fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Styrktartónleikar

Styrktartónleikar Ragnar Emils verða haldnir í sal Flensborgarskólans þann 22. nóvember kl 17. Ragnar Emil er 18 mánaða gamall Hafnfirðingur sem greindist ungur með SMA 1, sem er tauga- og vöðvarýrnunarsjúkdómur. Þar sem að þetta er mjög alvarlegur sjúkdómur þarfnast fjölskylda Ragnars mikills stuðnings.
Fram koma Flensborgarkórinn, Kór Flensborgarskólans, Hljómeyki, Söngsveitin Fílharmónía, Kór Öldutúnsskóla, Kvennakór Öldutúnsskóla og Karlakórinn Þrestir.
Miðaverð: 2000 kr.
Forsala miða í Súfistanum Hafnarfirði og Súfistanum Reykjavík (IÐU-húsinu)

Ef fólk kemst ekki á tónleikana er því velkomið að leggja inn á söfnunarreikninginn
Rn 1158-26-1084
Kt.271084-2509

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

föstudagur, nóvember 14, 2008

JÓNSKVÖLD í Iðnó

Þriðjudaginn 18. nóvember 2008 kl. 20.00
Til heiðurs Jóni Ásgeirssyni, áttræðum!


Ótrúlegt en satt; flutt verða sjö lög eftir hann sem aldrei hafa heyrst opinberlega og að auki nokkur af hans ógleymanlegu lögum og útsetningum. Einnig gefst tónleikagestum færi á að taka undir í frábærum keðjusöngvum hans. Á efnisskrá eru útsetningar og kórlög eftir Jón Ásgeirsson,
m.a. verða frumflutt 3 lög hans við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur.
Heiðursgestir verða Jón Ásgeirsson og Vilborg Dagbjartsdóttir.
Aðgangseyrir kr. 1.500, stúdentar við Háskóla Íslands: kr. 500.-
Kaffihúsastemning við kertaljós og kórsöng!
Flytjendur:
Kvennakór við Háskóla Íslands, stjórnandi Margrét Bóasdóttir, Píanó Sólveig Anna Jónsdóttir.
Hljómeyki, stjórnandi Magnús Ragnarsson.

mánudagur, nóvember 03, 2008

Mikið er nú gott að þessi helgi sé liðin

Það gerist alltaf í kringum þetta leyti að það verður rosalega mikið um að vera hjá mér. Í fyrra var það viku seinna. Þá hugsa ég: Mikið hlakka ég til þegar sunnudagurinn er búinn. Þá er ég alla vega búinn að þessu öllu saman.
Mesta stressið var í kringum orgeltónleikana. Þó svo ég hafi leikið á orgel á ýmsum tónleikum undanfarin misseri þá hef ég ekki haldið heila orgeltónleika frá því ég starfaði í Nynäshamn. Svo er það böl organistans að maður getur ekki æft sig hvenær sem er á það hljóðfæri sem maður ætlar að leika á. En tónleikarnir gengu vel. Ég varð dálítið kaldur í höndunum í fyrstu verkunum og gerði nokkur mistök sem ég var alls ekki vanur að gera. Það hefur verið stressið. En svo hitnaði ég í þriðja verkinu. Aðsóknin var þokkaleg miðað við orgeltónleika, ca. 20-30 manns og þeir virtust frekar ánægðir.
Á laugardagskvöldið var mjög huggulegt matarkvöld Fílunnar, í gærmorgun var guðsþjónusta á Hrafnistu og svo fluttum við Requiem eftir Fauré í messu í Langholtskirkju. Ég hef haft þessa hugmynd í kollinum frá því ég bjó í Gautaborg og upplifði svona messu í Örgryte nya kyrka. Þetta heppnaðist mjög vel, tók um 70 mínútur og féll í mjög góðan jarðveg frá þeim sem ég heyrði. Kórinn hljómaði líka alveg ótrúlega vel. Rosalega þéttur og flottur hljómur. Svo höfðum við 20 mínútur til að bruna upp í Fossvog og flytja verkið aftur þar en slepptum að vísu 2. og 3. kaflanum því við höfðum ekki færi á að æfa þetta með orgelinu þar, auk þess sem kórinn stóð niðri á gólfi en Steini hetja spilaði uppi á orgellofti.
Í kvöld byrjar Hljómeyki að æfa Dixit dominus og fleiri verk eftir Händel og Kór Áskirkju undirbýr útgáfutónleika jóladiskins sem kemur vonandi út fyrir aðventuna... ef Guð lofar!