fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Á morgun er ég að fara að stjórna Hljómeyki í upptökum á tveimur lögum sem Mugison samdi fyrir "Mýrina". Hann sendi mér sms í gærkvöldi og spurði hvort hann mætti ekki hringja í mig í dag. Ég fór náttúrlega strax að hugsa hvað hann gæti viljað segja við mig. Hann vill ábyggilega skipta um stjórnanda. Hann er búinn að tala við einhvern í kórnum og finnst ég túlka þetta alveg vitlaust. Ábyggilega hundfúll yfir að ég sé búinn að gera smá breytingar á laginu.
Svo hringdi hann í dag og spurði hvernig ég hefði það, hvernig kórinn hefði það, hvort það væri ekki allir í stuði og ég beið eftir að hann kæmi sér að efninu. Svo spurði hann hvort við værum ekki í stuði fyrir morgundaginn. Þar með var símtalinu lokið.
Maður heldur oft að svona þekktir einstaklingar séu svo hrokafullir og sjálfumglaðir en ég hef aldrei talað við ljúfari mann í símann.

Það var nú annað í kvöld. Ég sat til borðs með sjö karlkyns prestum sem voru ansi góðir með sig og voru alltaf að skjóta á mig fyrir að vera organisti.
Nýji raddþjálfarinn hjá Fílunni er barasta þrælfínn. Það er hún Margrét Sigurðardóttir. Mér sýnist fólk vera líka mjög ánægt með hana. Ég er allavega sáttur. Við tókum smá leiklistaræfingar í kvöld og það skilaði strax árangri í söngnum, enda er Carmina burana mjög leikrænt verk.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Fyrsta Hljómeykisæfingin var í kvöld. Það gerðist það sama og á fyrstu Fílharmóníuæfingunni, ég ætlaði að komast yfir miklu meira efni. Í kvöld stafaði það af því að við þurftum að æfa nýtt kórverk sem á að taka upp á föstudaginn. Þetta er fyrir kvikmyndina Mýrina. Svo var það að til að byrja með voru voða fáir og fólk var að tínast inn eitt og eitt í heilan klukkutíma. Svo fór dágóður tími í að ræða um tónleikadagsetningar.
Það verður aukaæfing á þriðjudaginn því það vantaði nokkra í kvöld og þá ætti ég að geta farið hraðar yfir sögu. Það á að rifja upp tónleikaprógram frá í vor til að fara með austur á Eiðar í lok september. En þetta leggst annars voða vel í mig.
Svo byrjar Fílharmónían á morgun og þá kemur nýr raddþjálfari í prufu. Vona að það gangi vel. Sá leggst voða vel í mig.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Glöggir blogglesendur hafa kannski þegar komist að því að ég er orðinn stjórnandi Hljómeykis. Þá er ég búinn að ráða mig á 5 mismunandi staði. Ég gat bara ekki hafnað þessu. Nú er hægt að taka fyrir ýmis verk sem mann er búið að dreyma um að stjórna, t.d. Poulenc, Rautavaara, Tormis, McMillan sem ekki er hægt að gera með hvaða kór sem er.
Ég er sem sagt í 75% stöðu organista í Breiðholtskirkju, 25% stöðu í Langholtskirkju sem stjórnandi drengjakórsins, ca. 25% sem píanókennari (er að reyna að minnka það eitthvað), stjórna Fílharmóníunni og Hljómeyki.
Þessi briljantlausn sem ég uppgötvaði um daginn var að láta Fílharmóníuna sjá um messusönginn í Breiðholti. Með því slæ ég þrjár flugur í einu höggi. Fíluna vantar pening í ferðasjóð, Breiðholtskirkju vantar kirkjukór þar sem forveri minn rak kórinn og tókst ekki að byggja upp nýjan kór að neinu ráði og ég losna við að hafa enn eina kóræfinguna. Þar sem Fílharmónían er frekar fjölmenn þarf hver og einn kórmeðlimur ekki að mæta oft yfir veturinn.

Símafyrirtæki eru umboðsmenn djöfulsins

Sjá færslu Hrafnhildar um þetta málefni.
Við fengum sundurliðun á símreikningnum. Sum símtalana áttu sér stað þegar við vorum ekki einu sinni í bænum og mörg númerin könnuðumst við ekkert við. Eitt var reyndar mjög skrítið. Það var hringt þrisvar í útfararstofuna á Akranesi. Það er nú eitthvað sem ég gæti hafa gert þar sem ég er organisti en ég er alveg viss um að hafa ekki gert það..... eða gerði ég það kannski? Eru símafyrirtæki Norðurlanda endanlega búin að gera út af við mig. Er ég orðin geðklofa. Býr einhver annar karakter í mér sem fær geðveikt kikk út úr því að hringja í þessi númer. Best að hringja í Bernótus skiptstjóra. Múhahaha.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ég var dálítið áhyggjufullur þegar ég fór að sofa í gær. Ekkert alvarlegt en ég stóð frammi fyrir ákveðnu vandamáli sem ég þurfti að finna lausn á og átti því erfitt með að sofna. En svo datt mér í hug lausn sem var svo briljant en um leið svo einföld og sjálfsögð að ég var hissa að mér hafði ekki dottið hana í hug fyrr. Ég var svo ánægður með þetta að ég átti ennþá erfiðara með að sofna.
Við ætlum að skreppa út úr bænum í bústað í dag og komum aftur á fimmtudaginn. Bara að breyta um landslag í smá stund áður en vetrartörnin byrjar.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Ég skrifaði undir samninginn í dag við Breiðholtskirkju í dag. Það var smá karp um frí um helgar yfir veturinn en mér tókst að lokum að fá það inn í samninginn. Þau vildu jafnvel fá inn í samninginn að það ætti að haga helgarfríinu þannig að Bjartur sé örugglega í fríi þannig að hann geti leyst af. Alltaf þegar einhver minntist á kjarasamning organista þá var sóknarpresturinn, sem einnig er prófast, fljótur að leiðrétta og kallaði það viðmiðunarplagg. Organistafélagið fór nefnilega í mál við sóknarnefndina fyrir að ráða ómenntaðan mann fram yfir nokkra menntaða organista fyrir tveimur árum en prófasturinn vildi meina að það væri enginn samningur í gildi.

Ég fór svo á tónleika með Kammersveitinni Ísafold í kvöld og var mjög ánægður. Þeir voru í Listasafni Íslands sem er bara hinn fínasti tónleikasalur. Þar var náttúrlega tónlistarelítan mætt.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Það var bara voða gaman á óperutónleikunum á Klambratúni í gær, skemmtileg stemmning og gaman að svona sé hægt að gera á Íslandi. Að vísu var hljóðið ekki upp á sitt besta og aríurnar komu misvel út. Svo er ég orðinn ansi þreyttur á því þegar óperusöngvarar ákveða að sprella eitthvað á sviðinu eins og Kristinn og Ólafur Kjartan gerðu í lokin. Það er alltaf boða barnalegur húmor og fer bara í taugarnar á mér. Við vorum þarna fjölskyldan ásamt móðurafa og ömmu Ísaks, Sollu og dætrum og svo komu Indra og fjölskylda og amma mús ásamt Hlö. Svo var rölt niður að Sæbraut og horft á flugeldasýninguna sem var flott. En það hefði verið betra að láta hana byrja ca. 20 mín. seinna og það er áhrifameira að standa beint undir flugeldunum. Ísak vissi ekkert hvað um var að vera. Hann er alltaf sofnaður klukkan átta í rúminu sínu en núna var hann í kerrunni og var bara alls ekkert til í að fara að sofa þegar svona mikið var um að vera.
Í dag hefst svo barnaafmælistörnin. Það verða þrjá sunnudaga í röð.
Á morgun á Indra afmæli og svo fer ég líka að semja við Breiðholtskirkju um organistastarfið sem ég er að fara að taka að mér þar. Ég er dálítið hjátrúarfullur og hef því ekkert viljað tala um þá umsókn. Ég var nokkuð vongóður um að fá starfið í Lindasókn, sérstaklega af því það var búið að hafa samband við mig áður en starfið var auglýst, en svo fékk ég það bara ekki. Ég græti það reyndar ekkert sérstaklega en varð móðgaður að þeir skyldu ráða ómenntaðan mann fram yfir mig sem er með mastersgráðu í faginu.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Þá er námskeiðið búið. Ég held þeir mæti allir í inntökuprófið. Við enduðum í keilu. Fengum sérstaka barnabraut þannig að kúlan gat ekki lent í rennunni. Ég átti erfitt með að leyna hlátri mínum þegar þeir tóku kúluna og hentu henni með þvílíkum tilþrifum og svaka dynki og svo silaðist hún á 3 km hraða og tók heila eilífð að ná keilunum. Samt náðu þeir stundum að fella allt að 9 keilur.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Við Harpa heyrðum greinilegan mun á söngnum hjá strákunum í morgun. Þeir eru líka farnir að kunna þó nokkur lög. Ég er líka búinn að finna nokkur ráð til að fá einbeitingu aftur eftir að við erum búnir að leika okkur. Einn vaknar ennþá klukkan þrjú á nóttunni af spenningi. Honum fannst líka alveg glatað að þurfa að vera í skólanum í næstu viku því þá gæti hann ekki verið á kóræfingu.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006



Þetta er mjög óhugnanlegt. Sérstaklega með tilliti til þess að við bræðurnir vorum í þessum íshelli á nákvæmlega sama tíma fyrir viku.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Bévítans vesen. Búinn að fá alveg fullt af ruslkommentum. Bættist við hverja einustu færslu alveg aftur í aprílfærslurnar. Mikil handavinna að eyða öllu þessu. Varð því miður að taka upp öryggisventil þar sem þeir sem kommenta þurfa að staðfesta hvaða orð þeir sjá.
Drengjunum finnst allavega mjög gaman á námskeiðinu. Einn vaknaði klukkan þrjú í nótt og spurði hvort það væri ekki kominn tími til að fara á námskeiðið. Endum svo vikuna með því að fara í keilu. Svo verður inntökupróf fyrsta mánudaginn í september og fyrsta æfingin laugardaginn eftir það.

Annars ætlaði ég að æfa mig á orgelið í dag en það er ekki hægt að hanga inni í svona veðri, sérstaklega þegar maður á svona fínan pall.

mánudagur, ágúst 14, 2006


Það var nú alveg meiriháttar að ganga Laugaveginn. Við vorum alltaf að stoppa til að "úúaaa" og "vááaa" yfir litunum í náttúrinni. Við tókum þetta á fjórum dögum og gátum tekið nokkra útúrdúra til að skoða íshelli og Markarfljótsgljúfur. Við kynntumst líka nokkrum útlendingum, sérstaklega síðasta kvöldið, það myndaðist mjög skemmtileg stemmning í skálanum. Ég var líka mjög ánægður hvernig við pökkuðum. Við tókum akkúrat nógu mikið af fötum og mat en eftirá að hyggja var þessi heila viskýflaska úr gleri ekkert mjög skynsamleg. Enda gáfum við með okkur síðasta kvöldið. Næsta ár verður það svo Hornstrandir með mömmu og kannski maður fari einhverjar styttri göngur eins og Fimmvörðuháls.

Námskeiðið fyrir drengina hófst í morgun og stendur fram á föstudag. Ég hafði mestar áhyggjur af því að finna upp á leikjum fyrir þá því það er nú ekki hægt að láta þá syngja í þrjá tíma. Ég hafði engar áhyggjur af lagavali. En þegar á reyndi var þetta akkúrat öfugt. Það var ekkert mál að finna afþreyingu en erfiðara að finna lög sem pössuðu. Við þurftum reyndar að æfa inni í kirkju því það var verið að vinna í andyri safnaðarheimilsins sem þýddi að það var ekki hægt að komast í æfingasalinn og of mikill hávaði til að vera í safnaðarsalnum. En þeir voru voða áhugasamir þegar ég sýndi þeim hvernig píanóið fúnkerar og á morgun vildu þeir kynnast orgelinu.

Svo var hringt í mig áðan og mér boðin organistastaða. Reyndar á Eskifirði en hún var voða spennandi því þetta var líka menningarfulltrúi staðarins og ágætis samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Svo voru launin góð. En þá væri alveg eins hægt að búa áfram í Svíjóð eins og að vera á Austfjörðum.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Í dag erum við hjónin búin að vera gift í tvö ár. Við höfum búið saman í fimm ár, verið par í átta ár og þekkst í tíu ár. En fyrst núna segir hún mér að hún vilji að klósettrúllan snúi fram þegar hún hangir á veggnum.
Við ætlum út að borða í kvöld en svo er ég að fara að ganga Laugaveginn með Gunnari á morgun fram á föstudag. Vona svo innilega að það verði gott veður.
Í næstu viku verð ég með söngnámskeið í Langholtskirkju fyrir hádegi frá mánudegi til föstudags fyrir drengi frá sjö ára aldri. Þetta er undirbúningur fyrir Drengjakórinn. Það verður kórsöngur, raddþjálfun og svo leikir. Látið endilega vita ef þið vitið um einhvern strák sem væri efnilegur.