sunnudagur, janúar 27, 2008

Vá! Eru þeir svona miklir húmoristar í Qatar?

föstudagur, janúar 25, 2008

Borgarstjórnin þarf kraftaverk til að hífa fylgið upp úr 25%. Þetta byrjar ekki vel. Það kostar borgarbúa 38 milljónir að hafa þrjá borgarstjóra og aðstoðarmenn þeirra á launum. 580 milljónir kostar að kaupa húsin við Laugaveg og ætli það kosti ekki annað eins að gera þau upp. Er þetta þessi trygga og örugga fjármálastjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn stærir sig af? Svo skipa þeir manneskju sem formann barnaverndarnefndar að henni forspurðri og hún neitar að gegna þessu embætti.

Svo er Mogginn er alveg í essinu sínu í leiðara sínum í dag.

"Í gær kallaði Samfylkingin fólk á áheyrendapalla Ráðhússins vegna kjörs nýs borgarstjóra á vegum nýs meirihluta í borgarstjórninni. Þeir áheyrendur, sem Samfylkingin kallaði til höfðu uppi hróp og köll og púuðu á nýjan borgarstjóra og aðra."

"Samfylkingin þolir bersýnilega ekki að missa völdin í borgarstjórn og bregst við með afar ógeðfelldum áróðri gegn Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra."

Þessi frétt um lyklaskiptin er líka alveg kostuleg.

"ÓLAFUR F. Magnússon tók við lyklavöldum borgarstjóra í ráðhúsinu af fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, eftir átakafund í borgarstjórn í gær. Þrátt fyrir að hitnað hafi í kolunum í borgarstjórn kom nýjum og fráfarandi borgarstjóra vel saman við lyklaskiptin og hrósaði Ólafur forvera sínum í hástert fyrir frammistöðu sína í embættinu. Sagðist Ólafur vonast til þess að hann og Dagur ynnu aftur saman í framtíðinni, þó svo að málum hafi lyktað svona að þessu sinni. Óskaði Dagur honum velfarnaðar í starfi."

Þessi lyklaskipti voru einstaklega kuldaleg. Dagur sagði ekkert nema gjörðu svo vel en Ólafur reyndi að sleikja hann upp. Þá sagði Dagur "gangi þér vel" og klappaði honum á olnbogann. Sjá hér.

Ég skrifaði svo langt svar á kommentakerfi Óttars að ég ákvað að birta það líka hér.

Kæri vinur.

Sem borgarbúi hef ég afskaplega lítil áhrif á stjórn borgarinnar. Ég get kosið á fjögurra ára fresti og á óljósan hátt raðast 15 fulltrúar í borgarstjórn. Átta þeirra geta myndað meirihluta en einn þeirra getur sltið samstarfinu og starfað með hinum sjö. Þetta hefur nú gerst í tvígang á kjörtímabilinu. Best finnst manni að sama stjórn sitji í fjögur ár en maður ætlast til þess að ef einhver einn ætlar að hlaupast undan merkjum þá hafi hann ríka ástæðu til og láti reyna á samstarfið til þrautar. Þegar Björn Ingi gerði þetta í haust var það mjög vafasamt. Þegar Ólafur F. gerði þetta í byrjun vikunnar var það fyrirvara- og ástæðulaust. Hann hafði ekki lagt sig fram við að láta samstarfið virka heldur setti allt í uppnám af því að það hentaði honum persónulega. Hann sveik og laug að samstarfsfólki sínu og setti stjórnkerfi borgarinnar í uppnám þegar það var varla búið að jafna sig eftir síðustu meirihlutaskipti. Nú er þessi maður orðinn borgarstjóri! Hann á ekki skilið að fá þetta embætti og það er alveg greinilegt á framkomu hans þessa viku að hann veldur því ekki!

Eftir síðustu kosningar var talað um að nú væri komið nýtt og ferskt fólk í borgarstjórn en mér finnst að allir borgarfulltrúarnir 15 ættu að skammast sín! Þeir hafa brugðist trausti borgarbúa og misnotað vald sitt. Björn Ingi hefndi sín á Sjálfstæðisflokknum í haust með aðstoð Don Alfredo og Sjálfstæðismenn hefndu sín á hinum með því að lokka og jafnvel blekkja veikasta hlekkinn með því að veifa borgarstjórastólnum fyrir framan hann og gera þetta embætti að skiptimynt. Þetta eru eins og leikskólakrakkar og eru búnir að draga pólitíkina niður í svaðið! Nú verða allir stjórnmálamenn svo paranoid því það er ekki hægt að treysta neinum. Ef þeir ætla að haga sér eins og leikskólakrakkar þá kemur almenningur fram við þá í samræmi við það. Ef þeir ætla að sýna lýðræðinu þvílíka vanvirðingu þá eru orð þeirra einskis virði þegar þeir saka aðra um ólýðræðislega framkomu.

Hvað getur maður gert þegar manni blöskrar svona. Það er hægt að ræða við aðra, skrifa um þetta á netinu og skrifa nafn sitt á mótmælalista sem er samt það ófullkominn að hver sem er getur skrifað hvern sem er á listann (meira að segja Jesús) en maður veit að þetta hefur lítil sem engin áhrif því stjórnmálamenn treysta á að flestir gleymi þessu í næstu kosningum og þessir tveir verðandi borgarstjórar hafa ekki manndóm í sér að taka við mótmælalistunum. En maður getur reynt að láta í ljós óánægju sína beint fyrir framan þá sem eru ábyrgir fyrir þessum ógjörningi. Ég hafði hug á að mæta á borgarstjórnarfundinn en komst ekki þar sem ég var að vinna. Sama á við marga sem ég þekki, þ.á.m. fólk sem hafði alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en gat ekki hugsað sér að gera það aftur. En ég þekkti líka nokkra sem komust og það er mjög ómaklegt að afskrifa þetta fólk sem menntaskólakrakka og meðlimi í ungliðahreyfingum fráfarandi meirihluta. Það kraumar mikil reiði hjá ansi mörgum Reykvíkingum enda eru þrír af hverjum fjórum á móti nýja meirihlutanum samkvæmt nýjustu skoðanakönnun.

Sjálfstæðisflokkurinn skaut sig svo illilega í fótinn með þessum gjörningi á mánudaginn. Þeir hefðu betur sleppt því og farið í næstu kosningar með nýjan oddvita og þá búnir að hreinsa sig af þessu Rei máli. Villi sýndi það í haust að hann er ekki góður borgarstjóri! Annað hvort er hann svona spilltur (ásamt Binga) að hann færir útvöldum aðilum Orkuveituna á silfurfati eða þá er hann ekki með á nótunum og man virkilega ekki neitt. Hvort tveggja er slæmt. Hann getur beðið afsökunar á þessu og viðurkennt mistök en hann er ekki hæfur sem borgarstjóri. Þessi meirilhlutamyndun er ekki gott dæmi um hæfni þessa manns. Hún er byggð á afskaplega hæpnum grunni enda þarf ekki mikið til að hún falli og þá er allt komið í uppnám enn einu sinni, þökk sé Villa og Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst miður þegar Sjálfstæðismenn geta ekki svarað gagnrýni um eigin misgjörðir á málefnalegan hátt heldur segja: "Sko... hinir eru ekkert betri... þeir gerðu þetta líka!"

Kæri æskuvinur. Ekki stunda þennan leik við mig!

Maggi

p.s. Sjálfstæðismenn eru búnir að búa til nýjan leiðtoga, Dag B. Eggertsson. Hann þótti ekkert spes fyrir síðustu kosningar, stóð sig ágætlega sem borgarstjóri en þegar hann missti það embætti komu alveg ofboðslega margir fram og lýstu yfir hvað hann hefði staðið sig frábærlega. Svo hefur hann svarað mjög vel fyrir sig og komið rosalega sterkur út úr þessu öllu saman. Sjálfstæðisflokkurinn á sennilega eftir að sjá eftir því í marga áratugi.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Hafi ég haft lítið álit á nýjum meirihluta í borginni í haust þá finnst mér þessi nýjasti alveg einstaklega ógæfulegur. Það er gaman að bera saman fréttamannafundina þar sem tilkynnt var um nýjan meirihluta. Dagur og félagar mættu sigri hrósandi á Tjarnarbakkanum og gengu eins og í Dressmann auglýsingu. Sjálfstæðismenn stóðu hálf skömmustulegir á Kjarvalstöðum fyrir framan hráan steinsteypuvegg og það bergmálaði allt í kringum þá.
Mér skilst að það hafi rétt náðst að forða einkavæðingu leikskólanna í haust en ég heyrði ekki betur í gær en að það væri sett aftur á dagskrá.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Plögg



Leikfélagið Hugleikur frumsýnir Útsýni eftir Júlíu Hannam í Möguleikhúsinu laugardaginn 19. janúar kl. 20. Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk sem er fyrsta leikrit höfundar í fullri lengd, en Júlía hefur skrifað sjö einþáttunga sem settir hafa verið á svið hjá Hugleik. Þeirra á meðal er Í öruggum heimi sem valin var besta sýningin á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu vorið 2006 af dómnefnd sem skipuð var Þorvaldi Þorsteinssyni og Þorsteini Bachmann.

