sunnudagur, maí 22, 2005

Krulli Krullason er á leiðinni

Það ætti að vera óhætt að segja frá því núna en við eigum von á barni. Komin þrjá mánuði á leið. Það er búið að vera ansi erfitt að þegja yfir því undanfarið. Sérstaklega þegar maður er búinn að heyra um hina og þessa sem eru óléttir og langar svo að segja (eða æpa öllu heldur): Við líka!!
En þetta hefur gengið bara nokkuð vel. Svona frekar lítil ógleði miðað við það sem gengur og gerist en mikil þreyta sem er mjög vanalegt. Við fórum til ljósmóður fyrir nokkrum vikum og skömmu síðar í læknisskoðun en svo gerist ekkert fyrr en í byrjun júlí sem okkur finnst frekar óþægilegt. Maður vill fá staðfestingu á því að hún sé ennþá ólétt og allt eðlilegt. Það sést auðvitað ekkert á Hrafnhildi eins og er en við fundum smá kúlu um daginn. Það var eins og hún hefði gleypt egg í heilu lagi.
Ég er búinn að lesa nokkrar bækur og bæklinga og reyni að leggja mitt af mörkum því maður er með samviskubit að þurfa ekki að leggja á sig þetta líkamlega erfiði. Ég hef t.d. vaknað rétt fyrir sex á hverjum morgni til að gefa henni að borða. Það minnkar ógleðina sko. Annars er þetta dálítið óraunverulegt eins og er. Það er mjög skrýtið hvað Hrafnhildur er næm á alla lykt og finnur hana langt á undan öllum öðrum. Hún æpti í morgun: "Oj hvað það er mikil kúkafýla af Skrámi." Það var sama hvað ég þefaði, ég fann ekki neitt.
En jæja. Þetta er orðið opinbert og nú megið þið sem þegar vissuð segja öðrum. Merkilegt að báðar mömmur okkar eignist tvö fyrstu barnabörnin á sama ári. Að ógleymdum Afa Halldóri.

Engin ummæli: