sunnudagur, maí 27, 2007

Við fórum að horfa á Dýrin í Hálsaskógi í Elliðaardal í dag. Það var barasta mjög skemmtilegt og ekki spillti frábært veður fyrir skemtuninni. Þetta verður sýnt alla miðvikudaga í sumar kl. 18 og maður leggur hjá rafveituheimilinu og fylgir bara skiltunum.

föstudagur, maí 25, 2007

Um síðustu helgi fórum við í bústað og á leiðinni hlustuðum við á Dýrin í Hálsaskógi að beiðni Ísaks. Hann kallar það "mamamei" af einhverjum ástæðum. En ég uppgötvaði nokkuð merkilegt á leiðinni. Hann heitir Hérastubbur bakari en ekki Héraðsstubbur. Ég komst merkilegt nokk að þessu í fyrra líka en náði að gleyma því í millitíðinni.
Svo komst ég að því að Lilli klifurmús er frekar sjálfumglaður karakter, samanber vísan hans:

Ein mús er best af öllum og músin það er ég.
Í heimi mús er engin slík hetja stórkostleg.
Ég geng um allan daginn og gítarinn minn slæ,
en svengi mig á stundum þá syng ég bara og hlæ.
Dúddilían dæ.

og þetta syngur hann fyrir martein skógarmús, sem er mús nóta bene.
"13. ágúst kl. 19.00 Skálholtsdómkirkja
Messa í h-moll BWV 232 eftir Johann Sebastian Bach

Mótettukór Hallgrímskirkju, sem nú fagnar 25 ára afmæli sínu flutti h-moll messuna 1998 í Skálholtsdómkirkju, sem enn er í minnum haft. Nú hljómar þetta stórvirki í fyrsta sinn í Skálholti með barokksveit.

Miðaverð: 4.900/3.600"

Þessi "fyrsta sinn" frasi er orðinn ansi þreyttur. 1998 hefur þetta væntanlega verið í frysta skipti í Skálholti. Hvað er hægt að segja núna... jú í fyrsta skipti í skálholti með barokksveit... og 4900 kr. Er ekki verið að djóka?

Ég fór á masterclass hjá Radulescu á miðvikudaginn. Þvílíkur viskubrunnur. Það vall upp úr honum spekin um Bach og hvernig bæri að túlka orgelverkin hans. Spilastíllinn hans er reyndar af gamla skólanum og algjörlega á skjön við það sem ég lærði í Svíþjóð en samt mjög flottur. Ég fór svo á tónleika í gærkvöldi þar sem hann stjórnaði tveimur kantötum eftir Bach, hann hafði reyndar lokið við aðra sjálfur. Eftirvæntingin var mikil og ég fór líka á æfingu til að fylgjast með vinnubrögðunum hans. Hljómsveitin og Kór Langholtskirkju hljómuðu yfirleitt mjög vel en prófessorinn olli vonbrigðum. Það klikkaði ansi mikið á tónleikum og það skrifast eiginlega allt á hann. Einu sinni duttu eiginlega allir út því slagið var svo óskýrt hjá honum. Hann flautaði meira að segja sólóið í staðinn fyrir óbóið. Það var frekar fyndið.

laugardagur, maí 12, 2007

Mér fannst nú ekki hægt annað en að ganga á kjörstað til að kjósa umhverfisstefnuna.
Svo fékk sonur minn fyrstu tónlistargagnrýnina sína í dag, bara eins og hálfs árs. Geri aðrir betur!

fimmtudagur, maí 10, 2007

og skoðið líka þetta.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Þetta finnst mér góð upprifjun, mæli með því að allir horfi á. Læt nú vera lokin á þessu myndskeiði, ég er að hugsa um að kjósa VG út af umhverfismálunum.
ég fór með bílinn í skoðun í morgun og bjóst við að fá einhverjar athugasemdir en svo rann hann bara í gegn athugasemdalaust. Það lá við að ég færi að þræta við manninn, ég var svo viss um að útblásturinn væri of mikill því hann er farinn að brenna olíu. Hann sagði bara að bílinn væri barasta í fínu formi.

mánudagur, maí 07, 2007

Hafi ég og konan mín virkilega náð að eyðileggja tónleikana fyrir einhverjum með því að taka Ísak með á tónleikana þá biðst ég velvirðingar á því. Þannig var nú mál með vexti að allir sem passa Ísak vanalega voru á þessum tonleikum eða út úr bænum og við ákváðum bara að taka hann með enda hefur hann áður mætt á nokkra tónleika og það hefur alltaf gengið vel. Hrafnhildur var alltaf tilbúinn að fara með hann fram ef hann var truflandi en að mínu og hennar mati var eiginlega ekki ástæða til þess. Mig minnir að hann hafi þrisvar gefið frá sér einhver hljóð sem heyrðust um kirkjuna og var það ekki á neinu viðkvæmu augnabliki. Hann var nú frammi megnið af tímanum sem Óttusöngvarnir voru fluttir. En hann náði að segja "Vá" þegar Sverrir lauk við eitt sólóið og svo klappaði hann á milli kafla en það heyrðist ekki. Að mínu mati var hann ekkert truflandi og það fannst engum í kringum mig. Ég var að reyna að veiða upp úr þeim í Fílharmóníunni sem mættu á tónleikana hvað þeim hefði fundist og þau voru mjög hissa að einhver skildi hafa kvartað yfir honum. Ég get alveg orðið pirraður yfir truflun á tónleikum, til að mynda grátandi barni sem ekki er farið með fram eða krakka sem fær að hlaupa um allt. Ég man einu sinni þegar ég fór í Óperuna í París að sjá Toscu og þar var maður sem hóstaði út í eitt og það fór alveg svakalega í taugarnar á mér því hann var greinilega ekkert að reyna að hylja hóstann. En ekkert af þessu átti við um Ísak. Það verður spennandi að heyra upptökuna. Ég er með það marga tónleika á ári að mér finnst ágætt að hann venjist því að vera á tónleikum. Þegar Fílan hefur verið með tónleika þá hafa þeir alltaf verið endurteknir og þá hefur verið hægt að koma honum í pössun en nú var bara um eina tónleika að ræða.
EF svona lagað fer virkilega í taugarnar á manni þá er best að benda kurteisislega á það, ekki hreyta í konuna mína: "Farðu út með barnið þarna!" og ekki predika yfir mér tíu mínútum eftir tónleikana með son minn í fanginu. Það fer bara öfugt í mann. Það er búið að eyðileggja fyrir mér þessa góðu tilfinningu sem ég hafði annars fyrir tónleikunum.
Ansi margir kennarar mínir hafa kennt mér að vera við öllu búinn á tónleikum og láta ekki setja sig út af laginu. Ég hef enda lent í ýmsu svæsnu á tónleikum og bara reynt að leiða það hjá mér og gert gott úr þessu. Þegar ég hélt píanótónleika í Svíþjóð fékk einn áheyrandinn flogakast, ég þurfti að stoppa í miðju lagi á meðan beðið var eftir sjúkrabíl, svo hélt ég bara áfram og reyndi að gera gott úr þessu. Í haust leið yfir eina í kórnum í tvígang og það var mjög óhugnalegt þar sem ég vissi ekki hvort hún væri dáinn. En svo varð ég að halda áfram að stjórna og láta þetta ekki hafa áhrif á mig. Þegar ég söng 9.sinfóníuna með Óperukórnum, tónleika sem voru teknir upp til að gefa út á plötu, þá var þroskaheftur maður í salnum sem klappaði hátt og snjallt á mínútu fresti. Þetta var vissulega truflandi en flestir ef ekki allir reyndu bara að leiða þetta hjá sér og sjá fegurðina í því að hann skuli tjá sig á þennan hátt.

sunnudagur, maí 06, 2007

Þá eru þessir langþráðu Hljómeykistónleikar búnir. Vonandi getum við endurtekið þá. Þetta var alveg æðislegt!!! Þvílíkt kikk! Heppnaðist best í dag. Kórinn var alveg æðislegur og hljóðfæraleikararnir spiluðu æðislega vel, sérstaklega Sigurður Halldórsson á selló.
Ísak mætti á tónleikana og sumir létu það fara í taugarnar á sér. Mér fannst hann hins vegar algjört æði, sérstaklega þegar hann sagði "vá!" eftir eitt sóló hjá Sverri Guðjóns. Hann klappaði á milli þátta og sagði í byrjun "Babba lalala og sveiflaði höndunum". Hvernig er hægt að láta svona fara í taugarnar á sér?

þriðjudagur, maí 01, 2007

Mæli með þessari heimildamynd um aðstandendur þeirra sem létust 11. september. Betri en margar aðrar um sama efni þar sem hún fellur ekki í þá gryfju að draga ályktanir um hvað hafi gerst í raun og veru. Þessi lítur bara á staðreyndirnar.