þriðjudagur, janúar 17, 2006

Nei, ég er búinn að gefast upp á íslenskum húmor. Ég hef séð hluta af tveimur þáttum af Stelpunum og skil ekki hvað mörg atriðin eru ófyndin og tilgangslaus. Ég sá líka eitthvað úr Svínasúpunni hér um árið og það var alveg sama sagan þar. Ég held að Óskar Jónasson sé búinn að tapa neistanum. Svo fannst mér hálf sorglegt að sjá hann sem Skara skrípó að auglýsa nýtt tryggingafélag í fréttunum. Fyrir utan eitt og eitt atriði var Skaupið líka frekar slappt og þegar ég horfði á Spaugstofuna á laugardaginn var þá... jú, ætli ég hafi ekki brosað tvisvar. Ég ætti náttúrlega ekkert að vera að hanga yfir sjónvarpinu en Ísak krefst þess bara svo oft að maður haldi á honum og gangi um gólf og þá getur maður lítið gert annað. Kannski maður neyðist til að halda uppi samræðum við fólk.

Kóræfingar ganga ágætlega. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir aðeins hraðari yfirferð en þetta á eftir að verða fínt. Það tínist inn nýtt fólk við og við sem er mjög gott en ég hef aldrei hitt allan sópraninn í einu. Þær eiga að vera 16 og ég hef á þessum þremur æfingum aldrei séð fleiri en 10 samanlagt. Það þarf að taka þetta föstum tökum.

3 ummæli:

Syngibjörg sagði...

Tökin hert.Við ættum kannski að fá Copeky aftur í heimsókn, hahha.

Maggi sagði...

Var hann einhvern tímann með kórinn?

Syngibjörg sagði...

Nei, þetta átti að vera brandari því Kurt Copeky kom og kynnti Tökin hert e.Britten í vetur fyrir kórnum og við fórum svo í kjölfarið á óperuna.