þriðjudagur, janúar 30, 2007
mánudagur, janúar 29, 2007
sunnudagur, janúar 28, 2007
laugardagur, janúar 27, 2007
föstudagur, janúar 26, 2007
Eyþór Eðvaldsson tók á móti okkur og sá um okkur allan tímann. Hann var formaður Fóstbræðra en flutti út fyrir tveimur árum og á Remax fyrirbærið í öllum Eystrasaltslöndunum og Finnlandi. Auk þess hefur hann keypt nokkrar fasteignir, gert þær upp og selt aftur á góðu verði. Hann var mjög flott klæddur þegar hann tók á móti okkur og keyrði okkur um Vilnius á nýjum Benz sem er ábyggilega flottasti bíllinn í Litháen. Ég held að forsetinn eigi ekki svona flottann bíl. Í græjunum hljómaði DVD upptaka af Fóstbræðrum og Bó með Sinfó í Dolby stereo og ég veit ekki hvað. Þegar við komum svo á þetta flotta hótel fannst mér eins og maður þyrfti að kaupa sér Boss jakkaföt hið fyrsta en við vorum bara í gallabuxum og peysu með bakpoka og í gönguskóm.
Svo hittum við Jurgitu (framkvæmdastjóra listahátíðarinnar) og prófessor Katkus (listræna stjórnandann). Við ræddum um praktísku atriðin og kíktum á tónleikastaðinn sem er nokkuð stórt útiport við málverkasafnið. Það verður spennandi því það var góður hljómburður. Svo var okkur boðið á skrifstofuna þar sem Jurgita tók fram Kampavín til að skála í. Við litum á klukkuna sem var hálf tólf (hálf tíu á Íslandi). Þá tók prófessorinn flöskuna aftur og kom í staðinn með koníaksflösku, skenkti okkur öllum, sagði isvergata og tæmdi glasið á tveimur sekúndum. Við fylgdum fordæmi hans. Svo skenkti hann þar til flaskan var tóm. Svo buðu þau okkur út að borða á írskum pöbb og heimtuðu að við drukkum litháískan bjór. Hann var nota bena að fara að æfa með hljóðfæraleikurum í hljómsveitinni.
Við kíktum á hótelið sem kórinn mun líklega gista á í sumar, hittum ræðismanninn sem ætlar að verða okkur innan handar með að ná kontakt við íslensku fyrirtækin í Litháen, fórum út á flugvöll og sóttum Davíð Ólafs bassasöngvara sem á nokkrar íbúðir með Eyþóri sem hafði hringt í hann daginn áður og sagt honum að koma sér til Vilnius til að skrifa undir þinglýsingar því það var kominn kaupandi. Svo var farið út að borða á mjög góðum veitingastað, við fjórir og kærastan hans Eyþórs. Forréttur, aðalréttur, fordrykkur, nokkur vínglös og koníak eftir á kostaði allt í allt 28 þúsund krónur. Eyþór hafði nýlega boðið fjölskyldu sinni út að borða á íslandi og það kostaði 70 þúsund.
Við skoðuðum íbúðina sem þeir voru að selja. Þetta var mjög flott 200 fm glæsiíbúð með gyllingum í loftinu. Þegar við komum í eldhúsið hittum við kráku sem hafði þvælst niður loftstokkinn og komst ekki út. Við opnuðum alla glugga en hún klessti bara á glerið fyrir ofan. Greyið flaug fram og til baka móð og másandi. Loks fengum við stiga og Davíð náði að grípa í stélið og henda henni út.
Í gær náðum við aðeins að kíkja í búðir, við erum reyndar ekkert sérstaklega áhugasamir um það en fyrst allt er svona ódýrt en samt vönduð og fín vara keypti ég sitt lítið að hverju á litlu fjölskylduna mína. Svo vorum við samferða Davíð heim sem mætti bara í jakkafötunum sínum til Vilnius (ekki kjólfötunum eins og maður er vanur að sjá hann) og með fartölvuna sína, engan annan farangur. Þetta var virkilega inspírerandi ferð og ég get ekki beðið eftir að koma aftur í sumar með kórinn.
fimmtudagur, janúar 11, 2007
Þetta er allt að skýrast með ferð Fílharmóníunnar til Litháen en ég og Einar Karl ætlum samt að fara þangað út í nokkra daga til að fá hlutina almennilega á hreint. Kórinn mun allavega flytja Carmina burana með hljómsveit þann 1 júlí á opnunartónleikum Listahátíðarinnar í Vilnius. Einsöngvarar verða þeir sömu og í haust og ég fæ að stjórna þessu öllu saman..... vúhúúúúú!!! Það verður toppurinn á mínum listræna ferli... allavega hingað til.
sunnudagur, janúar 07, 2007
fimmtudagur, janúar 04, 2007
Maður er svo stoltur af systur sinni
Undirrituð, sem yfirleitt situr við lestur jólabókanna á þessum helga degi, átti fullt í fangi með að halda einbeitingu við bókmenntirnar svo sterkt togaði útvarpið í athyglina.
Þátturinn var frábær heimild um það hvernig ungur tónlistarmaður, sem alinn er upp á hjara veraldar (og þar af leiðandi við allt annars konar aðgengi að tónlist en jafnaldri sem fæddist til að mynda í Vínarborg eða London), hleypir heimdraganum og nær að þroska sig sem listamann á heimsmælikvarða.
Arfleifð hans í íslenskri tónlistarsögu er að sama skapi merkileg og í raun undravert hversu mikið samtímafólk hér á landi á þessum frumherjum í íslensku menningarlífi að gjalda.
Þátturinn um Árna hét því skemmtilega nafni "Maðurinn er hann sjálfur", áminning um það m.a. að þrátt fyrir allt er hver og einn auðvitað sinnar eigin gæfu smiður.
Fríða Björk Ingvarsdóttir