föstudagur, ágúst 05, 2005

Sumartónleikaröðin

Í gærkvöldi kom Harmonikkuleikari til að spila á sumartónleikaröðinni í kirkjunni og hann var svaka flottur. Ég hef aldrei séð neinn spila á svona takkaharmonikku. Ég var að reyna að sjá hvernig þetta virkaði allt saman. Ég sá þó að hann notaði hökuna til að breyta um raddval í miðjum lögum. Hann spilaði t.a.m. einn konsert úr Árstíðunum eftir Vivaldi, Toccata og fúga í d-moll eftir Bach, ABCD tilbrigðin eftir Mozart og rússneska sónötu. Það mætti fullt af fólki, meðal annars keyrðu nokkrir harmonikkuunnendur mörg hundruð kílómetra bara til að hlusta á hann. Tónleikaröðin hefur verið vel sótt að undanförnu, mun betur en í fyrra og allir eru ánægðir, sérstaklega ég sem skipulagði sko allt saman!

Við erum ekki enn komin með heimasíma og þar af leiðandi ekki internet. Ég er orðinn foxillur út í símafyrirtækið og ennþá reiðari þegar ég frétti að við erum bundin hjá því fram til mars 2007 og getum því ekki skipt um fyrirtæki nema borga þeim mánaðargjaldið það sem eftir lifir samningstímans!!! Ég skil ekki hvernig í ósköpunum stendur á því og er búinn að krefjast þess að þeir sýni mér annað hvort undirskrift mína eða hljóðupptöku þar sem ég samþykki 24 mánaða samningstíma. Ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki getað flutt símann er að það hefur ekki verið neitt símanúmer í nýju íbúðinni í langan tíma. Ég hef hringt í þá sjö sinnum til að skilja eftir alls konar upplýsingar, meðal annars hvaða símanúmer nágrannar mínir hafa en það hefur samt ekkert gerst og nú erum liðnar sex símalausar vikur. Það sem gerir ill verra er að ég hef þurft að hringja úr gemsanum, bíða í minnst 20 mínútur og lendi svo alltaf á nýju fólki sem þarf alltaf lengri tíma til að lesa upplýsingarnar um okkar af tölvuskjánum.

Engin ummæli: