mánudagur, nóvember 28, 2005
Til sonar míns
Í dag, 28 nóvember kl. 11.33 að sænskum tíma fæddustu á sjúkrahúsinu í Huddinge í Stokkhólmi. Þú vóst 3,5 kg og varst 50 cm langur. Það fossuðu tárin úr Mömmu þinni og Pabbinn átti erfitt með að tala. Það tók þig dálítinn tíma að byrja að anda og því fylgdi ég þér ásamt ljósmóðurinni og nokkrum læknum í annað herbergi þar sem á þig var sett súrefnisgríma og eftir smástund breyttist húðliturinn úr bláu yfir í bleikt og allir voru ánægðir. Svo fékkstu að liggja á Mömmu þinni og ekki leið á löngu þar til þú fannst brjóstið og varst farinn að sjúga. Lena ljósmóðir var mjög hrifin af þér og fannst að þú ættir að heita Oscar og hún átti ekki orð yfir hvað móður þín var dugleg. Hún þurfti nefnilega að ganga í gegnum ansi mikið til að koma þér í heiminn.
Hún fékk verki í gærmorgun kl. 11 sem versnuðu jafnt og þétt og upp úr miðnætti voru þeir orðnir ansi slæmir. En hún var á því að þetta væri eitthvað annað en hríðir, t.d. brjósklos eða slitinn vöðvi og það skipti engu máli þótt Pabbi þinn reyndi að segja henni að þess lags verkir koma ekki á 6 mín. fresti. Hún skipaði mér líka að skilja eina töskuna eftir úti í bílnum þegar við fórum á spítalann ef ske kynni að við yrðum send aftur heim. Pabbi þinn sagði bara já, já, en tók hana samt með.
Þegar á spítalann var komið um hálf eitt um nóttina var hún bara með 1cm í útvíkkun og þrátt fyrir morfín, hlátursgas og nálastungur þurfti hún að kveljast í 6 klukkutíma og mér leist ekkert á blikuna. Um hálf sjö var hún komin með tæplega 4cm í útvíkkun og þá var hægt að gefa henni mænudeyfingu og þvílíkur munur. Þá hætti hún að finna til og gat sofið. Þremur tímum síðar var hún komin með 10 cm og var gefið "drop" til að hausinn færi neðar. Skömmu síðar fann hún að þú værir að koma út og byrjaði að kreista. Það tók einn og hálfan tíma og svo bara, blúps, varstu kominn.
Þar sem þetta tók sinn tíma og þú hafðir verið skorðaður í dágóðan tíma þá var höfuðið dálítið aflangt og nefið klesst. Og nú ertu 12 tíma gamall og ert svo fallegur, klár, þægur og tillitsamur sérstaklega þar sem þú komst nokkrum dögum fyrir tímann sem gerir það að verkum að við getum flutt heim fyrir jól. Ég og Mamma þín skiljum ekki hvernig er hægt að elska nokkuð svona mikið og við vorum bara að hitta þig í fyrsta skipti áðan. Og þú ættir að vita hvað það er talað mikið um þig á Íslandi. Nú sit ég heima hjá Skrámi á meðan þú og Mamma eruð á fæðingadeildinni. Ég kem aftur á morgun, og hinn, og hinn, og hinn en þá ætlum við að taka þig heim. Og eins og móðurbróðir þinn sagði þá er alveg stórmerkilegt að á meðan þú komst í heiminn þá hélt lífið bara áfram sinn vanagang. Bílar héldu áfram að keyra, blöð komu út og fólk fór bara í vinnuna eins og venjulega. En þetta var rosalega fallegur dagur og það kyngdi niður snjó.
Sjáumst á morgun.
Pabbi
P.s. Ég setti nokkrar myndir í myndaalbúmið hennar Hrafnhildar.
notendanafn: hrafnis@yahoo.com
leyniorð: myndir
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli