Nú er skólinn byrjaður í alvöru. Við erum 7 í bekknum, þar af 3 útlendingar. Nei annars. Einn Svíinn dró sig reyndar úr í dag þannig að helmingurinn er útlendingar, þ.e. fyrir utan mig er ein lettnesk sem var orgelkennari við tónlistaháskólann í Riga, einn þýskur sellisti, og eins og alltaf næ ég góðu sambandi við þjóðverjana. Svo er Kalle sem er með mér í kórnum og hann er ágætur en svo eru tvær konur aðeins eldri en ég, önnur er kantor og hin veit ég ekki hvað er en hún er ekkert sérstaklega klár. Mér sýnist ég kunna ansi mikið miðað við hin sem er voða gaman og gott fyrir egóið en ég verð að passa mig að ég fari ekki að slaka á. Það sem við höfum lært hingað til er mest upprifjun og prófessorinn virðist hafa áhyggjur af að þetta sé ekki nógu krefjandi fyrir mig. En við stjórnuðum nemendakórnum í dag og hann gat bent mér á ýmislegt sem mátti betur fara.
Þjóðverjinn er líka í stjórnendanámi í Örebro. Mér var sent bréf um þetta nám í vor en ákvað að sækja ekki um þar sem ég nennti ekki að flytja þangað og fannst of mikið mál að fara með lestinni nokkrum sinnum í viku. En hann sagði að þó svo þetta sé 100% nám þá er maður bara þarna einn til tvo daga í viku og fær oft að stjórna alvöru hljómsveitum. Þannig að núna sé ég mjög eftir að hafa ekki sótt um þetta nám. Þá hefðum við reyndar ekki flutt heim fyrr en næsta sumar.
Í dag vorum við í kúrs um gregorssöng, þetta er í þriðja skiptið sem ég fer í gegnum svona kúrs og held maður sé ágætlega að sér í þessum efnum núna þó svo ég geri ekki ráð fyrir að ég eigi eftir að fást mikið við gregorssöng í framtíðinni. Það er orðið þannig að mér finnst betra glósa á sænsku en á íslensku og í raun er ég feginn að við skulum ætla að flytja heim því mér finnst ég vera að tapa smá íslenskunni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli