föstudagur, desember 23, 2005


Loksins, loksins erum við komin heim. Þetta er búið að vera alveg heilmikið púsluspil varðandi þessa flutninga en þetta hafðist allt saman. Það komu nokkrir úr kórnum mínum til að hjálpa til við flutningana og tóku með sér syni og eiginmenn þannig að þetta skotgekk og flugferðin heim gekk barasta mjög vel og Ísak var hinn ljúfasti. Helga Möller var flugfreyja og var alltaf að koma að skoða hann og fólkið sem sat skáhalt á bakvið okkur var alltaf að halla undir flatt og dást að honum. Og svo hittust þeir allir þrír frændurnir um kvöldið og þá var nú glatt á hjalla.

Við erum ekki alveg búin að grípa það að við séum flutt heim. Okkur finnst eiginlega eins og við séum að fara aftur út eftir nokkrar vikur. Nú förum við að kíkja á íbúðir og koma okkur fyrir. Bráðum fer ég að vinna og reyna að koma mér aftur inn í tónlistarlífið hérna heima. En það er ágætt að vera kominn heim, sérstaklega að hitta vinina og fjölskylduna og ég held að þeim finnist ekkert leiðinlegt að vera búin að fá okkur.

Við skelltum okkur í búðir í gær og vorum oft alveg gáttuð á verðlaginu, tónlistinni í búðunum og hvað allir eru annað hvort rosalega "töff" í útliti og óeðlilega brúnir í framan eða lúðalegir.

3 ummæli:

Hildigunnur sagði...

velkomin heim, öll þrjú :-)

Hildigunnur sagði...

já, og Skrámur líka, náttúrlega :-D

Þóra sagði...

Velkomin heim og gleðileg jól :-)