fimmtudagur, desember 15, 2005


Ísak er orðinn svo fullorðinn að hann er farinn að fá póst. Annars er hann orðinn hás af öllu orginu. Við erum mjög hissa þvi við vissum ekki að smábörn gætu orðið hás. Það er allavega komin rútina hjá honum. Hann fær að drekka á tveggja tíma fresti og í ca. einn og hálfan tíma beita foreldrarnir öllum ráðum til að hann orgi ekki fram að næstu gjöf, það er kveikt á ryksugunni, stungið upp í hann litla putta, gengið um gólf og maginn nuddaður. Hann er með öll einkenni magapínu. En hann er allavega rólegur á nóttunni og sefur á milli okkar.

En eitthvað held ég að pabbi hans sé farinn að tapa sér. Hann átti að ná í magadropa fyrir hann úr ískápnum og mata hann með skeið en á síðustu stundu sá mamma hans að þetta var kattarlyf. Í gærkvöldi hringdi kona, kynnti sig og sagði að einhver hefði reynt að hringja í sig úr þessu númeri. Pabbi hans Ísaks sagði að hér væri einhver misskilningur á ferð því heimasíminn hefði ekkert verið notaður þann dag. Eftir þó nokkurt þref mundi hann allt í einu eftir því að bara korteri áður hafði hann reynt að hringja í sambýlismann konunnar sem á einmitt að taka við organistastarfinu hans. Einnig var hringt frá Eimskip sem spurði hvort foreldrarnir hefðu fengið pappíra frá þeim og pabbinn þvertók fyrir það sem olli áhyggjum hjá Eimskipskonunni. En sem betur fer var mamman nærri og minnti á að þau hefðu skoðað pappírana saman daginn áður.

Í gær leit út fyrir að allt væri í orden varðandi flutningana nema hvað gera ætti við bílinn. Við vorum búin að reyna að pranga honum inn á vini okkar, jafnvel þótt þeir ættu bíl fyrir, og ég var jafnvel farinn að sjá fyrir mér að við þyrftum að henda honum. En í gær setti ég auglýsingu á netið og gemsinn bókstaflega stoppaði ekki. Ég svaraði að minnsta kosti 25 manns áður en ég slökkti á honum. Í gærkvöldi kom svo einn Finni sem bara keypti hann á alveg sæmilegu verði. Og það besta við þetta allt saman er að amma hans býr í næstu blokk þ.a. við getum afhent bílinn morguninn sem við fljúgum heim og okkur verður meira að segja skutlað út á lestarstöð. Þá er bara að finna út hvað við gerum við barnabílstólinn sem við erum með í láni frá vinnufélaga í Nynäshamn.

Engin ummæli: