðvikudaginn var og við hringdum í Telia sem sagði að það tæki 3 virka daga að senda mann til að tékka á þessu en þegar Habbidu hringdi í gær þá hafði gleymst að senda beiðni. En sem betur fer gat mín manneskja reddað þessu því snúran sat ekki almennilega í símaúttakinu.
Nú virkar netið en við erum hins vegar símalaus þar sem kúkalabbafyrirtækið aftengdi síman okkar í morgun þó svo hann verði ekki tengdur til Ingibjargar fyrr en á föstudaginn. Ég hringdi í Telia til að panta nýjan síma og það kostar tæplega 10 þús íslenskar..... nei takk!!!! Þannig að ég valdi breiðbandssíma sem kostar miklu minna að tengja en verður ekki kominn í gagnið fyrr en við fáum eitthvað tæki sem kemur vonandi á mánudaginn! En við fáum líka nýtt símanúmer sem er 00468 550 18299. Og nú gekk ég kyrfilega úr skugga um að við erum ekki bundin þar of lengi. Það er að vísu 3 mánuðir en það passar ágætlega.
Í morgun fór ég í líkamsrækt og fékk að vita að jú, ég gæti notað kortið mitt frá Haninge þangað til það rennur út í október en þá verð ég að borga 70 sænskar í hvert skipti sem ég kem því fyrir sundlaugina því maður notar sömu búningsklefa og gengur fram hjá lauginni til að fara í ræktina.
Og svo keyrði ég í vinnuna og það var frekar lítið bensín eftir en ég náði á bensínsstöðina en hafði þá gleymt veskinu heima. Fékk lánað 300 sænskar frá vinnufélaga en sjálfsalinn gleypti peningana án þess að ég fékk neitt bensín.
GAAAAAAAARRRRRRRGGGGGHHHHHHHWWWWWWWW. Best að ná í byssuna.
Ég hringdi í neytendasímann og fæ peningana endurgreidda síðar. Þá er bara að herja á fleiri vinnufélaga til að slá lán í einn dag.
Svo þurfti ég að rífast við einn leiðinda djasspíanista sem sendi reikning út af sumartónleikaröðinni og hann var dálítið hærri en við höfðum talað um. En í þetta skipti vann ég.

fimmtudagur, september 08, 2005

Ég er á lífi

Það er búið að vera svo mikið um að vera undanfarið. Það eru nótur út um allt. Ég er að velja tónlist fyrir kirkjukórinn, unglingakórinn, vokalensemblið mitt, velja sólósöngva fyrir allar messurnar, það eru tónleikar með sópransöngkonu eftir tæpan mánuð og það eru ansi margir erfiðir söngvar þar auk þess sem ég og Ingibjörg ætlum að spila saman nokkur lög eftir Mahler og svo er ég að skoða verk fyrir Fílharmóníuna. Ég held ég sé búinn að finna tvö fín verk, annað eftir Haydn og hitt Mozart, því hann á 250 ára afmæli á næsta ári.

Til hamingju Bjartur og Jóhanna með litla strákinn og einnig Íris og Pétur sem eignuðust einnig strák um daginn. Fyrir vikið finnst mér auknar líkur á því að við fáum stelpu. Nú er mánuður þangað til Indra á að eiga og Krulli stækkar óðum því í gær fann ég greinilega fyrir útlim þegar ég setti höndina á maga Hrafnhildar.

Ég byrjaði í skólanum í síðustu viku og þá kom í ljós að stundataflan lítur allt öðruvísi út en ég bjóst við. Þetta verður fyrst og fremst á mánudögum í stað fimmtudaga sem þýðir að ég þarf að vera á þessum blessuðu starfsmannafundum hér sem geta verið svo óeffektívir og gert mig svo pirraðan. En skólinn byrjaði ekkert allt of vel því prófessorinn var ekki mættur fyrsta daginn því hann var með Radíókórinn í útlöndum og því sá einhver kona um okkur sem vissi ekki neitt. Hún var að sýna okkur bygginguna en ég sem var bara þarna í annað skiptið rataði betur heldur en hún. Svo þegar við mættum á mánudaginn þá var prófessorinn heldur ekki mættur því hann var með syni sínum á spítala og kom ekki fyrr en kl. fjögur í stað tíu um morguninn. Sem þýddi að við þurftum að hanga þarna í fimm klukkutíma. Það var reyndar mjög fínt veður og ég sat voða lengi á bryggju við ána innan um hina stúdentana og las, hlustaði á ipodinn og leysti Sudoko gátur. Svo þegar við hittum prófessorinn sýndist mér hann hafa dálitlar áhyggjur af mér upp á það að þetta yrði ekki nógu avanserað fyrir mig. Ég ætla bara að reyna að fá það mesta út úr honum en það var mjög gaman að því að eitt af verkunum sem við eigum að kljást við í vetur er einmitt verkið eftir Mozart sem ég var að pæla í fyrir Fílharmóníuna.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Nú er búið að laga allt sem var að... nema netið. Síminn var sem sagt tengdur á fimmtudaginn en við komumst ekki á netið og þegar ég hringdi á föstudaginn var mér sagt að ég hafi aldrei pantað flutning á netinu. Ég þrætti á móti því ég hringdi í byrjun ágúst en þá kom í ljós að ég þurfti að láta vita hvenær síminn yrði tengdur. Þannig að nú þurfum við að bíða í allt að níu daga eftir netinu. Hrafnhildur er hálf feimin við að hanga í tölvunni í einkaerindum í vinnunni sinni því yfirmennirnir eru alltaf að vara við því að það sé fylgst með þeim og því hefur hún ekkert bloggað síðan við komum aftur út. Ég hika hins vegar ekkert við það að fullnægja mínum internetsþörfum. Um daginn kom ég í vinnuna og hékk lengi lengi á netinu en sá svo pappíra sem ég þurfti að fylla út og senda og akkúrat sem ég var að gera þetta kom sóknarpresturinn inn og sagði: "Það er alltaf sama dugnaðarlyktin inni hjá þér." Ég lét náttúrlega eins og ég hefði ekki gert neitt annað allan morguninn.
Í morgun var guðsþjónusta við höfnina fyrir alla fimm söfnuðina í bænum, þ.e. Sænsku þjóðkirkjuna, Hjálpræðisherinn, Hvítasunnusöfnuðinn og tvær fríkirkjur. Þetta hefur verið gert einn sunnudag á sumrin síðustu 10 ár en menn flaska alltaf á því að skipuleggja þetta almennilega en svo reddast þetta alltaf einhvern veginn. Ég var alla vega beðinn um að sjá um tónlistina og stjórna sameiginlegum kór og það gekk reyndar mjög vel.

Maginn á Hrafnhildi stækkar með hverjum degi og þegar ég sá hana í gær gáttaði ég mig á því hvernig hún héldi eiginlega jafnvægi því þetta leggst bara framan á hana. Að öðru leyti er hún algjörlega óbreytt útlitslega séð, þ.e. alltaf jafn sæt! Við eigum von á mjög fjörugu barni því það spriklar alveg svakalega mikið. Við förum til ljósmóðurinnar á þriðjudaginn og svo verða settar inn óléttumyndir um leið og netið verður tengt.

Allir að syngja afmælissönginn fyrir Indru í dag!

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Allt að smella saman

Húsvörðurinn kom um daginn og reddaði okkur geymslu, loksins. Það eru búnir að vera kassar út um allt því það vantar náttúrlega líka hyllur í skápana. Svo kom rafvirkinn og ætlar laga veggina þannig að það verði hægt að setja loftljós. Ég skil ekki enn hvernig hægt er að veggfóðra yfir rafmagnsúttak. Píparinn kom í morgun og gerði við blöndunartækið inni á baði þannig að það frussast ekki vatn út um allt þegar maður lætur renna í bað. Síminn verður loksins tengdur hjá okkur á fimmtudaginn eftir sex vikna bið og Ingibjörg ætlar að taka yfir saminginn okkar í byrjun september. Ég ætla sko aldeilis að láta þá finna fyrir því og krefjast bóta fyrir útlagðan kostnað og láta þá endurgreiða okkur internetáskriftina fyrir þann tíma sem við vorum símalaus. Ég hringdi í fyrrum bíleigandann sem ætlar að selja mér vetrardekk og sagði mér svo að setja strokleður í útvarpið og nú virkar það bara svona líka vel. Ég er mjög forvitinn að hitta þetta fólk. Ég skil ekki hvernig er hægt að fara svona með einn bíl. Ég tékkaði á olíunni í morgun og sá að það þurfti að bæta á en sem ég var að loka sá ég einhvern brúsa sem lá við hliðinni á vélinni og reyndist það vera olíubrúsi með töluvert af olíu í. MÁ ÞETTA? Er þetta ekkert hættulegt? Það virðist líka vera búið að laga Skrám því síðustu tvö skiptin sem hann hefur verið í pössun hefur hann fundið sig strax á nýja staðnum og þegar hann kemur aftur heim. Hann hefur verið hjá einni konu í kórnum hjá mér sem sér svo vel um hann og hann er orðinn hluti af fjölskyldunni hennar.

Við vorum annars að koma frá Gotlandi þar sem við vorum í alveg rosalega skemmtilegu brúðkaupi. Við þekktum ansi fáa og svo þurfti endilega að blanda fólki sem mest þannig að við hjónin fengum ekki að sitja saman. En við skemmtum okkur alveg konunglega og hlógum stundum svo mikið að það verkjaði í kjálkana. Ég get hiklaust mælt með Gotlandi því þar er mjög fallegt og Gotlendingar eru mjög skemmtilegir.

Tónlistarhópurinn Katla hélt tónleika í kirkjunni á fimmtudaginn var sem heppnuðust þrusuvel og fólk var mjög ánægt. Það er nú heldur ekki leiðinlegt að æfa með þessum stelpum (Ingibjörgu og Svövu) og þegar ég keyrði heim eftir eina æfinguna þá hlustaði ég á stand-up með Seinfeld en var gjörsamlega úthleginn og með harðsperrur í magavöðvunum.

Halldór og Dísa fóru heim þar síðustu helgi og það var mjög gaman að hafa þau. Það var reyndar synd hvað við þurftum að vinna mikið og vorum ekki búin að koma okkur almennilega fyrir í íbúðinni auk þess sem við þurftum að eyða töluverðum tíma í símanum til að nöldra yfir hlutum sem ekki voru komnir í lag.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Sumartónleikaröðin

Í gærkvöldi kom Harmonikkuleikari til að spila á sumartónleikaröðinni í kirkjunni og hann var svaka flottur. Ég hef aldrei séð neinn spila á svona takkaharmonikku. Ég var að reyna að sjá hvernig þetta virkaði allt saman. Ég sá þó að hann notaði hökuna til að breyta um raddval í miðjum lögum. Hann spilaði t.a.m. einn konsert úr Árstíðunum eftir Vivaldi, Toccata og fúga í d-moll eftir Bach, ABCD tilbrigðin eftir Mozart og rússneska sónötu. Það mætti fullt af fólki, meðal annars keyrðu nokkrir harmonikkuunnendur mörg hundruð kílómetra bara til að hlusta á hann. Tónleikaröðin hefur verið vel sótt að undanförnu, mun betur en í fyrra og allir eru ánægðir, sérstaklega ég sem skipulagði sko allt saman!

Við erum ekki enn komin með heimasíma og þar af leiðandi ekki internet. Ég er orðinn foxillur út í símafyrirtækið og ennþá reiðari þegar ég frétti að við erum bundin hjá því fram til mars 2007 og getum því ekki skipt um fyrirtæki nema borga þeim mánaðargjaldið það sem eftir lifir samningstímans!!! Ég skil ekki hvernig í ósköpunum stendur á því og er búinn að krefjast þess að þeir sýni mér annað hvort undirskrift mína eða hljóðupptöku þar sem ég samþykki 24 mánaða samningstíma. Ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki getað flutt símann er að það hefur ekki verið neitt símanúmer í nýju íbúðinni í langan tíma. Ég hef hringt í þá sjö sinnum til að skilja eftir alls konar upplýsingar, meðal annars hvaða símanúmer nágrannar mínir hafa en það hefur samt ekkert gerst og nú erum liðnar sex símalausar vikur. Það sem gerir ill verra er að ég hef þurft að hringja úr gemsanum, bíða í minnst 20 mínútur og lendi svo alltaf á nýju fólki sem þarf alltaf lengri tíma til að lesa upplýsingarnar um okkar af tölvuskjánum.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Skiptilykill á sænsku

Ég og tengdapabbi höfum verið voða duglegir að hengja upp myndir, gardínustangir og svoleiðis, tengdum meira að segja þvottvélina en gátum ekki tengt vatnið því ég átti ekki nógu stóran skiptilykil. Þannig að ég fór í dag í leiðangur úr vinnunni. Og þó svo ég hafi búið nokkur ár í Svíþjóð og tala bara ágætis sænsku að mér finnst þá hef ég hingað til ekki þurft að vita hvað skiptilykill heitir á sænsku. En ég vogaði mér í búðina:
"Mig vantar verkfæri sem er nokkurn veginn svona í laginu, notað til að skrúfa, eða ekki beint að skrúfa en svona til að herða eða losa.... ef ég segi "växelnyckel", hringir það einhverjum bjöllum? Ekki það nei. Þetta er alla vega svona færanlegt og maður notar þetta á svona sexhyrningslaga kringlótt stykki sem gæti jafnvel heitið "ro"... (nú kom mjög skrítinn svipur á afgreiðslumanninn) og þegar maður notar verkfærið þá hreyfir maður það svona... nei, ekki hamar..."
Ég gafst upp og þræddi alla búðina (á meðan starfmaðurinn sagði kollegum sínum frá mér) og fann sjálfur að lokum og sá að það heitir einfaldlega "skiftnyckel".

laugardagur, júlí 30, 2005

Skotinn

Ég keypti bíl í gær. Ford escort, station, 96 model, keyrður rúmlega 160þús km. Ég þurfti að fara mjög langt með lest, tunnelbanann og strætó því það eru svo margar bílasölur lokaðar núna vegna sumarleyfa. Þetta er nú ekkert flottur bíll en hann virkar ég treysti því að hann klikki ekki á miðri leið á milli Södertälje og Nynäshamn. Framstuðarinn er brotinn og límdur saman með gráu teipi, það er ryð á afturhurðinni og það vantar takka í útvarpið þannig að það virkar ekki. En fyrir vikið fékk hann nokkuð ódýran og því getum við safnað pening fyrir íbúðarkaupum. Ég sé nú alveg samt fyrir mér að bílasalarnir hafi skálað í kampavíni í gærkvöldi yfir að hafa loksins getað selt þennan bíl. Við erum vön að nefna bílana okkar, sá fyrsti hét Denni Daihatsu, næsti Lína Lancer og þessi Skotinn því bílnúmerið byrjað á bókstöfunum DJE.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Móttökunefndin

Ég skutlaði móttökunefndinni út á flugvöll í morgun á stóra, ameríska jeppanum. Halldór og Dísa fóru sem sagt út til Stokkhólms í morgun af því það var ekki hægt að kaupa miða fyrir vildarpunkta í vélinni sem við förum með í kvöld. Ég vona að þau finni íbúðina. Hrafnhildur er búin að vera að drepast í bakinu og fór til sjúkraþjálfara í gær sem sagði að þetta væri einkenni grindargliðnunar. Við vonum auðvitað öll að þetta verði ekki alvarlegt eða langvarandi. Hún gat eiginlega ekkert sofið hér um nóttina.

Ég vonast til þess að við getum keypt okkur bíl á morgun. Ég er búinn að vera að skoða á netinu og hef fundið nokkra en hann þarf helst að vera skoðaður fram á næsta ár og helst búið að borga skattinn af honum. Svo þætti mér leiðinlegt ef hann bilar mitt á leiðinni þegar Hrafnhildur er að því komin að fæða í desember. Við erum annars að velta því fyrir okkur hvenær við eigum að flytja heim. Krulli á að koma 3. des. en gæti farið fram yfir og kæmi þá í síðasta lagi 17. des. Við höfum talað um að koma heim 22. en ef hann fæðist svona seint þá er hann bara 5 daga gamall og Hrafnhildur kannski ekki búin að jafna sig. Þ.a. við erum jafnvel að hugsa um að panta bara fljótlega miða heim milli jóla og nýárs. Taka jólin bara rólega þarna úti. Við höfum oft hugsað til þess að Halldór og Dísa fóru með Hrafnhildi til Uppsala bara þriggja vikna og við ættum ekki að vera væla mikið en svo kom í ljós um daginn að það var meira mál en þau hafa sagt hingað til.

Ég var að skoða bækling frá Kirkjutónlistarmótinu í Gautaborg 1996 sem Halldór fór á og sá þar nánast allt fólkið sem ég vann hvað nánast með og áttaði mig á því að ég var ansi heppinn með kennara. En það var alveg tímabært að flytja því ég var búinn að fá eiginlega allt út úr þeim sem hægt var.

bæðevei: Við tölum bæði um Krulla og segjum alltaf "þegar hann fæðist" en við vitum sem sagt ekkert hvort kynið þetta er þ.a. barnið verður kallað Krulli þangað til það fæðist og talað um hann í karlkyni. Við höfum hingað til verið nokkuð sannspá um kyn ófæddra barna vina okkar og til að byrja með hafði ég tilfinningu fyrir því að við ættum von á Strák en nú er ég á báðum áttum.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Ísland sýnir sínar bestu hliðar

Maður er ekkert að blogga voða mikið þegar við erum heima. Það er búið að vera svo fínt veður fyrir utan fyrstu dagana og stíft prógram við að hitta alla og gera ýmislegt. Suma náum við ekki að hitta almennilega en við erum nú að flytja heim um áramótin. Umræðurnar í heimsóknunum hafa að tveimur þriðju hlutum snúist um barn og barneignir og afgangurinn um fasteignir. Við ætlum sem sagt að bíða og sjá með íbúðarkaup, vita hvort verð fari ekki að lækka en við fylgjumst vel með.

Ég fékk hringingu í morgun og þar sem mér var tilkynnt að ég er orðinn stjórnandi Fílharmóníunnar frá og með áramótum. Ég fór á tvo fundi og þar var létt á hjalla. Það var reyndar sama tilfinning fyrir þetta atvinnuviðtal eins og síðasta sumar þar sem ég gerði mér litlar vonir um að fá starfið. En þau vilja endilega fá mig og ætla að bíða eftir mér í allt haust. Undanfarnar nætur hef ég átt erfitt með að sofna því maður fær svo margar hugmyndir fyrir þetta starf. Svo hef ég verið að spurjast fyrir hvort menn vita um einhverja organistastöðu sem er að losna og það virðist ekki vera neitt þannig að ég geri ráð fyrir að frílansa fram á næsta haust og vonandi verður þá eitthvað auglýst. Eitthvað almennilegt vona ég.

föstudagur, júlí 22, 2005

Myndir

Þá eru sónarmyndirnar loksins komnar. Maður fer bara á síðuna hennar Hrafnhildar, velur hlekkinn fyrir myndir, notendanafnið er hrafnis@yahoo.com og leyniorðið myndir

sunnudagur, júlí 17, 2005

Vei rigning!

Við erum komin heim. Það er ýmist í ökkla eða eyra. Við vorum að stikna úr hita í Svíþjóð og núna að hneykslast á þessari veðráttu hér heima.
Það er þvílíkt prógram á hverjum degi, um að gera að vera skipulagður þannig að maður missi ekki af neinum. Ég er búinn að æfa Pabbastellinguna með Jökli nokkrum sinnum og fylgst með þegar skipt var um bleyju.
Í gær var ég við hjónavígslu Láru Bryndísar og Ágústs, söng í kórnum sko. Gat ekki annað því hún var fyrsta til að melda sig í kórinn hjá okkur í fyrra og var svo mjög leið þegar í ljós kom að hún var búin að tvíbóka sig. Þetta var náttúrlega glæsilegt í alla staði.
Við fengum sömu svör frá Tryggingastofnun eins og áður um að við eigum engan rétt til fæðingarorlofs á Íslandi ef barnið fæðist úti og þó svo við kærum og áfrýjum og allt það þá eigum við í hæsta lægi rétt á lágmarksstyrk. Þetta er mikið púsluspil.
Í dag erum við komin 20 vikur á leið, sem sagt hálfnuð. Indra er ca. 8 vikum á undan og komin með ansi myndarlega bumbu. Svo ætlum við að reyna að hitta allar bumbulínur áður en við förum út. Um að gera að nýta tímann vel þannig að það verði engin slagsmál síðustu dagana.

p.s. Það er hægt að skrifa komment á þessa síðu. Stundum held ég að enginn lesi hana en svo heyri ég frá hinum og þessum sem virðast lesa í hverri viku. Margir vinir mínir senda mér alltaf tölvupóst með kommentum en það er alveg eins hægt að skrifa hér. Over and out!

föstudagur, júlí 08, 2005

Tónleikarnir í gær voru mjög notalegir og fínir. Mörg verkin tókust best á tónleikunum, sérstaklega verkið mitt. Hann átti í dálitlum erfiðleikum með suma háu tónana á æfingunum en svo spilaði hann voða vel í gærkvöldi. Það virðist koma heilmikið af fólki sem er bara hérna yfir sumarið. Það eru alla vega ansi mörg ný andlit.
Ég fékk lánaðan minibússinn hér úr vinnunni yfir nóttina því það er enginn strætó eftir kl. átta og það er svo rosalega mikið mál að fara með lestinni og skipta og svoleiðis. Það tekur mig ca. 40 mín. að keyra og ég naut útsýnisins á leiðinni bæði í gærkvöldi og svo aftur í morgun. Mjög fallegir akrar en vegirnir eru ansi hlykkjóttir og það verður spurning hversu gaman það verður að keyra þetta mörgum sinnum í vetur.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Krulla

Við fórum til ljósmóðurinnar í morgun sem hlustaði á barnið og fékk hjartslátt sem var um 150 og samkvæmt sumum þá þýðir að það að þetta sé stelpa. Þetta er alla vega mjög líflegur krakki því hann var allur á iði í dag og sparkaði þvílíkt þannig að það verkaði í eyrun.

Við erum sem sagt flutt til Fornhöjdsvägen 40, 15258 Södertälje. Það gerðist á þriðjudaginn. Við fengum fyrirtæki til að sjá um það fyrir okkur og það var ekkert smá dýrt. En það var samt voða fagmannlega gert og ekkert brotnaði eða varð einu sinni skítugt. Hins vegar kom í ljós að það átti eftir að gera ýmislegt við íbúðina, t.d. að skipta um ískáp(hann kom í morgun, svaka flottur), þrífa almennilega, vantaði skúffur og hyllur í skápana og svoleiðis. Það verður vonandi gert þegar við erum heima á Íslandi. Rafvirkjinn kom í morgun og varð mjög hissa að sjá að það voru engar innstungur fyrir loftljós í ganginum. Svo erum við bara með 3 sjónvarpsstöðvar (ekki það að maður nái að horfa mikið á imbann næstu daga).

Í kvöld eru tónleikar með vokalensemblinu mínu og mér líst bara vel á þá. Æfingin í gær gekk mjög vel (kannski einum of vel) og ég er ánægður með prógrammið. Ég ætla meðal annars að flytja brúðarmarsinn sem ég samdi fyrir Hrafnhildi en í þetta skiptið fyrir trompet og orgel. Þurfti sem sagt að tónflytja og breyta aðeins til að það hljómaði betur í þeirri tóntegund. Trompetistinn, sem syngur líka bassa, er svo hrifinn af stykkinu að hann vill fá að flytja það þegar hann fer í tónleikaferð til Póllands í haust.

Það verður spennandi að heyra frá Fílharmoníunni því ég sendi inn umsókn eftir að þau höfðu samband við mig um daginn. Það er spurning hvort þeim lítist nógu vel á mig til að þau geti beðið eftir mér fram yfir jólin. En það væri gaman að fara beint í það starf heima í stað þess að þurfa að byggja upp eigin kór. Ég mun nú sennilega hvort eð er gera það. Hafa lítinn kammerkór.
Ég hef að undanförnu tekið eftir því að tónlistargagnrýnendur Moggans hafa sagt eitthvað á þá leið að "... kórinn söng þetta lag vel þrátt fyrir að kórstórinn hafi ekki stjórnað miklu..." Ég held að þetta sé dálítið algengt viðhorf á Íslandi að fólki finnist að stjórnandinn eigi að stjórna hverju einasta smáatriði. Ég er þessu hjartanlega ósammála. Ég held að góður kór syngi aldrei eins vel og þegar stjórnandinn hættir skyndilega að stjórna í miðju lagi. Þetta er eins og með leikstjóra; þeir bestu veita leikurunum mikið frelsi og segja bara eitthvað við og við eða jafnvel ekki neitt.

mánudagur, júlí 04, 2005

Últrahljóð

Við fórum í sónar í dag (sem heitir Ultraljud á sænsku) og þið hefðuð átt að sjá hvernig augun hennar Hrafnhildar tindruðu. Það var æðislegt að sjá litla krílið sparka og sjúga hendina sína. Allt virðist vera eðlilegt og þetta eru EKKI tvíburar!
Annars átti ég oft í erfiðleikum með að lesa eitt eða neitt út úr því sem maður sá á skjánum. Ég þóttist sjá hausinn, með augu, nef og varir en svo sagði hjúkkan: hérna er maginn, og hjartað og annar fóturinn..... óóóókey.....
En svo var maður farinn að átta sig betur á þessu, sérstaklega þegar maður þekkti hryggjarsúluna og gat þá áttað sig á hvað sneri upp og niður.

Við vorum annars að koma frá Frakklandi, brún og sæt. Hápunkturinn var nátturlega hjónavígsla yndislegasta pars í heimi á alveg frábærum stað. Athöfnin var svo falleg í miðaldakirkju í litlu sveitaþorpi og svo var veislan í garðinum í sumarhúsi fjölskyldu Dóro og vel veitt af öllu. Það sem við Íslendingarnir skildum ekki var hvernig stóð á því að þar sem hún gat verið á svona frábærum stað, af hverju valdi hún að flytja til Selfoss af öllum stöðum. Það var líka gaman að hitta gamla liðið og skemmta sér fram undir morgun.

Síðan fórum við á Rívieruna og slöppuðum af þar. Við vorum hissa á því hvað allt er dýrt þarna og að enginn er tilbúinn að tala neitt annað en frönsku. Eftir nokkra daga fórum við aðeins frá ströndinni til að borða og þá var ekkert mál að fá matseðil á ensku og fólk almennilegra. Á einum staðnum við ströndina borðaði Hrafnhildur versta og bragðlausasta pasta sem sögur fara af. Ég hélt stundum að ég fattaði hvað stóð á frönsku en svo fékk ég rækjurétt þegar ég hélt ég hafði pantað samloku.

laugardagur, júní 25, 2005

Midsommar

Við fórum í göngutúr í dag á milli þess sem við vorum að pakka niður og uppgötvuðum nátturupark bara nokkrum metrum frá okkur. Og við sem erum að flytja. Það er midsommar núna og skrítið hvað það verður alltaf hljótt í borgunum um þessa helgi. Það var ansi heitt í gær og ég byrjaði daginn á því að skokka úti í skógi þar sem það var lokað í líkamsræktinni, en það var svo heitt og loftlaust að maður var ansi langan tíma að jafna sig eftir á. Svo fengum við Ingibjörgu í heimsokn og grilluðum úti á grasi og það var ansi notalegt.
Það gengur bara ágætlega að pakka og tilkynna öllum fyrirtækjum um flutningana. Á morgun förum við til Frakklands til að vera við hjónavígslu Markúsar og Dóró á mánudaginn. Við erum voða spennt að sjá hvernig sú athöfn verður, ekki síst þar sem hún verður kaþólsk í miðaldakirkju. Ég ætla að syngja Maríukvæðið eftir Atla Heimi við texta Halldórs Laxness en það verður a-capella þar sem það er ekkert hljóðfæri í þessari kirkju. Svo förum við á rívíeruna í nokkra daga og komum svo á sunnudaginn, förum í sónar á mánud. flytjum á þriðjudaginn, fáum að hlusta á Krulla á fimmtudaginn og svo Ísland mánud. eftir tvær vikur. Sjáum til hvort við náum að kaupa bíl fyrir það.
Við erum búin að setja rosa fallega svarthvíta mynd af Jökli litla á skrifborðið í tölvunni og maður getur ekki annað en dást að honum. Hlökkum mikið til að koma heim og heilsa honum almennilega.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Glott!

Ég næ ekki glottinu af Hrafnhildi frænku. Ekki það ég hafi reynt mikið. Sjálfur er ég búinn að vera glottandi undanfarna daga því það er farið að sjást greinilega á minni. Það var tekin fyrsta bumbumyndin um daginn.

Ég hélt píanótónleika áðan sem gengu mjög vel. Það er reyndar búið að vera svo heitt í dag að fingrarnir voru ansi klístraðir og af þeim sökum missti ég af nokkrum nótum en ég held ekki að neinn hafi tekið eftir því.
Þetta voru fimmtu einleikstónleikarnir mínir síðan ég byrjaði og ferlið er alltaf eins. Nokkrum mánuðum áður ákveð ég ca. hvað ég ætla að spila. Nokkrum vikum áður fer ég að hafa áhyggjur af því að þetta sé ekki nógu mikið og fer því að æfa ný stykki. Svo tvo síðustu dagana átta ég mig á því að ég er með of langt prógram og þarf að taka eitthvað út. Svo síðustu klukkutímana fæ ég áhyggjur af því að enginn komi en svo kemur alltaf nógu mikið af fólki og þetta hefur alltaf heppnast vel hingað til.
Þessir píanótónleikar eru alltaf voðalega huggulegir og það er bara gaman að æfa upp þessi stykki sem maður spilaði síðast fyrir 10 árum og gaman að átta sig hvað manni hefur farið fram.
Ég vil óska Hjalta mági mínum og Völu til hamingju með soninn sem fæddist í morgun. Ég vissi að það yrði strákur.

laugardagur, júní 18, 2005

Hiti

Í nótt fuku sængurnar og við sváfum með sængurverin. Það er búið að vera ansi heitt undanfarna daga. Annars erum við að undirbúa flutninga og pökkum niður í kassa við og við. En við ætlum að notast við flutningafyrirtæki og það verður mikill munur. Við erum meira að segja svo praktísk að við reynum að nota sömu kassana frá því í haust með sömu merkingunum. Nú ætlum við að fara út að grilla.
Ha det bra og gleðilega þjóðhátíð um daginn.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Tveir yndislegir dagar

Í gær og í dag er búið að vera svo gott veður, sól og hiti. Það er nefnilega búið að vera svo kalt á sænskan mælikvarða undanfarnar vikur.
Mér tókst líka að fara í líkamsrækt fyrir vinnuna í gær. Mér hefur eiginlega aldrei tekist það áður.
Ég brillera alveg í vinnunni. Ég gerði auglýsingu í gær sem allir voru svo hrifnir af og svo gat ég gert við eina tölvuna.
Ég heyrði frá bróður mínum og þegar ég athugaði eftir á hversu lengi við höfðum talað saman þá reyndist það vera rúmlega 20 min. Gemsi í gemsa nota bene. Hvað ætli það hafi kostað hann. En hann úr búinn að vera veikur heima greyið undanfarna daga og svo var kærastan að fara til Spánar í morgun.
Ég er að lesa svo skemmtilega bók sem heitir Things my girlfriend and I have argued about eftir Mil Millington. Maður er buinn að hlæja upphátt í lestinni ansi oft.
Fékk tölvupóst frá Guðríði pianokennaranum minum sem benti mér á að sækja um sem stjórnandi Fílharmoníunnar og mér þótti mjög vænt um það. Það er náttúrlega fyrir haustið og við flytjum ekki heim fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Svo fékk ég annað skeyti frá formanninum í dag og það var ekki verra.
Ég er byrjaður með söngtíma fyrir starfsfólk og kórfélaga og það gengur mjög vel. Sumir eru ágætir á meðan aðrir kunna ekki neitt.
Við fengum endurgreitt frá skattinum og ættum því að geta keypt okkur bíl þegar við flytjum. Svo hafa verðbréfin sem ég keypti í vor snarhækkað undanfarna daga þannig að við ættum að geta notað þau plús það sem við leggjum til hliðar í haust plús hlutabréfin sem Pabbi keypti fyrir okkur börnin til að kaupa húsnæði þegar við flytjum heim.
Það voru allir ánægðir með tónleikana á sunnudaginn og við erum búin að ákveða að halda aðra slíka í haust. Þær í barnastarfinu voru reyndar pirraðar og mér fannst ég skynja það eftir tonleikana og í dag kom i ljós að þær voru óhressar með það sem annar presturinn sagði undir lokin. Ég held að þetta sé uppsafnaður pirringur hjá þeim. Ég og kollegi minn erum mjög ánægðir með hann, sérstaklega sem prest en ég hef tekið eftir því að þær vilja eiginlega að hann segi sem minnst þegar það eru t.d. fjölskylduguðsþjónustur.

sunnudagur, júní 05, 2005

Sjung, sjung, sätt hela kyrkan i gung

Við vorum með lokatónleika í dag þar sem allir kórarnir komu fram og svo var grillað eftir á. Þetta var voða gaman. Týpískt fyrir unglingakórinn að þau verða þreytt á lögum eftir að hafa sungið þau tvisvar en vildu allt í einu syngja fullt af aukalögum og gátu ekki beðið eftir að byrja í haust.
Svo fékk ég svaka gæsahúð þegar öll kirkjan söng nokkra sálma og ég spilaði full blast á orgelið. Erum að hugsa um að hafa þetta einu sinni á önn. Svo fékk ég rauðvínskörfu í gjöf frá kórnum. Hef ekki drukkið rauðvín í ansi margar vikur fyrst að Habbidur má ekki drekka neitt.

laugardagur, júní 04, 2005

Að vera hátíðlegur og stór!

Um daginn þurfti ég að spila Are you lonesome tonight sem inngöngutónlist við jarðarför. Þurfti að dúbbeltékka á hvort ég hefði lesið miðann rétt. Í kapellunni í kirkjugarðinum er digitalorgel og svona dægurlög hljóma alveg bærilega í því. Miklu betur en á alvöru orgelinu í kirkjunni. Og svo eru svo margar raddir á því að það er hægt að spila hvað sem er. Oftast er nefnilega bara lítið eins manúela orgel í svona kapellum sem virka ekki svo vel þegar maður er beðinn um að spila stór klassísk orgelstykki.

Um daginn sagði ég við sóknarprestinn að mér þætti svo fínt hvað hann og hinn presturinn eru ólíkir í sínum hlutverkum. Hinn er ansi frjálslegur og þessi er hátíðlegur. En þetta fór eitthvað illa í hann því orðið "högtidlig" hefur annan blæ hér í Svíþjóð en á Íslandi. Menn tengja þetta meir við gamaldags, formlegur og þess háttar, sérstaklega innan kirkjunnar, og það þykir ekki eftirsóknarverður eiginleiki um þessar mundir. Ég útskýrði fyrir honum að ég meinti þetta sem hól og hann skildi það en hefur svo alltaf spurt eftir hverja athöfn: Var þetta nógu "högtidligt" hjá mér? .... og svo glottir hann.

Við Hrafnhildur höfum líka lent í því að segja að einhver sé stór en það má ekki á sænsku. Það þýðir eiginlega að vera mikill um sig. Maður á að segja "lång". Það neiðarlega við þetta er að í báðum tilvikunum vorum við að tala um stelpur sem fyrir utan það að vera hávaxnar þá máttu þær við því að missa nokkur kíló.

þriðjudagur, maí 31, 2005

Það er öldungis ágætt að vera í fríi á mánudögum og þriðjudögum og í dag greip ég tækifærið og skellti mer í bíó á miðjum degi. Fór að sjá "The Life Aquatic with Steve Zissou" eftir Wes Anderson og skemmti mér vel. Þetta er mjög fínlegur og dálítið súr húmor en ég get mælt með henni. Bill Murray er í uppáhaldi hjá mér og svo er William Dafoe fræbær sem þýskur liðsmaður.

Það voru fermingarmessur um helgina, alveg troðfull kirkja í bæði skiptin og ansi loftlaust. Ég stillti orgelið á föstudaginn en ég heyrði mun á milli messanna. Þarf að stilla það aftur í vikunni. Spilaði tokkötuna úr Gottnesku svítunni sem ég hef aldrei þorað að spila í messu því aðalstefið er svo macabert en hún féll í góðan jarðveg. Gat meira að segja spilað hana án aðstoðar því hún er 10 blaðsíður og það þarf að ýta á nokkra auka takka þegar mest gengur á en þetta hafðist allt saman. Sum fermingarbörnin voru voða vel til höfð en önnur voru bara í gallabuxum og strigaskóm. Svo voru þau ekki spurð heldur bara blessuð. Það var nú ekki þannig á mínum tíma. En þetta var þó betra en þegar ég spilaði í fimm fermingarmessum á einum degi, rúmlega 20 börn í hverri og troðfull timuburkirkja í hvert sinn á heitum sumardegi. Þegar ég spilaði postludium þá var fólk ekki að taka tillit til organistans og rakst í öxlina og talaði hástöfum. Það fór í taugarnar á mér.

Í þessari viku eru síðustu kóræfingarnar og svo eru tónleikar á sunnudaginn en við tekur litla vokalensemblið mitt sem byrjaði að æfa á sunnudaginn og svo verð ég með nokkra söngnemendur í sumar, þ.e. þegar ég er ekki í fríi. Mikaeli syngur Poulenc á föstudaginn, tekur upp tónlist eftir sænska tónskáldið Rosell sem lést í janúar helgina eftir það og svo syngjum við verkin á tónleikum auk annarra vorsöngva. Það er alveg svakalegt tempó á þessum kór. Bara í vetur höfum við æft og sungið sex ólík tónleikaprógröm og aldrei sungið sama verkið tvisvar. Og ekkert smá erfið verk.

laugardagur, maí 28, 2005

Á leið í gjaldþrot

Þetta eru nú meir fjárútlátin hjá okkur um þessar mundir. Við höfum á undanförnum vikum keypt flugmiða til Íslands, helgarferð til Tallin, flugmiða til Suður Frakklands í brúðkaup Markúsar og Dóró ásamt bílaleigubíl og hóteli og í gær pöntuðum við pláss í ferjuna til Gotlands fyrir annað brúðkaup í ágúst og það var alls ekki svo ódýrt. Svo eigum eftir að flytja og við ætlum að notast við flutningafyrirtæki, þurfum mögulega að borga tvöfalda leigu í júlí og ætlum að kaupa bíl.

Ég er að klára Angels & Demons eftir Dan Brown. Mér finnst hún ekki eins góð og Da Vinci, reyndar frekar langdregin. En hann er samt góður. Um daginn las ég Svartir englar sem Hjalti og Vala gáfu mér í afmælisgjöf og hún er mjög góð. Svona bók sem erfitt er að leggja frá sér. Mér finnst þessar íslensku spennisögur eiga það sameiginlegt að vera með áhugaverða karaktera, halda manni við efnið en lausnin er sjaldnast spennandi.

Í gær var fjölskyldudagur í vinnunni. Það kom alveg fullt af litlum krökkum, alveg niður í nokkura vikna gamlir. Þegar við vorum að borða pulsur eftir guðsþjónustuna sá ég einn krakkann sem var eitthvað rauður á nefinu, og svo annan og svo annan og mér datt í hug að það hafi verið dálítið kalt í kirkjunni. Svo kom eldabuskan til mín, máluð eins og köttur í framan og sagðist hafa verið að mála krakkana. Þá fattaði ég hvað þetta var. Mikið getur maður verið vitlaus stundum.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Enn af vinnustaðnum

Það er alltaf starfsmannafundir á fimmtudagsmorgnum og þeir eru ansi óeffektívir því fólk þarf að tala svo mikið, heyra ekki hvað er sagt og hverfur svo eitt af öðru. Undir lok fundarins í morgun vorum við bara sex eftir og töluðum um hvernig hægt væri að bæta úr þessu því það voru ansi margir pirraðir á þessu. Það var talað um að skiptast á að stýra fundinum og ég bauðst til að gera það næstu viku og það var vel tekið í það. Skömmu síðar hitti ég sóknarprestinn og þegar honum var sagt að ég myndi stýra næsta fundi áttaði ég mig á því að þetta var rangt. Hann var ekki með þegar við töluðum um þetta og tók þessu sem persónulegri árás á sig, sem það var ekki. Þetta var ekki bein krítík á hann en það er hann sem á að stjórna fundunum. Þetta er dálítið leiðinlegt því ég hef sett út á ansi margt undanfarið og barði í borðið í síðustu viku og sagðist ekki vilja halda áfram þarna ef ekkert gerðist. Eftir það hefur ýmislegt gerst sem betur fer. Við drógum þessa ákvörðun sem sagt til baka.

Gaman að því að það var hringt frá Unglingakórnum í Trångsund (sem er hin kirkjan þar sem mér var boðið starf)og þau ætla að koma í næstu viku til okkar í Nynäshamn og vera með á tónleikum. Það væri gaman að koma á samstarfi á milli þessara tveggja unglingakóra.

sunnudagur, maí 22, 2005

Krulli Krullason er á leiðinni

Það ætti að vera óhætt að segja frá því núna en við eigum von á barni. Komin þrjá mánuði á leið. Það er búið að vera ansi erfitt að þegja yfir því undanfarið. Sérstaklega þegar maður er búinn að heyra um hina og þessa sem eru óléttir og langar svo að segja (eða æpa öllu heldur): Við líka!!
En þetta hefur gengið bara nokkuð vel. Svona frekar lítil ógleði miðað við það sem gengur og gerist en mikil þreyta sem er mjög vanalegt. Við fórum til ljósmóður fyrir nokkrum vikum og skömmu síðar í læknisskoðun en svo gerist ekkert fyrr en í byrjun júlí sem okkur finnst frekar óþægilegt. Maður vill fá staðfestingu á því að hún sé ennþá ólétt og allt eðlilegt. Það sést auðvitað ekkert á Hrafnhildi eins og er en við fundum smá kúlu um daginn. Það var eins og hún hefði gleypt egg í heilu lagi.
Ég er búinn að lesa nokkrar bækur og bæklinga og reyni að leggja mitt af mörkum því maður er með samviskubit að þurfa ekki að leggja á sig þetta líkamlega erfiði. Ég hef t.d. vaknað rétt fyrir sex á hverjum morgni til að gefa henni að borða. Það minnkar ógleðina sko. Annars er þetta dálítið óraunverulegt eins og er. Það er mjög skrýtið hvað Hrafnhildur er næm á alla lykt og finnur hana langt á undan öllum öðrum. Hún æpti í morgun: "Oj hvað það er mikil kúkafýla af Skrámi." Það var sama hvað ég þefaði, ég fann ekki neitt.
En jæja. Þetta er orðið opinbert og nú megið þið sem þegar vissuð segja öðrum. Merkilegt að báðar mömmur okkar eignist tvö fyrstu barnabörnin á sama ári. Að ógleymdum Afa Halldóri.

mánudagur, maí 16, 2005

Allt er þegar þrennt er

Þegar ég vaknaði í morgun hugsaði ég með mér: "Átti ég kannski að undirbúa eitthvað fyrir inntökuprófið í Uppsölum í kvöld?" Mig rámaði í að hafa séð einhvers staðar talað um einhver verk sem átti að stjórna og spila. Þá var bara að leita. Var það á heimasíðunni, tölvupósti eða á einhverjum pappírum. Ég fann það loks á umsóknareyðublöðunum og viti menn, þar stóðu tvö verk sem átti að undirbúa. Þegar ég las þetta á sínum tíma hélt ég ábyggilega að ég myndi fá þetta sent og svo var maður veikur og svoleiðis og var ekkert að pæla í þessu.
Ég fann verkið sem átti að spila í nótnabunkanum en hitt hafði ég aldrei heyrt um. Leitaði að því á netinu og fann það undir öðru heiti en forlagið átti það ekki á lager en sem betur fer var það til í tónlistarbúð inni í Stokkhólmi. Ég keypti það og stúderaði í lestinni. Þetta reyndist vera Adam átti syni sjö en allt önnur melódía en sú íslenska (eða danska) og svo var þetta mikil pólófónía og ólíkar taktegundir. Ég komst sem sagt aldrei í neitt hljóðfæri fram að prófinu og varð að reiða mig á tónheyrnarkunnáttuna en það gekk samt mjög vel. Ég stjórnaði sem sagt bara píanista og hann gleymdi meira að segja einni endurtekningunni og en sagði hann hefði áttað sig strax á því út frá hreyfingunum mínum og fannst það mjög gott.

Það borgar sig greinilega að vera dálítið kærulaus. Ég undirbjó mig mjög mikið fyrir hin prófin en komst ekki inn í Köben og var komin hálfa leið inn í Stokkhólm áður en ég hætti við og svo flaug ég inn í Uppsali eiginlega án þess að reyna. Þetta er eins og í fyrra þegar ég fór í þrjú atvinnuviðtöl. Ég lagði mig allan fram við það fyrsta, mætti vel klæddur, úthvíldur og reyndi að virka voða fagmannlegur en fékk ekki starfið (ég held reyndar að þeir hafi viljað konu sem hefur mikla reynslu af barnakórum og vön að takast á við félagsleg vandamál). Í hinum tveimur mætti ég frekar druslulega til fara, þreyttur eftir að hafa rifið mig upp kl. 5 um morguninn og keyrt í rúmlega 5 tíma og var mjög óformlegur í viðtölunum (sérstaklega því fyrr því ég var viss um að fá ekki starfið) en var boðnar báðar stöðurnar.

Það var mjög fallegt í Uppsala í dag. Það er allt svo snyritlegt, allir á hjólum og nánast engin bílaumferð í miðbænum. Skólahúsnæðið er líka frekar aðlaðandi og virðist vera góð aðstaða. Þetta er greinilega háskólabær því í mörgum búðum er tekið fram hversu mikinn stúdentaafslátt er gefinn.

sunnudagur, maí 08, 2005

Annar af tveimur orgelnemendum mínum spilaði í messunni í morgun og vakti mikla lukku. Hann komst líka inn í tónlistarmenntaskóla í Stokkhólmi næsta haust sem tekur inn 25 nemendur á ári, þar af bara 2 píanista.

Ég er að setja saman sönghóp með útvöldum söngvurum til að syngja á tónleikum í sumar en það gengur bölvanlega að finna æfingatíma þar sem allir geta. Ég er búinn að hringja og sms-a alveg ótrúlega oft. Held ég sé búinn að finna tíma en á eftir að fá staðfestingu frá einum. Svo á ég reyndar eftir að finna tónlist en það verður væntanlega auðveldara.

Við vorum að pína Skrám til að fara út en það var þvílík barátta. Hann er svo mikið músarhjarta. Á kvöldin er hann alveg æstur í að fara út, þ.e. þegar það er enginn umgangur en svona að degi til og þegar það er að okkar frumkvæði þá kemur það ekki til greina.

fimmtudagur, maí 05, 2005

KLAPPAÐI MEÐ EISTUNUM

Ég skrifaði þetta líka fína blogg á mánudagskvöldið um afmælisferð okkar hjónanna til Tallinn en sá svo daginn eftir að ekkert hafði sparast. Ég bendi á bloggfærslu Hrafnhildar. Ég get bara bætt við að við fórum á tónleika með baltneskri kammersveit sem spilaði Sibelius, Mozart og Mendelssohn undir stjórn Ashkenasy. Við klöppuðum og stöppuðum ákaft með Eistunum. Ég get alla vega sagt að innan borgarmúranna er Tallinn mjög fallegur miðaldabær en fyrir utan blasa við kommúnistablokkir, slitnar götur og hrörlegir sporvagnar.

Fór að vinna aftur á þriðjudaginn og er orðinn svo gott sem fullfrískur en má ekki fara í líkamsrækt í a.m.k. tvær vikur í viðbót. Það var rætt um prestana sem sóttu um. Af fimm sem sóttu um koma þrjár konur til greina. Mér finnst ein alveg tilvalin. Hún er akkúrat það sem söfnuðurinn þarf á að halda en meirihlutinn er ekki á þeirri skoðun. Þau eru hrædd um að hún sé of áköf og tali of mikið. Mér finnst stundum teknar lélegar ákvarðanir á þessum vinnustað og þetta er ein af þeim.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hverju á maður að trúa?

Ég fann þessa líka fína heimasíðu gagnauga.is þar sem maður getur hlaðið niður fullt af heimildarmyndum. Þetta hefur alveg bjargað mér í veikindafríinu. Ég horfði á þrjá BBC þætti um hræðsluáróður Neo-con mannanna sem nú eru aftur komnir til valda. Það var mjög merkilegt að sjá þá beita sömu rökum á 8. áratugnum og nú, sem sagt þegar Nixon gerði afvopnunarsamning við Sovét hélt Rumsfeld því fram að þeir væru að koma sér upp leynilegum vopnum. Og þegar CIA staðhæfði að heimildir þeirra bentu ekkert til þess þá sagði hann að einmitt þess vegna væri þetta svo alvarlegt, þetta væru svo fullkomin vopn að það væri ekki hægt að greina þau með hefðbundnum njósnaaðferðum. Markmið þessara manna er að hafa nógu stóran og mikinn óvin til þess að Bandaríkjamenn finni sig í því hlutverki að berjast við hið illa. Þeir ýktu ógnina af Sovétríkjunum svo stórlega að þeir voru farnir að trúa því sjálfir. Héldu því jafnvel fram að IRA, PLO og ETA væri hluti af þessu illa neti sem var stjórnað frá Moskvu.

Þegar Sovétið hrundi snéru þeir sér að Saddam og svo núna Alkaída. Því var haldið fram í þættinum að þau samtök voru í raun búin til í réttarhöldum út af árásinni í Naíróbí. Þar sem Bin Laden var ekki viðstaddur réttarhöldin var auðveldara að ákæra hann ef um samtök var að ræða, eins og gert er við mafíuforingja. Þetta eru ekki eins stór og fullkomin samtök og haldið hefur verið fram. Enda hafa þeir ekki getað handsamað neinn.

Í öðrum þætti var reynt að komast að hinu sanna varðandi 11 sept. Hvers vegna neituðu Bandarísk stjórnvöld að taka mark á skýrslum ísraelsku leyniþjónustunnar um að hryðjuverkahópar ætluðu að ræna flugvélum til að fljúga á fyrirfram ákveðin skotmörk.
Af hverju fóru engar herþotur í loftið þegar í ljós kom að búið var að ræna vélunum. Það er standard venja að senda þotur strax af stað þegar flugvél fer af leið en þær fengu að fljúga í 75 mínútur án þess að nokkuð yrði gert. Það hefur aldrei gerst áður að fjórum farþegavélum sé rænt samstundis og það er alveg stórkostleg tilviljun að eitthvað hafi klikkað í öllum fjórum tilvikunum. Það þarf bara forsetaleyfi til að skjóta niður flugvélar.
Af hverju voru stjórnvöld svona treg til að láta fara fram rannsókn á málinu. Eftir nánast öll stór slys þá hefur rannsókn hafist innan tveggja vikna en það tók eitt og hálft ár í þessu tilviki, og það var mjög skringilega að henni staðið og stjórnvöld drógu lappirnar.
Þetta kom líka á ansi heppilegum tíma fyrir Bush, hann var nýbyrjaður og gat ráðist inn í Afganistan án þess að nokkur mótmælti og Írak þrátt fyrir kröftug mótmæli því hann hafði stuðning fólksins síns. Svo gat hann breytt lögum sem færði yfirvöldum aukin völd yfir þegnunum sem flugu í gegnum þingið og hamrað á því að fólk þyrfti á honum að halda út af því að hann gæti varið það gegn óvininum. Það hefur líka komið í ljós að Neo-con liðið var búið að plana árás á Afganistan og Írak töluvert fyrir 11 sept.
Því var sem sagt haldið fram að Bush stjórnin hafi verið með í ráðum á einhvern hátt. Maður á erfitt með að trúa því að menn geti verið svona svakalega siðblindir. Þetta var borið saman við þegar Nasistar kveiktu í Reichstag skömmu fyrir þingkostningarnar 1933 og kenndu Kommúnistum um.