Útsýni fjallar um samskipti tveggja hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.


Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.


Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll samin af félagsmönnum. Umfjöllunarefni leikritanna eru alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnararfinum, í sögu þjóðarinnar og gullaldarbókmenntunum, en viðfangsefni samtímans hafa á umliðnum misserum fengið aukið vægi. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins.


Hugleikur hlaut sérstaka viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember árið 2006 fyrir stuðning við íslenska tungu. Það sama ár gerði Reykjavíkurborg þriggja ára samstarfssamning við leikfélagið.


Útsýni er klukkustundarlöng sýning og leikin án hlés. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig bjóðum við hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sýningaplan og miðapantanir eru inni á www.hugleikur.is

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Er Mogginn hættur að birta tónleikagagnrýni? Ég hef ekki séð neina tónlistargagnrýni frá því fyrir jól. Það kom enginn gagnrýnandi á Hljómeykistónleikana og ég hef ekki séð neitt um Ísafoldartónleikana sem voru á sunnudeginum milli jóla og nýárs. Ætla þeir þegjandi og hljóðalaust að draga sig út úr þessu?

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Þetta er ekki einleikið

Þegar við fluttum til Svíþjóðar tókum við örbylgjuofninn hans pabba sáluga. Sá ofn var ágætur. Þegar við fluttum innan Stokkhólms þá fundum við ekki diskinn sem átti að vera í honum. Ég hafði komið honum fyrir á mjög sniðugum stað en mundi ómögulega hvar sá staður var. Við keyptum því nýjan ofn og viti menn... sama dag fundum við diskinn úr gamla ofninum. Ég hafði sett hann í nótnatöskuna mína. Við losuðum okkur við gamla ofninn en fljótlega kom í ljós að sá nýi var ekki nógu góður. Það tók hátt á fjórða mínútu að poppa! Við þurftum því alltaf að vakta popppokann og fannst þessi ofn alltaf frekar máttlítill. Í dag keyptum við fyrstu uppþvottavélina og hún var á svo góðum afslætti að ég keypti almennilegan örbylgjuofn í leiðinni. Sem ég er að taka hann upp úr kassanum tek ég eftir plastfilmu utan um hann sem maður á rífa af. Það er meira að segja límmiði ofan á honum sem tekur fram að þessa plastfilmu verði að fjarlægja áður en ofninn er notaður í fyrsta skipti. Ég hugsaði með mér: Er þetta ekki augljóst? Er virkilega til fólk sem er svo fljótfært að það taki ekki þessa filmu af. Svo set ég nýja ofninn upp og sem ég tek þann gamla niður tek ég eftir nákvæmlega eins límmiða á honum. Í tvö og hálft ár höfum við haft plastfilmu utan um örbylgjuofninn sem gæti verið ástæða þess að hann var svona kraflítill!

Hressir frændur í áramótapartýinu


Ísak og Ragnar Steinn skemmtu sér konunglega í áramótapartýinu hjá Konna frænda. Ísak biður mig oft um að segja sér sögu frá því. Hann varð reyndar mjög hræddur við flugeldana og vildi bara vera inni hjá Indru.

YYYEEESSSS!!!!!

Ísak er kominn inn á leikskóla! Loksins!
Hann fær að byrja á leikskóla KFUM á mánudaginn. Sem betur fer get ég verið heima í þessari viku og svo verið með honum í aðlögun í næstu viku. Leikskólinn er nálægt Áskirkju þannig að ég mæti bara snemma í vinnuna aldrei þessu vant. Ég var meira að segja að hugsa um að gerast svo snobbaður og fá mér líkamsræktarkort í Laugar. Mér finnst ómögulegt að keyra hann niðureftir og fara svo aftur upp í Orkuverið í Egilshöll þar sem ég hef haft kort í tæp tvö ár. Ég á aldrei eftir að nenna því. Ég get þá skiptst á að fara í ræktina og synda. Okkur líst mjög vel á þennan leikskóla, mun betur en þann sem er hérna við hliðina á okkur og Ísak er enn á biðlista á.