mánudagur, september 04, 2006

Ég er alveg í skýjunum yfir upptökum þessa dagana. Ég hlustaði á Stabat mater í dag og heyri auðvitað allar misfellur en sumt var alveg gullfallegt, sérstaklega það sem Nanna María söng. Það var bara gjörsamlega tilbúið að fara í útgáfu.
Svo fékk ég að heyra það sem við tókum upp í Hljómeyki á föstudaginn og það var alveg æðislega flott, tandurhreint og hárnákvæmt.

Það eru komnir 14 í drengjakórinn en svo voru nokkrir sem komust ekki í inntökuprófið í dag og því verð ég með annað á föstudaginn klukkan 17 í Langholtskirkju. Svo er fyrsta æfingin á laugadaginn milli tíu og tólf. Ef þið vitið um einhvern efnilegan dreng sendið hann endilega til mín.
Best að spara sér símtalið og segja Hildigunni að Finnur sé kominn inn. Mætið bæði á laugardaginn kl. 10.00. Jónsi vill tala við ykkur foreldrana á meðan ég æfi með strákunum.

Æfingar á Carminu burana ganga þrusuvel. Vantar reyndar nokkra karla í viðbót. En þetta verða mjög góðir tónleikar. Takið frá dagsetningar fyrir tónleikana nú þegar, þetta verður sunnudaginn 1 október kl. 17.00 og miðvikudaginn 4 okt. kl. 20.00. Hallveig, Bergþór og Einar Clausen syngja, Gurrý og Kristinn Örn á píanó og slagverk úr Sinfó auk drengjanna hennar Tótu. Miðaverð 2500 kr. en 2000 í gegnum mig. Panta strax! Síðast varð fólk frá að hverfa.