fimmtudagur, september 08, 2005

Ég er á lífi

Það er búið að vera svo mikið um að vera undanfarið. Það eru nótur út um allt. Ég er að velja tónlist fyrir kirkjukórinn, unglingakórinn, vokalensemblið mitt, velja sólósöngva fyrir allar messurnar, það eru tónleikar með sópransöngkonu eftir tæpan mánuð og það eru ansi margir erfiðir söngvar þar auk þess sem ég og Ingibjörg ætlum að spila saman nokkur lög eftir Mahler og svo er ég að skoða verk fyrir Fílharmóníuna. Ég held ég sé búinn að finna tvö fín verk, annað eftir Haydn og hitt Mozart, því hann á 250 ára afmæli á næsta ári.

Til hamingju Bjartur og Jóhanna með litla strákinn og einnig Íris og Pétur sem eignuðust einnig strák um daginn. Fyrir vikið finnst mér auknar líkur á því að við fáum stelpu. Nú er mánuður þangað til Indra á að eiga og Krulli stækkar óðum því í gær fann ég greinilega fyrir útlim þegar ég setti höndina á maga Hrafnhildar.

Ég byrjaði í skólanum í síðustu viku og þá kom í ljós að stundataflan lítur allt öðruvísi út en ég bjóst við. Þetta verður fyrst og fremst á mánudögum í stað fimmtudaga sem þýðir að ég þarf að vera á þessum blessuðu starfsmannafundum hér sem geta verið svo óeffektívir og gert mig svo pirraðan. En skólinn byrjaði ekkert allt of vel því prófessorinn var ekki mættur fyrsta daginn því hann var með Radíókórinn í útlöndum og því sá einhver kona um okkur sem vissi ekki neitt. Hún var að sýna okkur bygginguna en ég sem var bara þarna í annað skiptið rataði betur heldur en hún. Svo þegar við mættum á mánudaginn þá var prófessorinn heldur ekki mættur því hann var með syni sínum á spítala og kom ekki fyrr en kl. fjögur í stað tíu um morguninn. Sem þýddi að við þurftum að hanga þarna í fimm klukkutíma. Það var reyndar mjög fínt veður og ég sat voða lengi á bryggju við ána innan um hina stúdentana og las, hlustaði á ipodinn og leysti Sudoko gátur. Svo þegar við hittum prófessorinn sýndist mér hann hafa dálitlar áhyggjur af mér upp á það að þetta yrði ekki nógu avanserað fyrir mig. Ég ætla bara að reyna að fá það mesta út úr honum en það var mjög gaman að því að eitt af verkunum sem við eigum að kljást við í vetur er einmitt verkið eftir Mozart sem ég var að pæla í fyrir Fílharmóníuna.

Engin ummæli: