Var að koma af fimm tíma æfingu með Hljómeyki. Það eru nefnilega tónleikar á laugardaginn á Eiðum. Eins og vanalega finnur maður ekki fyrir þreytu fyrr en maður sest niður eftir æfinguna. Þá er maður gjörsamlega búinn. En mér er farið að lítast ansi vel á þetta. Svo verða tónleikar í bænum þriðjudag eftir viku í Hásölum í Hafnarfirði. Ekki missa af því!
Ég hef vísvitandi ekkert bloggað um Drengjakórinn undanfarnar vikur. Ástæðan er sú að ég fann mjög fljótlega að þetta átti ekki við mig. Ég hef nokkrum sinnum unnið með krökkum áður og það hefur eftir á að hyggja gengið ágætlega, sérstaklega með unglingakórinn í Nynäshamn þegar á leið. En ég átti í erfiðleikum með að fá þessa drengi til að vinna almennilega. Ég sagði fljótlega við Jónsa að það þurfti einhvern í þetta sem hefur gott lag á krökkum frekar en einhvern færan kórstjóra. Hann var alltaf að hvetja mig áfram. Ég held að hann hafi séð að ég náði svo sem ágætu sambandi við strákana og þeim fannst flestum voða gaman. En ég bað hann um að svipast um eftir einhverjum öðrum. Við vorum ekki vongóðir um að finna nokkurn en viti menn. Það birtist eitt stykki breskur barítónsöngvari sem er nýfluttur til landsins og er í leit að vinnu. Hann er búinn að ráða sig í undirleik niðri í Söngskóla í afleysingum og var sjálfur í Drengjakór. Kappinn heitir Alexander Ashworth og er að sögn Jónasar tenórs einn besti barítónsöngvari á landinu um þessar mundir. Þeir voru að syngja saman í Glyndbourne í sumar. Hann á íslenskan strák og talar því ágæta íslensku. En annars eru það margir af drengjunum sem kunna ensku að þeim finnst voða gaman að þýða fyrir hann þegar hann vantar íslensku orðin. Hann mætti á æfinguna í gær og það gekk voða vel. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki viljað skrifa neitt um þetta er að ég vildi ekki fæla foreldra sem gætu lesið þetta frá því að senda drengi í kórinn. En það er kominn ágætur hópur, tæplega 20 strákar og ég hef fulla trú á að þetta eigi eftir að verða mjög góður kór þegar fram líða stundir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þetta verða þrusutónleikar hjá okkur :-)
Mér fannst leiðinlegt að þú skyldir ekki halda áfram með strákana (tja, nema að því leyti að það verður náttúrlega meiri tími fyrir okkur :-D). Fannst þú einmitt hafa ótrúlega gott lag á þeim. En þetta verður örugglega fínt hjá Alex.
Dáist að þér, það þarf kjark og vit til að vera viss og fylgja því svo eftir. Held reyndar eins og Hildigunnur að þú hefðir vaxið í starfi með drengjunum og fundið þínar aðferðir, en mann þarf að langa það. Það verður að vera gaman í vinnunni og maður verður að finna að þetta púl sem barnakórastarf er skili manni einhverju.
Ég sá að þetta útheimti það mikinn tíma og orku að ég vildi frekar einbeita mér að organistastarfinu og fullorðnu kórunum. Fyrst maður hefur úr svona miklu að velja er betra að gera eitthvað sem maður getur gert vel.
Skrifa ummæli