þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ég þoli ekki Dani! Hleyptu mér ekki inn í skólann sinn og rétt svo merja okkur í handbolta, ekki í fyrsta skipti! Annars alveg ótrúlega spennandi leikur.

mánudagur, janúar 29, 2007

Tónleikarnir í kvöld voru einhverjir þeir óvenjulegustu sem ég hef stjórnað, en um leið mjög ánægjulegir. Það mættu fleiri en ég gerði ráð fyrir, ég bjóst við að það yrði mamma og svo kannski einn annar, t.d. konan Hans Úlfars. Svo var gott flæði á þessu. Það skiptust á slagverkskaflar, elektróník og svo kór. Frank stóð sig mjög vel á slagverkinu og spilaði svo með elektróníkinni. Stundum tók kórinn þátt í því en söng svo mjög vel í kórlögunum nema á einum stað þar sem hann tók ekki rétta tóna í byrjun og það leiðréttist ekki fyrr en eftir tvær blaðsíður. Það var dálítil synd því það var einmitt flottasta byrjunin. Við höfðum æft þetta tvisvar, þ.e. að taka tóninn bara út frá grunntóninum sem heyrðist í elektóníkinni áður, en í kvöld var eitthvað stress í gangi. Annars var ég mjög ánægður með kórinn MINN! Ég held það hafi ekki komið neinn gagnrýnandi í kvöld, sennilega af því að þetta er endurtekið prógramm frá því í sumar í Skálholti. Ég er alltaf að lenda í svona endurteknum tónleikaprógrömmum og fæ því sjaldan opinbera umfjöllun um stjórnendastörfin mín.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Minn er að fara að stjórna á tónleikum á morgun. Hljómeyki mun flytja verk eftir Úlfar Inga Haraldsson á Myrkum músíkdögum í Seltjarnarneskirkju kl. 20.00. Mjög falleg tónlist sem verður mjög vel flutt ;) Auk þess verður Úlfar sjálfur með raftónlist og Frank Aarnink leikur á slagverk. Forráðamenn Myrka músikdaga er ósköp lítið fyrir að kynna tónleikana sína þannig að ég geri ekki ráð fyrir mörgum.

laugardagur, janúar 27, 2007

Mjög góð Spaugstofa í kvöld.... aldrei þessu vant.

föstudagur, janúar 26, 2007

Ég og Einar Karl vorum að koma frá Litháen í gær, fórum á þriðjudaginn. Það var alveg rosalega gaman. Vilnius er mjög falleg borg og var kosin ódýrasta túristaborg Evrópu nýlega. Við gistum á alveg svakalega flottu 5 stjörnu hóteli með fyrsta flokks þjónustu. Ég varð áhyggjufullur því við erum þarna á vegum Fílharmóníunnar sem borgar alla ferðina og hugsaði að þetta hlyti að vera of dýrt, við hefðum alveg eins getað gist á hosteli. En tvær nætur fyrir okkur tvo í sitthvoru herberginu sem var frekar stórt með flottum morgunverði þar sem meðal annars var boðið upp á kampavín kostaði samtals 15.000 íslenskar krónur. Það er reyndar offseason og hljómsveitarfólkið úti pantaði fyrir okkur og er með mjög góðan samning við hótelið.

Eyþór Eðvaldsson tók á móti okkur og sá um okkur allan tímann. Hann var formaður Fóstbræðra en flutti út fyrir tveimur árum og á Remax fyrirbærið í öllum Eystrasaltslöndunum og Finnlandi. Auk þess hefur hann keypt nokkrar fasteignir, gert þær upp og selt aftur á góðu verði. Hann var mjög flott klæddur þegar hann tók á móti okkur og keyrði okkur um Vilnius á nýjum Benz sem er ábyggilega flottasti bíllinn í Litháen. Ég held að forsetinn eigi ekki svona flottann bíl. Í græjunum hljómaði DVD upptaka af Fóstbræðrum og Bó með Sinfó í Dolby stereo og ég veit ekki hvað. Þegar við komum svo á þetta flotta hótel fannst mér eins og maður þyrfti að kaupa sér Boss jakkaföt hið fyrsta en við vorum bara í gallabuxum og peysu með bakpoka og í gönguskóm.

