laugardagur, júní 25, 2005

Midsommar

Við fórum í göngutúr í dag á milli þess sem við vorum að pakka niður og uppgötvuðum nátturupark bara nokkrum metrum frá okkur. Og við sem erum að flytja. Það er midsommar núna og skrítið hvað það verður alltaf hljótt í borgunum um þessa helgi. Það var ansi heitt í gær og ég byrjaði daginn á því að skokka úti í skógi þar sem það var lokað í líkamsræktinni, en það var svo heitt og loftlaust að maður var ansi langan tíma að jafna sig eftir á. Svo fengum við Ingibjörgu í heimsokn og grilluðum úti á grasi og það var ansi notalegt.
Það gengur bara ágætlega að pakka og tilkynna öllum fyrirtækjum um flutningana. Á morgun förum við til Frakklands til að vera við hjónavígslu Markúsar og Dóró á mánudaginn. Við erum voða spennt að sjá hvernig sú athöfn verður, ekki síst þar sem hún verður kaþólsk í miðaldakirkju. Ég ætla að syngja Maríukvæðið eftir Atla Heimi við texta Halldórs Laxness en það verður a-capella þar sem það er ekkert hljóðfæri í þessari kirkju. Svo förum við á rívíeruna í nokkra daga og komum svo á sunnudaginn, förum í sónar á mánud. flytjum á þriðjudaginn, fáum að hlusta á Krulla á fimmtudaginn og svo Ísland mánud. eftir tvær vikur. Sjáum til hvort við náum að kaupa bíl fyrir það.
Við erum búin að setja rosa fallega svarthvíta mynd af Jökli litla á skrifborðið í tölvunni og maður getur ekki annað en dást að honum. Hlökkum mikið til að koma heim og heilsa honum almennilega.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Glott!

Ég næ ekki glottinu af Hrafnhildi frænku. Ekki það ég hafi reynt mikið. Sjálfur er ég búinn að vera glottandi undanfarna daga því það er farið að sjást greinilega á minni. Það var tekin fyrsta bumbumyndin um daginn.

Ég hélt píanótónleika áðan sem gengu mjög vel. Það er reyndar búið að vera svo heitt í dag að fingrarnir voru ansi klístraðir og af þeim sökum missti ég af nokkrum nótum en ég held ekki að neinn hafi tekið eftir því.
Þetta voru fimmtu einleikstónleikarnir mínir síðan ég byrjaði og ferlið er alltaf eins. Nokkrum mánuðum áður ákveð ég ca. hvað ég ætla að spila. Nokkrum vikum áður fer ég að hafa áhyggjur af því að þetta sé ekki nógu mikið og fer því að æfa ný stykki. Svo tvo síðustu dagana átta ég mig á því að ég er með of langt prógram og þarf að taka eitthvað út. Svo síðustu klukkutímana fæ ég áhyggjur af því að enginn komi en svo kemur alltaf nógu mikið af fólki og þetta hefur alltaf heppnast vel hingað til.
Þessir píanótónleikar eru alltaf voðalega huggulegir og það er bara gaman að æfa upp þessi stykki sem maður spilaði síðast fyrir 10 árum og gaman að átta sig hvað manni hefur farið fram.
Ég vil óska Hjalta mági mínum og Völu til hamingju með soninn sem fæddist í morgun. Ég vissi að það yrði strákur.

laugardagur, júní 18, 2005

Hiti

Í nótt fuku sængurnar og við sváfum með sængurverin. Það er búið að vera ansi heitt undanfarna daga. Annars erum við að undirbúa flutninga og pökkum niður í kassa við og við. En við ætlum að notast við flutningafyrirtæki og það verður mikill munur. Við erum meira að segja svo praktísk að við reynum að nota sömu kassana frá því í haust með sömu merkingunum. Nú ætlum við að fara út að grilla.
Ha det bra og gleðilega þjóðhátíð um daginn.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Tveir yndislegir dagar

Í gær og í dag er búið að vera svo gott veður, sól og hiti. Það er nefnilega búið að vera svo kalt á sænskan mælikvarða undanfarnar vikur.
Mér tókst líka að fara í líkamsrækt fyrir vinnuna í gær. Mér hefur eiginlega aldrei tekist það áður.
Ég brillera alveg í vinnunni. Ég gerði auglýsingu í gær sem allir voru svo hrifnir af og svo gat ég gert við eina tölvuna.
Ég heyrði frá bróður mínum og þegar ég athugaði eftir á hversu lengi við höfðum talað saman þá reyndist það vera rúmlega 20 min. Gemsi í gemsa nota bene. Hvað ætli það hafi kostað hann. En hann úr búinn að vera veikur heima greyið undanfarna daga og svo var kærastan að fara til Spánar í morgun.
Ég er að lesa svo skemmtilega bók sem heitir Things my girlfriend and I have argued about eftir Mil Millington. Maður er buinn að hlæja upphátt í lestinni ansi oft.
Fékk tölvupóst frá Guðríði pianokennaranum minum sem benti mér á að sækja um sem stjórnandi Fílharmoníunnar og mér þótti mjög vænt um það. Það er náttúrlega fyrir haustið og við flytjum ekki heim fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Svo fékk ég annað skeyti frá formanninum í dag og það var ekki verra.
Ég er byrjaður með söngtíma fyrir starfsfólk og kórfélaga og það gengur mjög vel. Sumir eru ágætir á meðan aðrir kunna ekki neitt.
Við fengum endurgreitt frá skattinum og ættum því að geta keypt okkur bíl þegar við flytjum. Svo hafa verðbréfin sem ég keypti í vor snarhækkað undanfarna daga þannig að við ættum að geta notað þau plús það sem við leggjum til hliðar í haust plús hlutabréfin sem Pabbi keypti fyrir okkur börnin til að kaupa húsnæði þegar við flytjum heim.
Það voru allir ánægðir með tónleikana á sunnudaginn og við erum búin að ákveða að halda aðra slíka í haust. Þær í barnastarfinu voru reyndar pirraðar og mér fannst ég skynja það eftir tonleikana og í dag kom i ljós að þær voru óhressar með það sem annar presturinn sagði undir lokin. Ég held að þetta sé uppsafnaður pirringur hjá þeim. Ég og kollegi minn erum mjög ánægðir með hann, sérstaklega sem prest en ég hef tekið eftir því að þær vilja eiginlega að hann segi sem minnst þegar það eru t.d. fjölskylduguðsþjónustur.

sunnudagur, júní 05, 2005

Sjung, sjung, sätt hela kyrkan i gung

Við vorum með lokatónleika í dag þar sem allir kórarnir komu fram og svo var grillað eftir á. Þetta var voða gaman. Týpískt fyrir unglingakórinn að þau verða þreytt á lögum eftir að hafa sungið þau tvisvar en vildu allt í einu syngja fullt af aukalögum og gátu ekki beðið eftir að byrja í haust.
Svo fékk ég svaka gæsahúð þegar öll kirkjan söng nokkra sálma og ég spilaði full blast á orgelið. Erum að hugsa um að hafa þetta einu sinni á önn. Svo fékk ég rauðvínskörfu í gjöf frá kórnum. Hef ekki drukkið rauðvín í ansi margar vikur fyrst að Habbidur má ekki drekka neitt.

laugardagur, júní 04, 2005

Að vera hátíðlegur og stór!

Um daginn þurfti ég að spila Are you lonesome tonight sem inngöngutónlist við jarðarför. Þurfti að dúbbeltékka á hvort ég hefði lesið miðann rétt. Í kapellunni í kirkjugarðinum er digitalorgel og svona dægurlög hljóma alveg bærilega í því. Miklu betur en á alvöru orgelinu í kirkjunni. Og svo eru svo margar raddir á því að það er hægt að spila hvað sem er. Oftast er nefnilega bara lítið eins manúela orgel í svona kapellum sem virka ekki svo vel þegar maður er beðinn um að spila stór klassísk orgelstykki.

Um daginn sagði ég við sóknarprestinn að mér þætti svo fínt hvað hann og hinn presturinn eru ólíkir í sínum hlutverkum. Hinn er ansi frjálslegur og þessi er hátíðlegur. En þetta fór eitthvað illa í hann því orðið "högtidlig" hefur annan blæ hér í Svíþjóð en á Íslandi. Menn tengja þetta meir við gamaldags, formlegur og þess háttar, sérstaklega innan kirkjunnar, og það þykir ekki eftirsóknarverður eiginleiki um þessar mundir. Ég útskýrði fyrir honum að ég meinti þetta sem hól og hann skildi það en hefur svo alltaf spurt eftir hverja athöfn: Var þetta nógu "högtidligt" hjá mér? .... og svo glottir hann.

Við Hrafnhildur höfum líka lent í því að segja að einhver sé stór en það má ekki á sænsku. Það þýðir eiginlega að vera mikill um sig. Maður á að segja "lång". Það neiðarlega við þetta er að í báðum tilvikunum vorum við að tala um stelpur sem fyrir utan það að vera hávaxnar þá máttu þær við því að missa nokkur kíló.