Við fórum til ljósmóðurinnar í morgun sem hlustaði á barnið og fékk hjartslátt sem var um 150 og samkvæmt sumum þá þýðir að það að þetta sé stelpa. Þetta er alla vega mjög líflegur krakki því hann var allur á iði í dag og sparkaði þvílíkt þannig að það verkaði í eyrun.
Við erum sem sagt flutt til Fornhöjdsvägen 40, 15258 Södertälje. Það gerðist á þriðjudaginn. Við fengum fyrirtæki til að sjá um það fyrir okkur og það var ekkert smá dýrt. En það var samt voða fagmannlega gert og ekkert brotnaði eða varð einu sinni skítugt. Hins vegar kom í ljós að það átti eftir að gera ýmislegt við íbúðina, t.d. að skipta um ískáp(hann kom í morgun, svaka flottur), þrífa almennilega, vantaði skúffur og hyllur í skápana og svoleiðis. Það verður vonandi gert þegar við erum heima á Íslandi. Rafvirkjinn kom í morgun og varð mjög hissa að sjá að það voru engar innstungur fyrir loftljós í ganginum. Svo erum við bara með 3 sjónvarpsstöðvar (ekki það að maður nái að horfa mikið á imbann næstu daga).
Í kvöld eru tónleikar með vokalensemblinu mínu og mér líst bara vel á þá. Æfingin í gær gekk mjög vel (kannski einum of vel) og ég er ánægður með prógrammið. Ég ætla meðal annars að flytja brúðarmarsinn sem ég samdi fyrir Hrafnhildi en í þetta skiptið fyrir trompet og orgel. Þurfti sem sagt að tónflytja og breyta aðeins til að það hljómaði betur í þeirri tóntegund. Trompetistinn, sem syngur líka bassa, er svo hrifinn af stykkinu að hann vill fá að flytja það þegar hann fer í tónleikaferð til Póllands í haust.
Það verður spennandi að heyra frá Fílharmoníunni því ég sendi inn umsókn eftir að þau höfðu samband við mig um daginn. Það er spurning hvort þeim lítist nógu vel á mig til að þau geti beðið eftir mér fram yfir jólin. En það væri gaman að fara beint í það starf heima í stað þess að þurfa að byggja upp eigin kór. Ég mun nú sennilega hvort eð er gera það. Hafa lítinn kammerkór.
Ég hef að undanförnu tekið eftir því að tónlistargagnrýnendur Moggans hafa sagt eitthvað á þá leið að "... kórinn söng þetta lag vel þrátt fyrir að kórstórinn hafi ekki stjórnað miklu..." Ég held að þetta sé dálítið algengt viðhorf á Íslandi að fólki finnist að stjórnandinn eigi að stjórna hverju einasta smáatriði. Ég er þessu hjartanlega ósammála. Ég held að góður kór syngi aldrei eins vel og þegar stjórnandinn hættir skyndilega að stjórna í miðju lagi. Þetta er eins og með leikstjóra; þeir bestu veita leikurunum mikið frelsi og segja bara eitthvað við og við eða jafnvel ekki neitt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli