mánudagur, apríl 30, 2007

Plöggidíplögg

Á tónleikum í Langholtskirkju sunnudaginn 6. maí kl. 17:00 mun Sönghópurinn Hljómeyki flytja ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum Óttusöngva á vori eftir Jón Nordal. Auk þess flytur kórinn tónleikunum fimm 20. aldar kórverk sem mörg hafa aldrei hljómað áður á Íslandi.

Flutt verður Tebe poyem sem er stutt og afar falleg bæn eftir Sergej Rachmaninov. Þá flytur kórinn A Child’s Prayer eftir skoska tónskáldið James Macmillan, en hann samdi verkið til minningar um fórnarlömb skotárásarinnar í Dunblane 1996 þar sem 16 börn og kennarinn þeirra létust. Verkið er samið fyrir tvo sópransólista og kór. Því næst verður
flutt verk eftir bandaríska tónskáldið Gregg Smith og er það mjög sérstök útsetning á gamalli laglínu og er texti verksins úr 23. Davíðssálmi. Í verkinu er kórnum skipt upp í þrjá hópa sem skiptast á að syngja og á tímabili hljóma allt að fjórar tóntegundir í einu. Sænski kórstjórinn Gunnar Eriksson útsetti djasslagið To the Mothers in Brazil fyrir kór og notaðist við Salve regina textann. Verkið er tileinkað fátækum mæðrum í Brasilíu. Kórnum til aðstoðar í þessu verki verður Frank Aarnink, slagverksleikari. Seinasta verkið af þessum fimm verkum er svo eftir eistneska tónskáldið Eduard Tubin, sem lést 1982. Eduard Tubin hefur smátt og smátt hlotið þá viðurkenningu sem hann á skilið, sérstaklega fyrir tilstuðlan hljómsveitarstjórans og samlanda Neeme Järvi. Á tónleikunum verður flutt mjög tilkomumikil Ave Maria eftir hann.

Óttusöngvar á vori eftir Jón Nordal eru seinasta og jafnfram viðamesta verk tónleikanna. Hann samdi tónverkið árið 1993 að beiðni aðstandenda Sumartónleika í Skálholtskirkju og tileinkaði Skálholtsdómskirkju. Verkið skiptist í fjóra kafla. Þrír hinir fyrstu eru hefðbundnir messuþættir, þ.e. Kyrie, Sanctus og Agnus Dei, en fjórði kaflinn er saminn við Sólhjartarljóð eftir Matthías Johannessen. Matthías samdi Sólhjartarljóð í tilefni af því að þúsund ár voru síðan kristni var fyrst boðuð í landinu og í kvæðinu vitnar hann beint til Sólarljóða.

Auk Hljómeykis koma fram söngvararnir Hallveig Rúnarsdóttir og Sverrir Guðjónsson, Sigurður Halldórsson sellisti, Frank Aarnink slagverksleikari og Lenka Mátéova organisti. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson. Miðaverð 1500 / 500 kr.

föstudagur, apríl 27, 2007

Í febrúar í fyrra tókum við lán fyrir íbúðinni upp á 14,8 milljónir. Á rúmu ári höfum við borgað ca. 816.000 af láninu. Eftirstöðvar í dag með verðbótum eru 15.749.298. Þ.e. lánið hefur hækkað um 1.765.298 kr. á rúmu ári út af verðbólgu. Svo heldur ríkisstjórnin því fram að allt sé í himnalagi í efnahagsmálum og er að hræða okkur með því að ef vinstri stjórn tekur við fer allt til fjandans í efnahagsmálum.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ég sá mjög áhugaverðan þátt um Mario Lanza í gær, þvílík rödd. Svo var þetta BBC þáttur sem er auðvitað ávísun á gæði. En af hverju í ósköpunum var hann sýndur kl. 22.40? Samkvæmt blaðinu í gær var sýnt Ugly Betty, breskur gamanþáttur, Scrubs og íþróttakvöld. Þarf þetta virkilega að ganga fyrir svona vönduðum og áhugaverðum þáttum?

föstudagur, apríl 13, 2007

Það kom stutt gagnrýni í Mogganum í gær sem gaf þrjár stjörnur af fimm. Held maður megi bara vel við una.

