fimmtudagur, desember 29, 2005


Ég þori varla að segja neitt en sonurinn virðist vera dálítið betri. Hann tekur sín köst á kvöldin og er stundum óánægður fljótlega eftir gjöf en annars er hann bara hress og skoðar sig um voða mikið. Ég er farinn að láta hann sprikla berrassaðan á skiptiborðinu og þá hjalar hann við og við. Hann fór á heilsugæsluna í morgun og er nokkuð langur og grannur en fylgir alveg kúrfunni hvað varðar þyngd. Hjúkkan var bara mjög ánægð með hann að öllu leiti og fannst hann hafa góðan húðlit.

Ég er þegar búin að fá nokkrar athafnir til að spila og er reyndar hálf feiminn við að skila inn reikningum, mér finnst þetta svo mikið. En þetta er samkvæmt taxta og þar að auki er 50% stórhátíðarálag á jólanótt og gamlársdag þ.a. allt í einu er maður farinn að þéna vel á Íslandi. Það er ekki verra þegar maður ætlar að kaupa íbúð sem eru allar rándýrar og þarf nottlega að eignast bíl líka.
Maður er strax kominn í efnihyggjukapphlaupið.

Ég ætlaði að segja sögu af Tona hennar Jakobínu frænku en komst ekki lengra en: "Eiginmaður konunnar minnar..."

laugardagur, desember 24, 2005


Ísak Magnússon og fjölskylda óskar vinum og vandamönnum, sem og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og þakkar auðsýnda aðdáun á árinu sem er að líða.

föstudagur, desember 23, 2005


Loksins, loksins erum við komin heim. Þetta er búið að vera alveg heilmikið púsluspil varðandi þessa flutninga en þetta hafðist allt saman. Það komu nokkrir úr kórnum mínum til að hjálpa til við flutningana og tóku með sér syni og eiginmenn þannig að þetta skotgekk og flugferðin heim gekk barasta mjög vel og Ísak var hinn ljúfasti. Helga Möller var flugfreyja og var alltaf að koma að skoða hann og fólkið sem sat skáhalt á bakvið okkur var alltaf að halla undir flatt og dást að honum. Og svo hittust þeir allir þrír frændurnir um kvöldið og þá var nú glatt á hjalla.

Við erum ekki alveg búin að grípa það að við séum flutt heim. Okkur finnst eiginlega eins og við séum að fara aftur út eftir nokkrar vikur. Nú förum við að kíkja á íbúðir og koma okkur fyrir. Bráðum fer ég að vinna og reyna að koma mér aftur inn í tónlistarlífið hérna heima. En það er ágætt að vera kominn heim, sérstaklega að hitta vinina og fjölskylduna og ég held að þeim finnist ekkert leiðinlegt að vera búin að fá okkur.

Við skelltum okkur í búðir í gær og vorum oft alveg gáttuð á verðlaginu, tónlistinni í búðunum og hvað allir eru annað hvort rosalega "töff" í útliti og óeðlilega brúnir í framan eða lúðalegir.

föstudagur, desember 16, 2005

Þetta er nú ansi gott svar

fimmtudagur, desember 15, 2005

Klukk

Maður er barasta nýbúinn að kynnast fólki og svo er maður klukkaður.

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey

1. Stjórna þýsku sálumessunni eftir Brahms
2. Semja verk fyrir kór og hljómsveit
3. Ferðast til allra heimsálfanna (að undanskildu Suðurskautslandinu)
4. Lesa ævintýri fyrir börnin mín
5. Lesa ævintýri fyrir barnabörnin mín
6. Verða góður í að grilla
7. Eignast sumarhús í útlöndum

Sjö hlutir sem ég get gert.

1. Spilað á orgel, ýtt á takkana og stjórnað kór samtímis
2. Sungið allt frá öðrum bassa upp í alt
3. Keyrt í nokkra hringi í nýrri borg en átta mig samt á úr hvaða átt ég kom
4. Búið til barn
5. Munað hvað fólk gerði nokkur ár aftur í tímann, oft betur en það sjálft
6. Gert flott tónleikaprógröm
7. Lesið bókstaflega allt sem stendur á netinu um bandarísku ríkisstjórnina

Sjö hlutir sem ég get alls ekki gert.

1. Talað um leið og ég spila erfitt orgelverk
2. Farið að sofa fyrir miðnætti
3. Munað hvað magapína heitir á sænsku
4. Hætt að einblína á gallana í fari fólks
5. Átt bara eitt uppáhalds eitthvað
6. Munað hvort er hvað: leyti og leiti
7. Viðurkennt að fólk hafi vakið mig þó svo það hringi kl. 3 um nóttina

Sjö frægar/ir sem heilla

1. Duruflé
2. Noam Chomsky
3. Giuseppe di Stefano
4. Dame Judy Dench
5. Tim Burton
6. Cohen bræður
7. Al Pacino

Sjö atriði sem heilla mig við aðra

1. Einlægni
2. Húmor
3. Augun
4. Fjölbreytni
5. Hæfileikar
6. Skipulagni
7. Frásagnargáfa

Sjö setningar sem ég segi oft

1. Sko
2. Já (á innsoginu)
3. Hvað segir kallinn?
4. Elsku kellan mín
5. Legato
6. Þið megið anda hvar sem er, bara ekki akkúrat hérna
7. Nei, Skrámur. Niður!

Sjö hlutir sem ég sé núna

1. Son minn sofandi
2. Myndavélina
3. Nuddolíu
4. Taubleyju á öxlinni minni
5. 30 kassa með nafninu mínu á
6. Conan O'Brien
7. Jólaseríu

Sjö sem ég ætla að klukka (kannski þegar búið að klukka suma. Það má skrifa á kommentið ef maður á ekkert blogg)

1. Habbidi
2. Torfa frænda
3. Bjart
4. Völu
5. Bryndísi
6. Gunnar
7. Þóru

Ísak er orðinn svo fullorðinn að hann er farinn að fá póst. Annars er hann orðinn hás af öllu orginu. Við erum mjög hissa þvi við vissum ekki að smábörn gætu orðið hás. Það er allavega komin rútina hjá honum. Hann fær að drekka á tveggja tíma fresti og í ca. einn og hálfan tíma beita foreldrarnir öllum ráðum til að hann orgi ekki fram að næstu gjöf, það er kveikt á ryksugunni, stungið upp í hann litla putta, gengið um gólf og maginn nuddaður. Hann er með öll einkenni magapínu. En hann er allavega rólegur á nóttunni og sefur á milli okkar.

En eitthvað held ég að pabbi hans sé farinn að tapa sér. Hann átti að ná í magadropa fyrir hann úr ískápnum og mata hann með skeið en á síðustu stundu sá mamma hans að þetta var kattarlyf. Í gærkvöldi hringdi kona, kynnti sig og sagði að einhver hefði reynt að hringja í sig úr þessu númeri. Pabbi hans Ísaks sagði að hér væri einhver misskilningur á ferð því heimasíminn hefði ekkert verið notaður þann dag. Eftir þó nokkurt þref mundi hann allt í einu eftir því að bara korteri áður hafði hann reynt að hringja í sambýlismann konunnar sem á einmitt að taka við organistastarfinu hans. Einnig var hringt frá Eimskip sem spurði hvort foreldrarnir hefðu fengið pappíra frá þeim og pabbinn þvertók fyrir það sem olli áhyggjum hjá Eimskipskonunni. En sem betur fer var mamman nærri og minnti á að þau hefðu skoðað pappírana saman daginn áður.

Í gær leit út fyrir að allt væri í orden varðandi flutningana nema hvað gera ætti við bílinn. Við vorum búin að reyna að pranga honum inn á vini okkar, jafnvel þótt þeir ættu bíl fyrir, og ég var jafnvel farinn að sjá fyrir mér að við þyrftum að henda honum. En í gær setti ég auglýsingu á netið og gemsinn bókstaflega stoppaði ekki. Ég svaraði að minnsta kosti 25 manns áður en ég slökkti á honum. Í gærkvöldi kom svo einn Finni sem bara keypti hann á alveg sæmilegu verði. Og það besta við þetta allt saman er að amma hans býr í næstu blokk þ.a. við getum afhent bílinn morguninn sem við fljúgum heim og okkur verður meira að segja skutlað út á lestarstöð. Þá er bara að finna út hvað við gerum við barnabílstólinn sem við erum með í láni frá vinnufélaga í Nynäshamn.

þriðjudagur, desember 13, 2005


Ísak er líkur Pabba sínum að því leyti að hann virðist ekki þurfa mikinn svefn. Hann er farinn að átta sig á því að þegar það er nótt þá er betra að vera ekkert allt of aktívur en að degi til sefur hann eiginlega ekki neitt og tekur nokkur orgurköst. Ég geng um með hann stundum og syng vögguvísur en þær eru hættar að virka eins vel. Hann er kannski farinn að pæla of mikið í þessum dauðadjúpu sprungum og andlitinu á glugganum sem bíður fyrir utan. Við höfum spilað lag úr tölvunni með Út í vorið sem þeir voru að taka upp og það virkar ágætlega en núna fékk ég miklar áhyggjur af því að hann diggi kántry eða öllu verra John Denver því ég söng fyrir hann Country Roads og hann varð alveg heillaður.

Ein kóræfing, einir tónleikar, ein messa og einn dagur í skólanum eftir og svo förum við heim. Var í prófi í gær sem ég hafði undirbúið um helgina og Hrafnhildur hélt ég væri endanlega búinn að ganga af göflunum. Þetta var próf í tónheyrn og ég sat við píanóið með heyrnartólin á mér og söng hálfum hljóðum tónbil eins og stækkaðar ferundir, litlar sexundir, stórar sjöundir o.s.frv. En svo þegar kom í prófið þá valdi kennarinn eitthvað allt annað en ég var búinn að æfa. Það skipti svo sem ekki svo miklu máli því maður þurfti hvort eð er að lesa þetta, þetta voru svo óvenjulegar melódíur að það var ekkert hægt að læra þær. Það var verra þegar kom að hinum liðnum. Ég hafði undirbúið generalbassaæfingar en hann prófaði mig í partitúrspili (þ.e. lesa mörg hljóðfæri í einu sem standa í mismunandi lyklum og sum þarf að tónflytja). Ég hugsaði með mér: týpískt ég að misskilja þetta. Þ.a. það var bara að lesa þetta beint af blaði og ég kom mér bara á óvart hvað þetta gekk vel. Svo fór ég að athuga í dagbókina og þar hafði ég skrifað mjög skýrt hvað átti að undirbúa fyrir prófið og svo þegar ég talaði við hina í bekknum þá var þetta alveg rétt hjá mér. Ég veit ekki hvort kennarinn var svona ruglaður eða hvort hann gerði þetta viljandi.

Nú er ég hlaðinn gjöfum frá vinnunni og þori varla að taka þær upp því þær eru oft vel búnar fyrir flutningana. Ég fór líka með Unglingakórnum á Jesus Christ Superstar og var það í fjórða skiptið sem ég sé þann söngleik og hef aldrei orðið sérstaklega hrifinn, eins og mér finnst tónlistin fín. Skást var það sennilega í Gautaborgaróperunni með heilli sinfóníuhljómsveit. Hérna hljómaði bandið vel og ég varð mjög hissa í lokin þegar það komu bara þrír fram til að hneigja sig. Það hefur verið góð nýting. Það var einhver frægur Svíi sem átti að syngja Júdas en hann forfallaðist en þessi staðgengill var algjört æði. Fínn söngvari, góður leikari og æðislegur dansari. Svo sá ég í hléinu að leikstjórinn lék Jesús sjálfur. Það finns mér nú hégómi í hæsta stigi.

laugardagur, desember 10, 2005


Við feðgarnir eigum "gæðastund" saman á meðan Hrafnhildur reynir að sofa. Kenny og Elenor komu í heimsókn áðan og Ísak sýndi á sér sínar bestu hliðar, var bara sallarólegur en svo undir lokin tók hann öskurkast þannig að þau fengu að sjá báðar hliðarnar á honum. Við og við liggur hann hjá mér glaðvakandi og skoðar umhverfið. Ég hef reynt að hrista hluti fyrir framan hann í skærum litum en hann hefur ekki svo mikinn áhuga á því. Hann tekur eitt til tvö öskurkast á dag þar sem hann öskrar þangað til hann fær að drekka, þar sofnar hann voða fljótt án þess að hafa drukkið nóg, svo fer hann að öskra aftur. Svona getur þetta gengið í hringi í nokkra klukkutíma. Að öðru leyti er hann ljúfur. Hann virðist ekki vera með hita eða með í maganum og við náum stundum að sofa heilar þrjár klukkustundir í einu.

Við fengum fréttir af Skrámi um daginn frá Einangrunarstöðinni á Reykjanesi. Hann var fyrsti kötturinn í hópnum til að ná sér eftir ferðalagið og eins og við var að búast er hann búinn að heilla starfsfólkið upp úr skónum. Þau sögðu að hann væri svo kelinn og forvitinn og hefur alltaf eitthvað fyrir stafni og hann fylgist til að mynda alltaf vel með þegar hundunum er gefið að borða.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Ég er farinn að telja niður fram að heimför. Ég er búinn að spila við síðustu jarðarförina, búinn að sitja síðasta starfsmannafundinn (Guði sé lof), á eftir að mæta tvisar í skólann o.s.frv. Svo eigum við bara tvær vikur eftir hér í Svíþjóð. Um daginn var ég farinn að velta vöngum yfir því hvort það væri sniðugt að flytja heim. Það er náttúrlega æðislegt fyrir Hrafnhildi og að fjölskyldur okkur fá að sjá Ísak en það eina músíklega séð sem kallaði á mig heim var Fílharmónían.

En nú er ég allt í einu mjög sáttur við að flytja. Ég hef engan áhuga á að halda áfram í þessu námi. Ég fæ bara ekki nóg út úr því og er bara ekki sáttur við að vera bestur í bekknum. Þetta er vandamál sem ég hef oft þurft að kljást við. Ég vil helst vera nálægt toppnum og rembist þá til að verða bestur en þegar og ef það gerist vil ég fara að gera eitthvað annað. Það verður alltaf að vera eitthvað sem ýtir mér áfram. Ég flutti fyrirlesturinn/ritgerðina í gær um Vesprið eftir Mozart sem ég ætla að stjórna í vor og það tókst mjög vel þó svo ég hafi ekki byrjað að vinna í þessu fyrr en kvöldið áður. Það var önnur stelpa sem fjallaði um sama verk og hún byrjaði. Hún fór að fjalla um textana sem eru flestir úr Davíðssálmunum og hún hafði prentað þá út á sænsku en fór samt að tala um að þeir fjölluðu um Jesús og Maríu mey?!Það er ekki það að ég krefjist þess að allir vita að Davíðssálmarnir eru í Gamla testamentinu og hvorki Jesús né Maríu voru fædd þegar það var skráð en þegar maður er að fjalla um verkið og með þýðinguna fyrir framan sig þá skil ég ekki hvernig hægt er að gera svona mistök.

Það er dálítil synd að flytja héðan þegar maður er kominn með ágætis sambönd en ég hefði ekki viljað halda áfram í þessari vinnu. En það sem mér hefur þótt bæði erfiðast og ánægjulegast er unglingakórinn. Í kvöld var síðasta æfingin og þær tvær sem eru duglegastar höfðu gert handa mér styttu af kórnum og sögðu að ég mætti aldrei gleyma þeim. Maður varð bara klökkur.

mánudagur, desember 05, 2005

Vikugamall


Það mætti halda að Ísak væri kominn á séns hjá öllum þessum stelpum á Íslandi. Hann var á orginu í nótt frá miðnætti til fjögur. Í morgun náði Habbidu að setja upp í hann snuðið og notaði gott ráð frá Írisi um að nota bangsafót til að styðja við hann og þar kom Lill-Kjell að góðum notum.
Ég er að fara í skólann í dag og verð fram á kvöld og fer aftur á morgun til að skila ritgerð sem ég er náttúrlega ekki byrjaður á enn.
Við erum búin að heyra sitt á hvað að hann sé svo líkur öðru okkar. Við eigum ekki svo auðvelt með að sjá það. Mér finnst hann reyndar hafa svip frá móðurfjölskyldunni minni þegar hann sefur og stundum þegar hann er með galopin augun er hann líkur fjölskyldu Hrafnhildar. Ég sé annars fyrir mér að Ísak verði málmblásturshljóðfæraleikari, sennilega horn, og róttækur vinstrisinni. Ég heyri okkur segja við hann: "Jæja Ísak minn. Er þetta ekki bara orðið gott hjá þér. Þarftu nokkuð að vera að kvelja ríkisstjórnina meira með þessum skrifum þínum. Þessi fjármálaráðherra er bara ágætur inn við beinið."

laugardagur, desember 03, 2005


Nú sofa mæðginin vært eftir nokkuð órólega nótt. Sonurinn svaf bara í hæsta lagi í klukkutíma í einu og fór svo að orga þangað til hann fékk að drekka. Þegar hann sofnaði aftur gekk ég með hann um íbúina til að Hrafnhildur gæti fengið að sofa og söng fyrir hann og það virkaði mjög vel. Hann róaðist á meðan ég söng en fór svo að orga þegar ég hætti. Í eitt skipti fór ég með hann fram í sófa og söng í rúman klukkutíma og lét hann liggja á bringunni minni. Nóttin var sú ágæt ein var ansi vinsæl.
Hrafnhildur vill meina að hann sé með sömu svefnrútinu og í móðurkviði. Hann sefur ansi lengi frá hádegi en er svo á fullu á kvöldin og fram á nótt. Við ætlum að prufa að hafa enn minna ljós í nótt og horfa ekki í augun á honum og reyna að fá hann til að sofa í vagninum sem fyrst.
Mar getur alltaf á sig myndum bætt

föstudagur, desember 02, 2005


Til hamingju elsku litli frændi með skírnina og til hamingju með þetta fína nafn sem þú fékkst. Hann heitir nú Ragnar Steinn Ingólfsson. Ég hlakka svakalega mikið til að hitta þig um jólin. Við sjáum fyrir okkur að hann verði ljóðskáld og semji að minnsta kosti eitt mjög gott leikrit.

Mæðginin komu heim af spítalanum í gær og plumma sig bæði vel og Skrámur er kominn til Íslands og er í Einangrunarstöðinni á Reykjanesi. Sonurinn er farinn að þyngjast eftir að hafa lést um 400 gr. Hann var undir svo miklu álagi í fæðingunni og brenndi því svo mikilli orku og því nægði næringin úr brjóstunum ekki og hann fékk mjólkurblöndu. En þetta lítur allt vel út núna. Og Mamman er líka orðin miklu hressari og er farin að geta hreyft sig um án hjálpartækja.

Ég fór í vinnuna síðdegis á miðvikudaginn og það töluðu allir um hvað hann var stór og ég skildi ekki neitt. Þegar fimmti aðilinn sagði hvað hann hefði verið stór þá spurði ég bara hvað hann ætti við því hann er bara alls ekkert stór og fór að velta því fyrir mér hvort hann hefði virkað svona mikill á myndunum sem ég sendi í vinnuna. En þá var sagt: "En 5,3 kg er ansi mikið, er það ekki." Þá áttaði ég mig á því að þegar ég sendi tölvupóstinn í svefnleysi mínu á mánudagskvöldið þá hafði ég víxlað tölunum og skrifaði 5,3 kg í stað 3,5. Ég held að Hrafnhildur hefði ekki meikað það að fæða svo þungt barn. En við höfum greinilega búist við stærra barni því gallinn sem við keyptum til að fara með hann heim í af spítalanum var ansi stór og hann týndist eiginlega í honum eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Í sjálfri fæðingunni létum við nokkra diska rúlla í geislaspilaranum sem Hrafnhildur hafði valið og það vildi svo skemmtilega til að í lokaatrennunni voru Jólasöngvar Kórs Langholtskirkju í gangi á repeat þ.a. einhvern tímann hefur Afi Halldór sungið fyrir dótturson sinn þegar hann var á leiðinni út. Svo lét Afi Ragnar gera vart við sig um nóttina ásamt langömmu Elísabet þ.a. það eru að minnsta kosti tveir verndarenglar að gæta hans.