miðvikudagur, ágúst 20, 2008


Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn plummar sig vel. Hann hefur hlotið nafnið Mahler og ber nafn með rentu enda malar hann um leið og maður nálgast hann. Honum og Ísak semur vel að því leyti að sonur minn má gera hvað sem er við hann og kötturinn mótmælir ekki. Ísak vill helst þramma um alla íbúðina haldandi á kettlingnum eins og sést á myndinni og við erum alveg gáttuð á því að sá síðarnefndi láti bjóða sér þetta. Ísak er svona fantagóður við "litla barnið sitt", heldur þéttingsfast utan um hálsinn á honum og strýkur þannig að feldurinn fer næstum af honum.
Það koma ennþá gullkorn frá þeim tveggja ára. Í morgun var hann að tala um Súpermann af einhverjum ástæðum og ég spurði hvað hann gerði. Ísak svaraði: "Býr til súpu!"

föstudagur, ágúst 01, 2008


Við erum nýkomin úr vikudvöl frá Köben. Það var alveg æðislegt! Við vorum líka alveg einstaklega heppin með veður. Ísak og Ragnar Steinn voru alsælir með að hafa hvorn annan. Við vorum spurð hvort þeir væru tvíburar. Við fórum í Bakken, Tivoli, dýragarðinn, á ströndina og Louisiana safnið og allt var þetta æðislegt. Ég fór líka á kóraráðstefnuna og fékk mikið út úr henni. Ég hlustaði á fyrirlestur hjá Mäntyjärvi, umræður um hvernig eigi að setja saman tónleikaprógram, keypti nokkrar nótur og heyrði í EMO kórnum frá Finnlandi, kór frá Ghana, stúlknakór frá Stokkhólmi, kór frá Kúbu sem var æðislega skemmtilegur og frumflutning á djassmessu fyrir kór og djasskvartett. Hún fer á listann hjá mér.

Nú eru Hrafnhildur og Ísak farin á Mývatn á Gúmmískó-hátíðina og ég verð einn í bænum um helgina. Ísak er búinn að vera með hvert gullkornið á fætur öðru. Það er merkilegt hvaða orð hann pikkar upp. Um daginn vildi hann meina að allt væri "harla gott". Svo þóttist hann sprauta mig í handlegginn og sagði við mig að nú fengi ég ekki kíghósta. Nú er dúkkan sem sefur í litla rúminu í herberginu hans búin að fá nafn en hún heitir Amalgan. Úti í Köben þurftum við að setja Ísak í skammarkrókinn þar sem hann lét öllum illum látum. Á meðan stóð Ragnar Steinn frammi og horfði undrandi á okkur eins og hann kannaðist ekkert við svona hegðun og spurði svo hvar Ísak væri. Við sögðum að hann væri í skammarkróknum og þá sagði Ragnar Steinn: "Að hugsa sinn gang?"