sunnudagur, október 24, 2004

Núna um helgina söng ég með Mikaeli kammerkórnum. Í gær vorum við í Uppsala og í dag í kirkjunni sem kórinn er tengdur við: Adolf Fredriks kirkjunni. Þetta er sem sagt kirkjan sem Anders Öhrwal starfaði við lengi lengi.
Þetta er fantagóður kór og stjórnandinn, Anders Eby, er einn sá fremsti hér í Svíþjóð og prófessor í kórstjórn við Kungliga Musikhögskolan. Mér finnst hann mjög góður, hann gerir miklar kröfur og er ansi strangur og yfirleitt í góðu skapi. Það var dáldið öðruvísi að vinna með honum miðað við Jan Yngve, stjórnanda Pro Musica í Gautaborg, sem gerir líka miklar kröfur en er alveg rosalega "næs." Maður var svo góðu vanur þannig að það voru ansi mikil viðbrigði þegar maður fékk svona strangan kórstjóra. En þeir ná báðir miklum árangri. Hrafnhildur kom að hlusta í dag og sagði alveg eins og mér finnst. Henni fannst Pro Musica hafa hlýjari hljóm Mikaeli syngja mjög nákvæmlega og tæknilega betri. Hún er með svo góðan tónlistarsmekk og það er svo gott að geta spurt hana álits.
Ég byrjaði reyndar í kórnum fyrir rúmum mánuði. Ég hringdi í Anders á mánudegi og hann spurði hvort ég gæti sungið fyrir seinna um kvöldið sem ég og gerði. Svo mætti ég á æfingu daginn eftir. Um helgina var æfingabúðir sem ég komst ekki í því það var of stuttur fyrirvari. Svo voru tónleikar á þriðjudeginum og ég kom bara til að hlusta þar sem ég hafði bara verið á einni æfingu og þetta var ekki beint auðvelt prógram. En Anders sagði að auðvitað ætti ég að syngja með. Þannig að ég söng með og það var nánast allt prima vista. þar að auki var ég ekki rétt klæddur. Allir karlarnir voru í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og bindi en ég var í gráum buxum, skóm sem voru ekki svartir, svörtum bol og svo fékk ég lánaðan svartan jakka. Ferlega óþægilegt.
Ég hafði reyndar sungið helmingin af verkunum áður en Anders vildi að ég syngi 1. bassa þar sem það var fullt í tenórnum. Það eru ca. 8 í hverri rödd. Það er ágætt að syngja bassa, miklu auðveldara en tenór og þægilegt að þurfa ekki að hita röddina eins mikið upp fyrir tónleika.
Það eru líka viðbrigði að í Pro Musica var ég nokkurs konar aðstoðarstjórnandi en það er heilmikil samkeppni á því sviði í þessum kór. Einn bassinn er að fara að stjórna útvarpskórnum, sem er atvinnukór, einn er á fyrsta ári í kórstjórn hjá Anders, einn ætlar að fara að læra kórstjórn í Uppsala eftir áramót og svo er einn á öðru ári hjá Anders og vann um daginn fyrstu verðlaun í alþjóðlegri kórstjórnarkeppni í Vín þar sem voru 75 þáttakendur. En Anders kom til mín í gær og vildi endilega hitta mig til að tala um íslenska tónlist og fá hjálp því kammerkór skólans ætlar að fara til Reykjavíkur í vor.

þriðjudagur, október 19, 2004

Irribirri.
Það er búið að vera frekar kalt eða almennt leiðinlegt veður. Það er ennþá kaldara hérna en í Gautaborg, kuldinn smýgur meira inn í gegnum fötin, en það er ekki eins mikið rok hér miðað við Gbg eða heima.
Ég var að lesa svo leiðinlega bók um hljómsveitarstjórnun. Hún er ógeðslega þykk og maður er svo lengi að lesa hverja blaðsíðu því að það er svo mikill texti á hverri síðu. Svo er hún skrifuð á svo háfleygri (eða ...fleygaðri) ensku. Höfundurinn notar orð eins og "meticulously" og "extraneous" og svo eru hver einasta málsgrein full af aukasetningum. Hérna er eitt dæmi:
"Moreover, early, exaggerated crescendos-especially if they are habitual and occur at every possible instance-distort the form and continuity of the music (most likely unbeknownst to the casual uninformed listener); and if done to excess, as is usually the case with such self-indulgent 'interpretations,' they tend to become repetitously tiresome, and the constant exaggerated and overdrawn effects eventually cancel each other out."
Mér var svo oft hugsað til Sir Humphrey í hinum frábæru þáttum Já ráðherra. Mér var líka kennt strax í grunnskólanum að maður á ekki að hafa of langar málsgreinar. Það verður svo leiðinlegt að lesa þær og erfitt að fylgjast með.
Fyrir utan þetta þá er höfundurinn svo langorður. Fyrstu tuttugu blaðsíðurnar hefði ég getað sagt með þremur línum. Ég er sammála honum í stórum dráttum en hann gengur svo langt. Ég las ca. hundrað blaðsíður áður en ég gafst upp.
Nú er ég að lesa margfalt betri bók um hljóðfærafræði, týpísk bandarísk kennslubók sem er svo auðvelt að lesa og er alls ekki að teygja lopann.
Í dag koma sófarnir sem við pöntuðum fyrir ca. 5 vikum og þá verður íbúðin loksins komin í stand, svo gott sem.

mánudagur, október 11, 2004

Hafi ég verið "hooked on" fjölmiðlamálinu þá veit ég ekki hvernig á að lýsa fíkn minni hvað varðar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum (eða BNA eins og fjölmiðlar eru að reyna að venja fólk á).
Á hverjum degi skoðar maður ruv.is, visir.is, mbl.is, newsweek.com og cnn.com, nokkrum sinnum á dag. Þetta er geysi spennandi. Auðvitað vonar maður að Kerry vinni, eða öllu heldur að Bush tapi. Það var athyglisverð skoðanakönnun birt um daginn þar sem kom í ljós að í langflestum löndum í heiminum myndi Bush skíttapa ef fólkið þar fengi að velja. Í mörgum löndum fengi hann minna en 10% fylgi. Í fyrra var birt könnun sem sýndi að Evrópubúar telja aðalógnina við heimsfriðinn vera George W. Bush, sem sagt ekki Saddam eða Usama heldur hann W.
Það var dáldið fyndið að sjá hvernig umræðan þróaðist eftir fyrstu kappræðurnar. Fyrst var sagt að þeir hefðu verið nokkuð jafnir þó Kerry hefði komið á óvart. Svo var sagt að fólki hefði þótt Kerry betri. Svo vann Kerry og núna er talað um að Bush hafi algjörlega klúðrað þessu. Þetta minnir mig á þegar ég fór á sinfóníutónleika með Mömmu. Í hléinu sögðum við að sólistinn hefði verið bara la la. Svo heyrði ég Mömmu segja að hún væri ekki hrifinn af honum, svo var hann alveg hryllilegur, eftir tónleikana sagði Mamma: "Veistu, ég er viss um að hann hafi verið fullur!"

sunnudagur, október 10, 2004

Altso vinnan...
Það gengur bara svaka vel. Þ.e.a.s. mér gengur vel og ég held að flestir séu ánægðir með mig þarna, bæði samstarfsfólkið og safnaðarmeðlimir.
Eftir atvinnuviðtalið í sumar var ég nokkuð viss um að ég hefði verið ráðinn út af kórstjórnarhæfileikunum. Sú sem hafði hvað mest um þetta að segja er nokkurs konar skrifstofustjóri og syngur í kórnum. Hún hefur lýst því yfir að hún og kórinn sé mjög ánægð með mig.
En svo finn ég að sóknarpresturinn bindur vonir við að ég sé duglegur að halda tónleika. Það var nefnilega fyrir nokkrum árum organisti sem var menntaður hljómsveitarstjóri og þá blómstraði tónlistarlífið í kirkjunni. Ég man núna að í viðtalinu talaði presturinn um hvað hann var impóneraður með alla tónleikunum sem ég hafði haldið.
Svo finn ég að þau sem sjá um æskulýðsstarfsemina binda miklar vonir við mig. Þau eru alltaf að vitna í það sem ég skrifaði í umsóknina um að ég hafi verið í hljómsveit sem notaði meðal annars leikfangahljóðfæri.
Mér finnst hins vegar sumt ganga ansi hægt. Það vinna ca. 15 manns við söfnuðinn (ekki allir 100%) en yfirleitt tekur það voða langan tíma að gera eitthvað. Þetta er óttalega eitthvað sænskt. Mér finnst heimasíðan frekar misheppnuð og lítið af upplýsingum á henni. Ég spurði hvort ég gæti ekki séð um tónlistarhlutann sjálfur og þá fékk ég svarið: "En það eru tvær sem sjá um heimasíðuna" (önnur þeirra kann ósköp lítið á tölvur). Þegar ég spurði hvort ég gæti ekki bara séð um tónlistarhlutann fékk ég þetta týpíska sænska svar: "Já en hugsaðu þér, Magnús, ef allir starfsmenn gætu farið inn á heimasíðuna og gert bara hvað sem er..."
Ég fékk aðra tölvukonuna til að gefa mér notendanafn og leyniorð fyrir heimasíðuna. Ég gerði þetta á meðan skrifstofustjórinn er í burtu. Það verður athyglisvert að sjá hvað hún segir þegar hún kemur til baka.

laugardagur, október 09, 2004

OK OK.
Það er dáldið langt síðan ég bloggaði síðast. Þrír mánuðir. En það hefur svo sem ekkert mikið gerst síðan síðast. Við fórum til Íslands, ég spilaði á tónleikum í Hallgrímskirkju sem tókust voða vel og voru vel sóttir. Við giftum okkur og það heppnaðist betur en við þorðum að vona. Fórum með nokkra Svía í ferðalag um landið og þeir áttu ekki orð og eru enn brosandi út að Eyrasundi. Við fórum aftur út, fluttum til Stokkhólms, byrjuðum að vinna og eigum nú allt í einu peninga sem við erum voða dugleg að eyða.
Þannig að þið sjáið að það hefur svo sem ekki verið ástæða til að blogga miðað við þessa gúrkutíð.

Best af öllu finnst mér að kalla Hrafnhildi konuna mína. Ennþá betra að kalla hana eiginkonuna mína. Henni gengur voða vel í vinnunni. Og að taka lestina fram og til baka á hverjum degi er ekki eins mikið mál og hún hélt.

Skrámur er búinn að taka flutningana í sátt. Hann var ekki par hrifinn til að byrja með en ég er búinn að komast að því að það tekur hann tvo sólarhringa að sætta sig við breyttar aðstæður.

Við erum himinlifandi yfir því hvað brúðkaupið tókst vel og þökkum við öllum þeim sem hjálpuðu okkur við þetta og gaman að heyra hvað fólk var ánægt og skemmti sér vel. Það má sjá nokkrar myndir af okkur á heimasíðu Jóhannes Long: www.ljosmyndarinn.is undir liðnum brúðkaup.

Maaaar bloggar meira seinna. Á morgun skal ég segja frá vinnunni.