"HIN æruverðuga Söngsveit Fílharmónía, er vantar tvennt í fimmtugt og Íslandsfrumflutti fjölda klassískra stórverka fyrstu árin í samstarfi við SÍ undir stjórn Róberts A. Ottóssonar, stóð fyrir forvitnilegum tónleikum á þriðjudag. Fyrst voru tvær stuttar a cappella-mótettur (að vísu aðeins tekinn 1. þáttur af 4 hinnar seinni) – Richte mich, O Gott (1843) eftir Mendelssohn og Warum ist das Licht gegeben (1875?) eftir Brahms. Kórsöngurinn var framan af svolítið daufur, einkum í upphafi Brahms, en sótti í sig veðrið og varð víða glæsilegur í Schubert, þó þýzkuframburðurinn væri linur og fámennur tenórinn í varnarstöðu.

30 ár ku liðin síðan eitt viðamesta kórverk Schuberts heyrðist fyrst hér á landi. Þótt styttri sé en h-moll messa Bachs og Missa Solemnis Beethovens er hin ægifagra og kraftmikla As-dúr messa (1819–26) í svipuðum "konsert"-flokki og spannar allt frá Haydn að Wagner. Dýnamísk stjórn Magnúsar Ragnarssonar tryggði dramatíska vídd í jafnt 30 manna hljómsveit sem 54 manna kór, og sólistarnir reyndust einvalalið í hópsöng þó einsöngstækifærin gæfust aðeins örfá og stutt."

Ríkarður Ö. Pálsson

sunnudagur, apríl 08, 2007

Þá er mestu törninni lokið. Fílutónleikarnir heppnuðust mjög vel. Það voru svo margir hrifnir af Schubert messunni, þá er tilgangi mínum náð. Ég fékk líka mikið hól frá hljóðfæraleikurunum. Það er ekki verra. Svo gekk Jóhannes furðu vel. Þ.e. kórinn stóð sig mjög vel en mér fannst þetta of óöruggt á skírdag sökum æfingaleysis en þetta var mjög flott á föstudaginn langa.
En hvað er að gerast hjá Mogganum. Umfjöllun þeirra um klassíska tónlist er ekki orðin að neinu. Þeir slá saman umfjöllun um komandi tónleika í eina stutta grein og gagnrýnin er alveg svakalega lítil þá loksins þegar hún birtist. Þeir ætluðu ekki að senda gagnrýnanda á Fílutónleikana og hafa ekki gert í allan vetur en ritari kórsins þrætti nógu mikið í þeim og það skilaði árangri. Hins vegar fær maður þvílíkt notalega viðbrögð hjá Fréttablaðinu og ekkert mál að fá kynningu á tónleikum. Og ekki er Mogginn að spara umfjöllun um popptónleikana.

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Þá er komið að næstu tónleikum. Jóhannesarpassían í Fossvogskirkju, skírdag og föstudaginn langa kl. 17.00. Auðvitað eitt besta tónverk allra tíma!

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar um tónleikana

Himnesk gleði


Söngsveitin Fílharmónía hélt vortónleika sína á sunnudagskvöldið og endurtekur þá í kvöld kl. 20. Þar syngur sveitin undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar tvö stutt verk, "Richte mich, Gott" eftir Mendelssohn og "Warum ist das Licht gegeben dem Mühseligen" eftir Brahms en endar svo á hinni miklu Messu í As dúr eftir Schubert.

Tónverkið "Richte mich, Gott" eða Lát mig ná rétti mínum, Guð eftir Felix Mendelssohn-Bartholdy er mótetta við 43. Davíðssálm, skemmtilega skrifuð fyrir blandaðan kór þannig að karlar og konur skiptast á að syngja uns þau sameinast í lokin í heitu bænarákalli. Það er falleg og áhrifamikil stígandi í verkinu sem naut sín afar vel í flutningi kórsins á sunnudagskvöldið.

Mótettukaflann "Warum ist das Licht gegeben dem Mühseligen" (Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu) samdi Johannes Brahms við texta úr Jobsbók. Þar spilar Brahms á orðið "warum" (hvers vegna) sem hljómar eins og þunglyndisleg stuna hvað eftir annað til að undirstrika angist þess sem talar. Magnús kórstjóri segir í efnisskrá að þetta sé afar erfitt verk í flutningi en það var ekki að heyra. Fegurðin og áhrifamátturinn nutu sín virkilega vel.

Aðalatriði kvöldsins var svo Messa í As dúr (D 678) eftir Franz Schubert sem mun aðeins einu sinni hafa verið flutt hér á landi áður. Það var árið 1977 og flytjendur voru þá sem nú: Söngsveitin Fílharmónía. Með sveitinni sungu fjórir einsöngvarar, Hulda Björk Garðarsdóttir sópran, Nanna María Cortes alt, Jónas Guðmundsson tenór og Alex Ashworth bassi. Þau fengu öll eitthvað að gera, en ég veit ekki hvort það var af aðdáun á Huldu Björk eða raunveruleiki að mér fannst hún syngja fleiri strófur en hin. Altént hæfði röddin hennar Schubert einstaklega vel og fyllti kirkjuna af himneskum hljómi. Nanna María er mjög vaxandi söngkona og glæsileg á sviði eins og hún á kyn til. Jónas var lítt áberandi en Alex hefur skínandi fallegan bassa sem hljómaði tignarlega á móti birtu raddar Huldu.

Messan er tilkomumikið verk, upphafið á Gloríu-kaflanum er hreinlega mergjað. Í lok þess kafla verður mikil stígandi og endirinn eiginlega rokk og ról. Algert æði! Sömuleiðis var rosalegur kraftur í Trúarjátningunni, Credóinu, en meiri heilagleiki og kyrrð yfir síðustu köflum messunnar.

Þetta var vissulega upphafin helgistund, en tilfinningin sem sat eftir og bjó í manni næstu daga var þó fyrst og fremst gleði. Þar áttu trúi ég jafnan þátt Franz Schubert með sína snilli og Söngsveitin, stjórnandi hennar og einsöngvarar. Söngsveitin fer í sumar í ferðalag til Vilníus þar sem hún tekur þátt í stórri listahátíð. Henni fylgja árnaðaróskir en líka vissan um að hún muni sigra alla viðstadda með frábærum flutningi sínum á Carmina Burana.

mánudagur, apríl 02, 2007

Þá eru síðustu forvöð að verða sér úti um miða á þessa fínu og metnaðarfullu tónleika. Þeir tókust mjög vel í gær og fengu þessar líka fínu viðtökur áheyrenda. Það stóðu sig enda allir mjög vel, alveg sérstaklega kórinn sem hafði aldrei sungið þessi verk svona vel. Alltaf gaman þegar það gerist.
Þið getið haft sambandi við mig á magnus.ragnarsson@gmail.com til að panta miða með afslætti, þ.e. 2500 kr. í stað 3000 kr. Þar með væruð þið líka að styðja þetta verkefni mitt og stjórnar að flytja fáheyrð meistaraverk. Hljómsveitin er nefnilega ansi stór og þetta er dýrt fyrirtæki fyrir svona sjálfstætt starfandi kór. Það koma reyndar 24 á mínum vegum á morgun en það er um að gera að fylla kirkjuna.
Við feðgarnir erum heima í dag. Ísak er með hita, annan daginn í röð og ég er búinn að vera frekar slappur undanfarið. Ég svitnaði ekkert smá þegar ég var að stjórna nú um helgina. Loftræstingin var þar að auki biluð í kirkjunni þannig að það voru ansi margar sveittar efri varir á kórfélögum. En tónleikarnir heppnuðust mjög vel og það voru mjög margir heillaðir af Schubert messunni og hissa á því að hún skyldi ekki vera flutt oftar. Það hlakka held ég allir þáttakendur til að flytja hana aftur á morgun.