Svo hittum við Jurgitu (framkvæmdastjóra listahátíðarinnar) og prófessor Katkus (listræna stjórnandann). Við ræddum um praktísku atriðin og kíktum á tónleikastaðinn sem er nokkuð stórt útiport við málverkasafnið. Það verður spennandi því það var góður hljómburður. Svo var okkur boðið á skrifstofuna þar sem Jurgita tók fram Kampavín til að skála í. Við litum á klukkuna sem var hálf tólf (hálf tíu á Íslandi). Þá tók prófessorinn flöskuna aftur og kom í staðinn með koníaksflösku, skenkti okkur öllum, sagði isvergata og tæmdi glasið á tveimur sekúndum. Við fylgdum fordæmi hans. Svo skenkti hann þar til flaskan var tóm. Svo buðu þau okkur út að borða á írskum pöbb og heimtuðu að við drukkum litháískan bjór. Hann var nota bena að fara að æfa með hljóðfæraleikurum í hljómsveitinni.

Við kíktum á hótelið sem kórinn mun líklega gista á í sumar, hittum ræðismanninn sem ætlar að verða okkur innan handar með að ná kontakt við íslensku fyrirtækin í Litháen, fórum út á flugvöll og sóttum Davíð Ólafs bassasöngvara sem á nokkrar íbúðir með Eyþóri sem hafði hringt í hann daginn áður og sagt honum að koma sér til Vilnius til að skrifa undir þinglýsingar því það var kominn kaupandi. Svo var farið út að borða á mjög góðum veitingastað, við fjórir og kærastan hans Eyþórs. Forréttur, aðalréttur, fordrykkur, nokkur vínglös og koníak eftir á kostaði allt í allt 28 þúsund krónur. Eyþór hafði nýlega boðið fjölskyldu sinni út að borða á íslandi og það kostaði 70 þúsund.

Við skoðuðum íbúðina sem þeir voru að selja. Þetta var mjög flott 200 fm glæsiíbúð með gyllingum í loftinu. Þegar við komum í eldhúsið hittum við kráku sem hafði þvælst niður loftstokkinn og komst ekki út. Við opnuðum alla glugga en hún klessti bara á glerið fyrir ofan. Greyið flaug fram og til baka móð og másandi. Loks fengum við stiga og Davíð náði að grípa í stélið og henda henni út.
Í gær náðum við aðeins að kíkja í búðir, við erum reyndar ekkert sérstaklega áhugasamir um það en fyrst allt er svona ódýrt en samt vönduð og fín vara keypti ég sitt lítið að hverju á litlu fjölskylduna mína. Svo vorum við samferða Davíð heim sem mætti bara í jakkafötunum sínum til Vilnius (ekki kjólfötunum eins og maður er vanur að sjá hann) og með fartölvuna sína, engan annan farangur. Þetta var virkilega inspírerandi ferð og ég get ekki beðið eftir að koma aftur í sumar með kórinn.
Ég fékk yfirlit frá einum banka í morgun þar sem stóð að ég ætti 167.000 kr. á sparireikningi. Ég hafði ekki hugmynd um það og hefði betur vitað það í fyrra þegar við keyptum íbúðina. Ég hringdi og spurði hvenær hann hefði verið stofnaður og þá var ég beðinn um fjögurra stafa leyninúmer, ég prufaði að gefa upp eitt sem ég nota stundum og það virkaði?!?!?! Þessi reikningur var stofnaður 2003 þegar ég bjó úti í Svíþjóð og var bara fátækur námsmaður að safna fyrir brúðkaupinu en það er ekki séns að ég hafi stofnað reikning á Íslandi þá sem var bundinn til fimm ára. Ég hlýt að hafa komið einhvern veginn að þessu fyrst leyninúmerið passaði. Ég fór samt um hér í fyrra og tæmdi og lokaði öllum reikningum sem ég átti nema tveimur. Ég skil ekkert í þessu. En alltaf gaman að fá óvæntan pening þó svo hann sé ekki laus alveg strax.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ég fór með Ísak í fyrsta Suzuki tímann í gær. Þetta er námskeið fyrir smábörn. Sum voru bara nokkra mánaða og önnur voru rúmlega tveggja ára. Það voru sungnir hreyfisöngvar og notuð ýmis hljóðfæri. Þetta var mjög súrealíst í byrjun þar sem enginn sagði orð heldur tók hvert tónlistaratriðið við af öðru. En Ísak virtist skemmta sér vel og þegar kom að því að spila á sílafóninn þá brilleraði litli Lionel Hamton minn, enda verið alveg óþreytandi að spila á það hljóðfæri hér heima.

Þetta er allt að skýrast með ferð Fílharmóníunnar til Litháen en ég og Einar Karl ætlum samt að fara þangað út í nokkra daga til að fá hlutina almennilega á hreint. Kórinn mun allavega flytja Carmina burana með hljómsveit þann 1 júlí á opnunartónleikum Listahátíðarinnar í Vilnius. Einsöngvarar verða þeir sömu og í haust og ég fæ að stjórna þessu öllu saman..... vúhúúúúú!!! Það verður toppurinn á mínum listræna ferli... allavega hingað til.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Við hjónin keyptum áskriftarkort í Þjóðleikhúsið ásamt Önnu Dögg og Sævar. Við fórum að sjá Stórfengleg í haust sem var vissulega oft fyndið en ansi metnaðarlaust leikrit. Í gær fórum við að sjá Bakkynjur og það er tvímælalaust leiðinlegasta leiksýning sem ég hef séð. Maður náði engu samhengi og átti mjög erfitt með að ná söguþræðinum. Ég veit í rauninni ekki hvort leikritið er gott en uppfærslan var alveg ferleg. Alltaf þegar einhver leikari var með mónólóg þá var annar með einhverja stæla annars staðar á sviðinu og maður átti fullt í fangi með að ná textanum. Flestir voru allsberir á einhverjum tímapuntki og svo voru konurnar ýmist öskrandi, dansandi eða rappandi. Það var bara hálfur salur en yfirleitt var einhver áhorfandi sofandi. Í hléinu fóru svo margir að kaupa sér leikskrá til að geta lesið um söguþráðinn. Við gengum út í hléi eftir að hafa setið undir þessu í klukkutíma og þrjú korter.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Maður er svo stoltur af systur sinni

Þetta birtist í Mogganum í dag

ÚTVARPSDAGSKRÁ RÚV yfir jól og áramót er yfirleitt með vandaðra móti. Henni fylgir undantekningarlaust hátíðarbragur og augljóslega vandað til vinnubragða við þá þætti sem heyrast þá fyrsta sinni. Það átti svo sannarlega við um þátt Elísabetar Indru Ragnarsdóttur um Árna Kristjánsson sem fluttur var á jóladag.

Undirrituð, sem yfirleitt situr við lestur jólabókanna á þessum helga degi, átti fullt í fangi með að halda einbeitingu við bókmenntirnar svo sterkt togaði útvarpið í athyglina.

Þátturinn var frábær heimild um það hvernig ungur tónlistarmaður, sem alinn er upp á hjara veraldar (og þar af leiðandi við allt annars konar aðgengi að tónlist en jafnaldri sem fæddist til að mynda í Vínarborg eða London), hleypir heimdraganum og nær að þroska sig sem listamann á heimsmælikvarða.

Arfleifð hans í íslenskri tónlistarsögu er að sama skapi merkileg og í raun undravert hversu mikið samtímafólk hér á landi á þessum frumherjum í íslensku menningarlífi að gjalda.

Þátturinn um Árna hét því skemmtilega nafni "Maðurinn er hann sjálfur", áminning um það m.a. að þrátt fyrir allt er hver og einn auðvitað sinnar eigin gæfu smiður.

Fríða Björk Ingvarsdóttir