miðvikudagur, desember 07, 2005

Ég er farinn að telja niður fram að heimför. Ég er búinn að spila við síðustu jarðarförina, búinn að sitja síðasta starfsmannafundinn (Guði sé lof), á eftir að mæta tvisar í skólann o.s.frv. Svo eigum við bara tvær vikur eftir hér í Svíþjóð. Um daginn var ég farinn að velta vöngum yfir því hvort það væri sniðugt að flytja heim. Það er náttúrlega æðislegt fyrir Hrafnhildi og að fjölskyldur okkur fá að sjá Ísak en það eina músíklega séð sem kallaði á mig heim var Fílharmónían.

En nú er ég allt í einu mjög sáttur við að flytja. Ég hef engan áhuga á að halda áfram í þessu námi. Ég fæ bara ekki nóg út úr því og er bara ekki sáttur við að vera bestur í bekknum. Þetta er vandamál sem ég hef oft þurft að kljást við. Ég vil helst vera nálægt toppnum og rembist þá til að verða bestur en þegar og ef það gerist vil ég fara að gera eitthvað annað. Það verður alltaf að vera eitthvað sem ýtir mér áfram. Ég flutti fyrirlesturinn/ritgerðina í gær um Vesprið eftir Mozart sem ég ætla að stjórna í vor og það tókst mjög vel þó svo ég hafi ekki byrjað að vinna í þessu fyrr en kvöldið áður. Það var önnur stelpa sem fjallaði um sama verk og hún byrjaði. Hún fór að fjalla um textana sem eru flestir úr Davíðssálmunum og hún hafði prentað þá út á sænsku en fór samt að tala um að þeir fjölluðu um Jesús og Maríu mey?!Það er ekki það að ég krefjist þess að allir vita að Davíðssálmarnir eru í Gamla testamentinu og hvorki Jesús né Maríu voru fædd þegar það var skráð en þegar maður er að fjalla um verkið og með þýðinguna fyrir framan sig þá skil ég ekki hvernig hægt er að gera svona mistök.

Það er dálítil synd að flytja héðan þegar maður er kominn með ágætis sambönd en ég hefði ekki viljað halda áfram í þessari vinnu. En það sem mér hefur þótt bæði erfiðast og ánægjulegast er unglingakórinn. Í kvöld var síðasta æfingin og þær tvær sem eru duglegastar höfðu gert handa mér styttu af kórnum og sögðu að ég mætti aldrei gleyma þeim. Maður varð bara klökkur.

Engin ummæli: