föstudagur, október 07, 2005

Hrafnhildur fór að heimsækja Fridu yfir helgina og ég notaði tækifærið í kvöld og skellti mér í óperuna. Ég hef nefnilega skammarlega lítið nýtt mér hið mikla framboð af menningu hér í Stokkhólmi og ætla að reyna að bæta svolítið úr því það sem eftir er af dvöl minni hér í höfuðborginni. Ég hef t.d. aldrei farið á tónleika hjá Fílharmóníunni og bara einu sinni hjá Útvarpshljómsveitinni. Það stafar reyndar af því að tónleikarnir eru nánast alltaf á fimmtudagskvöldum og þá er ég með kóræfingu eða á miðvikudögum en þá byrja þeir klukkan sex og ég er með unglingakórinn fram til sex. En með því að vera á bíl aukast möguleikarnir og ég ætla að reyna að komast tvisvar í haust.

En í kvöld sá ég Eugene Onegin og eins og vanalega þá voru söngvararnir, sem og hljómsveitin mjög fín en uppsetningin ekkert sérstök. Hún var reyndar skárst af þeim sem ég hef séð en það verður alltaf glatað og jafnvel vandræðalegt þegar kórmeðlimir eða statistar reyna að vera fyndnir á sviðinu. Það er alltaf gengið svo langt til þess að tryggja að fólk fatti að þetta eigi að vera fyndið. Undir lokin kemur bassinn inn, syngur örfáa takta og svo eina aríu og hann fékk langmesta klappið og bravóhróp. Þetta var einhver ítali með rosalega flotta rödd.

Ég keyrði sem sagt Hrafnhildi á lestarstöðina upp úr hálfsex og keyrði til baka eftir óperuna rétt fyrir 11 og á þessum klukkutímum lækkaði bensínverðið úr rúmlega 12 kr./líter niður í rúmlega 10 kr. Hvað gerðist eiginlega í kvöld?

Í dag þurfti ég að leysa af við jarðarför úti á eyju sem liggur suður af Nynäshamn. Það var svo fallegt að keyra þangað því tréin skarta sínum fínustu haustlitum og svo er verðið svo gott (tæplega 20 stig). Ég sá fullt af húsum á leiðinni þar sem ég hugsaði að ég gæti alveg hugsað mér að búa í þeim. Ég er meira og meira til í að búa úti á landi en samt ekki of langt frá aksjóninu. Þegar veðrið er svona gott á haustin heitir það Brittsommar en hefur ekkert með Bretland að gera eins og ég hélt heldur er dagurinn í dag nafnadagur fyrir Birgittu.

Engin ummæli: