föstudagur, apríl 30, 2004

Í dag er Valborgsmässa. Ég veit ekki alveg af hverju eða hvers vegna en dagurinn virkar eins og sumardagurinn fyrsti. Það fara allir út og hlusta á kóra syngja, setja upp stúdentshúfurnar sínar og ungmennin detta í það. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég stjórna ekki kórnum mínum sem ég hafði þangað til síðasta vor. Hins vegar var ég beðinn um að syngja með í karlakór sem var settur saman af nemendum skólans og við sungum af svölunum yfir kaffiteríunni. Nokkur dæmigerð karlakórsvorlög sem við æfðum tíu mínútum áður en við sungum. Sumt þekkti ég vel en annað hafði ég aldrei heyrt þó svo að þetta væri alveg klassískt. Svo var ég beðinn um að stjórna sem var dálítil kúnst þar sem maður þurfti að syngja um leið og lesa annan tenór prima vista og taka með allar fermötur, ritardandó, bindiboga og andanir sem eru orðnar hefð en standa ekki í nótunum. En kvenpeningnum í skólanum þótti þetta náttúrlega æðislegt enda ekki amalegar raddir.
Fyrir fyrstu Valborgsmässuna mína var talað um í kórnum hvort allir ættu ekki að hafa "studentmössa" sem ég vissi ekki alveg hvað var. Hélt helst að það væri svunta af einhverjum ástæðum. Þótti það frekar skrítið að maður skyldi hafa stúdentssvuntu. Mér datt kannski í hug að þetta væri eitthvað í sambandi við húsmæðraskóla en kórinn minn tilheyrði Verslunarháskólanum þannig að þetta meikaði engan sens. En svo kom í ljós að þetta þýðir stúdentshúfa. Þær eru mjög fjölbreyttar í útliti, oft með einhvern dúsk og ansi litríkar. Í fyrra gat ég verið með mína og þótti hún nokkuð merkileg. Sérstaklega þetta með að taka þetta hvíta af eftir eitt ár og svo er hún svona svört og drungaleg eftir það.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Á kóræfingunni í gær kom skoskur bassabásúnuleikari úr sinfóníunni til að kenna okkur framburðinn í verki eftir James McMillan við ljóð eftir Robert Burns. Hann komst í svo mikinn ham og fór að lesa fleiri ljóð eftir Robbie Beeeerns og hann las þau á SKOSKU (nota bene ekki geilísku heldur skosku). Maður skildi ekki orð. Svo tók ég eftir að það litu voða margir á mig. Þegar hann var búinn þá sögðu margir að þetta væri nú bara alveg eins og íslenska og spurðu hvort ég skildi þetta. Ég náði einu orði.... held ég... hann sagði einhvern tímann "september" en að öðru leiti.....hmmm. Þegar ég vann á Hótel Sögu áttum við öll erfiðast með að skilja Skotana af öllum þjóðernum, þó svo þeir töluðu ensku.
"Swewanfurdanæ"
"Sorry, Could you repeat that sir."
"Sewanfurdínæn"
"Once again sir."
"Sewanfurtínæn."
"????....uhm... Oh... Seven forty nine. Of course sir. Here you are"
"(That's what I've been saying.... you....)"
Hvað er með þetta fólk. Nennir það ekki að hreyfa munninn. Ég skil ekki hvernig þú ferð að því að búa þarna Torfi.
En fólki fannst þetta svona líkt íslensku. Það var eitthvað sem minnti á ð og þ hljóðin og svoleiðis. Ég kenndi nebblega kórnum íslensku síðustu jól þegar ég stjórnaði verki eftir Báru Grímsdóttur á jólatónleikunum.
Svo átti ég að sjá um karlana aftur í heilar 40 mínútur og átti bara að æfa eitt stykki. Ég sá ekki fram á að það myndi endast í svo langan tíma en svo var alveg nóg að gera og þeir sungu þetta svo undurfallega í lokin. Svo vildu þeir syngja "skógarvatnslagið" aftur því þeir sögðust ekki hafa hlegið svona vel og innilega í mörg ár. En það gafst því miður ekki tími til þess.

