þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Nú er þetta allt að snella saman. Habbidu hringdi í Eimskip í gær og við þurfum ekki að panta flutningabílinn fyrr en viku fyrr.
Við fórum með Skrám til dýralæknis í síðasta skiptið í morgun og nú er bara að bíða eftir leyfinu frá Íslandi.
Og við fengum loksins flug fyrir hann heim. Það var alveg svakalegt mál. Ég sem sagt meilaði til Flugleiða heima sem sögðu mér að tala við Mikael í Gautaborg. Hann sagðist vera hættur þessu. Ég meilaði aftur heim og þá var mér sagt að tala við fyrirtæki í Stokkhólmi sem sagðist vera flutt nokkra kílómetra frá Arlanda en gaf mér númerið hjá Skytransport sem sagði mér svo að tala við fulltrúa sinn í Gautaborg sem heitir Mikael og er sá sami og ég talaði við í byrjun. Aftur meilaði ég og hef ekki enn fengið svar. Þá hringdi Habbidu í Flugleiðir í Stokkhólmi sem sagði henni að hringja til Köben. Ég gerði það og talaði við ráðvillta stúlku sem skildi ekkert af hverju í hringdi í hana en hún gaf mér númer í Stokkhólmi og sá gaf mér númerið hjá Skytransport sem sagði mér að tala við fulltrúa sinn í Gautaborg sem heitir einmitt Mikael sem sagði mér mjög ákveðið að hann væri alveg hættur að sjá um dýraflutninga fyrir Stokkhólmssvæðið. Í síðustu viku hringdi ég svo í SAS og þau redduðu þessu bara á nokkrum dögum og nú er ég búinn að fá að vita flugnúmerið og allt en bíð bara eftir að þau segi: Nú, er hann grár kötturinn. Þá getum við ekki séð um þetta en talaðu við náunga í Gautaborg sem heitir Mikael.

Svo er ég búinn að fá vinnu heima. Edda Borg hringdi í mig í morgun og bauð mér starf sem píanókennari í afleysingum fram á vor fyrir eina sem er í barnsburðarleyfi. Ég hafði sent inn umsókn í ágúst eftir að hafa séð auglýsingu í mogganum en þar sem ég hafði ekkert heyrt þá var ég búinn að afskrifa þetta.

Engin ummæli: