þriðjudagur, desember 13, 2005


Ísak er líkur Pabba sínum að því leyti að hann virðist ekki þurfa mikinn svefn. Hann er farinn að átta sig á því að þegar það er nótt þá er betra að vera ekkert allt of aktívur en að degi til sefur hann eiginlega ekki neitt og tekur nokkur orgurköst. Ég geng um með hann stundum og syng vögguvísur en þær eru hættar að virka eins vel. Hann er kannski farinn að pæla of mikið í þessum dauðadjúpu sprungum og andlitinu á glugganum sem bíður fyrir utan. Við höfum spilað lag úr tölvunni með Út í vorið sem þeir voru að taka upp og það virkar ágætlega en núna fékk ég miklar áhyggjur af því að hann diggi kántry eða öllu verra John Denver því ég söng fyrir hann Country Roads og hann varð alveg heillaður.

Ein kóræfing, einir tónleikar, ein messa og einn dagur í skólanum eftir og svo förum við heim. Var í prófi í gær sem ég hafði undirbúið um helgina og Hrafnhildur hélt ég væri endanlega búinn að ganga af göflunum. Þetta var próf í tónheyrn og ég sat við píanóið með heyrnartólin á mér og söng hálfum hljóðum tónbil eins og stækkaðar ferundir, litlar sexundir, stórar sjöundir o.s.frv. En svo þegar kom í prófið þá valdi kennarinn eitthvað allt annað en ég var búinn að æfa. Það skipti svo sem ekki svo miklu máli því maður þurfti hvort eð er að lesa þetta, þetta voru svo óvenjulegar melódíur að það var ekkert hægt að læra þær. Það var verra þegar kom að hinum liðnum. Ég hafði undirbúið generalbassaæfingar en hann prófaði mig í partitúrspili (þ.e. lesa mörg hljóðfæri í einu sem standa í mismunandi lyklum og sum þarf að tónflytja). Ég hugsaði með mér: týpískt ég að misskilja þetta. Þ.a. það var bara að lesa þetta beint af blaði og ég kom mér bara á óvart hvað þetta gekk vel. Svo fór ég að athuga í dagbókina og þar hafði ég skrifað mjög skýrt hvað átti að undirbúa fyrir prófið og svo þegar ég talaði við hina í bekknum þá var þetta alveg rétt hjá mér. Ég veit ekki hvort kennarinn var svona ruglaður eða hvort hann gerði þetta viljandi.

Nú er ég hlaðinn gjöfum frá vinnunni og þori varla að taka þær upp því þær eru oft vel búnar fyrir flutningana. Ég fór líka með Unglingakórnum á Jesus Christ Superstar og var það í fjórða skiptið sem ég sé þann söngleik og hef aldrei orðið sérstaklega hrifinn, eins og mér finnst tónlistin fín. Skást var það sennilega í Gautaborgaróperunni með heilli sinfóníuhljómsveit. Hérna hljómaði bandið vel og ég varð mjög hissa í lokin þegar það komu bara þrír fram til að hneigja sig. Það hefur verið góð nýting. Það var einhver frægur Svíi sem átti að syngja Júdas en hann forfallaðist en þessi staðgengill var algjört æði. Fínn söngvari, góður leikari og æðislegur dansari. Svo sá ég í hléinu að leikstjórinn lék Jesús sjálfur. Það finns mér nú hégómi í hæsta stigi.

Engin ummæli: