Fimmtudaginn 10. júlí kl. 20.00 mun Sönghópurinn Hljómeyki flytja Náttsöngva eftir Sergej Rakhmanínov undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar í Skálholtskirkju.
Verkið, sem stundum gengur undir nafninu Vesper, er í 15 köflum, sungið á rússnesku og tekur um klukkutíma í flutningi.
Það er einstaklega hljómfagur en um leið afar krefjandi fyrir kór, sérstaklega bassaraddirnar, sem þurfa að syngja ansi djúpt, nokkrum sinnum niður á kontra B!
Náttsöngvarnir eru taldir eitt besta tónverk rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunnar og var í miklu uppáhaldi hjá tónskáldinu sjálfu sem bað um að einn þátturinn (Lofsöngur Símeons) yrði fluttur við jarðarför sína.
Hljómeyki flutti verkið fyrstur íslenskra kóra í Kristskirkju í desember síðastliðnum við mjög góðar undirtektir og komust færri að en vildu.
Á laugardeginum kl. 15.00 frumflytur kórinn Missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson. Auk þess flytur Sigurður Halldórsson og Ishum strengjakvartettinn hljóðfæratónlist eftir sama tónskáld.
Í maí 2008 tók Hljómeyki þátt í hinni virtu kórakeppni Florilège Vocal de Tours. Tuttugu og einn kór hvaðanæva að úr heiminum tók þátt og varð Hljómeyki hlutskarpast í flokki kammerkóra ásamt kammerkórnum Khreschatyk frá Úkraínu. Í umsögnum dómnefndar sagði meðal annars að Hljómeyki hefði fallegan hljóm og einkar hrífandi og hjartnæma túlkun. Magnús Ragnarsson var einnig álitinn einn af bestu kórstjórum keppninnar.
Aðgangur að Sumartónleikum í Skálholti er ókeypis.
sunnudagur, júlí 06, 2008
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)