fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hverju á maður að trúa?

Ég fann þessa líka fína heimasíðu gagnauga.is þar sem maður getur hlaðið niður fullt af heimildarmyndum. Þetta hefur alveg bjargað mér í veikindafríinu. Ég horfði á þrjá BBC þætti um hræðsluáróður Neo-con mannanna sem nú eru aftur komnir til valda. Það var mjög merkilegt að sjá þá beita sömu rökum á 8. áratugnum og nú, sem sagt þegar Nixon gerði afvopnunarsamning við Sovét hélt Rumsfeld því fram að þeir væru að koma sér upp leynilegum vopnum. Og þegar CIA staðhæfði að heimildir þeirra bentu ekkert til þess þá sagði hann að einmitt þess vegna væri þetta svo alvarlegt, þetta væru svo fullkomin vopn að það væri ekki hægt að greina þau með hefðbundnum njósnaaðferðum. Markmið þessara manna er að hafa nógu stóran og mikinn óvin til þess að Bandaríkjamenn finni sig í því hlutverki að berjast við hið illa. Þeir ýktu ógnina af Sovétríkjunum svo stórlega að þeir voru farnir að trúa því sjálfir. Héldu því jafnvel fram að IRA, PLO og ETA væri hluti af þessu illa neti sem var stjórnað frá Moskvu.

Þegar Sovétið hrundi snéru þeir sér að Saddam og svo núna Alkaída. Því var haldið fram í þættinum að þau samtök voru í raun búin til í réttarhöldum út af árásinni í Naíróbí. Þar sem Bin Laden var ekki viðstaddur réttarhöldin var auðveldara að ákæra hann ef um samtök var að ræða, eins og gert er við mafíuforingja. Þetta eru ekki eins stór og fullkomin samtök og haldið hefur verið fram. Enda hafa þeir ekki getað handsamað neinn.

Í öðrum þætti var reynt að komast að hinu sanna varðandi 11 sept. Hvers vegna neituðu Bandarísk stjórnvöld að taka mark á skýrslum ísraelsku leyniþjónustunnar um að hryðjuverkahópar ætluðu að ræna flugvélum til að fljúga á fyrirfram ákveðin skotmörk.
Af hverju fóru engar herþotur í loftið þegar í ljós kom að búið var að ræna vélunum. Það er standard venja að senda þotur strax af stað þegar flugvél fer af leið en þær fengu að fljúga í 75 mínútur án þess að nokkuð yrði gert. Það hefur aldrei gerst áður að fjórum farþegavélum sé rænt samstundis og það er alveg stórkostleg tilviljun að eitthvað hafi klikkað í öllum fjórum tilvikunum. Það þarf bara forsetaleyfi til að skjóta niður flugvélar.
Af hverju voru stjórnvöld svona treg til að láta fara fram rannsókn á málinu. Eftir nánast öll stór slys þá hefur rannsókn hafist innan tveggja vikna en það tók eitt og hálft ár í þessu tilviki, og það var mjög skringilega að henni staðið og stjórnvöld drógu lappirnar.
Þetta kom líka á ansi heppilegum tíma fyrir Bush, hann var nýbyrjaður og gat ráðist inn í Afganistan án þess að nokkur mótmælti og Írak þrátt fyrir kröftug mótmæli því hann hafði stuðning fólksins síns. Svo gat hann breytt lögum sem færði yfirvöldum aukin völd yfir þegnunum sem flugu í gegnum þingið og hamrað á því að fólk þyrfti á honum að halda út af því að hann gæti varið það gegn óvininum. Það hefur líka komið í ljós að Neo-con liðið var búið að plana árás á Afganistan og Írak töluvert fyrir 11 sept.
Því var sem sagt haldið fram að Bush stjórnin hafi verið með í ráðum á einhvern hátt. Maður á erfitt með að trúa því að menn geti verið svona svakalega siðblindir. Þetta var borið saman við þegar Nasistar kveiktu í Reichstag skömmu fyrir þingkostningarnar 1933 og kenndu Kommúnistum um.

föstudagur, apríl 22, 2005

Óperuaðdáandinn

Ég og Skrámur kúrum upp í sófa að horfa á Toscu á DVD sem Mamma kom með um daginn. Ansi góð útgáfa með einum af uppáhaldssöngvaranum mínum, Ruggero Raimondi, sem syngur Scarpia og er alveg fanta góður leikari. Hann minnir mig svo mikið á F Murray Abraham sem leikur Sallieri í Amadeus. Svipaðir andlitsdrættir.
Þegar Tosca byrjaði að syngja aríuna sína, "vissi d'arte", stóð Skrámur skyndilega upp og starði á skjáinn. Svo færði hann sig sem næst sjónvarpinu og hallaði höfðinu undir flatt og var þannig þangað til arían var búin. Þá fékk hann sér að borða.

Það var lán í óláni hvað þetta gerðist hratt í fyrradag. Ég var alveg stálsleginn á þriðjudaginn og fann ekki fyrir neinu. Um morguninn leið mér hálf illa, reyndi að ganga þetta af mér og hugsaði um allar ófrisku konurnar sem maður þekkir núna og hvaða aumingjaskapur þetta væri að þola ekki smá meltingatruflanir á meðan þær þurfa að ganga í gegnum stórkostlegar breytingar á líkamanum.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Þetta er búinn að vera ansi viðburðarríkur sólarhringur. Ég vaknaði í gærmorgun og leið skringilega í maganum, hélt að þetta væru meltangatruflanir. Fór af stað í vinnuna en leið svo illa í lestinni að ég sneri við og tilkynnti mig veikan. Fór á heilsugæsluna hérna og læknirinn þar sendi mig á sjúkrahúsið til að athuga hvort þetta gæti verið botnlangabólga. Á leiðinni í leigubílnum var ég farinn að gráta af sársauka. Og í móttökunni á bráðamóttökunni lenti ég auðvitað á eftir Tyrkjum sem voru alveg viss um að það væri verið að mismuna þeim og þegar loks kom að mér þá tók afgreiðslukonan sér góðan tíma til að ganga almennilega frá öllum pappírum á meðan ég engdist þarna sundur og saman. Svo þurfti ég að bíða í annan hálftíma og var sagt að ég fengi ekki verkjastillandi fyrr en ég væri búinn að hitta lækninn. Eftir ca. klukkutíma fékk ég þessi líka fínu lyf og leið miklu betur. Eftir nokkar skoðanir voru menn vissir um að ég þurfti að fara í uppskurð.
Ég fór í aðgerðina rétt fyrir miðnætti og hún gekk vel. Dáldið fyndið þegar þeir segjast hafa gefið manni svæfinguna. Ég fann ekki fyrir neinu og man svo ekki neitt fyrr en ég vaknaði á gjörgæslunni. ég man ekki einu sinni eftir að hafa sofnað. Í dag leið mér svo bara ágætlega og starfsfólkið alveg hissa hvað mér fór mikið fram þannig að ég mátti bara fara heim eftir hádegi. Þau sögðu líka að ég væri á týpískum aldri fyrir þetta að gerast. Núna er ég í tveggja vikna leyfi frá vinnunni. Það þykir víst ekkert sniðugt að spila á orgel með svona skurð.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Það er búð hérna í Stokkhólmi, ég held hún selji gleraugu, sem heitir FCUK og ég veit ekki hvort ég er svona mikill perri en ég les þetta alltaf öðruvísi þegar ég geng fram hjá henni.

Svíarnir voru í skýjunum eftir Íslandsferðina. Ég er búin að skoða Moggan á hverjum degi en það virðist ekki vera nein gagnrýni um tónleikana þeirra. Við erum að æfa alveg svakalega strembið prógram núna sem ég hef aldrei sungið áður. Það eru tónleikar eftir mánuð og eins og oft áður sé ég ekki fram á að við náum að gera þetta vel en viti menn... þegar að því kemur stendur kórinn sig þrusu vel.

Ferlega var gaman að sjá í sjónvarpinu þegar hvíti reykurinn kom, klukkurnar byrjuðu að hringja og viðbrögð fólksins.

P.s. Þóra, ég vona að þú hafir ekki samviskubit út af bókinni. Ég var náttúrlega bara að grínast.

mánudagur, apríl 18, 2005

Í gær vorum við með djassmessu með bandi og öllu. Það var voða gaman og tókst vel. Hrafnhildi þótti reyndar sum lögin ansi löng og ég er dálítið á því líka. En það er nokkuð öðruvísi að stjórna svona djass. Þetta voru aðallega lög eftir Ellington. Við vorum með nýjar útsetningar en þurftum að breyta ýmsu á síðustu stundu. Ég var búinn að vara kórinn við þessu og þau voru sem betur fer mjög vel með á nótunum og komu alltaf rétt inn. Enda sagði bandið að af öllum þeim kórum sem þeir höfðu unnið með þá hefði þessi verið best undirbúinn. Mér fannst nú ekki leiðinlegt að heyra það.

Í messunni fyrr um daginn fékk ég þrjár fermingarstelpur til að syngja tvö lög sem fara reyndar bæði upp á f''. En við höfðum hist tvisvar sinnum til að æfa og ég kenndi þeim ýmislegt í tækni og stuðning. Í seinna skiptið heyrði ég greinilegan mun á þeim og fannst það alveg æðislegt en þær voru ekkert smá erfiðar. Ég þurfti alltaf að peppa þær upp. Fyrst fannst þeim þetta svo hátt, og svo þegar ég var búinn að kenna þeim rétta tækni og þær gátu sungið tóninn þá fannst þeim þær ekki geta opnað röddina nógu vel og vildu hætta við annað lagið. Ég stakk upp á að við gætum sleppt síðasta erindinu sem fór ansi hátt en þá var það ekki tekið til greina og þær vildu allt í einu syngja það allt. Í messunni sungu þær vel og voru held ég nokkuð ánægðar eftir á.

föstudagur, apríl 15, 2005

Er búið að setja eitthvað út í vatnið heima. Það eru bara allir ófrískir.
Indra og Ingólfur eiga að von á barni í byrjun október (viss um að það sé stelpa)
Hjalti og Vala í júní (við höldum að það sé strákur en þau stelpa)
Árni eignaðist stelpu núna um daginn
Bjartur og Jóhanna í lok ágúst (við spáum stelpu)
Indriði frændi tvíbura (strákur og stelpa)
Úlfur (stelpa)
Íris vinkona Hrafnhildar (strákur)
Óttarr og Kata (önnur stelpa)

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Allir að fara á tónleika með Kammerkór Konunglega tónlistarháskólans í Stokkhólmi. Ég veit ekki betur en að þeir séu á föstudaginn kl. 20.00 í Neskirkju og það sé ókeypis. Ég er búinn að vera að hjálpa þeim við þessa Íslandsferð og það væri svo leiðinlegt ef það koma fáir á tónleikana. Það eru nokkrir úr kórnum í Mikaeli kórnum og þau komu öll til mín á þriðjudaginn og sögðu: "Ég er að fara til Íslands á morgun.....ííííííí!!!!!" og hoppuðu og skoppuðu. Það eru engar ýkjur. Alla Svía dreymir um að koma til Íslands. Ég veit að þau ætla að syngja alla vega eitt lag á íslensku sem ég kynnti fyrir kórstjóranum og hann elskar.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Þá eru Mamma og Hlö farin. Búið að vera yndislegt að hafa þau. Við erum búin að borða dýrindis lambalæri, hangikjöt og flatkökur, fara á söfn og drekka mikið af bjór. Þau höguðu sér eins og týpískir Íslendingar og töluðu mikið um veðrið: "Er ekki dálítið hlýrra í dag heldur en í gær? Ég er ekki frá því. Nú er dáldið kaldur vindur. Það var eins og um daginn heima. Þá var ansi hlýtt og svo nokkrum dögum síðar kom kuldakast."

Við erum að spá í að flytja nær vinnunni hennar Hrafnhildar og kaupa okkur bíl þannig að ég geti keyrt í vinnuna. Það er nefnilega bara einn strætó sem gengur þarna á milli og hann er ansi lengi á leiðinni, stoppar ca. 30 sinnum og gengur bara nokkrum sinnum á dag.

Ég mætti fyrr en vanalega í dag til að hitta prestana sem sóttu um stöðuna hérna. En þegar ég mætti þá var enginn hér og svo var mér sagt: "Æ, það. Varstu ekki búinn að heyra að það verður ekkert af því núna. Það er ekki fyrr en í næstu viku. Það var talað um þetta hérna á göngunum í fyrradag." Það hafði sem sagt enginn vit á því að láta mig vita þó svo ég sé alltaf í fríi á mánudögum og þriðjudögum. Og svo átti að fjalla um bókunarkerfið á mánaðarfundinum í dag en vegna þess að allir nota ekki þetta blessaða kerfi þá voru bókaðar jarðarfarir á sama tíma þannig að fundurinn var felldur niður. Fyrir mánuði síðan var mér sagt að vera ekki svona óþolinmóður því þetta yrði allt afgreitt á þessum mánaðarfundi 13 apríl. Nú fæ ég ábyggilega að heyra að nú eigi að taka sér góðan tíma og afgreiða þetta eftir einn og hálfan mánuð. Þetta átti upphaflega að vera komið í lag síðastliðinn nóvember.

föstudagur, apríl 08, 2005

VEIIIIIIÍÍÍÍÍ!!!!!
Indra systir á von á barni. Ég er alveg viss um að þetta sé stelpa.
Þá held ég að maður sé að verða fullorðinn. Bráðum þrítugur og að verða móðurbróðir! Maggi frændi.
Mamma og Hlö eru á leiðinni, ákváðu að fá sér einn öl niðri í miðbæ fyrst þannig að ég og Skrámur erum að þvo. Það er ekki hægt að slíta þennan kött frá þessu skemmtiefni.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Við erum búin að vera með kabalsjónvarp síðan í haust en um daginn þá bilaði myndlykillinn. Og þegar við fengum nýjan þá náðum við allt í einu miklu fleiri stöðvum. Þetta eru einhver mistök hjá fyrirtækinu því við borgum ekkert meira. Ég bjóst jafnvel við að þeir myndu leiðrétta þetta núna um mánaðarmótin en það gerðist sem betur fer ekki. Við náum reyndar ekki tveimur stöðvum í gegnum myndlykilinn og þurfum að ýta á marga, marga takka á nokkrum fjarstýringum til að sjá þær en ég þori ekki að fikta í neina til að leiðrétta það af ótta við að missa af þessum bónusstöðvum. Þetta minnir mig á Chandler og Joey þegar þeir náðu ókeypis klámi og þorðu ekki að slökkva á sjónvarpinu. bæ ðe vei... það er sýnt alveg fullt af klámi á þessum stöðvum. Ég horfði einu sinni á sjónvarpið eftir miðnætti og þá var klám á fjórum stöðvum samtímis... ekki það að ÉG hafi gaman af svoleiðis..... nei, í alvöru, þetta var frekar óaðlaðandi fólk, svona dæmigerðar klámstjörnur með rosalega stór sílikonbrjóst í ansi grófum stellingum. jamm og já! Förum ekki nánar út í það.

laugardagur, apríl 02, 2005

Þegar ég sótti um starf organista síðasta sumar þá voru mér boðnar tvær stöður. Ég valdi þessa í Nynäshamn fyrst og fremst út af því að ég hafði frjálsari hendur og réði öllu sjálfur en á hinum staðnum hefði ég starfað undir öðrum organista og bara haft barnakóra. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig það hefði verið að taka hina stöðuna. Sérstaklega þar sem ég sé oft kirkjuna þegar ég tek lestina inn í Stokkhólm. Það hefði í fyrsta lagi verið miklu nær, og ég veit að skipulagið er betra. Þetta með skipulagið fer alltaf meira og meira í taugarnar á mér. Ég talaði reyndar við sóknarprestinn um daginn því mér fannst heilmikið að og allar framfarir ganga alveg rosalega hægt fyrir sig. En síðustu tvær vikurnar er eitthvað farið að gerast.
Ég fór inn á heimasíðu hinnar kirkjunnar til að sjá hvern þeir hefðu ráðið og viti menn! Efst á óskalistanum var sem sagt ég...Íslendingur... og númer tvö var Færeyingur sem heitir því dæmigerða færeysku nafni "Heri Eysturlíð".
Ég er reyndar farinn að hafa meiri áhuga á barna- og unglingakórstarfi og einbeiti mér meira að söngkennslu. Og það er alveg týpískt hvernig allt kemur í bylgjum. Án þess að ég hafi talað neitt sérstaklega um það þá er nú allt í einu sótt að mér úr öllum áttum og beðið um söngkennslu á sama tíma og ég tek upp aftur orgelkennsluna eftir nokkura vikna hlé.