miðvikudagur, maí 19, 2004

Nú ættu margir að gleðjast (sérstaklega þú, Jón Óskar). Það er búið að ákveða að hafa hringsvið og hljómsveitargryfju í tónlistarhúsinu þannig að það ætti að vera hægt að setja upp óperur þar. Ég vona bara svo innilega að þetta heppnist allt saman vel og að hljómburðurinn verði góður.

Ég er orðinn ansi þreyttur á konunni sem býr beint fyrir ofan okkur. Hún kemur við og við til að biðja okkur um greiða og hún talar svo mikið. Síðasta sumar hjálpaði ég henni að borga reikninga á netinu og hún tuðaði yfir mér allan tímann að hún yrði að gera þetta í dag því hún var að fara til Tyrklands daginn eftir og sagði sama hlutinn aftur og aftur. Núna kom hún til að spurja hvort hún mætti nota fyrsta hálftímann af þvottatímanum okkar. Eftir ca. 30 sekúndur sagði ég að það væri í lagi en henni tókst að tuða um þetta í 5 mínútur í viðbót, alltaf sama hlutinn, hvað þetta væri mikilvægt fyrir hana. Ég ítrekaði að þetta væri í fínu lagi en áfram hélt hún.

Mánudagurinn skiptist í þrennt.
Fyrst var það próf í impróviseruðu orgelspili sem ég æfði rosa mikið fyrir. Manni var úthlutað þremur sálmum sem maður átti að búa til forspil við og gera eitthvað skemmtilegt og gott við versin (þ.á.m. transponera, tríóspil og breyta hljómagangnum) og svo átti maður að búa til eftirspil í formi Partítu bygða á sálmi sem tilheyrði deginum. Þar sem þemað var aðventusálmar þá valdi ég Veni Emanuel (kom vor Imanúel) sem eftirspilsálm og var ansi stoltur af þeirri tónsmíð.
Prófið gekk svo vel og í gær komst ég að því að ég hefði náð sem kom mér svo sem ekkert á óvart en hitt var undarlegt að ég var sá eini í bekknum mínum sem náði. Einn fékk reyndar ekki að taka prófið vegna of mikillar fjarveru, ein ákvað að taka ekki prófið fyrr en í haust, einn féll og tvær féllu í sálmaspils hluta prófsins sem mér finnst mjög skrítið þar sem þær hafa báðar unnið sem kantor í mörg ár. Þetta er sérstaklega merkilegt þar sem ég var lélegastur í litúrgísku orgelspili þegar ég byrjaði í skólanum þar sem ég hafði bara spilað á orgel i tvö ár en hin með miklu meiri reynslu. Mig grunar helst að konurnar hafi fallið í tranponeringunni en ég féll einmitt í því í fyrra. Það var reyndar óvenju erfitt því þá þurfti maður að undirbúa 16 mismunandi tranponeringar og féllu óvenju margir í því.

Annar hluti dagsins fór í að fylgjast með fréttum frá Íslandi. Ég las alla fréttavefi og pólitískar greinar. Ég sá að Torfi frændi (hann er reyndar ekki frændi minn heldur Hrafnhildar en þar sem ég á ekkert skyldmenni sem heitir Torfi er ég að hugsa um að kalla hann það) skrifaði um það um daginn að honum þætti öll skrif sem hann las um þetta fjölmiðlamál svo illa skrifuð og engin rök færð fyrir öfgafullum skoðunum. Mig grunar að hann hafi verið að lesa spjallþræði sem eru oft ansi skelfilegir en ég get mælt með skodun.is þar sem safnað er saman ýmsum greinum frá hinum og þessum pólitísku vefsíðum. Mér finnst mjög áhugavert að lesa murinn.is, silfuregils og deiglan.com sem er í umsjá skólafélaga minna úr MR. Þar er fremstur í flokki Borgar Þór sem mér fannst alltaf öfgafullur sjálfstæðismaður en ég var alveg hissa hvað þessi vefur er málefnalegur og góður.

Síðasti hluta dagsins varði ég með Pro musica, síðasta kóræfingin mín. Það var ákveðið að taka upp nokkur kórverk sem við höfum sungið undanfarið. Sniðug hugmynd þar sem verkin sitja svo vel og ekki þarf að æfa sérstaklega en það voru bara allir svo óeinbeittir eftir að hafa verið í vinnunni allan daginn og svo var vor í loftinu og fólk eiginlega of glatt. Svo þurfti Jan alltaf að hlusta á upptökurnar á milli og það tók sinn tíma. Skiljanlega vill hann að þetta sé sem best en við náðum bara að taka upp þrjú lög, eitt frekar stutt en hin nokkuð lengri. Svo á að halda áfram í haust en þá verð ég nú varla með. Það var sem betur fer tekið upp stykkið þar sem ég syng nokkrar sólóstrófur og ég vona að hægt sé að nota það.

laugardagur, maí 15, 2004

Stenst ekki mátið að birta þessa litlu gamansögu sem finna má á bloggsíðu Stefáns Pálssonar:

"Súrrealíska móment dagsins er í boði Útvarps Sögu:

Ingvi Hrafn Jónsson: Og starfsfólk Norðurljósa lætur teyma sig. Þau eru leidd áfram, eins og maðurinn sem leiddi börnin...Hvað hét hann aftur? Þarna með flautuna, sem spilaði og öll börnin fylgdu á eftir...Æi, hvað hét hann eiginlega?"

Tæknimaðurinn: "Uhh, ertu að tala um Roger Whittaker?"

föstudagur, maí 14, 2004

Mikið ofboðslega er fyndið að heyra fréttaþulinn Vilhelm G. Kristinsson (með sinni hlutlausri röddu) segja í lok hádegisfrétta í dag: Formaður Vinstri grænna kallaði forsætisráðherra gungu og druslu. Fleira er ekki í fréttum."
Þetta er nú meiri sápuóperan. Hvað gerist eiginlega næst. Ætli Halldór rífist heiftarlega við Davíð sem endar með því að annar slái hinn utan undir og snúi sér svo að flöskunni. Eins og í Dallas
Það var umfjöllun um Dallas hérna um daginn og talað um að sósíalistar hefðu fagnað þáttunum og vissir um að þetta væri háðsmynd af kapítalistu samfélagi Bandaríkjanna og hápólitískt.

Nú er Habbidu í Falun með Önnu, Önnu og Jenny. Alla helgina. Það þýðir dáldið aðrar reglur á heimilinu á meðan. Þá er til að mynda í lagi að fá sér vöfflur og bjór í kvöldmat. Það er reyndar ýmislegt að gera. Það er próf á mánudaginn í impróvaseruðu orgelspili, orgeltónleikar á miðvikudaginn, kórferð til Skara á sunnudaginn þar sem á að syngja meðal annars messu eftir Poulenc sem er ferlega snúin en mjög flott. Svo þarf ég að ganga frá fullt af smáverkefnum og ganga frá atvinnuumsóknum til að senda í næstu viku. Þannig að það er um að gera að vera duglegur. Þess vegna er mjög gott að vera í tölvuleik megnið af deginum í dag.

Habbidu og Anna kynntu lokaverkefnið sitt í vikunni og stóðu sig með prýði. Það er naumast hvað þarf að vera námkvæmur og vísindalegur í svona skýrslu. Verkefnið fjallar um viðforf 10 ára barna við talörðugleika jafnaldra sinna. Ég náði að lesa ca. hálfa skýrsluna fyrir kynninguna og var hissa hvað þetta þurfti að vera nákvæmt. Þurfti að skilgreina hugtakið viðhorf fyrst, greina frá öllum fyrri rannsóknum og fjalla vísindalega um félagslegar aðstæður 10 ára barna. Svo voru andmælendur sem settu aðallega út á notkun kommu, uppröðun á heimildum og þannig.
Í eitt skipti var rökrætt hvort ætti að nota hugtakið fjórðu bekkingar, 10 ára börn eða jafnaldrar og urðu snögg orðaskipti sem mér fannst dáldið fyndið þ.a. ég hló með sjálfum mér (hélt ég) en það vildi þannig til að akkúrat á því augnabliki var dauðaþögn í salnum og ALLIR litu við og horfðu skringilega á þennan kærasta Hrafnhildar hlæja að þessari gagnrýni. En mér fannst samt fróðlegt að heyra að eftir þetta sköpuðust umræður hver þessara talmeinafræðinga yrði fyrst barnshafandi og var Hrafnhildur og Anna valin (ekki þessi Anna reyndar heldur hin). Þau hafa ábyggilega byggt það á þessum hlátri mínum ("... já hann virðist vera í góðu formi þessi...")

miðvikudagur, maí 05, 2004

Gat skeð!
Ég hringdi í Daniellu, konuna í Stokkhólmi sem ætlar að skipta við okkur á íbúðum. Hún er ekki búin að skila inn pappírunum til leigusalanna. Þeir þurfa nefnilega 4 til 6 vikur til að kanna málið. Ástæðan er sú að hún stendur í forræðisdeilu við fyrrverandi manninn sinn sem meinar henni að flytja með börnin þeirra frá Stokkhólmi. Hann er búinn að setja stopp á allt þetta íbúðaskiptaferli og dómstólarnir ætla að skera úr um þetta 29. maí. Vonandi að þeir dæma henni í vil og að við getum farið fram á flýtimeðferð hjá leigusölunum. Ég tók náttúrlega fram að mér þætti það leiðinlegt að hún þyrfti að standa í þessu öllu saman. En ég get ekki sagt að þetta sé skipulagðasta kona í heimi.

Um helgina fórum við Hrafnhildur í búðarleiðangur til að kaupa á mig afmælisföt. Við fundum nokkrar buxur til að máta og ég fór í mátunarklefan í herradeildinni. Þar voru allt strákar á mínum aldri að máta föt og kærusturnar stóðu fyrir utan og fylgdust grant með, yfirleitt með hurðina hálf opna þannig að öll búðin sá inn í klefann. Hrafnhildur hagaði sér mun betur en þessar kærustur og opnaði ekki fyrr en ég var búinn að hneppa endanlega að buxunum.
Ég fylgist spenntur með þessu fjölmiðlamáli á Íslandi og leita uppi allt sem hefur verið skrifað um þetta. Hér í Svíþjóð er ansi gott ríkissjónvarp sem sinnir menningarlegu og uppbyggilegu hlutverki og virkar vel með einkareknu sjónvarpsstöðvunum sem sýna mest megnis afþreyingarefni. Það sýnir oft mjög góðar heimildarmyndir og í fyrra sá ég meðal annars mynd um ástandið á Ítalíu þar sem Berlusconi ræður yfir nánast öllum einkareknum fjölmiðlunum og hefur beitt áhrifum sínum sem forsætisráðherra á ríkissjónvarpið þar. Það voru nefnd dæmi um að í Íraksstríðinu mætti ekki nota ákveðin neikvæð orð um stuðning ríkisstjórnarinnar við stríðið og einum fréttamanninum sem hafði unnið þarna í marga áratugi, var sagt upp störfum eftir að hafa fengið mann í viðtal sem gagnrýndi aðgerðir Berlusconi. Á Ítalíu eru í gildi fjölmiðlalög sem koma í veg fyrir að einn aðili geti átt of mikið í fjölmiðlunum en honum hefur tekist að brjóta gegn þessu og þrátt fyrir ítrekaðar áminningar dómstóla hefur ekkert gerst.

Eftir að hafa séð þennan þátt fannst mér ástæða til að setja lög um fjölmiðla á Íslandi en mér þætti alveg svakalega sorglegt ef það verður gert með þeim hætti sem Davíð vill gera nú. Þetta frumvarp er svo asnalegt að maður bara trúir því ekki. Svo hefur umræðan verið ofboðslega ómálefnaleg. Mér fannst ansi gott sem Gunnar Smári skrifaði í fréttablaðið í gær (þriðjudag):
Ef það er svo að fjölmiðlar ganga erinda eigenda sinna eins og Davíð og fleiri vilja meina þá tekur þetta frumvarp ekkert á því. Það er ekkert fjallað um innri starfsreglur og ekkert kemur í veg fyrir að einn og sami aðili geti átt alla einkarekna fjölmiðlana svo framarlega sem hann er ekki markaðsráðandi. Og ekkert sagt um dagblöð (þ.e. að markaðsráðandi aðilar mega áfram eiga hlut í Morgunblaðinu).

Ég var einnig gáttaður á því hvernig fjölmiðlar í Bandaríkjunum brugðust við pyntingarmálinu þegar það kom upp í síðustu viku. Fréttin kom fyrst fram í 60 mínútum en þeir höfðu beðið með að senda handa út í 2 vikur vegna þrýstings frá Pentagon. Og eftir það fjölluðu nær allir vestrænir fjölmiðilar um þetta nema Bandarískir. Tveir prófessorar í fjölmiðlafræði (sænskur og bandarískur) sögðu ástæðurnar vera tvær. Önnur sú að stjórnvöld hefðu það mikil áhrif á fjölmiðlana. Ef þeir birtu fréttina gætu þeir búist við stirðari samskiptum við stjórnvöld og misst af "scoop" frá þeim og þar af leiðandi misst áhorf. Hin ástæðan er sú að áhorfendur eru flestir svo þjóðernissinnaðir að svona neikvæðar fréttir um stríð sem er í gangi falla ekki í góðan jarðveg: áhorf minnkar, fyrirtæki draga úr stuðningi og draga auglýsingar til baka.
Svo er alltaf verið að tala um að Bandaríkin séu svo frjáls og lýðræðisleg!