föstudagur, apríl 23, 2004

Ég er fórnarlamb betlara, skoðanakannanafólks og góðgerðarstofnanasafnara. Ég er alltaf stoppaður niðri í bæ. Fólk eltir mig út um allt. Hvað skoðanakannanir varðar þá passa ég oftast ekki inn í markhópinn. Ég er annað hvort of ungur, of gamall, án vinnu eða þá að ég drekk ekki kaffi. Í dag kom kona hlaupandi á eftir mér þegar ég var niðri í bæ (það var nota bene nokkur hundruð manns þarna) og þessi kona var alveg eins og óframfærna, mjóróma vinkona hennar Dörmu í þáttunum um Dörmu og Greg. Hún spurði hvaða morgunblöð ég les og við sögðum upp Göteborgsposten í haust og lesum helst netið og þá passaði ég ekki inn í könnunina. Svo er ég alltaf spurður til vegar. Líka í útlöndum þó svo ég sé nýkominn til borgarinnar. Það finnst mér reyndar allt í lagi. Gaman að maður lýtur ekki út fyrir að vera túristi.

Áðan var Júróvsjónþáttur í sjónvarpinu. Það voru sýnd 11 lög sem munu keppa í Istanbúl og það voru dómarar frá öllum Norðurlöndunum sem spáðu um gengi lagsins í keppninni. Frá Íslandi var Eiríkur Hauksson. Okkur Hrafnhildi fannst eins og þetta væri Laddi að herma eftir Eiríki Haukssyni. En hann var ansi góður. Talar svona fína norsku. Svo var Hrafnhildur svo ánægð að hann skyldi hafa losað sig við permanentið.

Nú er ég að fást við hljómsveitarverk eftir Brahms: Variasjónir yfir stef eftir Haydn. Eftir að hafa fengist við Bartok og fyrst og fremst Stravinski þá virkar þetta frekar einfalt. Stravinski er með svo flókinn rytma og mikið að gerast. En fyrir vikið þá gat kennarinn minn leyft sér að vera mjög smámunasamur. Það er svipað með hann og suma aðra kennara sem ég hef haft að hann verður á stundum dáldið þreyttur á mér vegna þess að ég hef svo ákveðnar skoðanir hvað varðar túlkun og það kemur æ oftar fyrir að ég er ósammála honum. Það er sama sagan með þá orgelkennara sem ég hef haft. Ég fæ stundum þennan svip: Æ, geturðu ekki bara spilað eins og ég!

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Þetta var einn af þessum dögum!
Ég þurfti að hafa mikið fyrir þvi að koma mér á fætur og drösla mér í skólann því ég þurfti að vera mættur þar klukkan hálf tíu (nei, ég er ekki að grínast... hálf tíu!). Ég ætlaði að fylgjast með tveimur orgelkennslustundum en þegar ég mætti var enginn þar. Það mætti enginn fyrr en eftir klukkutíma. Ég fór bara að æfa mig á orgelið í staðinn. Ég ætla að spila á það á útskriftartónleikunum og það er mjög ásetið. En einu sinni sem oftar var eitthvað að. Núna var það að tvístrikaða c á aðalmanúalnum lá niðri og hljómaði ekki neitt. Það var rosalega truflandi. Til að þið skiljið hvað ég þurfti að ganga i gegnum ætla ég að skrifa það sem eftir er af greininni án þess að nota ð.
Svo hófst næsta kennslustund og þeim nemanda fannst óge slega óþægilegt a hafa ekkert C. Hún var líka a spila stykki í C-dúr. Svo hringdi Jan (stjórnandakennari minn) og þegar ég var búinn a tala vi hann í tæpa mínútu dó batteríi í símanum mínum. Þetta er í þri ja skipti sem síminn deyr hjá mér í mi ju samtali vi hann. Tvisvar dó rafhla an og einu sinni var inneignin búin. Og alltaf skal samtali rofna þegar hann er í mi ri ræ u og hann fattar ekkert fyrr en eftir langa mæ u a hann hefur ekkert heyrt frá mér. Vi þyrftum a koma okkur upp einhvers konar systemi þannig a ma ur gefi frá sér hljó á fimm sekúndna fresti.
Svo þurfti ég a gera munnlega og skriflega gagnrýni um þýska kennslubók í orgelimpróvisasjón (bókin var nóta bene á þýsku). En í þeim í tíma þá var tíminn útrunninn á ur en kom a mér því a ein bekkjarsystir mín þurfti a tala svo miki um suzukiorgel kennslufræ ina. Hún er tæplega fimmtug og er ein af þessum konum í háskólalífinu sem þarf svo miki a tala og láta ljós sitt skína. En tíminn var sem betur fer framlengdur um hálftíma og ég gat komi þessari gagnrýni frá mér.
Svo var ég alltaf a rekast á orgelnemann minn. Vi hittumst ca 5 sinnum á göngum skólans. Fyrst var þetta: "Hej, hej." Næst: "Hej igen." Svo: "Hej, he, he. Þú veist. Alltaf að hittast." Og svo framvegis.
Svo mætti ekki söngnemandinn minn. Hann sem er alltaf svo stundvís og samviskusamur. Og þegar ég kom heim og setti símann í hle slu heyr i ég tvenn skilabo frá honum þar sem hann sag ist ekki geta komist. Var me kvef. Týpískt hann. Haf i hringt tvisvar til a vera viss um a ég hef i fengi skilabo in.

(Nú skal ég hætta að ekki skrifa ð. Þið eruð búin að þjást nógu mikið. Munið bara að ég gat ekkert gert að þessu vandamáli með c-ið). Það voru nú nokkrir skemmtilegir punktar við daginn. Karin (orgelkennarinn minn) bað mig um að leysa sig af á orgeltónleikum í Hagakirkjunni 19. maí þegar hún er í Austuríki að vígja orgel mannsins síns. Svo vildi Hrafnhildur hafa Pizzukvöld (yfirleitt er það ég sem sting upp á því). Það gæti legið í því að ég átti að sjá um matinn og var búinn að lýsa því yfir að það yrðu afgangar og svoleiðis.
Karlakórsæfingin á mánudaginn gekk vel. Við höfðum fimm lög og áttum að velja nokkur til að flytja á vortónleikunum. Þrjú af þeim voru týpísk karlakórslög sem okkur tókst að gera mjög vel, eitt var tangó lag sem mönnum þótti ekki henta og svo var eitt lag sem var dáldið flókin tónsmíð. En það gekk ekki því þegar við komum að síðasta taktinum voru allir flyssandi. Við reyndum aftur og þá voru allir með tárin rennandi niður kinnarnar. Við sáum ekki fram á að geta flutt lagið án þess að hlæja. Þetta var rosalega hátíðleg og alvarleg tónlist en textinn var víst: Vaknaðu litla skógarvatn... litla skógarvatn. Já vakna, vakna, vatn, þú skóóógarvatn. Svo voru menn raulandi þetta það sem eftir lifði af kvöldinu.

laugardagur, apríl 17, 2004

Það er einhver undarleg árátta hér í Svíþjóð að skammstafa allt. Það er svosem líka skammstafað að vissu leyti á Íslandi, það er t.d. alltaf talað um MR og FB en í blöðunum er yfirleitt notaður allur titillinn fyrst og svo skammstafað það sem eftir er greinarinnar. Hér er t.a.m. alltaf talað um LO í blöðunum og fréttunum og ég hef aldrei heyrt hvað það stendur fyrir. Ég veit að þetta er starfsgreinasambandið eða e-ð svoleiðis. Þegar ég spyr fólk Í skólanum hvað það sé að gera segjast sumir vera í ML. Og þegar ég spyr hvað það sé þá er svarið: Það er gamla GG, svona ca. KK og IE. Það segir mér bara ekki neitt. Nú veit ég reyndar að ML þýðir Musiklärare.

Í dag hringdi Oskar kunningi minn og spurði hvort ég vildi koma með sér á OD í Konserthuset. Hvað á maður að trúa að það sé? Ég hélt kannski að það væri eitthvað íþróttalið. En þetta reyndist vera karlakórinn Orphei Drängar sem er einn af bestu karlakórum heims. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðna fordóma gagnvart karlakórum. Það er mjög erfitt að fá þá til að syngja hreint og þar sem raddlegan liggur svo hátt og fyrir 1. tenór og lágt fyrir 2. bassa verður þetta oft ansi mikil öskur í toppnum og skruðningar í botninum. En OD syngja fallega, mjúkt og eins og einn maður þrátt fyrir að þeir séu 80 kallar á öllum aldri (frá 20 til rúmlega 60). Svo var efniskráin mjög metnaðarfull og oft ansi flott. Frekar óvenjuleg fyrir karlakór en þeir geta leyft sér þetta þar sem þeir troðfylltu 1200 manna salinn (það var búið að vera uppselt í marga mánuði). Eftir síðasta lagið undu þeir sér ansi fljótt í aukalögin og tóku fjögur svona týpísk vorlög. það var reyndar ansi týpískt karlakór. Maður var varla byrjaður að klappa þegar þeir tóku næsta aukalag.

Það var skemmtileg tilviljun að Oskar skildi hafa hringt í mig því bara rétt áður hafði ég fengið nótur að nokkrum karlakórslögum sem ég á að æfa með Pro musica á mánudaginn á meðan Jan æfir konurnar í verki eftir Villa Lobos. Það verður spennandi að vita hvort maður nái að láta þá syngja eitthvað í líkingu við OD.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Ég byrjaði daginn á því að horfa á myndband af talfærunum. Það var læknir sem stakk þræði með myndavél á endanum upp í nefið á sér þannig að maður gat séð raddböndin í aksjón. Mjög áhugavert. Ég hét því að ræskja mig aldrei framar eftir að hafa séð hvernig þetta afmyndast allt saman við þá athöfn.
Ég fór líka á hádegistónleika með orgelkennaranum mínum. Hún spilaði í tónleikaröð sem er búin að vera í allan vetur með tónlist Bachs í nýju ljósi. Hún improviseraði í kringum fjóra orgelkórala úr Orgelbuchlein ásamt slagverksleikara. Ég verð nú bara að viðurkenna það að þetta voru óvenjulegastu orgeltónleikar sem ég hef sótt. Stundum var þetta voða spennandi og flott og stundum ekki og stundum alls ekki. Í fjórða og síðasta verkinu þá stóð einn gamall maður upp, greip skjalatöskuna sína og strunsaði út um leið og hann hristi hausinn. Mér þótti það bara tilheyra sérstaklega af því að í gær sagði kennarinn mér að hún hefði spilað verk eftir Ligeti sem byggir á því að organistinn spilar stóra hljóma eftir nótunum og registrantinn impróviserar á tökkunum, t.d. hálfútdregnir takkar, engir takka o.s.frv. (ég hef einu sinni registrerað fyrir hana í þessu sama verki). En á þessum tónleikum kom gamall maður til hennar eftir á og sagði hvað honum þætti þetta frábært og samtímis var annar gamall maður sem hundskammaði prestinn fyrir að leyfa að þetta væri spilað í kirkjunni.

mánudagur, apríl 12, 2004

Úff. Hvernig er hægt að borða svona mikið. Ég er ennþá ekki búinn að jafna mig eftir allt súkkulaðið, svínabóginn og ég veit ekki hvað. Eyjó kom til okkar og kenndi mér að hanna vefsíðu. Hann vildi meina að þetta væri ekkert mál en það þarf að gera ansi mikið bara til að birta eina setningu. Þetta venst ábyggilega. Ég byrjaði aðeins að kynna mér þetta í gær og þetta er voða spennandi. Málið er bara að fikta nógu mikið og þannig lærir maður best. Það er ágætt að kunna þetta upp á framtíðina að gera.

Ég þurfti að fara í skólann í dag. Var í söngtíma. Söngkennarinn minn lifir fyrir kennsluna nú þegar hann er hættur að syngja opinberlega og fannst alveg ómögulegt að sleppa úr kennslu þessa vikuna (því ég á að vera í söngtímum á mánudögum). Svo þegar Lars (organistinn í Oscar Fredriks kirkjunni) hringdi í mig og bað mig um að leysa sig af í messu í dag fannst honum það frekar léleg afsökun að ég þyrfti að vera í söngtíma. Ég ætti kannski að útvega vottvorð frá söngkennaranum og sýna Lars.

Mér tókst líka að æfa mig alveg heilmikið á orgelið í dag. Ég hafði samband við Hallgrímskirkju um daginn og fæ að spila á tónleikaröðinni þar í lok júlí og Erla Elín sem sér um þetta vildi helst að maður spilaði eitthvað íslenskt. Þannig að ég fór í gegnum þær íslensku orgelnótur sem ég er með en verð nú bara að segja það að þar var ósköp lítið sem höfðaði til mín. Gunnar Reynir Sveinsson er nú reyndar fínn. Ég hef spilað eitt verk eftir hann (Tilbrigði við Jesú mín morgunstjarna) og svo fann ég í dag Tilbrigði við Nú vil ég enn í nafni þínu og það var bara fínt. En hin verkin voru annað hvort frekar ómerkileg, augljósar kópíeringar af einhverju öðru eða framúrstefnu tilraunastíll (sami tónn spilaður 32 sinnum og svoleiðis). Ég hugsaði með mér að ég gæti sennilega gert betur sjálfur og þá hugsaði ég aftur: "Já, ég get ábyggilega gert betur sjálfur." Þannig að ég ætla að reyna það. Semja sjálfur fyrir þessa tónleika. Það flokkast náttúrlega undir íslenska tónlist. Ég var að hugsa um að nota hollenska sálminn "Þú mikli Guð" að einhverju leyti sem ég hef alltaf haldið upp á.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Gleðilega páska eða "Påskemorgen slut i sorgen" eins og sagt er í fjölskyldunni minni.
Það er ekki gert eins mikið úr páskahátíðinni og aðdraganda hennar eins og á Íslandi. Skírdagur er til að mynda ekki frí dagur hér og svo skjóta menn bara upp flugeldum strax á laugardeginum. Svo var ég að tékka á sjónvarpsdagskránni og það er eiginlega ekkert trúarlegt þar. Það er bara sjónvarpsmessa (sem er hvort eð er á hverjum sunnudegi). Það bara sýnt "búningamyndir", annars vegar mynd um frumflutning 3. sinfóníu Beethovens og hins vegar Amistad. Mér finnst svona "búningamyndir" alveg ferlega leiðinlegar. Það er allir svo uppteknir af því að vera í gömlum 18. aldar fötum og tala öðruvísi, m.ö.o. ofboðslega tilgerðarlegt!

Það er nú annað en við Hrafnhildur sem höldum upp á páskana með því að borða svínasteik með puru og súkkulaðipáskaegg sem er náttúrlega í beinum tengslum við upprisu Frelsarans út af því að ..... ehhhh..... hérna....... jáááá...... hann bauð lærisveinunum upp á ommilettu þegar þeir voru búnir að fatta að hann var upprisinn? Eða eitthvað þannig.
Nei þetta hefur auðvitað ekkert með kristindóminn að gera. Þetta eru leifar af frjósemishátíðinni. Ég var mjög hissa þegar ég byrjaði í kirkjutónlistarnáminu að heyra hvað það eru mikið af málamiðlunum í kristindómnum. Þetta er allt meira eða minna slegið saman í eitt við hinar hefðirnar (úr Gyðingdómnum og heiðninni).

föstudagur, apríl 09, 2004

Já þetta var nú góður Simpsons þáttur. Reyndar voru þeir tveir.
Var að koma heim eftir að hafa spilað á tónleikum í Oscar Fredriks kirkjunni. Það gekk svaka vel, alla vega af minni hálfu. Kórinn átti það til að vera dáldið undir tóni við og við. Svo spilaði ég stykki eftir Liszt sem ég hef ekki spilað síðan á vorprófinu í fyrra. Hrafnhildur var á tökkunum og stóð sig mjög vel. Það var síður en svo auðvelt. Hún stóð sig meira að segja betur en organisti kirkjunnar sem var á hægri hliðinni. Hann gleymdi nebblega að setja inn einn takka sem ég tók sem betur fer eftir og gat leiðrétt. Merkilegt hvað reyndir og færir organistar veigra sér við að vera svona registrant. Þessi saup kveljur þegar ég bað hann, orgelkennarinn minn vill helst ekki registrera og Hans Davidsson orgelprófessor sem hefur verið með Masterclass í skólanum sagðist vera alveg afleitur í þessu.

laugardagur, apríl 03, 2004

Jamm og já.
Í dag tókst mér að fara út með Skrám. Honum finnst voða gaman að vera úti en ekki að fara út. Það er mikil barátta maður þarf því miður að reyna að gabba hann en hann er farinn að þekkja brögðin og felur sig undir sófa eða rúmi. Það er svo fínn skógur bara 30 metrum frá útidyrunum sem honum finnst voða gaman að skoða.
Nú verð ég að gera smá hlé til að horfa á nýjan Simpsonsþátt.